05.04.1963
Neðri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

156. mál, bændaskólar

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. er nú búinn að halda hér langa ræðu til þess að hrósa frv., og ég álít það eðlilegt, að hann leggi nokkra vinnu í það að gylla þetta fyrir hv. alþm., því að satt að segja er nú svo, eins og ég hafði áður lýst, að það er lítil reisn yfir þessu. Þess vegna veitir ekki af að reyna að gylla þetta eitthvað.

Hann lét sem hann vorkenndi mér mjög að hafa tekið þá afstöðu, sem ég hef til málsins, og taldi það bera vott um fávizku mína, og skal ég ekki deila neitt um það atriði við hann. En ég vil vekja athygli á því, sem raunar hefur komið fram áður, að búnaðarþingi, sem er samkoma bændastéttarinnar á hinu faglega sviði, var sent þetta frv. til umsagnar. Ég man ekki almennilega, hvernig atkv. féllu þar, en svo mikið var víst, að búnaðarþing vísaði málinu frá á þeim forsendum, að þetta þyrfti miklu nánari athugunar við og því þætti ekki gert ráð fyrir nógu miklum glæsileika í þessu máli.

Það getur vel verið, að hæstv. landbrh. geti haft þessi samtök bændanna að engu hvað eftir annað, bæði í þessu máli og ýmsum fleirum, og það komi ekki að sök fyrir hann. Ég skal ekki segja um það. Alþingi hefur allt fram á valdatíma þessa hæstv. ráðh, tekið mikið tillit til búnaðarþings og gert mikið með þess till., og flest málefni, sem búnaðarþing hefur haft til meðferðar og gert ályktanir um, hafa fengið svipaða afgreiðslu hér á hv. Alþingi. Alþingi hefur litið þannig á, að þessi samkoma bændastéttarinnar væri öðrum færari um það að segja til um, hvernig hún vildi láta skipa þeim málum, sem bændastéttina og landbúnaðinn varða.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri.