29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., er næstsíðasta málið á dagskránni í dag: Seðlabanki Íslands. Ég tek þetta fram vegna þess, að mér virtist hv. frsm. meiri hl. aðallega tala um síðasta málið á dagskránni, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi. Hann tók það fram, að honum þætti, að málið væri of lögfræðilegt. Hann vildi ekki hætta sér inn í myrkviði lögfræðinnar og lögkrókanna. Mér varð að láta mér detta í hug, hvort gæti skeð, að svo hefði verið um fleiri hv. stuðningsmenn ríkisstj., að þeir hefðu ekki skyggnzt inn í myrkrið. En hins vegar er ekki vafi á því, að þeir hafa veitt því, sem í myrkrinu er, stuðning, hvað sem það er. Og það er í sjálfu sér eitt af því, sem er athugavert við þetta mál, að það er þannig til orðið. Mér þótti vænt um, að þetta kom fram hjá hv. frsm. En sannleikurinn er sá, að það er ekkert myrkur. Hér er í sjálfu sér ekkert myrkur, og það þarf ekki lögfræði til að skilja 28. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er ekkert myrkur.

Þetta frv., sem hér er til umr., er lagt fram til þess, að Alþ. staðfesti brbl. hæstv. ríkisstj. frá 1. ágúst um að létta þeirri ábyrgð af Alþ. að skrá gengi ísl. krónu, en fela skráningarvaldið Seðlabanka Íslands. Þetta er hagræðing mála, áður en gengið var fellt og áður en kom að þeim þætti, sem hv. frsm. meiri hl. talaði aðallega um. 28. gr. stjórnarskrárinnar ein fjallar um heimild til útgáfu brbl. Hún heimilar útgáfu brbl. „milli þinga“, „þegar brýna nauðsyn ber til“ og aðeins þegar brýna nauðsyn ber til. Þetta umboð hefur forseti Íslands, að gefa út brbl., og þó öllu heldur hefur ríkisstj, umboð samkv. venjum, frumkvæðið er hjá henni. Forsetinn skal því eigi gagnrýndur hér, heldur hæstv. ríkisstj., fyrir það, sem gert var með setningu þeirra brbl., sem umrædd eru.

Það er staðreynd, hvenær er „milli þinga“. Hins vegar getur vitanlega ríkisstj. kallað þing saman hvenær sem er, ef henni sýnist það réttara en gefa út lög á eigin ábyrgð og ef henni þykir það tiltækilegt tímans vegna. Þetta er vitanlega matsatriði, hvort á að kalla saman þing eða ekki, þegar eitthvað ber við, sem krefst lagasetningar að dómi hæstv. ríkisstj.

Ég álít, að þegar hæstv. ríkisstj. taldi nauðsyn á því að gefa út brbl. í sumar sem leið um það mikilsverða efnahagsatriði, sem þá kom til sögunnar, hefði hún í raun og veru átt að kalla saman Alþ., og ég hygg, að það hefði orðið farsælla, vegna þess að sá tími, sem það hefði tekið, hefði orðið mikilsverður yfirvegunartími. Enn fremur hygg ég, að þá hefði það komið til sögunnar, að ekki eins margir og ég hygg að raun hafi orðið á af stjórnarstuðningsliðinu hefðu talið þetta mál í því myrkri, sem þeir gætu ekki gegnlýst.

Svo er hitt, að aldrei má gefa út brbl., nema „þegar brýna nauðsyn ber til“. Það á að vera ófrávíkjanlegt. Til þess á ekki að grípa, nema mikið liggi við, að gefa út brbl. Það getur vitanlega verið matsatriði, hvenær svo mikið liggur við, að brýn nauðsyn sé, og það má vafalaust oft um slíkt deila. En ég hygg, að hér standi svo á, að allir hljóti að finna, að brýna nauðsyn bar ekki til í sumar sem leið að gefa út brbl. til að flytja valdið til að skrá gengi ísl. krónu frá Alþ. til Seðlabankans. Um það eitt eru brbl. þessi. Sú sama ríkisstj., sem gerði þetta, hafði á næsta þingi áður, þinginu 1960–61, lýst yfir því í sambandi við setningu nýrra laga fyrir Seðlabankann þá, að ekki þætti rétt eða ástæða til að fela honum þetta vald, og þm. höfðu virzt á sama máli. Ekki var þar um það að ræða, að hæstv. ríkisstj. hefði vitað vilja þingsins til tilfærslu valdsins, heldur mátti hún vita hið gagnstæða.

Það má vel vera og er víst rétt, að hæstv. ríkisstj. fékk leyfi hjá flokksmönnum sínum utan þings. Ég hef a.m.k. heyrt, að hún hafi um þetta leyti kallað þá til fundar við sig í höfuðstaðnum. Þó að hún hafi gert það, voru þeir ekki í Alþ., höfðu ekkert löggjafarvald, þó að þeir styngju saman nefjum um þetta 33 talsins. Að vísu kunna þeir að hafa skuldbundið sig til þess að standa saman, þegar til Alþ. kæmi, um brbl. sem þessi og gert sig þannig óhagganlega og rökhelda, áður en til Alþ. kom. En er þvílíkt í samræmi við þingmannsskyldur og uppbyggingu Alþ.? Hvers vegna ætli Alþ. sé í tveim deildum og sex umr. hafðar um flest mál, þar með þetta? Skyldi ekki vera ætlazt til, að menn skiptist á skoðunum og geri sig ekki fyrir fram utan þings rökhelda, heldur endurskoði afstöðu sína við rökræður um málið.

Og nú spyr ég: Hvaða brýna nauðsyn bar til þess milli þinga í sumar sem leið að flytja gengisskráningarvaldið frá Alþ. til Seðlabankans? Hver getur skilgreint þá nauðsyn? Hv. frsm. meiri hl. virtist alls ekki treysta sér til þess. Hér er enginn hæstv. ráðherra viðstaddur, en ég hefði viljað skora á hæstv. ráðherra að gera tilraun til þess að skilgreina þetta. Hæstv. viðskmrh. sagði ekki meira á sínum tíma, eftir því sem forseti kunngerði, um leið og hann gaf út brbl., en að það „þyki eðlilegast“, að Seðlabanki Íslands skrái gengið. Þar er lýst skoðun, en ekki brýnni nauðsyn. Skoðun út af fyrir sig nægir ekki til heimildar til útgáfu brbl. Það þarf að vera brýn nauðsyn. Hver er sá hér, sem getur leitt fram þá nauðsyn og lýst henni? Ég spyr enn og aftur. Það er ekki nóg að segja, að gengisfellingin sjálf hafi verið brýn nauðsyn, og um það talaði hv. frsm. meiri hl. Það er allt annað en það, sem hér er til umr. Það er matsatriði að vísu, en ekki er hægt að segja, að stjórnin hafi brotið stjórnarskrána, þó að hún slysaðist til að meta í því efni rangt að mínu áliti. Við getum deilt á hana fyrir rangt mat, að því er ástæður fyrir gengisfellingunni snertir. Við getum ásakað hana fyrir að hafa fellt gengið. En úr því að hún taldi brýna nauðsyn að lækka gengið, bjó hún sér um leið rétt til þess að fella það sjálf með brbl., en ekki til að afhenda öðrum valdið til að fella það. Með því hefði hún alls ekki brotið stjórnarskrána, eins og hún gerði með því að fela Seðlabankanum vald Alþ., samkv. því, sem ég hef að framan rökstutt.

Mér finnst mjög torvelt að átta sig á því, hvers vegna hæstv. ríkisstj. fór hina ólöglegu krókaleið að gengisfellingunni. Hæstv. ráðherrar mundu ef til vill geta upplýst það, ef þeir reyndu og væru hér nærstaddir. slíkt hefði verið mjög fróðlegt fyrir okkur að heyra. Vildi hæstv. ríkisstj. með því dreifa ábyrgðinni af meira en vafasömu verki og koma henni á Seðlabankann með sér? Hélt hún, að hún gæti komið óvinsældum af sér á Seðlabankann? Hélt hún, að almenningur mundi telja ákvörðun bankans ópólitíska? Vissi hún ekki fyrir fram, að þjóðin sá og heyrði, að Seðlabankinn gekk erinda stjórnarstefnunnar, þegar hann gaf út sína ákvörðun?

Ég ætla annars alls ekki í sambandi við þetta frv. að ræða réttmæti gengisfellingarinnar, það er umræðuefnið, eins og ég tók fram áðan, sem er næsta mál á dagskrá. Hér er um það eitt að ræða, hvort Alþ. á að telja gott og gilt, að ríkisstj. leyfi sér alveg að nauðsynjalausu „milli þinga“ að setja brbl., að „Seðlabanki Íslands skuli ákveða stofngengi ísl. krónunnar gagnvart erlendum gjaldeyri og gulli.“ Ef slík brbl. verða staðfest, er það augljóst, að eftirleiðis geta þá ríkisstjórnir gert með brbl. svo að segja hvað sem er upp á væntanlega staðfestingu með tilvitnunum í þetta frv. sem fordæmi. Ég tel, að Alþ. megi ekki og geti ekki sóma síns vegna samþ. frv., sem brýtur eins mikið og þetta gerir í bága við grundvallarlög íslenzka lýðveldisins. Þess vegna legg ég til, að frv. verði fellt.