17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

46. mál, ríkisreikningurinn 1961

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Út af mínum athugasemdum um lánið, sem búið var að taka í árslok 1961 til Keflavíkurvegarins, segir hæstv. ráðh., að það muni vera svipað bráðabirgðalánum, sem oft hafa verið tekin til vegagerðar. Mér er ekki kunnugt um það, að slík lán hafi verið tekin áður til vegagerðar, án þess að þau hafi verið færð á ríkisreikninginn. Það mun oft koma fyrir að vísu, að úr einstökum héruðum er lagt fram nokkurt fé til að flýta vegagerðum. En það eru ekki lán, sem ríkið tekur. Ríkið borgar enga vexti af þeim og gefur ekki út skuldabréf fyrir slíkum lánum. En þarna mun óumdeilanlega vera um ríkislán að ræða, sem ríkið á að standa straum af og á þá vitanlega að telja með skuldum ríkissjóðs.

Hæstv. ráðh, segir, að það hafi jafnan verið svo, að umboðsleg endurskoðun hafi verið nokkuð á eftir. Hann segir, að það sé stefnt að því, að öll endurskoðun fari fram jafnóðum. Það er ágætt að heyra, ef svo er. En ég tel, að það eigi að haga þessu þannig, að það eigi alls ekki að afgreiða ríkisreikninginn frá þinginu, fyrr en endurskoðun er að fullu lokið. Engin sýslunefnd afgreiðir frá sér hreppsreikninga, fyrr en endurskoðun þeirra er að fullu lokið, og ég tel, að hér ætti að fylgja sömu reglu með ríkisreikninginn. Og vilji hæstv. ráðh. fá ríkisreikninginn samþ. fyrr en oft hefur verið áður, þá á hann að vinna að því, að endurskoðunardeildin í fjmrn. ljúki sínu starfi fyrr en áður hefur verið, þannig að hægt sé að leggja reikninginn fram fullendurskoðaðan.

Ég tel, að hinir þingkjörnu endurskoðunarmenn, sem verða að byggja sína umsögn um ríkisreikninginn að verulegu leyti á endurskoðunarskýrslum frá fjmrn., ættu ekki að afgreiða reikninginn til Alþingis, fyrr en þeir eru búnir að fullvissa sig um það, að endurskoðun þeirri, sem endurskoðunardeild fjmrn. hefur með höndum, sé að fullu lokið. En úr því að þeir hafa gert það að þessu sinni, án þess að þessu verki væri lokið, þá tel ég, eins og áður segir, að það sé rétt af þinginu að fresta afgreiðslu málsins þar til síðar í vetur.

Hæstv. ráðh. segir, að það hafi orðið kauphækkanir hér árið 1961 og því muni gjöldin hafa orðið hærri á ríkisreikningi en upphaflega var gert ráð fyrir. Það var nú svo, að í meðförum Alþingis seint á árinu 1960 hækkuðu gjöld á fjárlögunum frá því, sem þau voru upphaflega í frv., þegar hæstv. ráðh. lagði það fyrir, svo að það urðu ekki 10 gjaldagreinar lægri en áður, um það er afgreiðslu fjárlaga lauk. En út af því, sem hann segir um kauphækkanirnar 1961, vil ég benda á, að hæstv. ráðh. mun hafa fengíð þar nokkuð á móti. Ríkisstj. breytti genginu á því ári og fékk af þeirri ástæðu meiri tolltekjur síðari hluta ársins, og hún bætti sér í búi með því að gera upptækar hjá útvegsmönnum verulegar upphæðir af gengíshagnaði og sýndi því betri útkomu á ríkisreikningi þess vegna.