06.04.1963
Sameinað þing: 45. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

Þingrof

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. ‘ut af því, sem hv. 1. þm. Austf. sagði, vil ég aðeins segja það, að það getur auðvitað svo farið, að veður verði ekki ákjósanlegt til kosninga þann 9. júní, en það má líka segja, að það er engin örugg vissa fyrir því, að veðrið verði hagstætt 30. júní. Ég man sjálfur eftir því á mínum yngri dögum, að ég sá skip koma fyrir Örfirisey, að ég held 30. eða 29. júní, frá útlöndum. Þetta var eitt af skipum þess félags, sem ég starfaði þá hjá, og ég man eftir, að ég þekkti ekki skipið, að því að reykháfurinn virtist vera hvítur. Skipið hafði fengið það veður í hafi og það mikla ágjöf, að seltan í sjónum hafði numið burt lit reykháfsins.

Ástæðan til, að við höfum valið þennan dag frekar en 30. júní, er m.a. sú, að nokkur hætta þykir á að sjómenn verði farnir frá sínum heimkynnum, ef kosningar eru ekki fyrr en 30. júní. Menn vita það, að með hverju ári sem líður fara skipin fyrr og fyrr til síldveiða, og það eru náttúrulega óþægindi og auk þess miklar líkur til, að fleiri atkv. glatist, ef flotinn er yfirleitt ekki heima, heldur en ef hann er það. Að öðru leyti játa ég, að um þetta mál má deila, en þetta hefur verið okkar val, og tel ég það eftir atvikum það heppilegasta.