22.10.1962
Neðri deild: 6. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

32. mál, landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal á þessu stigi málsins ekki ræða efnislega frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 32, en vildi að gefnu tilefni mega beina þeirri spurningu til hv. flm., hvort hann hafi flutt þetta frv. í samráði við hæstv. sjútvmrh., sem hann situr nú á þingi fyrir, eða hvort þetta er flutt án hans vilja og vitundar.

Eins og kunnugt er, þá eru hér á landi aðeins tvær landshafnir, ein í Keflavík og önnur á Rifi á Snæfeilsnesi. Báðar þessar hafnir lúta sömu lögum og eiga því að sjálfsögðu einnig sama rétt til aðstoðar frá hinu opinbera. En framkvæmdir á Rifi hafa dregizt árum saman, þjóðinni og íbúum í þeim hreppi til stórkostlegs tjóns, vegna þess að ekki hefur fengizt leyfi til þess frá hæstv. ríkisstj. að taka lán á þann hátt, sem hér um ræðir, heldur hefur því verið haldið fram, að það skyldi beinlínis haldið sig við þau ákvæði, sem eru í hafnarlögunum. M.a. er mér kunnugt um, að það bauðst einu sinni 10 millj. kr. lán til þess að gera stórt átak við þessa höfn, en það strandaði einmitt á þessu, að ríkisstj. vildi ekki samþykkja þá lántöku, sem að vísu var ekki hér innanlands, heldur erlendis. Ég geymi mér því allan rétt til þess að bera fram brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir, ef það er borið fram án vitundar hæstv, ráðh., og vildi biðja hv. sjútvn., sem fær þetta mál til athugunar, að athuga það gaumgæfilega, og fái það fylgi n., þá að athuga, hvort ekki sé eðlilegt og sjálfsagt að bæta inn hliðstæðu ákvæði um landshöfnina í Rifi.

Eins og kunnugt er, er mjög aðkallandi að leysa vanda margra staða á landi hér um hafnarbætur. Á undanförnu þingi bar ég fram frv. um það, að hafnarbótasjóður fengi nýjan tekjustofn, sem hefði gefið honum um 10—15 millj. á ári. Þetta frv. var ekki samþ. á s.l. þingi, — ég vil segja mest vegna þess, að viðkomandi hv. alþm. hafa ekki gert sér fullkomlega ljóst: hvað það er nauðsynlegt, að útgerðarmenn sjálfir leggi eitthvað á sig í sambandi við þessi mál. Það framlag mundi spara stórkostleg útgjöld fyrir þá á öðrum sviðum, eins og ég lýsti í þeim umr. Ég skal ekki fara frekar út í það mál hér, en aðeins endurtaka það, að ég mun geyma mér allan rétt til þess að bera fram brtt. við 2. umr. við þetta frv., ef það á að ná fram að ganga á Alþ. því, sem nú stendur yfir, og þá einnig í samráði við hæstv, sjútvmrh.