19.11.1962
Neðri deild: 16. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (2295)

64. mál, vegalög

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Hæstv. forseti. Ég hef ásamt hv. 1. og 4. þm. Austf. leyft mér að bera fram á þskj. 68 brtt. við vegalögin, þar sem lagt er til, að allmargir vegastúfar tilheyrandi svokölluðum hreppa- og sýsluvegum í Austfirðingafjórðungi verði teknir inn í vegalögin og þar með í þjóðvegatölu. Það er engin nýlunda hér á hv. Alþingi, þótt slíkar tillögur séu bornar fram, því að áratugum saman hafa þm. flestra kjördæma gert slíkt og það að jafnaði oftar en einu sinni á hverju kjörtímabili. Og ástæðan hefur ætíð verið hin sama: mikil og vaxandi þörf og sífellt háværari, kröfur fólksins um betri samgöngumöguleika á landi og þar af leiðandi kröfur um meiri og meiri afskipti og framkvæmdir hins opinbera í þeim málum.

Segja má, að áhugi og skilningur fyrir bættum samgöngum og vegagerð hér á landi komi fyrst fram af opinberri hálfu seint á 18. öld. En það mun þó ekki hafa verið fyrr en seint á 19. öld, að svolítið var hafizt handa um reglulega vegagerð og þá fyrst út frá Reykjavík og austur yfir Fjall og síðan um Suðurlandsundirlendið. Þá mun einnig fyrir og um síðustu aldamót hafa allvíða verið byrjað á svokölluðum flutningabrautum út frá helztu inn- og útflutningshöfnum. Og 1903 mun fyrsta fjárveiting, svo að nokkru næmi, hafa verið veitt í slíku skyni til Austurlands. Fyrstu áratugi aldarinnar kom vart við sögu vegagerðarinnar annað afl en mannshandarinnar með skóflu og haka, ásamt hesti og kerru. Síðan leysti flutningabíllinn hestinn og kerruna af hólmi. En stórvirkar vegavinnuvélar munu ekki hafa verið til hér á landi fyrr en í eða upp úr síðari heimsstyrjöld. Á þessu árabili uxu framlög hins opinbera smátt og smátt, og fleiri og fleiri vegir voru teknir í þjóðvegatölu. Þar til stórvirku vinnuvélarnar komu til sögunnar, voru vegagerðarafköstin lítil, miðað við það, sem nú tíðkast, flestir vegir veikbyggðir og lítið upphlaðnir og víða, þar sem kostur var, aðeins ruðningur um þurra móa og mela, enda aðeins miðað við sumarafnot. Þá var líka að jafnaði reynt að beygja hjá erfiðum vegarstæðum og leiðin jafnvel oft lögð í krókum og lykkjum. En það var ekki svo mjög fengizt um það, menn gáfu sér þá meiri tíma en nú til þess að hafa í heiðri hið gamla orðtak, að betri er krókur en kelda.

Víða um land munu í stórum dráttum slík eða svipuð vinnubrögð hafa verið ráðandi fram undir 1950. Almenna krafan var meiri sumarvegir milli bæja og byggðarlaga. Og þeir þokuðust furðanlega áfram, miðað við tækni og allar aðstæður. En sú vegalagning var yfirleitt aðeins ætluð til að bera hest og kerru og síðan létta flutningabíla. Hinir svokölluðu upphlöðnu vegir voru yfirleitt lítið yfir jarðhæðinni í kring, og lítið var fengizt um, þótt þeir væru lagðir um snjósæla staðir. Vegirnir fóru því víða í kaf í fyrstu snjóum, og allir þekkja vegaruðningana, sem eru verstu snjókistur. Við þessar vegaaðstæður búa menn enn meira og minna í flestum sveitum landsins. Og enn eru víða bæir, ekki allfáir, sem ekkert vegasamband hafa.

En við þetta getur fólkið í sveitunum ekki lengur búið. Búskaparhættir eru orðnir þannig, að aðdrátta er þörf allan tíma árs, og fólksfæðin orðin svo mikil, að engan má missa af heimili að vetrarlagi til tímafrekra kaupstaðaferða með klyfjahest eða hest og sleða, enda hafa líka víða breytzt svo framleiðsluhættir, að daglega verður að koma t.d. mjólk frá heimili til sölu- og vinnustaða. Þess vegna eru gömlu vegirnir orðnir meira og minna ónothæfir, og nýja upphlaðna vegi þarf því að leggja, sem þola eðlileg snjóalög og eru þannig byggðir, að þeir beri hinn mikla umferðarþunga, sem nú tíðkast. Hér þarf skjótra og róttækra umbóta við, ef vel á að fara. Mikið af núverandi hreppa- og sýsluvegum verður að taka í þjóðvegatölu, og hið opinbera verður að leggja fram fé til að leggja þar framtíðarvegi, jafnhliða stórauknum fjárveitingum til að ljúka núverandi þjóðvegum til allra byggðra býla og byggja enn fremur upp gömlu vegina, svo að þeir fullnægi eðlilegum kröfum. Sérstaklega og fyrst og fremst þarf þetta að gerast þar, sem mjólkurframleiðsla á sér stað eða er að byrja eða er augljóslega fram undan, ef samgönguerfiðleikarnir hindra ekki eðlilega þróun í þeim efnum.

Þetta er ein af mikilvægari aðgerðum í því sambandi að viðhalda byggð landsins. Erfiðleikar landsbyggðarinnar eru margvíslegir og menn ekki á einu máli um, hvernig úr eigi að bæta eða jafnvel hvort nauðsynlegt sé eða tilvinnandi að glíma við slíkt viðfangsefni. En flestir eða allir munu þó vera sammála um vegaþörfina, jafnvel þótt ekki væri nema vegna sumarferða fólksins.

Vitanlega eru vegamál í einstökum sýslum og landsfjórðungum í mjög misjöfnu ástandi. Veldur þar margt, bæði hvað atvinnuþróun byggðanna er misjafnlega langt á leið komin og landslag, vegalengdir o.fl. Austfirðingafjórðungur mun vegna víðáttu og landslags vera einn erfiðasti landshluti um vegagerðir, og munu fá eða engin landssvæði komast þar til samjafnaðar, nema þá helzt Vestfirðir. Hins vegar eru, sem betur fer, í sumum landshlutum jafnvel heilar sýslur, þar sem svo að segja hver bær hefur vegasamband og hreppa- og sýsluvegir mjög litlir og þar því hverfandi þyngsli af vegalagningu í sambandi við hreppssjóði og sýslusjóði.

Árið 1958 átti ég kost á að sjá skýrslu um vegakerfi landsins, eins og það var þá, og sést þar ljóslega hinn mikli aðstöðumunur, sem fólkið hefur við að búa í þessum efnum. Þá eru allir vegir í Austfirðingafjórðungi taldir nálægt 2113 km. Af þeirri vegalengd eru 1628 km þjóðvegir, sýsluvegir 354 km og hreppavegir 131 km. Af viðurkenndum vegum fjórðungsins eru því nálægt því um 485 km sýslu- og hreppavegir, og eru svo þar að auki ótaldir fjallvegir, sem munu vera á annað hundrað km í fjórðungnum. Af hreppa- og sýsluvegum eru 100 km óbílfærir, 269 km ruddir og aðeins rúmlega 100 km lagður vegur. Og af þeim er mjög mikið lagt á gamla vísu, sem fullnægir nú lítið betur vegaþörfinni en ruðningsvegirnir. Á sama tíma eru taldir 48 bæir í fjórðungnum, sem ekkert vegasamband hafa, og er augljóst, hvert stefnir þar.

Ég hef ekki séð yngri heildarskýrslur um vegi landsins. En þótt 4 ár séu liðin síðan, er það vitað, að verr horfir hlutfallslega nú en áður um vegakerfið, og veldur þar um dýrtíðin og áhugalitlir valdhafar um umbætur í þessum efnum. Sveitar- og sýslufélögin hafa aldrei verið megnug þess að byggja upp það vegakerfi, sem þeim hefur tilheyrt, enda það ætíð viðurkennt með því, að hið opinbera hefur smátt og smátt yfirtekið hluta af þeim vegum, og það mun raunar staðfest, að stefna beri að því að leysa sveitarfélögin að mestu undan þeirri kvöð að byggja upp og viðhalda þeim vegum, enda er slíkt verkefni í raun og veru í aðalatriðum sameiginleg þjóðfélagsskylda. Vegna núverandi dýrtíðar um alla vegagerð og vegaviðhald hefur nú að sjálfsögðu keyrt um þverbak með sýslu- og hreppavegina, enda munu þess fá eða engin dæmi, að brtt. við vegalögin hafi komið eins oft fram og á þessu kjörtímabili, og það lýsir þörfinni, sem í þessum efnum er, að ríkið létti þar á. En slíkar till. hafa enga áheyrn fengið enn til þessa. Ýmsir hafa haldið því fram, að nú sé ekki auðvelt eða tímabært að bæta þjóðvegakerfið sökum þess, hversu báglega ríkinu tekst að viðhalda og byggja upp þá vegi, sem því tilheyra. Slíkt er vitanlega engin röksemd né afsökun, allra sízt meðan hið opinbera notar árlega til annarra hluta en vegagerðar tugi millj. af því fé, sem samkv. tilgangi og eðli skattheimtunnar tilheyrir vegakerfi landsins. En auðvitað á slíkt fé allt að ganga árlega óskert til samgöngubóta á landi og ríkið að bæta þar við, eftir því sem þörf krefur.

Hæstv. forseti. Ég óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. samgmn.