22.03.1963
Neðri deild: 58. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Óskar Jónsson:

Herra forseti. Ég er sammála meiri hl. menntmn. um, að það beri að samþykkja þetta frv., sem hér liggur fyrir, um heimild handa ríkisstj. til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholt, Ég er sammála út af því, að í vitund minni og ég held vitund mestrar þjóðarinnar er Skálholtsstaður fyrst og fremst tengdur kristni og kirkju hér á Íslandi. Það, sem fyrir mínum augum er aðalatriðið í þessu máli, er, að í því umróti, sem nú fer fram á ýmsum sviðum, verði reynt að tryggja það, að Skálholt verði um alla framtíð tengt einmitt þessum aðila, kristni og kirkju á Íslandi. Ég held, að með því móti sé miklum verðmætum bjargað, og þó að hér hafi verið talað fagurlega um menntasetur, sem ætti að staðsetjast t.d. í Skálholti, alhliða menntasetur, þá held ég, að það mundi aldrei færa staðnum þá reisn, sem kirkjan hefur gert um aldir og nafn Skálholts er tengt við. Hitt er annað mál, að ég fagna þeirri hugmynd, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að byggja öflugt menntasetur utan Reykjavíkur. Ég hygg, að það yrði mjög hollt og nauðsynlegt íslenzku þjóðlífi.

Ég hef leyft mér að bera fram lítils háttar brtt. við aðaltill. meiri hl. n. eða gera hana dálítið fyllri, — brtt., sem er á þskj. 434 og útbýtt hefur verið hér í dag. Og hún er þess eðlis, að aftan við 1. mgr. frv. bætist: „þangað til næsta kirkjuþing kemur saman, en þá og síðan skal það skipa málum staðarins. Þegar biskup verður aftur settur í Skálholti, falli staðurinn og stofnanir hans undir þann biskup.“

Ég geri þetta vegna þess, að mér virðist, að í kirkjuþingi sameinist prestastéttin, hin andlega stétt á Íslandi, þjóðinni. Og ég tel eðlilegt, að þau öfl, sem þar koma saman og vinna að kristindóminum hér í landinu, þau hafi með þetta mál að gera, það sé ótvírætt, þau séu yfirstjórnandi þessa staðar, og þá um leið sé haldið opnum þeim möguleika og talið eðlilegt til að fyrirbyggja misskilning síðar, að komi biskup í Skálholt, sem ég held að hugur margra stefni til, þó að það að svo stöddu kunni að vera ótímabært að ákveða slíkt, þá teldi ég eðlilegt að taka af öll tvímæli um það, að Skálholtsbiskup, þegar hann kemur, hafi umráð staðarins í sinni hendi. Þetta vildi ég að kæmi fram.

Síðari liður brtt. er aðeins orðalagsbreyting, þar sem talað er um þá starfrækslu, sem þar veiði komið upp, í staðinn fyrir orðin „sem biskup og kirkjuráð koma þar upp.“ Það leiðir af sjálfu sér af því, sem er í fyrri liðnum.

Ég ætla mér ekki að flytja langt mál um þetta efni, en ég held, að hugmynd um þetta og í þessum anda hafi komið fram aðallega á fundi, sem um þetta mál var haldinn á Suðurlandi í vetur, þar sem þess er óskað, að tryggt sé, að þessi mál verði í höndum þessara aðila, kirkjuþingsins, eins og ég áður sagði, þeirrar samkomu, sem tengir saman veraldlega valdið og hið kirkjulega vald.

Ég hef svo ekki fleira um þetta að segja að svo stöddu.