26.03.1962
Neðri deild: 76. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð um þetta frv., áður en það verður afgreitt frá hv. deild. Hér er um mikið deilumál að ræða, bæði það, hvort rétt sé að afhenda Seðlabankanum gengisskráningarvaldið, og enn fremur um gengislækkunina, sem framkvæmd var s.l. sumar, en segja má, að þetta frv. sé í raun og veru um hvort tveggja.

Það hefur verið sýnt fram á í þessum umr. og ekki komið fram rök gegn því, sem hægt er að taka gild, að útgáfa þessara brbl. hafi verið stjórnarskrárbrot. Það stendur skýrum stöfum í stjórnarskrá Íslands, að brbl. megi ekki gefa út, nema brýna nauðsyn beri til. Og vald hæstv. ríkisstj. til þess að gefa út brbl., þ.e.a.s. löggjafarvald hennar, bráðabirgðalöggjafarvald hennar, er þeirri takmörkun háð, að það verður að liggja fyrir brýn nauðsyn. Ef ekki er hægt að sýna fram á með gildum rökum, að brýna nauðsyn hafi borið til að gefa út brbl., þá eru ekki fyrir hendi þau skilyrði, sem stjórnarskráin áskilur, til þess að ríkisstj. megi taka löggjafarvaldið í sinar hendur.

Nú má deila um hvort hyggilegt sé þá og þá að breyta gengisskráningunni. Það getur verið álitamál. Hitt getur alls ekki verið álitamál í því dæmi, sem hér liggur fyrir, að enga brýna nauðsyn og enga nauðsyn bar til þess að gefa út brbl. um að flytja gengisskráningarvaldið úr höndum Alþingis og yfir til Seðlabankans. Ef ríkisstj. taldi brýna nauðsyn bera til þess að breyta gengisskráningunni, gat hún samkv. stjórnarskránni gefið út brbl. um sjálfa gengisskráninguna. En á hinn bóginn var ríkisstj. algerlega óheimilt að færa með brbl. valdið til gengisskráningarinnar yfir til annars aðila. Slíkt var og er með öllu gersamlega óheimilt, vegna þess að það var ekki hægt að sýna fram á, að neina nauðsyn bæri til slíks. Það hefur verið sýnt fram á þetta hér í umr. með svipuðum rökum og ég nú hef notað, og þessu hefur ekki verið hnekkt.

Hæstv. dómsmrh. minntist á þetta mikilsverða atriði fyrir nokkuð löngu, — ég hygg, að það hafi verið við 1. umr. málsins, — og sagði, að ríkisstj. hefði í þessu dæmi ekkert annað gert en að notfæra sér þá heimild, sem hún hefði samkv. stjórnarskránni til þess að flytja gengisskráningarvaldið yfir til Seðlabankans. En hæstv. ráðh. gekk alveg fram hjá því, að ríkisstj. hefur alls ekki óskorað löggjafarvald eftir stjórnarskránni og alls ekki skilyrðislaust vald til þess að gefa út brbl. Það er bundið við, að brýna nauðsyn beri til. Og það mun reynast öllum mönnum um megn að sýna fram á, að það hafi nokkra nauðsyn borið til að færa gengisskráningarvaldið yfir í þessa stofnun. Ríkisstj. gat og hafði til þess vald samkv. stjórnarskránni að gefa út brbl. um gengisskráninguna sjálfa.

Nú kynnu menn að vilja halda því fram, að þetta hefði ekki praktíska þýðingu, vegna þess að væri meiri hl. á þingi fyrir þessum brbl., þá væri þetta a.m.k. ekki þingræðisbrot, því að þá lægi ljóst fyrir, að þess ákvörðun hæstv. ríkisstj. hefði raunverulega stuðzt við vilja meiri hl. þings. En þessu er því til að svara, að það þarf að athuga í þessu sambandi, að þegar hæstv. ríkisstj. hefur gefið út brbl., þá getur vel farið svo, að sá raunverulegi, rétti þingvilji um málið komi aldrei fram. Það er vegna þess, að hæstv. ríkisstj. setur alveg vafalaust metnað sinn í að beygja þingmenn undir það, sem hún hefur gert milli þinga, hvað sem þeir svo kynnu að hafa ríka tilhneigingu til þess að líta öðruvísi á. Er því þá vafalaust borið við, að þingmenn megi ekki gera stjórninni þann óleik að ógilda eða snúast gegn brbl., sem hún hafi sett. Þannig getur ófyrirleitin ríkisstj. þvíngað fram eftir bráðabirgðalagaleiðinni úrlausnir í málum, sem þingmeirihluti er í raun réttri ekki til fyrir, ef allt væri látið fara fram á eðlilegan hátt og með felldu. Og núv. hæstv. ríkisstj. liggur einmitt undir sterkum grun um að nota þessa aðferð nokkuð gagnvart sínum mönnum, hyllast til þess að gefa út brbl. um þýðingarmikil atriði, sem ágreiningur er um og skoðanir kunna að vera skiptar um og álitamál, hvernig færi, ef allir væru réttilega til kvaddir, — nota þá aðferð að gefa út í skyndingi brbl. um slík málsatriði og þinga þannig vilja sinn fram og láta hv. alþm. standa frammi fyrir gerðum hlut, — nota síðan óspart þær röksemdir til að láta þetta standa, fá þetta til að standa, að menn megi ekki gera það, sem kallað er óvinafagnaður, en óvinafagnaður mundi í því dæmi vera að vera með einhverjum breytingum á því, sem þannig hefur verið ákvarðað, og þannig er reynt að veita sterkt aðhald. Þessi vinnuaðferð er auðvitað brot á þingræðinu og með öllu óeðlileg. En við vitum, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur notað brbl. valdið. Stundum hefur það beinlínis verið notað á þann hátt, að það er ómögulegt annað en gera því skóna, að stjórnin sé í raun og veru að fara á bak við sína eigin menn, setja þá í þessa aðstöðu, sem ég var að lýsa.

Mér skilst, að það hafi í þessu falli verið kallaður saman einhver fundur í sumar, þegar gengisbreytingin var ákveðin, einhver skyndifundur. Mér hefur skilizt það. En vinnuaðferðirnar hafa verið á þessa lund, sem ég hef verið að greina, við ýmis af málum stjórnarinnar.

Ég leyfi mér að mótmæla þeirri brbl. útgáfu, sem hér hefur átt sér stað, og vísa til þeirra raka, sem ég og fleiri höfum flutt fram um það, að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða, misnotkun á ákvæði stjórnarskrárinnar og brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar um útgáfu brbl.

Því var haldið hér fram af hv. frsm. meiri hl. fjhn., þegar málið var til 2. umr., að gengisskráningin væri í raun og veru tæknilegt atriði, ekki pólitískt atriði, og það væri þess vegna eðlilegt, eins og skipan efnahagsmála væri orðin nú hér í landinu, að þessi tæknilega framkvæmd væri á vegum Seðlabankans, en ekki Alþingis eða pólitíska valdsins. Nú er það sönnu næst, að ef þetta frv. verður samþykkt, verður gengisskráningin í raun og veru á valdi ríkisstj., því að Seðlabankinn er nú eiginlega ekkert annað en skrifstofa á vegum ríkisstj, og lýtur hennar valdi. En það hef ég raunar persónulega alltaf álitið, að seðlabankar ættu að gera. Ég tel, að ríkisstj. verði að ráða í fjárhagsmálefnum, og hef aldrei haft neitt við það að athuga, að yfirráð ríkisstj. væru æði sterk yfir Seðlabankanum. En þetta þýðir, að með þessu er gengisskráningarvaldið í raun og veru lagt á vald ríkisstjórnarinnar í stað þess, að það var áður á valdi Alþingis.

Ég var að segja, að hv. frsm. hefði haldið því fram, að hér væri í raun og veru um tæknilegt atriði að ræða. Þessa skoðun get ég alls ekki fallizt á, og mér finnst hún vera fjarstæða, eins og málum er háttað. Það mætti segja, að gengisskráningin sjálf væri tæknileg framkvæmd, ef gjaldeyrisverzlunin væri algerlega frjáls og verðmyndun á gjaldeyrinum færi algerlega eftir lögmálinu um framboð og eftirspurn svo að segja frá degi til dags. Ef þessu væri til að dreifa, finnst mér, að skráningin sjálf væri lítið annað en formsatriði og raunverulega tæknileg framkvæmd. En þessu er alls ekki til að dreifa. Það er langt frá því, að gjaldeyrisverzlunin sé frjáls, og það er óralangt frá því, að gengisskráning sé tæknileg framkvæmd einvörðungu. Það er skylt samkv. lögum að afhenda gjaldeyrisbönkunum allan gjaldeyri, og enginn má verzla með gjaldeyri nema þeir, og það er háð ströngum reglum. Í raun og veru er ströng einkasala á gjaldeyrinum, og mönnum er ófrjálst að verzla með hann. Það verður að afhenda hann til þessara stofnana, sem hafa einkarétt til að verzla með hann. Og það er skylt að verzla með hann samkv. föstu, skráðu gengi, sem alls ekki er miðað við framboð og eftirspurn á gjaldeyri frá degi til dags.

Það er því fjarstæða að halda því fram, að gengisskráning sé tæknileg framkvæmd við þær ástæður, sem hér eru og raunar víða annars staðar. Gengisskráningin er vitanlega pólitísk ákvörðun og ein hin allra stærsta af þeim, sem teknar eru. Það stafar af þessu, sem ég hef sagt, að þar er ekki verið að skrá eitthvað, sem gerzt hefur, miðað við reynsluna, eins og t.d. gert væri, ef framboð og eftirspurn réði, heldur er verið að verðleggja, beinlínis setja fast verð á gjaldeyrinn, og þeirri verðákvörðun er fylgt fram með algerri einkasölu og sterku eftirliti með gjaldeyrisverzluninni. Og í þessu tilliti hefur engu verið breytt.

Ég kann þess vegna alls ekki við, að verið sé að flytja þetta mál á þá lund, að hér sé um einskisvert tæknilegt atriði að ræða. Þeir, sem hér eiga hlut að máli, hljóta að skilja, að hér er allt öðru til að dreifa. Það er mín skoðun, að þetta vald, gengisskráningarvaldið, eigi að vera áfram í höndum Alþingis, eins og það hefur verið, og þegar af þeirri ástæðu hef ég ásamt ýmsum fleiri beitt mér eindregið gegn þessu frv.

Ég vil þá eftir þennan inngang aðeins víkja að gengislækkuninni í sumar, sem var grundvöllur að þessari löggjöf, og nokkrum atriðum í sambandi við hana og efnahagsmálin almennt. Ég mun ekki fara mjög langt út í þetta, en mun stikla á mjög stóru.

Þegar ríkisstj. beitti sér fyrir efnahagslöggjöfinni 1960, var tekin upp sú stefna að reyna að bæta jöfnuðinn í viðskiptunum við útlönd og koma á nýju efnahagskerfi. Og meginstefnan var sú að magna sem allra mest dýrtíðina í landinu og draga á þann hátt úr neyzlu og framkvæmdum. Enn fremur átti að stuðla að því, að kaupgjaldið í landinu breyttist ekki og ekki heldur verðlag á afurðum. Þá voru gerðar ráðstafanir til þess að draga mjög úr lánsfé, sem menn áttu kost á, og innleiddir okurvextir, sem líka áttu að verka í þá átt að draga úr peningaumferðinni. Þetta var sú aðferð, sem ríkisstj. hafði mjög sterka trú á til þess að bæta ekki aðeins afkomuna út á við, heldur átti þetta að verða til að koma betra lagi á þjóðarbúskapinn yfirleitt.

Nú var augljóst, þegar þetta var gert, strax 1960, og var ýtarlega rakið af þeim, sem voru á móti þessu, að með þessu mundi verða reist svo gífurleg verðbólgualda, dýrtíðaralda í landinu, að ekki mundi ráðast við neitt og mundi því afleiðingin verða ein dýrtíðaraldan af annarri. Þetta mundi ekki leiða til jafnvægis eða stöðvunar á verðlagi, heldur þvert á móti mundi þarna rísa svo stórfelld dýrtíðarbylgja, að af henni mundi aftur rísa önnur og svo koll af kolli. Þá var sýnt fram á, að verðhækkunar áhrif þessara ráðstafana hlytu að verða meira en einn milljarður þegar á fyrsta ári, miðað við þjóðarframleiðslu og þjóðarbúskap, eins og hann var þá. Og þegar þess er gætt, að þjóðartekjurnar voru þá metnar á 5½–6 milljarða, þá átti það að vera hverju barni augljóst, að með þessu var stefnt til hinna mestu vandræða, bæði fyrir framleiðsluna og eins fyrir almenning í landinu, og það mundi vera gersamlega ómögulegt að hemja efnahagsmálin á þessari undirstöðu. Dýrtíðaraukningin hlaut að verða svo gífurleg og kjaraskerðingin svo óskapleg, að við slíkt yrði ekki unað. Að vísu mátti gera ráð fyrir, að veruleg framleiðsluaukning væri fram undan, vegna þess að áður en þessi stefna var tekin upp, höfðu verið gerðar alveg óvenjulega víðtækar og stórfelldar ráðstafanir til þess að afla nýrra framleiðslutækja til landsins, auk þess sem landhelgin hafði verið færð út. Og það var augljóst, að af þessu mundi verða stórfelld framleiðsluaukning. En þó að það væri fyrirsjáanlegt, var jafnframt augljóst, að jafnvel sú framleiðsluaukning gat ekki komið í veg fyrir, að sú meinsemd græfi um sig, sem hæstv. ríkisstj. hafði svo að segja gróðursett í íslenzku efnahagslífi með þessum fávíslegu ráðstöfunum, sem gerðar voru með efnahagslöggjöfinni 1960.

Afleiðingarnar af þessu hafa ekki látið á sér standa. Er af því orðin allmikil saga, sem ég skal ekki rekja hér í löngu máli í kvöld, enda er nú af og til verið að víkja að einstökum þáttum þeirrar sögu. En í stuttu máli var þannig komið sumarið 1961 eða vorið 1961, að ríkisstj. réð ekki við neitt, eins og fyrirsjáanlegt var, að hlaut að verða. Kjaraskerðingin var orðin svo stórkostleg, að ekki einu sinni ráðherrarnir treystu sér til að halda því fram, að launafólk, verkamenn t.d. eða launafólk yfirleitt, gæti lifað af því kaupi, sem því var ætlað. Ekki einu sinni hæstv. ráðherrar treystu sér til að halda slíku fram. Svo stórkostleg var kjaraskerðingin orðin þá strax, eins og líka nærri mátti geta, þegar athugað er, hvernig út var siglt, með þessum gífurlegu ráðstöfunum til þess að magna dýrtíðina á allan hátt, sem ég var að drepa á áðan.

Það er skemmst af því að segja, að ríkisstj. stóð þá uppi algerlega ráðalaus, nær allur atvinnurekstur í landinu var stöðvaður vegna verkfalls, og það var svo fjarri því, að þar væri um pólitískt verkfall að ræða, að þar var enginn munur á afstöðu manna í launþegasamtökunum eftir stjórnmálaskoðunum. Það var hreinlega, að menn voru neyddir til að reyna að fá þarna einhverja bót á ráðna.

Fyrst hélt hæstv. ríkisstj. því fram, að engu mætti breyta, það kæmi ekki til mála að breyta nokkru. En fljótlega, eftir að átökin hörðnuðu, fór hún að finna á því nokkur missmíði, og var þá farið að halda því fram, að eitthvað væri máske hægt að ganga til móts við launþegasamtökin. Og það endaði með því, að sáttasemjari ríkisins gerði uppástungu um nokkra launahækkun, en þó svo litla, að launþegasamtökin vildu alls ekki sætta sig við hana, enda var þá algerlega bilað allt traust manna á leiðsögu ríkisstj. Hún hafði á örstuttum tíma orðið a.m.k. Þrísaga um möguleika Þjóðarbúskaparins og atvinnurekstrarins til þess að veita hér einhverja úrlausn.

En þá var það, sem tókst að forða frá algerri stöðvun framleiðslunnar og eyðileggingu síldarvertíðarinnar. Og það gerðist á þann hátt, að samvinnufélögin í landinu og verkalýðsfélögin gátu komið sér saman um nýjan kjarasamning.

Þessi kjarasamningur var þannig, að bað var yfir höfuð gert ráð fyrir 11–12% kauphækkun, og var það 5–6% meira en sáttasemjarar höfðu stungið upp á. Þá var í þessum samningi það svo mjög þýðingarmikla ákvæði, að kaupið skyldi hækka án nýrra samninga um 4% eftir eitt ár, ef báðir aðilar létu samninginn standa áfram, segðu honum ekki upp, og enn fremur, að kaup skyldi standa í stað í eitt ár, ef dýrtíð færi ekki fram úr 5%. En slíkt ákvæði hafði aldrei áður verið sett inn í launasamninga.

Með þessum samningum, sem urðu að eins konar fordæmi fyrir öðrum samningum um þessi mál, sem gerðir voru í beinu framhaldi af honum, var lagður æskilegur grundvöllur til að skapa í landinu stöðugt verðlag og jafnvægi í þjóðarbúskapnum og varanlegan vinnufrið. Hefði verið í lófa lagið fyrir hæstv. ríkisstj. að notfæra sér þessa úrlausn á þennan hátt. Að vísu hefði hún þurft að breyta stefnunni frá því, sem hún hafði haft hana. Hún hefði þurft að lækka vextina, sem raunar eru svo háir, að gersamlega er óhugsandi, að íslenzk framleiðslustarfsemi geti staðið undir þeim til lengdar. Þeir eru hærri en í nokkru öðru nálægu landi, og íslenzkir útflytjendur búa við hærri vexti en nokkrir keppinautar þeirra. Þetta er fásinna, sem getur ekki staðið til lengdar og hefur þegar gert óútreiknanlegt tjón framleiðendunum og þar með þjóðinni allri. Ríkisstj. hefði að vísu, til þess að þetta gæti staðizt, þurft að lækka vextina. En ríkisstj. hafði ekki hugsað sér að reyna að notfæra sér þessa samninga til að skapa varanlegt jafnvægi í Þjóðarbúskapnum eða varanlegan vinnufrið. í stað þess réðst hún í það fólskuverk að nota þessa samninga sem átyllu til að fella gengið á nýjan leik í annað sinn á 16 mánuðum, — í annað sinn á 16 mánuðum, og ekki við nein kreppuskilyrði, heldur í einhverju því mesta góðæri, sem Íslendingar hafa lifað, og við hagstæða verðlagsþróun á erlendum markaði.

Ríkisstj. Íslands vann það fólskuverk s.l. sumar, að hún lækkaði stórkostlega gengið á íslenzkum gjaldeyri, enda þótt þjóðin byggi við óvenjulegt góðæri og hækkandi verð á útflutningsvörum. Hún leyfði sér að gera þetta og færa fram þá tylliástæðu, að atvinnuvegir landsins og þjóðarbúskapurinn þyldi ekki þá kauphækkun, sem samið var um. En mismunurinn á þeirri kauphækkun og því, sem hæstv. ríkisstj. hafði sjálf lýst yfir að þjóðarbúskapurinn þyldi, nam 5–6% kauphækkun.

Það hefur alltaf verið að koma betur og betur í ljós, hvílíkt fólskuverk þessi gengislækkun var. Og aldrei hefur það legið skýrar fyrir en nú, enda er hæstv. ríkisstj. áreiðanlega farin að sjá eftir þessari framkvæmd og á þó alveg tvímælalaust eftir að sjá enn meira eftir henni, því að það er alls fjarri, að sé búið að bita úr nálinni með afleiðingarnar af síðari gengislækkuninni ofan á þá fyrri, og mun ég koma að því hér á eftir.

Hæstv. ríkisstj. hefur ekki treyst sér til þess að færa nein málefnaleg rök fyrir þessari gengislækkun. Það hefur verið sýnt fram á hér hvað eftir annað með algerlega pottþéttum rökum, að atvinnuvegirnir gátu borið þessa kauphækkun, og hæstv. ráðh. hafa orðið að hlusta á það þegjandi. Þeir hafa ekki treyst sér til þess að sýna fram á, ekki gert einu sinni tilraun til þess að sýna fram á, að það hafi þurft að lækka gengið s.l. sumar, vegna þess að atvinnuvegirnir gátu ekki borið þessa hóflegu kauphækkun, sem samið var um. Og ég skal enn einu sinni sýna fram á þetta með fáeinum orðum og bæta því við, sem nú hefur verið upplýst, síðan þetta mál var siðast hér til meðferðar.

Það er staðreynd, sem ómögulegt er að komast fram hjá, að verð á bræðslusíld og verð á síld í söltun hækkaði s.l. sumar þrátt fyrir kauphækkunina, svo að ekki þurfti gengislækkunina vegna síldarútvegsins. Þetta eru staðreyndir, sem hæstv. ráðherrar hafa aldrei treyst sér til að mótmæla, sem ekki er von. Aðrar greinar sjávarútvegsins, eins og fiskiðnaðurinn, voru taldar standa höllum fæti til að taka á sig kauphækkunina, en það hefur verið sýnt fram á það hvað eftir annað, að hækkun sú, sem varð á kaupinu umfram það, sem hæstv. ríkisstj. hafði talið vel viðunandi, nam sem svaraði 1–2% breytingu á útflutningsverði afurða frystihúsanna. Nú er það komið í ljós, að verðlag á útfluttum fiski á s.l. ári hefur hækkað miklu meira en sem svaraði þessari kauphækkun, — miklu meira. Það liggja nú fyrir yfirlýsingar t.d. frá Jóni Gunnarssyni framkvæmdastjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna um, að það hafi orðið straumhvörf á síðasta ári varðandi verðlag á frosnum fiski til báta, þ.e.a.s. að verðlag hafi hækkað á frosnum fiski á erlendum markaði. Og í skýrslu Seðlabankans er það greinilega tekið fram, að verðlag á sjávarafurðum hafi hækkað verulega á síðasta ári. Þetta kemur í ljós núna, svo að ekki verður um villzt, í þessum skýrslum, sem nú hafa verið gefnar út. Það kemur alveg greinilega í ljós, að það kom ekki til mála, að það þyrfti að breyta skráðu gengi gjaldeyrisins vegna sjávarútvegsins í sambandi við þær kauphækkanir, sem urðu á s.l. sumri. Hæstv. ráðherrar eru algerlega afhjúpaðir í sambandi við þetta mál með þeim upplýsingum, sem hafa komið fram upp á síðkastið og staðfest það, sem stjórnarandstaðan sýndi fram á varðandi þetta mál strax s.l. sumar.

Þarna þarf svo að bæta því við, að þetta sýnir, að sjávarútvegurinn gat staðið undir þessari kauphækkun, jafnvel án þess að vextirnir væru lækkaðir, eins og málið stóð s.l. sumar, hvað þá heldur ef vextirnir hefðu verið lækkaðir á þann hátt, sem stjórnarandstaðan lagði til. Um þetta þarf því alls ekki að deila lengur. Það er alveg augljóst mál, að vegna útflutningsatvinnuveganna þurfti ekki að lækka gengið, enda gefur það auga leið, að hæstv. ríkisstj. hefur verið önnum kafin í allan vetur við að kroppa af útgerðinni aftur þá fjármuni, sem til hennar hefðu að öðrum kosti verið fluttir í sambandi við gengislækkunina. Hæstv. ríkisstj. hefur í allan vetur verið að taka, ýmist með eignarnámi verðhækkunar á útflutningsvörubirgðum eða nýjum, stórfelldum álögum, af útgerðinni aftur til baka þá fjármuni, sem til hennar fluttust eða hefðu flutzt að öðrum kosti með gengisbreytingunni í sumar.

Þá er það iðnaðurinn. Hvað hefur komið í ljós varðandi iðnaðinn? Og hvað kom í ljós strax s.l. haust? Það kom í ljós, að iðnaðurinn gat auðveldlega staðið undir þeim kauphækkunum, sem samþykktar höfðu verið, og því var lýst yfir af hálfu iðnrekenda í stjórnarblöðunum, að þeir hefðu yfir höfuð alls ekki fengið neinar verðhækkanir samþykktar vegna kauphækkunarinnar. Það hefur komið í ljós, að verðhækkanirnar, sem urðu á iðnaðarvörunum, voru vegna gengislækkunarinnar, voru vegna þeirrar hækkunar, sem hafði orðið á innfluttum hráefnum vegna gengislækkunarinnar.

Þannig lá það fyrir og liggur enn greinilegar fyrir núna, að íslenzkir atvinnuvegir gátu vel borið þessa hóflegu kauphækkun, sem samþykkt var.

Það hefur einnig verið sýnt fram á það hér í þessum umr. þráfaldlega, að þær ástæður, sem hæstv. ríkisstj. og hennar lið hafa stundum verið að burðast við að færa fram fyrir gengislækkuninni, að hún hefði sett búskapinn út á við úr jafnvægi, eru einnig algerlega úr lausu lofti gripnar. Það sýna þær tölur, sem nú liggja greinilega fyrir varðandi útflutningsverðmætið og gjaldeyrisstöðuna.

En hvernig í ósköpunum gat þá staðið á því, að hæstv. ríkisstj. skyldi leggja út í þessa vitleysu að lækka gengið á nýjan leik stórkostlega og efna til nýrrar dýrtíðaröldu í landinu, ef hún væri ekki til þess knúin vegna afkomu atvinnuveganna, en það var hún ekki? Það liggja fyrir sem blákaldar staðreyndir, að það var hún ekki. Hún var alls ekki til þess knúin á nokkurn hátt. Það voru engin efnahagsleg rök finnanleg fyrir gengislækkuninni, og því síður eru þau finnanleg nú, þegar fyrir liggja upplýsingar um þjóðarbúskapinn s.l. ár.

Það er alveg tvímælalaust, að það, sem fyrst og fremst vakti fyrir ríkisstj. með gengislækkuninni, átti ekkert skylt við efnahagsmálin, sem ég nú hef verið að rekja. Það, sem fyrst og fremst vakti fyrir stjórninni með gengislækkuninni, var að skjóta launþegasamtökunum skelk í bringu, sýna launþegasamtökunum, að ef samið væri öðruvísi um kaupgjaldsmál en stjórninni þóknaðist, hefði stjórnin þetta vopn, hefði hún það vopn að taka kauphækkanirnar strax til baka með gengislækkunum. Þess vegna þýddi ekkert fyrir verkalýðsfélögin eða launþegasamtökin að gera aðra samninga um kaupgjaldsmál en stjórnin vildi. Með öðrum orðum, að í staðinn fyrir formlega lögbindingu á kaupgjaldi hugsaði stjórnin sér að koma í framkvæmd raunverulegri lögbindingu á kaupgjaldi með því að lækka gengið á þennan hátt, sem hún gerði, og setja ný lög um, að ríkisstj. hefði raunverulega gengisskráningarvaldið í sínum höndum. Það er þetta, sem á að gera með því frv., sem hér liggur fyrir, eins og ég sýndi fram á áðan. Ég geri ráð fyrir því, að einnig hafi komið til greina, að ríkisstj. var í heiftarhug, þegar hún lagði út í gengislækkunina, vegna þess að kaupgjaldsmálin voru leyst nokkuð öðruvísi en hún vildi, og stjórnin varð allt að því að athlægi í sambandi við það, hvernig hún tók á þessum málum. Ég býst þess vegna við, að ríkisstj. hafi verið í heiftarhug. Það er þess vegna ekki alveg víst, að hún hefði ráðizt í að vinna þetta skemmdarverk á íslenzku efnahagslífi: að nota gengisskráninguna sem vopn í styrjöld sinni við verkalýðsfélögin eða launasamtökin, — það er ekki alveg víst, að hún hefði gert það, ef hún hefði ekki verið í heiftarhug.

Það er enginn vafi á því, að með þessari síðari gengislækkun hefur stjórnin framkvæmt einhverja sína mestu yfirsjón, því að með þeirri dýrtíðaröldu, sem reist hefur verið með henni, þegar hún bættist við það, sem fyrir var, hafa málefni landsmanna verið keyrð í miklu háskalegri hnút en nokkru sinni fyrr. Og það er alveg augljóst, að málin geta ekki staðizt lengi, eins og þau eru núna í dag.

Hæstv. ríkisstj. er ákaflega barnaleg í þessu sambandi. Hún er að láta gorta af því, að það hafi orðið sæmileg útkoma á gjaldeyrisreikningum bankanna. Það mundi nú engum hafa þótt mikið, þótt það væri sæmileg útkoma á gjaldeyrisreikningum bankanna, þegar aflinn hefur verið meiri en nokkru sinni áður í sögu landsins og þar að auki hækkandi verðlag á flestum útflutningsafurðum. Stjórnin leikur sér að því að auglýsa þessa gjaldeyrisreikninga bankanna, eins og börnin sýna gullin sín.

En því miður eru miklu alvarlegri og stórfelldari þættir í þessum málum, sem þarf að skoða, en þessir gjaldeyrisreikningar einir saman. Ég skal þó ekki fara langt út í það hér að ræða afkomuna út á við. Ég ætla þó að benda á örfá atriði, sem sýna, hvernig búið er að koma málum þjóðarinnar með þeim aðförum, sem viðhafðar hafa verið, tveimur gengislækkunum og öllum þeim gífurlegu álögum, sem þeim hafa verið látnar fylgja. Og ef menn íhuga þessar staðreyndir, sem ég mun aðeins lauslega drepa á og það örfáar, þá getur menn farið að gruna, hvað líklegt sé að fram undan verði í málefnum Íslendinga á næstu árum og hversu nærri það muni vera — eða hitt þó heldur, að efnahagsmálin séu komin í viðunandi ástand, eins og stjórnarblöðin hafa verið látin segja.

Framfærslukostnaður í landinu hefur vaxið um 27% frá því í marzmánuði 1959. Kaupgjald hefur að vísu hækkað dálítið á þessu tímabili, en ekki nema sem nemur nokkru broti af þessari gífurlegu dýrtíðarhækkun, en hún nemur 27 vísitölustigum — eða 54 vísitölustigum miðað við vísitöluna, sem notuð var, áður en nýja efnahagslöggjöf ríkisstj. var sett. Dýrtíðin hefur vaxið um 54 vísitölustig síðan í marz 1959. Er þó ekki öll sagan sögð með því, því að þar inn í vantar að mestu leyti þá gífurlegu hækkun, sem hefur orðið á því að byggja íbúðarhúsnæði. Kaupið hefur sem sagt hækkað um nokkur prósent, en ekki nema um lítinn hluta af þessari gífurlegu hækkun. Á sama tíma hafa þjóðartekjurnar vaxið vegna aukinnar framleiðslu, sem að engu leyti á þó rót sína að rekja til ráðstafana núv. ríkisstj., Því að aukin framleiðsla, sem orðið hefur á þessu tímabili, á að engu leyti rót sína að rekja til ráðstafana núv. ríkisstj., en fyrst og fremst til þeirrar kröftugu framfara- og uppbyggingarstefnu, sem fylgt var í landinu, áður en núv. hæstv. ríkisstj. og valdasamsteypa hennar kom til greina.

En dýrtíðaraukningin er sem sagt sem svarar 54 stigum eða 27 stigum í nýju vísitölunni, eða 27% frá því í marz 1959. Þetta þýðir, að það hefur verið framkvæmd í landinu stórkostleg kjararýrnun, enda þótt framleiðslan hafi vaxið.

Ef við svo lítum á þetta ástand frá sjónarmiði heimilanna og tökum t.d. vísitöluheimilið, sem á að vera einkennandi fyrir heimili almennings í landinu, þá verður dæmið þannig, að matvörurnar, sem vísitöluheimilið þarf að kaupa, eru komnar upp í 30 þús. kr., hiti og rafmagn upp í 5200 kr., fatnaður upp í 12900 kr. og ýmis vara og þjónusta upp í 15600 kr. Þetta er byggt á hinum nýja vísitölugrundvelli, sem hafði verið mjög vel athugaður. En þá er eftir húsnæðisliðurinn, sem er í vísitölunni metinn mjög lágt, og þá ekki að neinu leyti verið tekinn upp í hann kostnaður eins og hann er nú orðinn við að búa í nýjum húsum.

Gerum nú ráð fyrir því, að þessi fjölskylda eigi að búa í húsi, sem fram að þessu hefur verið álitið viðeigandi, og gerum ráð fyrir, að þessi fjölskylda eigi að hafa til umráða 90 fermetra húsnæði, og miðum við það, sem kostar núna að koma upp slíkri íbúð, en vitanlega verður að miða við það, það verður að miða þjóðarbúskapinn við, að það geti fleiri lifað en þeir, sem eiga gamla íbúð. Ég ímynda mér, að jafnvel hæstv. ríkisstj. muni ganga inn á það, að unga fólkið þurfi líka að lifa og það eigi ekki að hætta að stofna heimili á Íslandi. En sé þetta tekið með í dæmið og reiknað með slíkri íbúð og kostnaði við hana og reiknað með, að fjölskyldan greiði aðeins 8% af kostnaðarverði slíkrar íbúðar, þá verða það 34700 kr., bara 8% af kostnaðarverði slíkrar íbúðar. Þá er ekki gert ráð fyrir að greiða húsið niður um einn einasta eyri, bara reiknaðir 8% vextir, og eru það ekki einu sinni fullir vextir, eins og hæstv. ríkisstj. reiknar af íbúðalánunum, hvað þá víxlum og öðru slíku. Og þá er ekkert fyrir sköttum og gjöldum af húsinu eða neinu þess konar. Þessi fjárhæð er því náttúrlega allt of lág. En við skulum bara setja hana svona lága til þess að verða ekki sakaðir um öfgar í þessu á einn eða annan hátt viðreisninni í óhag. En við þetta verður framfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar, ef hún á að búa í slíkri íbúð og greiða 8%, 98500 kr., en Dagsbrúnarverkamaður hefur núna 54500 kr. á ári eða vantar 44 þús. kr. á ári til að geta lifað lífi vísitölufjölskyldu og búið í 90 fermetra íbúð og greitt aðeins 8% af andvirði hennar. Ef slíkur maður hefði eftirvinnu í tvær stundir hvern einasta vinnudag ársins, gæti hann komizt það hátt, að hann vantaði 22200 kr. En ef það ætti að reikna með eðlilegri afborgun af svona íbúð, verður dæmið enn þá ljótara og verra.

En á þessu dæmi sjáum við svona hér um bil, hvernig ráðstafanir hæstv. ríkisstj. eru búnar að koma íslenzkum þjóðarbúskap. Ég ætla, að þetta dæmi sýni það betur en hitt, hvort það er 10 millj. meiri eða minni inneign á gjaldeyrisreikningi Seðlabankans. Ég ætla, að þetta sé veigameiri þáttur að íhuga fyrir hæstv. ríkisstj. og aðra.

Og hvað halda menn, að svona vitleysa geti lengi staðizt? Við skulum segja t.d., að menn segðu sem svo, að það ætti að miða við hærra kaup en verkamannakaupið. En það er alveg sama, þó að menn færu upp í að miða við 8 þús. kr. á mánuði eða jafnvel 10 þús. kr. á mánuði, þetta er botnlítið samt.

Svo lætur hæstv. ríkisstj. blöðin sín segja, að viðreisnin hafi tekizt vel, ágætlega, allt sé í góðu lagi og ástandið viðunandi.

Ætli þessir menn, sem skrifa svona, eigi kannske heima í gömlum húsum? Þeir eru kannske fyrir löngu búnir að greiða sín hús og gera alls ekki ráð fyrir því, að næstu kynslóðir á Íslandi þurfi húsnæði, það þurfi ekkert að reikna með slíku.

Hvað heldur svo sjálf hæstv. ríkisstj., að þetta geti staðizt lengi, þetta ástand? Hvað heldur hún, að kaupgjald í landinu geti staðið lengi eins og það er núna, miðað við þessar kringumstæður? Ég bara spyr. Það væri fróðlegt, ef hæstv. ríkisstj. vildi segja sitt mat á því, hvað hún heldur yfirleitt, að kaupgjald geti lengi staðið óbreytt í landi, þar sem svona er ástatt. Þetta væri fróðlegt að heyra. Hvað á t.d. unga fólkið lengi að biða eftir því, að það sé einhver grundvöllur hugsanlegur fyrir þess búskap?

Ég held, að þær gjaldeyriskrónur, sem hæstv. ráðh. eru að leika sér að, þau gull séu nokkuð dýrt keypt, — ef þessar aðfarir yfir höfuð hafa þá þar ofan í kaupið nokkuð orðið til þess að fjölga þeim, sem ég raunar dreg alveg í efa, en jafnvel þótt svo væri, að einhverjar af þessum krónum ættu rætur sínar að rekja til þeirra aðfara, sem svona hafa leikið íslenzkan þjóðarbúskap, þá held ég, að þær mundu dæmast samt sem áður óalandi og óferjandi og að slíkt væri allt of dýru verði keypt.

Þetta var varðandi möguleika heimilanna til að standa undir daglegum nauðsynjum. En svo verður það sama upp á teningnum, ef litið er á þá liði, sem varða uppbyggingu framleiðslunnar.

Það er búið að koma þannig málum, t.d. varðandi búskap, að það má teljast með öllu óhugsandi að stofna heimili í sveit frá grunni. Í nýlegri áætlun, sem Stéttarsamband bænda hefur látið frá sér fara, er um þetta nokkur vitnisburður á þá lund, að eins og búið sé að koma þessum málum, sé yfir höfuð ekki hægt að gera ráð fyrir því, að ný heimili verði stofnuð í sveit. Það sé helzt möguleiki að bæta eitthvað á þeim heimilum, sem fyrir eru, og þá allvel grónum. Þetta er ekki álit andstæðinga ríkisstj. einna saman, heldur sumra þeirra, sem hafa stutt a.m.k. annan flokkinn, sem stendur að hæstv. ríkisstj. Þetta er þeirra mat á því, hvernig búið sé að leika íslenzkan landbúnað með þessum ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið.

Ef við lítum að sjávarsíðunni, blasir það sama við. Skip og bátar hafa hækkað gífurlega í verði, en aðstoð ríkisins við að afla þessara tækja verið minnkuð og dregin saman. Það er ómögulegt að sjá, að nokkur grundvöllur sé fyrir því, að áfram haldist öflug uppbygging sjávarútvegs víðs vegar við landið, eins og þessi mál horfa, þegar það er t.d. orðið þannig, að til að eignast 50 tonna bát vel búinn þarf að mæta með 1 millj. 700 þús. kr. í framlag að frádreginni einhverri smálús í atvinnuaukningarfé, sem alltaf er verið að skera niður og bráðum er orðið að engu með þessum aðförum.

Á undanförnum árum hafa sjómenn nærri því flykkzt inn í útgerðina sem framleiðendur og atvinnurekendur, og er það einhver ánægjulegasta þróun, sem hægt er að hugsa sér. En hvað ætli það verði margir sjómenn, sem á næstunni geta orðið útgerðarmenn og geta tekið þátt í því að byggja upp sjávarútveginn, eins og nú er búið að ganga frá þessum málum? Ég spyr. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.

Auðvitað veit ég, að hæstv. ráðh. sjá þetta. Þeim hlýtur að vera það ljóst nú orðið, þó að þeir hafi vafalaust alls ekki gert sér grein fyrir því, þegar þeir lögðu út í þessa fásinnu alla saman, — þeim hlýtur að vera orðið það algerlega ljóst nú orðið, að fram undan eru alveg stórkostlegar verðbyltingar í landinu. Þeim hlýtur að vera það ljóst t.d., að það verður að stórauka t.d. lánsfé, ef þessi uppbygging á ekki að stöðvast, — verður að stórauka lánsfé og fyrirgreiðslu á mörgum sviðum, auk þess sem það er auðvitað algerlega óhugsandi, að kaupgjald og afurðaverð eða tekjur yfirleitt geti staðizt til lengdar, eins og það er nú. Það er alveg óhugsandi.

Það má geta um það rétt í leiðinni t.d., að þetta hefur nú þegar haft áhrif. T.d. hefur framræslan í landinu orðið þriðjungi minni 1961 en hún hefur verið á undanförnum árum. Íbúðabyggingar dragast stórkostlega saman, sem er ekki að furða, eins og að þeim málum er búið og ég hef lauslega bent á.

Auðvitað er mér það ljóst, að hæstv. ríkisstj. hugsar sé ekki að stuðla að því, að þessi mál geti aftur þróazt í þá átt, sem var. Mér er það algerlega ljóst, að hæstv. ríkisstj. lætur sér það í léttu rúmi liggja, þó að ekki byggist upp stórfelld aukning í sjávarútveginum og á vegum sjómanna eða almennings yfir höfuð úti um land, — einnig þó að stöðvist myndun nýrra heimila í landbúnaðinum, að þeir stefna að því að fækka bændaliði stórkostlega, eins og hvað eftir annað hefur komið í ljós úr þeirra herbúðum.

Mér er einnig ljóst, að þeir láta sér einnig í léttu rúmi liggja, þótt uppbygging sjómanna minnki, því að þeir vonast eftir því, að í staðinn komi stór og rík félög, sem fá aukinn gróða vegna þess, hve kaupgjaldi er haldið niðri, og þau taki uppbygginguna að sér. Það er þeirra hugsjón. Það er þeirra hugsjón, að aftur komi þeir gömlu og góðu dagar, að hin stóru félög taki uppbygginguna að sér, jafnvel eignist eignir hinna, sem verða að gefast upp fyrir þessum búsifjum, sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.

Þessi þróun er nú þegar að byrja, eins og hv. þm. Björn Pálsson sagði hér í dag. Það hefur verið búið þannig að þeim, sem hafa verið að útvega sér framleiðslutæki undanfarið, að margir af þeim hljóta að gefast upp vegna þeirra áfalla, sem þeir hafa orðið fyrir af tveimur gengisfellingum og öðrum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. Þá er það hugsunin, að þeir stóru, félögin, sem græða á þessu búskaparlagi og meira og meira eftir því sem þetta búskaparlag stendur lengur, þau stígi fram og setji upp atvinnurekstur á sínum vegum. Þetta er það, sem Sjálfstfl. kallaði að draga úr hinni pólitísku fjárfestingu, þ.e. að draga úr stuðningi við uppbyggingu almennings og að í staðinn komi hin efnahagslega fjárfesting.

Alveg eins er það með íbúðamálin. Ef þessu verður haldið áfram svona, er vafalaust hugsunin sú, að þeir, sem þurfa að ávaxta fé, eignast mikið fjármagn, sópa að sér miklu fjármagni, þeir taki að sér að byggja íbúðir, nógu litlar, sem þeir geti leigt mönnum. Fólk eigi ekki að vera að standa í því, eins og undanfarið hefur verið, að koma sér upp eigin þaki yfir höfuðið.

Það er svo einkennandi fyrir alla framkomu og allan málflutning Sjálfstfl. og ríkisstj., að þessi stefna, sem ég hef verið að lýsa með því að nefna nokkrar staðreyndir sem dæmi, hún er rekin undir kjörorðinu „eign fyrir alla“. Og það er víst ætlazt til þess, að vísitölufjölskyldan, sem ég var að nefna dæmið um hér áðan, — það er víst ætlazt til, að hún kaupi hlutabréf í almenningshlutafélagi, hafi afgang til að kaupa hlutabréf í almenningshlutafélagi. Einkunnarorð þessarar stefnu á að vera „eign fyrir alla“, en hún er þó beinlínis miðuð við að koma í veg fyrir, að almenningur geti á sama hátt orðið efnahagslega sjálfstæður og tíðkazt hefur hér á undanförnum áratugum.

Nú á að gerbreyta þessu með því móti, sem hér hefur verið lýst, og kjörorðið er „eign fyrir alla“.

Það er líka í prýðilegu samræmi við kjörorð þess flokks, sem gekk til kosninga síðast undir kjörorðinu, að það ætti að stöðva dýrtíðina, Alþfl., og hefur svo staðið fyrir því, sem ég hef nú lauslega drepið á. Og það sama má auðvitað segja um Sjálfstfl., sem sagði, að leiðin til bættra lífskjara væri að kjósa frambjóðendur Sjálfstfl.

En hverjar eru efndirnar? Hver er útkoman núna, eins og málin horfa við fjölskyldunum í landinu, ekki séð frá sjónarhóli bókhaldaranna í Seðlabankanum, heldur frá sjónarhóli fjölskyldnanna í landinu? Hvernig hefur verið staðið við þetta kjörorð? Það er í ágætu samræmi við þetta, að það er búið að finna þetta ljómandi nýja einkunnarorð fyrir þessa stefnu, þ.e. „eign handa öllum“. Það er sem sé afgangurinn af kaupinu, afgangurinn af tekjunum, afgangurinn af afurðaverðinu, sem mönnum er ætlað að leggja í almenningshlutafélög.

Það væri hægt að draga fram margt fleira til þess að sýna fram á þau mistök, sem orðið hafa í þessum málum, og hversu geigvænlega horfir. Það var alveg sérstaklega hryggilegt, að hæstv. ríkisstj. skyldi flana út í þá ráðstöfun að lækka gengið í sumar ofan á það, sem komið var. Ég held satt að segja, að það sé ekki hægt að finna nokkurn mann, sem heldur því fram í alvöru, að gengislækkunin hafi verið þörf eða knýjandi.

Á hinn bóginn eru til einstaka öfgamenn og æstir fylgismenn núv. ríkisstj., sem segja, að gengislækkunin hafi verið allvel valin ráðstöfun sem vopn í orrustu hæstv. ríkisstj. við almenning í landinu, þá orrustu, sem hún heyr við almenning í landinu. Það eru til öfgamenn í liði hæstv. ríkisstj., sem álíta það. En hinir held ég að séu vandfundnir, ef ekki algerlega ófinnanlegir, sem halda því fram í alvöru, að gengislækkunin hafi verið skynsamleg ráðstöfun eða verið byggð á nokkrum efnahagslegum rökum. Sem sagt, það eru til æsingamenn í þessu liði, sem halda því fram, að þetta hafi verið vel heppnað högg. En ég óttast, að hér muni fara sem oftar, að skamma stund verður hönd höggi fegin.