15.10.1962
Neðri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það hefur verið ljóst um nokkurt skeið, að þær flugvélar, sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hefur haft hér til varnar, væru orðnar nokkuð á eftir tímanum og úreltar miðað við þá teknísku þróun, sem fram hefur farið nú um nokkuð langt skeið. Þess vegna hefur verið unnið að því að leysa þessar varnarvélar af hólmi og fá hingað í staðinn aðrar, sem betur væru búnar samkv. kröfum tímans. Þessar nýju vélar eru nú að miklu eða mestu leyti komnar.

Hinar nýju flugvélar eru þannig gerðar, að þær geta borið og hagnýtt kjarnorkuvopn. En samkv. samkomulagi ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna og samkv. reglum Atlantshafsbandalagsins verða hér ekki sett á land né flutt með flugvélum, sem hér lenda, kjarnorkuvopn, nema því aðeins að ríkisstjórn Íslands óski eftir því eða samþykki það. Hefur ekki verið farið fram á það við ríkisstj., að hér yrði komið fyrir kjarnorkuvopnum eða kjarnorkuvopn yrðu höfð í flugvélum, sem hér lenda. Ríkisstj. Íslands hefur ekki heldur óskað eftir neinu slíku. Ástandið er því þannig í dag, að vélar þær, sem hingað eru komnar, geta flutt kjarnorkuvopn og hagnýtt sér þau, en þær hafa ekki slík vopn og slíkum vopnum hefur ekki verið komið hér fyrir. Enginn hefur minnzt á það, og engirt ósk hefur komið fram um það, að hér yrðu höfð kjarnorkuvopn eða kjarnorkuvopnum yrði komið fyrir í þessum flugvélum. Þess vegna hafa af eðlilegum ástæðum engar umræður farið fram um slíka hluti.

Ég vænti, að þetta svar upplýsi fullkomlega það, sem þessi hv. þm. var að spyrja um.