28.03.1963
Neðri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það hafa orðið allmiklar umr. um þetta mál hér, og komið hafa fram um það ýmis sjónarmið. Ég hef ekki getað fylgzt með þeim umr., þar sem ég var ekki viðstaddur, þegar þær fóru fram, en ég hef áður hér á Alþ. tekið þátt í umr. um endurreisn Skálholtsstaðar, og vil ég nú nota þetta tækifæri til þess að lýsa því yfir, að skoðanir mínar um málið eru óbreyttar frá því, sem þær hafa verið áður.

Ég tel, að það sé ekki nóg að reisa vegleg staðarhús þar í Skálholti og volduga kirkju, þó að slíkt sé vissulega nauðsynlegt, nauðsynleg byrjunarframkvæmd. En saga og frægð Skálholts er ekki til orðin vegna glæsilegra bygginga á fyrri öldum, heldur fyrst og fremst vegna þess mannlífs, mennta og trúar, sem þar blómgaðist um margar aldir og var undirstaða þeirrar menningar á hinu andlega sviði, sem þessi þjóð hefur tileinkað sér og er þekkt fyrir. Sannleikurinn er sá, að enn erum við Íslendingar þekktastir fyrir þær bókmenntir, sem urðu hér til á 13. og 14. öld, og þá sögu, sem þessar bókmenntir okkar hafa að geyma um uppruna okkar og líf þjóðarinnar í landinu fyrstu aldirnar, þ. á m. þróun trúarbragða okkar. Kirkjan, biskupsstólarnir og klerkastéttin eiga að minni hyggju mesta heiðurinn af varðveizlu sögunnar og að halda vakandi alla tíð með þjóðinni menntaþrá og kjarki í þrautum hennar. Slíkum dyggðum á þjóðin að þakka tilveru sína í dag. Hugsum okkur, að þjóðin hefði ekki átt sögu sína varðveitta á hinum fornu skinnblöðum, og hugsum okkur einnig, að þjóðin hefði ekki heldur eignazt kristna kirkju. Hver hefði þá orðið saga okkar og menning? Hvernig væri þá tunga okkar og þjóðerni í dag? Því er auðvitað ekki hægt að svara. Við erum kallaðir oft og tíðum söguþjóð og land okkar sögueyjan. Þetta er vegna fornbókmenntanna.

Oft hefur það hvarflað að mér að hugsa sem svo, að eiginlega stæðum við nútímakynslóðin varla undir því sæmdarheiti að vera kölluð söguþjóðin. Við eigum í landinu marga fræga sögustaði, sem við höfum fram að þessu ekki gert neitt til að varðveita. Þjóðernistilfinning og hóflegt þjóðarstolt er hverri þjóð nauðsynlegt. Ég hygg, að flestar þjóðir leggi rækt við slíkt í uppeldi og skólum æskunnar, bæði með sögukennslu, en ekki síður á þann hátt að varðveita allar sögulegar minjar og hlúa að slíku og kynna það fyrir æskulýðnum, svo að hann komist í lifandi snertingu við fortíð og sögu þjóðar sinnar. Hér vantar mjög tilfinnanlega þátt í uppeldi íslenzkrar æsku að mínum dómi.

Ég álít, að Skálholt geti og eigi að vera tengiliður milli fortíðar, nútíðar og framtíðar í lífi íslenzku þjóðarinnar. En til þess að það geti orðið, þarf að koma að nýju líf og starf í Skálholti. Ég get ómögulega annað séð en staðurinn sé tilvalinn fyrir æðsta mann klerkdómsins hér á landi, sjálfan biskupinn. Og ég tel, að í raun og veru sé endurreisn Skálholts ekki hafin til fulls, fyrr en biskupinn er setztur þar að. Undir handarjaðri biskupsins gæti þróazt í Skálholti margs konar menntalif á vegum kirkjunnar. Ég gæti vel hugsað mér, að kirkjan hefði í Skálholti undirbúningsskóla og námskeið fyrir væntanlega starfsemi sína. Ég mun að vísu ekki hætta mér út í það að gera neinar till. um væntanlegar menntastofnanir í Skálholti, því að ég finn mig ekki færan um slíkt, enda er líklegast, að slíkt mundi þróast eftir þörfum og kröfum þjóðarinnar og kirkjunnar á hverjum tíma.

Ég veit, að ýmsir halda því fram, að við eigum ekki að vera að halda upp á þá þætti í sögu okkar, sem tengdir eru hinu forna kirkjuvaldi, af því að þetta vald hafi oft gert ýmsa hluti ókristilega í samskiptum sínum við alþýðu manna. En ég tel, að sagan sé ævinlega það verðmætasta til þekkingar. Þar er hjá flestum eða öllum þjóðum bæði margt fallegt og einnig margt, sem miður hefur farið. En það eru staðreyndir úr lífi genginna kynslóða, sem gott og nauðsynlegt er að þekkja og læra af því. Þess vegna ber að varðveita og styrkja tengslin við lif og starf horfinna kynslóða. Þess vegna eigum við líka að endurreisa á þjóðlegum og sögulegum grundvelli flesta af okkar fornu sögustöðum.

Hv. 4, þm. Sunnl. hefur borið fram brtt. á þskj. 434 við frv., og vil ég lýsa því yfir, að ég styð þær brtt. Með þeim er gert ráð fyrir því, að biskup verði aftur settur í Skálholt og þá falli staðurinn undir hann, en þangað til skipi kirkjuþing málum staðarins. Ég tel, að þannig eigi Alþ. að ganga frá þessu máli nú, og ef svo verður, þá tel ég, að Skálholt muni aftur fá miklu hlutverki að gegna með þjóðinni og verða helgidómur, sem tengir kynslóðirnar við sögu og fornar minningar og v erða leiðandi og sigrandi aflvaki í lífsstríði manna á ókomnum tímum.

Ýmsir tala um, að biskupar þurfi að vera þrír og sitji einn í Reykjavík, annar í Skálholti og hinn þriðji á Hólum. Það getur vel verið, að þegar þjóðinni hefur fjölgað enn meira, t.d. um næstu aldamót, þá verði þörf fyrir þrjá biskupa, og þá væri vitanlega sjálfsagt, að búsetu þeirra yrði hagað á þann hátt. En eins og nú standa sakir sé ég ekki, að slík biskupafjölgun sé aðkallandi eða nauðsynleg. Ég hygg, að enn nægi kirkjunni og klerkunum einn yfirmaður, og ég tel, að hann eigi að sitja í Skálholti. Ég er viss um það, að þegar Skálholt hefur á þann hátt verið endurreist, þá mun íslenzka þjóðin fara að finna betur sjálfa sig og leggja rækt við fleiri sinna fornfrægu sögustaða.

Ég mun svo ekki, herra forseti, hafa um þetta fleiri orð.