29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. hefur gert mér þann heiður að lesa í þingsal kafla úr bréfi, sem ég hef skrifað til kjósenda í kjördæmi mínu, og þakka ég honum fyrir það. En ég vil veita þær upplýsingar, að þó að ég hafi sent bréfið allmörgum umbjóðendum, þá er þetta einkabréf. Þar af leiðandi breytir það engu um skyldur eða ástæður hæstv. ráðh. til þess, hvort hann birtir skjöl málsins eða ekki.

Mál þetta horfir þannig við, að vegalaganefnd taldi sig hafa lokið verki og hafði skilað áliti. Þannig stóð málið, þegar þessi frásögn í einkabréfi var send. Eftir að bréfið kom út, skrifaði hæstv. ráðh. ýtarlegt bréf og bað hana að taka til nýrrar athugunar ein 8 atriði. Þetta bréf var lagt fyrir vegalaganefnd s.l. föstudag. Með þessu nýja bréfi ráðh., sem hann skrifar eftir alllangar umr. um málið í stjórnarflokkunum, opnar hann starf n. aftur, þegar hann biður hana að taka tilgreind atriði til nýrrar yfirvegunar, sem n. að sjálfsögðu mun gera. Finnst mér, að í því ljósi hljóti ráðh. að taka sína ákvörðun um það, hvort hann sér ástæðu til að birta eða láta þm. fá skjöl málsins á þessu stigi.

Hins vegar vil ég minna á það, að bæði ég og ýmsir aðrir hafa um langt skeið skrifað og talað heilmikið um vegamálin. Í þeim skrifum, bæði greinum í blaði mínu og annars staðar, hefur að sjálfsögðu komið fram a.m.k., hvað mér finnst að gera þurfi í þessum málum. Er því ekki mikil list að sjá útlínur þess. Einnig hefur komið fram á þeim vettvangi, að sumir Alþfl.-menn, ekki sízt ég, af því að ég var í þessari nefnd, tóku því með miklum vonbrigðum, að ekki skyldi vera hægt að afgreiða þetta mál nú. Það er kannske eðlilegt, að ég sé í þeim hópi óþolinmóðastur, af því að ég var í n., sem var búin að starfa að málinu alllengi, og var farinn að binda við þetta miklar vonir. En málið er stórt og sjálfsagt ekki rétt að leggja það fram, fyrr en búið er að ná sem mestum stuðningi við það í því formi, sem það verður flutt.

En ég endurtek, að einkabréf frá þm. til umbjóðenda hans í kjördæmi breytir ekkert viðhorfum um birtingu málsskjala.