06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

Efnahagsbandalagsmálið

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða stórt mál og eitt hið örlagaríkasta, sem íslenzkri þjóð hefur að höndum borið: Þeir tveir ræðumenn, sem nú hafa talað um þetta mál á þessum fundi, hafa rætt það á mjög breiðum grundvelli og frá stórpólitísku sjónarmiði, sem vissulega er full ástæða til. Ég ætla mér á hinn bóginn að fara örfáum orðum um það, sem að okkur snýr hér, Íslendingum sjálfum, og taka þá tillit til fortíðar okkar og sögu og í annan stað rifja upp sumt af því, sem áður hefur komið fram í umr. um þetta mál, en þær hafa nú, sem kunnugt er, dregizt mjög á langinn, þar sem þær hófust hér snemma í vetur.

Sjálfstæði Íslands er öðru fremur grundvallað á menningarlegum arfi. Reynslan hefur sýnt, að stjórnfrelsið hefur orðið lykill að framförum þjóðarinnar. Þetta er hægt að rekja með dæmum í söguna stig af stigi. Eftir því sem stjórnfrelsið hefur vaxið, hafa framfarir þjóðarinnar orðið örari. Markmið sjálfstæðisbaráttunnar hefur frá upphafi vega verið það, að Íslendingar ráði sínum eigin málum sjálfir. Þessu marki hefur þjóðin orðið að ná í áföngum. Það leið alllangur tími, frá því að Íslendingar fengu í sínar hendur löggjafarvald, þangað til æðsta dómsvaldið var flutt inn í landið, og eftir að framkvæmdavaldið var í raun og veru komið inn í landið, fóru Danir samkv. samningi með utanríkisþjónustuna fyrir hönd Íslendinga. En Íslendingar og forustumenn þeirra hafa frá upphafi vega gætt þess og lagt á það höfuðáherzlu að afsala aldrei rétti. Og forustumenn Íslendinga hafa ekki óttazt fámenni þjóðarinnar. Það sjáum við, ef við lítum til sögunnar og þess, sem þeir bentu á og börðust fyrir í sjálfstæðisbaráttunni.

Það er nú komið svo, að ég hef lesið það í málgagni hæstv. viðskmrh. mér til mikillar furðu, að þær kenningar, sem Jón Sigurðsson barðist fyrir um — sjálfstæði þjóðarinnar, eigi nú ekki lengur við, við séum orðnir svo vaxnir upp úr því, orðnir svo menntaðir og tæknin á svo háu stigi, að þetta eigi ekki lengur við: Ég lít allt öðrum augum á þetta. Þau mál, sem Jón Sigurðsson barðist fyrir, hafa mörg fengið þá lausn, sem fyrir honum vakti, en stefnan, sem hann setti í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, er í gildi, og sú aðferð, sem hann beitti í baráttu sinni, fyrnist ekki. Það mætti færa fram margar tilvitnanir úr ræðum og ritum Jóns Sigurðssonar, sem að þessu lúta. Ég ætla ekki að lengja umr. með því að gera það, en ég vil þó aðeins vitna til þessara fáu orða, sem eru mjög skýr að þessu leyti, — Jón Sigurðsson segir á einum stað: „Farsæld þjóðanna er ekki komin undir því, að þær séu mjög fjölmennar eða hafi mjög mikið um sig. Sérhverri þjóð vegnar vel, sem hefur lag á að sjá kosti lands síns og nota þá eins og þeir eiga að vera notaðir.“

Ef við færum okkur nær okkar eigin tíma og lítum til þess, hvað arftakar Jóns Sigurðssonar í frelsisbaráttunni höfðu um þetta að segja, kemur hið sama fram. Benedikt Sveinsson alþingisforseti sagði í þingræðu, að ég ætla á fyrsta þinginu, sem haldið var í þessum sal, eftirfarandi orð: „Gætið þess, að lög og réttur er hið sterkasta einkenni þjóðernis, sem þjóðin lifir og deyr með, og það fremur sjálfu móðurmálinu. Vér þurfum eigi að fara til annarra þjóða eða vestur um haf til að sjá þetta. Að vér erum bæði fátæk og fámenn þjóð, er einmitt hin sterkasta ástæða með frv. mínu, því, að því meiri háski er oss og þjóðerni voru búinn, að vér hverfum sem dropi í hafinu inn í önnur sterkari og aflmeiri þjóðerni á móti tilætlun forsjónarinnar, sem gaf oss sérstakt þjóðerni, og því meira verðum vér að leggja í sölurnar til þess, að svo verði ekki.“

Ég skal nefna örfá fleiri dæmi. Fyrsti íslenzki ráðh., Hannes Hafstein, mælti svo í tækifærisræðu, þar sem hann stóð á erlendri grund:

„Frelsis- og sjálfstæðistilfinningin er enn í dag næmasta og viðkvæmasta tilfinningin í brjósti Íslendinga. Það verða allir að vita, sem vilja skilja rétt orð þeirra og gerðir. Íslendingar unna frelsi sínu og lögmætu sjálfstæði um alla hluti fram, og þeir vilja leggja jafnvel mikla fjárhagslega hagsmuni í sölurnar fyrir það að fá að ráða sínum sérstöku málefnum sjálfir.“

Og meira að segja í hópi núlifandi stjórnmálamanna hafa yfirleitt ekki verið skiptar skoðanir um þessa afstöðu. Ég ætla ekki í þessum orðum að fara langt út í það að nefna tilvitnanir frá síðari tímum. Ég tel þó rétt vegna þess, sem ég benti á áðan um skrif málgagns hæstv. viðskmrh. að þessu leyti, að taka hér eina tilvitnun frá fyrrv. foringja Alþfl., því þó að margt sé nú breytt og ólíkt því, sem var í fyrri daga á því heimili, þá vænti ég þess samt, að hæstv. viðskmrh. og hans flokksmenn vilji hlusta á það, sem fyrri foringjar Alþfl. hafa sagt. Haraldur Guðmundsson mælti m.a. svo við hátíðlegt tækifæri 1944, að framtíð okkar og öryggi hlýtur að verða mjög undir því komin, að sambúð og viðskipti þjóðanna verði með þeim hætti, að hver þjóð, þótt hún sé fámenn og vopnlaus, fái að starfa í friði að eigin málum og sjálf að ráða í landi sínu.

Ég tek þessar fái tilvitnanir frá ýmsum tímum því til sönnunar, að meðal íslenzkra stjórnmálamanna hefur yfirleitt ekki verið ágreiningur um þetta fram að þessu, hver sé grundvöllur íslenzks sjálfstæðis, að hann sé sá, að Íslendingar ráði sínum eigin málum sjálfir og njóti einir gæða landsins og landhelgi. Flokkarnir hafa deilt um mörg mál og milli þeirra verið ágreiningur um framkvæmd stefnumála, en um þetta hefur allt fram að síðustu dögum verið samhugur meðal íslenzkra stjórnmálamanna. En nú er svo komið, að það er farið að ræða um það af hálfu ráðh. sumra og það er hægt að lesa um það í forustugreinum stjórnarblaðanna, að þetta sjálfstæðishugtak sé orðið úrelt, það sé úrelt sjálfstæðishugtak. — „Í heimi nútímans er gamla sjálfstæðishugtakið úrelt: Þjóðir ganga í bandalög og láta eftir hluta af þeim réttindum, sem áður heyrðu sjálfstæðum þjóðum til. Þær hafa skert sjálfstæði sitt að nokkrum hluta, en í staðinn hafa þær öðlazt mikilvæg réttindi, sem sambýli þjóða og alþjóðasamvinna veitir.“ Þessi orð standa m.a. í Vísi 25. febr. s.l.

Það getur ekki hjá því farið, að menn hrökkvi við, þegar farið er að ræða um sjálfstæði Íslands á þennan hátt. Og mér verður að spyrja: Hvaðan er komin þessi nýja skilgreining á sjálfstæðishugtakinu. Og mér verður að spyrja: Hvað er að búa um sig í herbúðum ríkisstj. og flokka hennar, þegar farið er að ræða málin á þennan veg. Það a.m.k. lítur út fyrir eftir yfirlýsingum Adenauers að dæma og raunar eftir skýrslu frá Evrópuráðinu, sem hér var lesið upp úr af síðasta ræðumanni, að í samtölum núv. ríkisstj. við erlenda ráðamenn hafi ekki verið til staðar sú sama djörfung og fyrsti íslenzki ráðh. hafði til að bera, þegar hann sagði Dönum hispurslaust, að Íslendingar vildu leggja mikið í sölurnar fjárhagslega fyrir það að fá að ráða sinum eigin málum sjálfir.

En að þessu hefur orðið alllangur aðdragandi. Þingsköp mæla svo, að utanrmn. eigi að fylgjast með utanríkismálum, jafnt á þingi sem milli þinga. Nú er þetta eitt hið stærsta utanríkismál, sem þjóðinni hefur að höndum borið. En samkv. því, sem fram hefur komið í þessum umr., mun utanrmn. ekki hafa oft verið kvödd til fundar út af þessu máli. Það hefur þó komið fram í umr. um þessi mál, að það hefur verið haldinn fundur í utanrmn. og hæstv. viðskmrh. gefið þar skýrslu um efnahagsbandalagsmálið 3. júní 1961. En það liðu ekki margar vikur frá því, að sá fundur var haldinn, þar til kallað var eftir svörum frá fulltrúum atvinnustétta í landinu um það, hvort þær væru því meðmæltar, að sótt væri um aðild að Efnahagsbandalaginu. Þá mun málið hafa verið lagt fyrir á þeim grundvelli, að á því væri knýjandi þörf að senda umsókn til þess að geta fylgzt með gangi þessara mála á erlendum vettvangi, og á þeim forsendum mun sú niðurstaða hafa fengizt, sem fulltrúar atvinnustéttanna komust að, eða þau svör, sem fulltrúar atvinnustéttanna sendu frá sér um þetta. Ég vil þó benda á, að litlu síðar en þetta gerðist, eða í sept. 1961, samþykkti aðalfundur Stéttarsambands bænda allskorinorða till. í efnahagsbandalagsmálinu og varaði við fljótfærnislegum ákvörðunum í því máli. Í þessari ályktun Stéttarsambands bænda segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stéttarsamband bænda lítur svo á, að hugsanleg aðild Íslendinga að erlendu efnahagsbandalagi sé svo stórfellt og vandasamt mál, að brýna nauðsyn beri til, að skýrt verði ýtarlega fyrir þjóðinni, hvað í slíku felst, og ekki komi til mála að veita útlendingum jafnrétti til atvinnurekstrar eða atvinnu á Íslandi eða í íslenzkri landhelgi.“

Þessi viðvörunarorð voru sögð af hálfu bændastéttarinnar þegar í sept. 1961.

Það er nú ljóst af því, sem fram hefur komið í umr. um þetta mál, að ríkisstj. stefndi að því að ná fyrir Íslands hönd tengslum við Efnahagsbandalagið og tók að vinna að því af miklum áhuga þegar snemma á árinu 1961. Ég hlustaði nokkra stund á umr., sem fram fóru nú fyrir tveim dögum í Nd. Og ég taldi mig heyra það rétt, að hæstv. viðskmrh. segði frá því í þeim umr., að það hefði af hálfu ríkisstj. verið íhugað allgaumgæfilega, hvaða form ætti að velja þeim tengslum við Efnahagsbandalagið, sem ríkisstj. stefndi að að ná og vildi koma á. Og ég heyrði ekki betur en ráðh. segði, að það hefði verið íhuguð full aðild með prótókolli, eins og hann orðaði það. E.t.v. hefur ríkisstj. í því efni hugsað sér að hafa Lúxemborg að fyrirmynd, en a.m.k. þykir ástæða til í skýrslu ríkisstj., sem útbýtt hefur verið til þm., að taka það sérstaklega fram, að sérstaða minnsta ríkisins, sem nú er í Efnahagsbandalaginu, Lúxemborgar, sé viðurkennd á tveim mikilvægum sviðum með sérstökum bókunum eða fyrirvörum við undirskrift Rómarsamningsins. Ekki heyrði ég, að það kæmi fram hjá hæstv. viðskmrh., hvort gera hefði mátt ráð fyrir því, ef þessi leið hefði verið valin, að þessir fyrirvarar eða sérstöku bókanir hefðu orðið tímabundnar eða átt að haldast ótímabundnar. En eftirtekt hlýtur það að vekja, að eftir að búið er að skýra frá þessari sérstöðu Lúxemborgar í skýrslu ríkisstj. til Alþingis, er sagt á næstu bls. í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þær undanþágur, sem við kynnum að geta fengið frá ákvæðum Rómarsamningsins samfara fullri aðild, verða sennilega annaðhvort að vera tímabundnar eða mjög almenns eðlis. Reglur Rómarsáttmálans um jafnan rétt til atvinnurekstrar hvarvetna á bandalagssvæðinu og um frjálsar hreyfingar fjármagns og vinnuafls yrðu því sennilega að taka til Íslands að langmestu leyti, ef um fulla aðild uæri að ræða.“

En þm. vita það og raunar þjóðin öll, að ríkisstj. hafði á tímabili það til íhugunar, að Ísland gæti gerzt fullgildur aðili með prótókolli, eins og það er orðað.

Þegar hér var komið sögu, óskaði Framsfl. þess eindregið að fá tækifæri til að fylgjast með, hvað væri að gerast í efnahagsbandalagsmálinu. Þá kom það strax fram, sem hefur verið skýrt greinilega í þessum umr. og hæstv. viðskmrh. ber ekki brigður á, að fulltrúar Framsfl. vöruðu sterklega við, að fulltrúar ríkisstj. færu til útlanda að svo komnu máli til þess að ræða við erlenda ráðamenn um þetta mál. Í þess stað setti að bíða átekta og íslenzk stjórnarvöld að gera það upp hér innanlands, hver málstaður Íslands í raun og veru væri. Þetta hefur greinilega komið fram í þessum umr. Og það sýnir, að þá þegar skildi í raun og veru leiðir milli Framsfl. og stjórnarflokkanna um meginatriði og meðferð þessa máls. En það fer saman, að í ummælum og skýringum af hálfu ríkisstj., einkum af hendi hæstv. viðskmrh., hefur og komið ýmislegt fram, sem Framsfl., getur ekki fellt sig við. Meðan ég hlustaði á umr. í hv. Nd., heyrði ég, að hæstv. viðskmrh. allt að því kvartaði yfir því, að það væri í þessum umr. tekin ein setning úr ræðu, sem hann hefði haldið í verzlunarráðinu, og sú setning slitin úr samhengi. Ég vil nú benda honum á, hæstv. ráðh., og öðrum, sem á mál mitt hlýða, að það er fleira í þeirri ræðu en þessi eina setning, sem aðallega hefur verið vitnað til, sem sýnir nokkuð hugarfar ráðh. í þessu máli. Með leyfi hæstv. forseta, lauk hæstv. ráðh. ræðunni með þessum orðum:

„Við hljótum að ætlast til þess af þjóðum Vestur-Evrópu, að þær skilji sérstök vandamál okkar og annarra smáríkja og auðveldi okkur aðild að viðskiptasamstarfi sínu. Jafnframt hljótum við að gera þá kröfu til sjálfra okkar, að við skiljum mikilvægi þess að slitna ekki úr tengslum við þá þróun, sem nú á sér stað í Vestur-Evrópu, og höfum djörfung og þrek til þess að stjórna málum okkar þannig, að aðild okkar að viðskiptasamstarfi Vestur-Evrópu verði möguleg.“

Hæstv. ráðh. krefst þess af sjálfum sér sem ráðh., af ríkisstj. og af þjóð sinni, að við sýnum djörfung og þrek til þess að stjórna málum okkar þannig, að aðild okkar verði möguleg. Mér er sagt svo skýrt sem verða má, hvað hæstv. ráðh. hefur búið í brjósti um þetta mál.

Nokkrum mánuðum síðar en þetta gerðist, eða í febrúarmánuði 1962, hélt bæði Alþfl. flokksstjórnarfund og Framsfl. miðstjórnarfund með mjög stuttu millibili. Þar er um að ræða ábyrgar stofnanir flokkanna, miðstjórnir flokkanna, sem gera samþykktir, og þá staðfestist það, hver skoðanamunur hefur verið og er í þessu máli milli Alþfl. og þar með ríkisstj. annars vegar og Framsfl. hins vegar. í Alþýðublaðinu 16. febr. 1962 er forustugrein með fyrirsögninni „Aukaaðild“, og greinin hefst þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Alþfl. hefur að sínu leyti markað stefnu gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu. Hún er á þá leið, að Íslendingum beri að sækja um aukaaðild að bandalaginu, eins og ráð er fyrir gert í Rómarsamningnum.“

Þetta samþykkir flokksstjórnarfundur Alþfl. í febr. 1962. Hann hafði þá þegar markað stefnu gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu. En um svipað leyti ályktar miðstjórn Framsfl., að miðstjórnin álítur nú þegar ljóst, að full aðild Íslendinga að Efnahagsbandalaginu komi ekki til greina, og leggur áherzlu á, að gaumgæfilega sé athugað, hvort sú leið henti ekki Íslendingum að tengjast Efnahagsbandalaginu með sérstökum samningum um gagnkvæm réttindi í tolla- og viðskiptamálum. Og miðstjórnin leggur einnig sérstaka áherzlu á það í ályktun sinni, að beðið sé átekta um að ráða málinu til lykta, þangað til málið skýrist betur.

Þetta er svo skýrt sem verða má, að hér er um málefnalegan stefnumun að ræða á milli ríkisstj. og Alþfl., — ég vitna nú til Alþfl. m.a. vegna þess, að hæstv. viðskmrh. er í fyrirsvari ríkisstj. um þetta mál, — annars vegar stefnu ríkisstj. og stjórnarflokkanna og hins vegar stefnu Framsfl. Það er því alls kostar eðlilegt að ræða málið málefnalega á þessum grundvelli, að hér sé um stefnumun að ræða og tvær leiðir, sem bent er á. En svo hefur borið við í umr. um þetta mál af hálfu ráðh., að þeir láta það koma fram eins og aukaaðild og tolla- og viðskiptasamningur geti jafnvel verið ein og sama leið. Þetta brýtur alveg í bága við það, sem skýrt er sett fram í skýrslu ríkisstj., þar sem gerð var grein fyrir þessum tveim leiðum, og er vitanlega fremur til þess fallið að flækja málið en skýra. Þá er og í þessum umr. — og það er næsta eftirtektarvert — af hálfu ríkisstj. reynt að beita undanbrögðum, eins og aðrir ræðumenn hafa raunar sýnt fram á. Það er farið að tala um og halda því á lofti, að Efnahagsbandalag Evrópu sé ekki lengur á dagskrá eða jafnvel ekki til, að því er sumir segja. Þetta er vitanlega fjarri lagi. Efnahagsbandalag Evrópu er til. Mál þess eru og munu verða á næstunni mjög ofarlega á baugi í Evrópu og Íslendingar ekki komast hjá að taka afstöðu til þeirra.

Þá vil ég með örfáum orðum víkja að því, að á aðild, þó að aukaaðild sé, og viðskipta- og tollasamningi er vitanlega mikill munur, eins og aðrir ræðumenn og m.a. síðasti ræðumaður rakti svo greinilega í þessum umr. Íslenzk tunga er skýr og rökvís og jafnvel orðin sjálf: aðild annars vegar og samningur hins vegar — skýra þetta. Aðild þýðir vitanlega það að vera aðili að, vera í félagi eða bandalagi, en samning við félag eða bandalag gerir sá, sem stendur utan þess, en tryggir sér vissa aðstöðu og hagsmuni með viðskiptasamningi. Og þegar hæstv. ríkisstj. leggur skýrslu sína fyrir hv. Alþingi, sem vitanlega er ekki samin í fljótræði, heldur gjörhugsuð, þá gerir hún mjög skýran greinarmun á þessu. Hér segir á bls. 53 í skýrslunni:

„Þá er að sjálfsögðu meginmunur á aukaaðildarleiðinni og tollasamningsleiðinni, að aukaaðili tekur með einum eða öðrum hætti þátt í störfum bandalagsins og getur að vissu leyti haft aðstöðu til þess að hafa áhrif á stefnu þess, en ríki, sem gerir tollasamning við Efnahagsbandalagið, er utan þess og tekur að sjálfsögðu engan þátt í störfum þess né hefur aðstöðu til að hafa áhrif á stefnu þess.“

Hér er alveg skýrt til orða tekið og rétt frá sagt. Því furðulegra er, að í þessum umr. um skýrsluna hefur verið gerð tilraun til þess að gera sem minnstan eða jafnvel engan greinarmun á þessum tveimur leiðum.

Það mun vera ætlan þeirra, sem beita sér fyrir aukaaðildarleiðinni, að með því tryggi Ísland sér mikinn rétt. Ég verð að láta þá skoðun í ljós, að á því séu litlar eða engar líkur, að smáþjóð eins og Íslendingar komist til mikilla áhrifa innan bandalagsins og í stofnunum þess, þótt þeir gerðust aðilar. Það er vitanlegt, að í alþjóðasamtökum eru það stórveldin, sem jafnan hafa mest áhrif. Þó er það svo, t.d. hjá Sameinuðu þjóðunum, að hvert ríki hefur eitt atkv., en í stofnunum Efnahagsbandalagsins er þessu ekki þannig farið. Á þinginu hefur Lúxemborg aðeins 1/6 hluta þm. á borð við Bretland, Frakkland og Ítalíu hvert um sig. Og geta menn þá rennt grun í, hver hlutur Íslands mundi verða, þótt við gerðumst aðilar, og í ráðinu, sem er valdamikil stofnun, gildir vegið meðaltal, þar sem Frakkland, Ítalía og Þýzkaland hafa 4 atkv. hvert, Belgía og Holland aðeins 2 atkv. og Lúxemborg 1 atkv. Þetta ásamt öðru sýnir, að það eru ekki líkur til þess, að áhrifa smáríkis eins og Íslands gætti mikið á störf og stefnu bandalagsins, þótt við gerðumst þar aðilar.

Ég sé nú, að það líður á kvöldið, og skal nú gjarnan reyna að segja þetta í sem fæstum orðum, sem ég ætla að bæta við það, sem þegar er fram komið. Af skýrslu ríkisstj. er það alveg ljóst, þegar hún er lesin með gaumgæfni, að þótt hæstv. ríkisstj. segi, að það séu tvær leiðir, sem komi til greina, aukaaðild og viðskipta- og tollasamningur, hefur ríkisstj. í raun og veru fyrir sitt leyti valið aukaaðildarleiðina. Þetta er alveg ljóst, þegar skýrslan er lesin með gaumgæfni, því að í kaflanum, sem fjallar um aukaaðildina, er það mjög áberandi og eftirtektarvert, hvað mikið er gert úr þeim hagsbótum, sem sú leið kunni að færa okkur Íslendingum, en tiltölulega lítið gert úr annmörkunum, sem þeirri leið fylgja. Þegar rætt er um tolla- og viðskiptasamningsleiðina, er þessu á allt annan veg farið. Þá er lögð á það mikil áherzla, að ávinningurinn eftir þeirri leið verði takmarkaður, en annmarkarnir miklir. Þetta gæti ég stutt með dæmum í sjálfa skýrsluna, en til að stytta mál mitt læt ég það niður falla að svo stöddu. En þá kemur að því, eftir hverju Íslendingar þurfa að sækjast í þessu sambandi öðru en samningum um viðskipta- og tollamál. Ekki sækjast Íslendingar eftir samstarfi eða samvinnu í járn- og stáliðnaði, eins og upphaflega hratt þessum samtökum af stað milli Frakka og Vestur-Þjóðverja. Ekki sækjast Íslendingar eftir því að tengjast þessum stórveldum Evrópu á sviði hernaðar. Ekki hugsa Íslendingar til útflutnings á vinnuafli eða fjármagni. Ekki þurfa þeir að tengjast þessari ríkjasamsteypu til þess að gæta hagsmuna sinna í því efni.

Ég vil að lokum segja það, að þetta mál má hv. Alþingi og hin íslenzka þjóð ekki láta sem vind um eyrun þjóta. Það hefur verið sagt og því mjög haldið að þjóðinni af hálfu stjórnarflokkanna í sambandi við kjördæmabreytinguna, að þingið ætti að vera í sem mestu samræmi við þjóðarviljann. En það er sennilegt, að svo fari, að næstu alþingiskosningar, sem ákveðnar eru 9. júní n.k., verði eina tækifærið, sem íslenzkir kjósendur hafa raunverulega aðstöðu til að hafa áhrif á þetta mál. Og það er þess vegna bæði réttmætt og skylt að láta þetta mál vera þungt á metunum, þegar gengið verður að kjörborðinu 9. júní n.k.