25.03.1963
Neðri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

215. mál, Tækniskóli Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að frv. er komið fram um tækniskóla, og mun nota tækifærið til þess að fjalla betur um það, þegar það fer til menntmn. Það er eitt, sem ég vildi gera að umtalsefni strax við þessa 1. umr. Ég held, að um leið og við reynum að fara að koma okkar tæknimenntun í betra horf, þá sé alveg óhjákvæmilegt í sambandi við það að fara að taka iðnmálin öðrum tökum en við höfum gert fram að þessu. Nú er gengið út frá, að þessi tækniskóli taki 3 ár, enn fremur undirbúningsdeild, sem tekur 1 ár. Til þess að geta fengið inngöngu í undirbúningsdeildina, skulu menn hafa lokið prófi frá iðnskóla, og nú kostar það iðnnám í 4 ár og veru í iðnskóla um leið. Fyrst á unglingurinn að leggja í 4 ára iðnnám og starf hjá atvinnurekendum í hinum ýmsu greinum, síðan 1 ár í undirbúningsdeild, siðan 3 ár í tækniskólanum. Erfiðleikinn er að fá menn til að leggja út í þetta langa nám, og meðan undirstaðan í þessu öllu saman er eins og iðnnámið er núna, þá er eðlilegt, að fari eins og hæstv. menntmrh. e.t.v. kvartar um í þeirri grg., sem fylgir þessu máli. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er og á það að líta, að skortur á vélstjórum, svo sem öðrum tæknimenntuðum mönnum, mun tefja fyrir því, að gagnlegar nýjungar nái fram að ganga. Það er kunnugt, að árlega óskar fjöldi ungra manna eftir að komast í vélskólann. En oft tekst þeim það ekki, vegna þess að mjög erfitt er að fá þá undirbúningsþjálfun, sem er nauðsynleg til þess að fá inngöngu í skólann.'' Og síðan segir: „Það er kunnugt, að fjöldi unglinga hefur áhuga á hvers konar tækni og er reiðubúinn til þess að stunda nám í vélskólanum til þess síðar að annast stjórn véla í þágu atvinnuveganna. En þar með er ekki sagt, að þessir unglingar séu reiðubúnir til þess að leggja á sig 4 ára iðnnám fyrst. Þá er og kunnugt, að það er oft erfitt fyrir unga menn að komast að sem nemar í vélsmíði.“

M.ö.o.: það er tvennt, sem er bókstaflega til hindrunar, að ungir íslenzkir menn geti öðlazt þá tæknimenntun, sem þeir þó þrá. Það er annars vegar sá háttur, að menn þurfi að komast að hjá einhverjum atvinnurekanda eða einhverjum meistara sem nemandi og það sé undir geðþótta og vilja atvinnurekendanna í landinu, hvort þeir taki þarna nema. Og hins vegar, að menn verða að vera þar 4 ár, a.m.k. svo að segja í öllum greinum, t.d. þessum greinum, sem mundu sérstaklega vera undirbúningur þarna undir. Og meira að segja í sumum greinum, sem virðist ekki. þurfa svo langan tíma til, — ég er hræddur um, að meira að segja í hárgreiðslu þurfi líklega þrjú eða fjögur ár, þó að almennt séu menn útskrifaðir í slíku námi á 6 mánuðum í nágrannalöndum okkar. Þetta þarf að breytast um leið, ef við ætlum að fara að gera gott átak í því efni að veita okkar æskulýð, sem er orðinn ákaflega mikið andlega undir það búinn á allan máta af þjóðfélaginu að hugsa fyrst og fremst um tækni og tæknimenntun, veita honum möguleika til að verða vel að sér í þessu.

Það var fyrir löngu, ég held 1955, þegar breytingar voru þá gerðar á l. um iðnskóla, þá var einmitt settur inn í l. möguleikinn á því, auk þess sem sá möguleiki væri eins og áður að læra hjá einum meistara, að menn gætu líka verið í iðnskóla, sem kenndi þeim þetta. Sá möguleiki var opnaður, en þetta hefur aldrei verið framkvæmt. Það er nauðsyn að framkvæma þetta. Og það liggur nú fyrir Alþ. einmitt þáltill. á þskj. 296, fyrir sameinuðu þingi, frá hv. 4. landsk. (HV) og hv. 2. landsk. (EÓS), um það að fela ríkisstj. að beita sér fyrir, að stofnsettur verði verknámsskóli í járniðnaði, einmitt á grundvelli heimildar í iðnskólalögunum, eins og þau voru frá 1955, með þeirri breyt., sem þá var gerð á þeim.

Ég held einmitt, ef það ætti að verða samræmi í þessum aðgerðum hjá okkur að auka tæknimenntunina, fá unga fólkið til þess að fara í tækniskólana og greiða því aðganginn að þessum tækniskólum, þá ætti samtímis einmitt að verða við því að koma upp, t.d. í járniðnaðinum, sem er mikill lykill einmitt að ýmsu í sambandi við vélskólunina alla, vélsmíði, vélstjórn og annað slíkt, — þá held ég, að það væri ákaflega heppilegt, að slík þáltill. væri samþ. og hafizt handa um það í haust að koma slíkum skóla upp. Það ætti þó alltaf

a.m.k. að geta stytt tímann um eitt ár, og ég held satt að segja, að það hljóti að vera hægt að stytta hann mun meira. Ég held, að með því að það sé veruleg kennsla í þessu og sú kennsla, sem menn fá í iðnskólanum, sé nógu vel tengd við sjálfa vinnuna, við verkstæðin, ætti þetta að vera auðvelt að ýmsu leyti einmitt í járnsmíðinni, þar sem ríkið hefur sjálít t.d. Landssmiðjuna, ef gengi erfiðlega að fá samkomulag við meistarana. Ég held því, að það væri ákaflega gott, að við hefðum hliðsjón af því, þegar þetta mál verður nú athugað í menntmn., og vonandi verður því flýtt eins og hægt er, þá reyndum við að láta sem mest fylgjast að í þessu, þannig að öll gatan verði greidd fyrir þá ungu menn, sem hefðu áhuga á þessu, og þeir munu vera margir, eins og réttilega segir í grg., að þeir fengju héðan af greiðari aðgang en þeir hafa haft hingað til.