03.12.1962
Efri deild: 25. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2089)

56. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði 1. flm. þess, hv. 2. þm. Vestf., skýra grein fyrir málinu, tilgangi þess og orsökum fyrir því, að það er nú enn að nýju fram borið. Hann færði fyrir málinu gild rök, sem hefur ekki verið hnekkt. Og nú við þessa umr. hefur 2. flm. þessa máls, sem jafnframt er frsm. minni hl. samgmn., enn fært fram gild rök fyrir þessu máli, jafnframt því að hann hefur skýrt afstöðu minni hl. samgmn. til þess. Það er því í sjálfu sér litlu við þetta að bæta og ekki ástæða til þess fyrir mig að fjölyrða um málið, en ég vil þó leyfa mér við þessa umr. að bæta fáum orðum við það, sem þegar hefur fram komið.

Ég vil þá fyrst vekja eftirtekt á því, að þetta frv. er flutt að mjög vel athuguðu máli og að það er byggt á grunni, sem ekki er vefengdur. Grundvöllur þessa máls er athugun, sem gerð er af vegamálaskrifstofunni á vegakerfi í hinum ýmsu landshlutum. Og sú athugun var gerð, eins og fram hefur komið í þessum umr., samkv. ályktun frá Alþingi, sem þáv. fjvn. beitti sér fyrir einróma að samþ. yrði. Þær tölur, sem koma fram í þessari álitsgerð vegamálastjórnarinnar um vegakerfið í ýmsum landshlutum, hafa ekki verið vefengdar, hvorki í sambandi við þetta mál og umr. um það né í sambandi við till., sem þingmenn úr stjórnarflokkunum, sem eru þm. fyrir Vestfirði, hafa flutt í Sþ. Grundvöllurinn, sem þetta mál byggist á, er því óumdeilanlegur. Og það er þegar orðið alllangt síðan þessi grg. vegamálastjórnarinmar kom fram, og það er einnig orðið alllangt síðan þm. af Vestfjörðum og Austurlandi komu auga á og tóku að vinna að því, að hér þyrfti að gera breytingu á, og stefnir þetta frv. að því, að svo verði. En eins og fram hefur komið, er þetta nú í fjórða sinn, að þetta mál er fram borið hér á hv. Alþingi.

En það er fleira, sem sýnir, að þetta mál er ekki að ófyrirsynju flutt, heldur en tölur þær, sem birtar eru með grg. þessa frv. Í þskj., sem liggur nú fyrir hv. Alþingi um ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, kemur það fram, að á 20 ára tímabili hefur þjóðinni í heild fjölgað að ég ætla um rúm 48%, en dreifing þjóðarfjölgunarinnar hefur orðið svo misjöfn, að á þessu tímabili, þegar þjóðinni fjölgar svona ört, fækkar fólki í heild á Vestfjörðum um 18%. Og fólksfjölgunin á Austurlandi á þessu tímabili nemur aðeins 4%, sem sýnilega er langt fyrir neðan meðaltal, þannig að dreifing þjóðarfjölgunarinnar á þessu tímabili er engan veginn í eðlilegu hlutfalli við íbúafjölda héraðanna, eins og hann var fyrir 20 árum. Það er vitanlega ýmislegt, sem veldur þessu, og ég vil ekki segja, að á þessu yrði ráðin allsherjarbót, þótt frv. það, sem hér liggur fyrir, yrði samþykkt. En það er áreiðanlega spor í rétta átt að þessu leyti. Það er þáttur í þeirri viðleitni að halda við jafnvægi í byggð landsins eða a.m.k. sporna gegn svo mikilli röskun í því efni, sem við borð liggur, ef ekki eru sérstakar ráðstafanir gerðar af hálfu ríkisvaldsins að þessu leyti. Og enn til viðbótar þessu sé ég, að nú á þessum fundi er útbýtt þskj. frá þm., sem er mjög kunnugur á Vestfjörðum, sem er till. til þál. um aðstoð við Snæfjallahrepp í Norður-Ísafjarðarsýslu til varnar eyðingu byggðar. Þar er bent á, að Sléttuhreppur hafi lagzt í eyði fyrir nokkru, Grunnavíkurhreppur sé einnig orðinn mannlaus, því að á liðnu hausti gerðist það, að seinustu íbúar Grunnavíkur neyddust til að yfirgefa byggð sína, og nú sé röðin komin að Snæfjallahreppi og þurfi nú að bregðast við að veita aðstoð því fólki, sem þar heldur uppi starfsemi og heldur uppi byggð á þessum slóðum. Og það, sem bent er á í þessu efni, er m.a. bætt vegasamband með brú á jökulvatnið Mórillu og ferjubryggju á Mýri, þannig að þegar menn af alvöru hugleiða þessi mál, þá komast menn að þeirri niðurstöðu, að samgöngumálin séu mjög ríkur þáttur í þeirri viðleitni að halda við byggð í landinu og fram hjá því megi löggjafarvaldið ekki líta.

Ég hef miklu meiri kunnugleika af högum manna á Austurlandi heldur en á Vestfjörðum. Og ég gat um það áðan, að fólksfjölgun á Austurlandi um 20 ára tímabil væri langt fyrir neðan meðaltal fólksfjölgunar í landinu, þó að þar hafi ekki orðið um beina fólksfækkun að ræða á þessu tímabili. En á Austurlandi er þannig háttað, að þar eru einstök byggðarlög, sem fram eftir þessari öld voru blómleg og allfjölmenn, — það liggur alveg við borð, að þau leggist í eyði. Ég nefni Loðmundarfjörð í því sambandi og Mjóafjörð. Loðmundarfjörður var fram eftir þessari öld svo fjölmennt byggðarlag, að hann var sérstakt prestakall. Og Mjóifjörður hafði einnig fram eftir þessari öld — líklega á þriðja hundrað íbúa. En nú er þannig komið, að í Loðmundarfirði eru aðeins tvær fjölskyldur eftir, og byggðin í Mjóafirði hefur dregizt mjög ört saman. En báða þessa staði, sem bjóða að ýmsu leyti góð skilyrði til atvinnurekstrar, vantar vegasamband, Loðmundarfjörð algerlega og Mjóifjörður hefur svo ótryggt vegasamband, að það er aðeins slarkfært á léttum bílum, jeppabílum, yfir sumarmánuðina, en er algerlega lokað að öðru leyti.

Nú kann mönnum kannske að finnast í fljótu bragði, að það sé ekki mikið í húfi, þótt svona fámenn byggðarlög fari í eyði, og vissulega getur þetta fáa fólk, t.d. þær tvær fjölskyldur, sem eftir eru í Loðmundarfirði, séð sér farborða og sínum högum annars staðar á landinu en á þessum stað. En þó að þær breyttu til og byggðin legðist í eyði, þá koma bara upp önnur vandamál. Og ég vil í þessu sambandi benda á það, að einmitt nú á þessu þingi hefur okkur þm. Austurlandskjördæmis borizt sérstakt erindi út af þessu, hve fámennt er orðið í Loðmundarfirði, frá nærliggjandi hreppum, og í því erindi felast uppiýsingar um það, að þessar tvær fjölskyldur í Loðmundarfirði veiti nærliggjandi hreppum svo ómetanlega fyrirgreiðslu og aðstoð við hirðingu sauðfjár langt fram eftir öllu hausti og það komi jafnvel fyrir, að það fóðri vetrarlangt fé, sem kemur seint að úr fjöllunum, og það valdi alveg stórkostlegum erfiðleikum fyrir eina 3–4 nálæga hreppa á Fljótsdalshéraði, ef þessar tvær fjölskyldur hverfi frá búsetu í Loðmundarfirði. Af þessu getum við bara séð, hvað í húfi er, jafnvel á stórum svæðum, ef ekki er í tíma gerð gangskör að því að styðja það fáa fólk, sem heldur uppi lífsbaráttunni á svona stöðum. Og með þessu frv. er einmitt stefnt að því, að svo geti orðið.

Þá er á það að líta, hvort hér er um mjög stórt fjárhagsmál að ræða. Í þessu frv. er gert ráð fyrir 10 millj. kr. framlagi umfram fjárveitingar á fjárlögum til nýbyggingar þjóðvega á Vestfjörðum og Austurlandi, — 10 millj. kr., — og gert er ráð fyrir, að þetta fé verði tekið að láni, í frv. er heimild til þess. Ef þessi tala er borin saman t.d. annars vegar við fjárlagafrv., sem nú er fjallað um og er að heildarupphæð yfir 2 milljarða kr., og hins vegar borið saman við ýmislegt, sem gert er utan fjárlaga, en fyrir lánsfé, t.d. við þær 240 millj. kr., sem nú er verið að taka að láni í Bretlandi, og er það þó ekki nema einn þáttur af allri lánsfjárstarfsemi ríkisins, þá er auðséð við slíkan samanburð, að hér er alls ekki um svo stórt fjárhagsmál að ræða, að það sé óviðráðanlegt af þeim sökum.

Það kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. samgmn., að það hefði ekki verið gengið á rétt Vestfjarða og Austurlands í sambandi við skiptingu vegafjár samkv. fjárlögum nú undanfarin 2–3 ár og að flm. þessa frv. ættu að gefa því gætur, hvað þeir hefðu sjálfir gert í þessu efni, meðan þeir voru í stjórnaraðstöðu. Út af þessu vil ég aðeins minna á það, að samanburður um fjárveitingar til vega, miðað við heildarupphæð fjárlaga, verður ekki hagstæður núv. stjórnarflokkum, því að raunin er sú, að miðað við heildarupphæð fjárlaga og miðað við þá verðlagshækkun, sem orðið hefur í landinu síðan 1960, hafa framlög til vega stórkostlega dregizt saman frá því, sem áður var, þó að krónutalan hafi nokkurn veginn staðið í stað. En vegna gildisrýrnunar krónunnar verða framkvæmdir miklu minni en áður fyrir sömu krónutölu. Ég held því, að stjórnarflokkarnir ættu ekki að hefja þann leik að byrja á slíkum samanburði, því að hann verður þeim aldrei hagstæður.

Þá er á það að líta, hvort þeir, sem standa að þessu frv., hafi eitthvað vanrækt, meðan þeir voru í stjórnaraðstöðu á þingi og höfðu að því leyti sterkari aðstöðu til að koma sínum málum fram en þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. Ég held, að stjórnarflokkunum henti bezt að fara einnig varlega í slíkan samanburð. Þess má geta, að fram til ársins 1959 voru einmenningskjördæmi víðast hvar á landinu og að þá vann hver þm. að því að fá fjárveitingu í sitt kjördæmi sérstaklega. Og það vill nú þannig til, að í þeim sýslum, sem áður voru einmenningskjördæmi á Vestfjörðum og harðast hafa orðið úti í þessu efni, eins og Norður-Ísafjarðarsýsla, og þar sem eiginlega helzt liggur við borð, að hver hreppurinn af öðrum fari í eyði, þar hefur um langt skeið verið þm. úr Sjálfstfl. Og hið sama má segja, að í mörg ár var einnig þm. úr Sjálfstfl. fyrir Barðastrandarsýslu. Ég tel mig hafa kunnugleika á því, að þessir hv. þm. hafi haft opin augu fyrir því vandamáli, sem hér blasir við, og ég tel mig hafa kunnugleika á því, að þeir hafi lagt sig fram og sýnt í því mikinn dugnað að fá þar úrbætur á, svo að vandamálið, sem nú liggur fyrir, verður alls ekki rakið til þessarar rótar, að einn eða annar þm. hafi vanrækt eitthvað fyrir sitt kjördæmi á liðnum tíma. Vandamálið liggur í því, að í heild hafa fjárveitingar til vegagerðar raunverulega verið minni en þær þurftu að vera til þess að mæta þörfinni, sem kallar að. Og það hefur náttúrlega öllum þm. verið ljóst að meira eða minna leyti. Vandamálið liggur að öðru leyti í því, að á Austurlandi og Vestfjörðum eru skilyrði til vegagerðar að ýmsu leyti óhagkvæm, fjallvegir milli byggða og það vinnst þar af leiðandi minna fyrir hverja fjárhæðina, sem veitt er, heldur en þar, sem skilyrði til vegagerðar eru betri. Og í þriðja lagi hafa þm., hver svo sem hefur verið í stjórnaraðstöðu eða stjórnarandstöðu hverju sinni, yfirleitt við skiptingu vegafjár, eins og bent hefur verið rækilega á í sambandi við þetta mál, verið mjög fastheldnir við þá hefð eða þá reglu, sem skapazt hefur hér í þinginu um skiptingu árlega í hinum einstöku sýslum, að það hafa ekki verið teknar stórar sveiflur að lækka eina sýsluna og hækka aðra, heldur þróunin verið látin vera nokkurn veginn samfelld um allt landið. Og þegar þessa er gætt, þá komum við enn að því, að það eru eiginlega litlar líkur til, að hlutur Vestfjarða og Austurlands verði réttur eins og þörf er á að þessu leyti nema með sérstökum aðgerðum, eins og stefnt er að með samþykkt þessa frv.

Í sambandi við þetta mál er mjög til þess vitnað, að undanfarið hafi starfað nefnd til að endurskoða vegalögin í heild. Og meiri hl. samgmn. leggur á það áherzlu í nál. sínu, að þau vinnubrögð séu eðlilegust, að leitazt sé við að afgreiða allar till. um vegamál í heild með einu frv., og vill meiri hl. n. vænta þess, að það megi takast á þessu þingi. Út af þessu þykir mér ástæða til að láta það koma fram, að fram að þessu hefur það ekki staðið í vegalögunum sjálfum, hve miklu fé skuli varið til vegagerða í einum og öðrum landshluta. Gildandi vegalög fela í sér ákvæði um, hvaða vegir séu þjóðvegir, og auk þess almenn ákvæði um gerð veganna, um bætur fyrir land, sem fengið er undir vegi, og girðingar meðfram vegum og annað því um líkt. Þetta er það, sem er í gildandi vegalögum og hefur verið efni þeirra fram að þessu. Í þessu frv. er ekki farið fram á neina nýja þjóðvegi eða breytingar á því á Vesturlandi eða Austurlandi. Hér er eingöngu um afmarkað fjárhagsmál að ræða. Ef þetta mál á að falla undir almenn vegalög, hlýtur það að vera ætlunin að taka eitthvað fleira og það mikilvæg ákvæði upp í vegalög eftirleiðis heldur en hingað til hefur staðið í vegalögum. Og þegar það er nú upplýst, að stjórnskipuð nefnd hafi unnið að þessu máli og skilað till. til ríkisstj., þá finnst mér sannarlega ekki til of mikils mælzt, þó að þess sé óskað og jafnvel krafizt af hv. þm., að í sambandi við þetta mál komi fram upplýsingar um það, hvort stefnt sé að stórfelldri skipulagsbreytingu í sambandi við setningu vegalaga frá því, sem verið hefur. Þó að slíkar upplýsingar komi fram, þarf það ekki að vera í því formi, að þar séu rakin einstök ákvæði eða einstakar greinar slíks frv., heldur um þá meginstefnu eða skipulagsbreytingu, sem fyrirhuguð er í sambandi við það mál. Ég vil því taka eindregið undir þau tilmæli frsm. minni hl. samgmn., að hv. frsm. meiri hl. n., sem er þessum hnútum mjög kunnugur, því að hann mun hafa átt sæti í vegamálanefndinni, gefi gleggri upplýsingar um þetta mál en enn hafa komið fram hér í deildinni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta mál. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram til viðbótar og til áréttingar þeim rökum, sem meðflm. mínir hafa fært fram fyrir þessu máli og ekki hafa verið vefengd.