06.11.1962
Neðri deild: 12. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

6. mál, almannavarnir

Valtýr Guðjónsson:

Herra forseti. Ég hef tekið þátt í athugun í heilbr.- og félmn. á frv. því um almannavarnir, sem hér er til umræðu. Nefndin samþykkti á fundum sínum brtt. við frv., 17. og 25. gr., og var önnur breytingin um það að tryggja, að einstaklingar fengju mat á útgjöldum, sem þeir gætu orðið fyrir, eftir fyrirskipan ráðh., en ríkissjóður á að endurgreiða að hluta síðar. Hin breytingin var um, að ríkissjóður, en ekki bæjar- eða sveitarfélög, greiddi kostnað af öryggisráðstöfunum, sem bæjar- eða sveitarfélag á síðan að endurgreiða að vissu marki.

Ég skrifaði undir nál. meiri hl. með þeim fyrirvara, að ég áskildi mér rétt til að fylgja brtt. við frv., sem fram kynnu að koma við 2. eða 3. umr., eða að flytja við það brtt. Út frá því leyfi ég mér, með leyfi forseta, að bera fram við þessa umr. tvær brtt.:

I fyrsta lagi: „2. mgr. 7. gr. orðist svo: Ráðstafanir til almannavarna, sbr. 9. gr., skal hefja þar, sem ríkisstjórn ákveður með samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sýslunefndar.“

Þar sem hér getur orðið um allverulegan útgjaldaauka að ræða fyrir bæjarfélögin, þá tel ég sjálfsagt, að samþykki þessara aðila, sveitarfélaganna, komi til, enda samrýmist þessi breyting þeim vilja, sem mér virtist koma fram í nefndinni um, að sveitarfélögum væri ekki gert erfiðara fyrir en nauðsynlegt er um kostnað af ráðstöfunum í sambandi við varnir.

Í öðru lagi vildi ég flytja brtt. við 8. gr. Ég skal taka það fram, að sú brtt. var líka til umr. í nefndinni. Brtt. við 8. gr. er, að fyrri málsliður síðari málsgreinar orðist svo:

.,Í Reykjavík er borgarstjóri formaður nefndarinnar, en borgarstjórn er heimilt að skipa nefndinni sérstakan framkvæmdastjóra.“

Ég tel þetta eðlilegra lagafyrirmæli, einkum vegna þess, að í öðrum bæjum og annars staðar á landinu verða skv. frv. engar skyldur um, að sérstakur framkvæmdastjóri sé ráðinn, jafnvel þó að þar kynni að vera eins nauðsyn á því.

Í meginatriðum er ég hins vegar samþykkur frv. og tel rétt, að það verði samþykkt. Ég lít svo á, að ástand og horfur um samkomulag þjóða í milli sé ekki þannig, að það örvi til þess, að Íslendingar — kannske einir flestra þjóða — láti hjá líða að skipuleggja eftir föngum hjálpar- og hjúkrunarstarfsemi í landinu, en að því á frv. að stefna, og skal ég ekki fjölyrða um það. Fyrirkomulagi og framkvæmdum á því, sem frv. ráðgerir að gert verði, má vel vera að hægt væri að haga á einhvern annan hátt en þann, sem segir í frv., og er það að sjálfsögðu til athugunar fyrir þingmenn, áður en frv. verður endanlega afgreitt sem lög.