16.11.1962
Efri deild: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

99. mál, framkvæmdalán

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það getur að sjálfsögðu verið réttmætt og eðlilegt að taka erlend lán til framkvæmda. Nú er hér á landi mikil þörf á framkvæmdum. Þeim framkvæmdum verður sjálfsagt eigi komið af stað nema með lánsfé. Framsfl. hefur einmitt oft að undanförnu bent á þá leið, að lánsfjár væri aflað til ýmissa nauðsynlegra framkvæmda. Og það hefur af hálfu framsóknarmanna einnig komið fram, að það mundi vera nauðsynlegt og réttmætt að afla erlends lánsfjár til ýmissa þeirra framkvæmda, sem óskir eru um og nauðsynlegar eru. Þess vegna er það, að framsóknarmenn munu fylgja því, að heimild sé veitt til lántöku.

En að sjálfsögðu skiptir miklu máli, þegar lán er tekið, til hvers því á að verja. Ég hygg, að það hafi verið langoftast svo, að þegar lánsheimildir hafa verið veittar í lögum, hafi verið tekið fram alveg sérstaklega í þeim lögum, til hvaða framkvæmda þess lánsfjár væri aflað. Ég vil ekki fullyrða, að það hafi verið svo ætíð, en þó er mér nær að halda, að svo hafi verið. En hitt er víst, að það hefur langoftast verið svo. Og það er auðvitað eðlilegt, að sá háttur sé á hafður. Það er eðlilegt, að Alþingi, áður en það veitir slíkar lánsheimildir, geri sér grein fyrir því, til hvers á að nota féð, og mett eftir því, hver nauðsyn er til lántökunnar. Ef Alþingi ekki hefur hönd í bagga um þetta atriði, fylgist það vissulega ekki svo með fjárstjórn ríkisins sem því ber að gera.

Ég tel þess vegna, að það hefði verið langsamlega eðlilegast, að það hefði verið tekið fram í þessu lagafrv., til hverra framkvæmda þessu lánsfé ætti að verja. Hér er ekki um neitt lítilræði að tefla, þar sem um er að ræða 240 millj, kr., og það skiptir vissulega æðimiklu máli, hvernig á ráðstöfun þess fjár er haldið, þannig að það þarf a.m.k. engum á óvart að koma, þó að við stjórnarandstæðingar séum ekki alveg reiðubúnir til að fela ríkisstj. án afskipta Alþingis að ráðstafa þessu mikla lánsfé, enda kom það fram hjá hæstv. fjmrh., að honum fyndust óskir í þá átt, að Alþingi hefði afskipti af þessu og að það væri ákveðið í þessum lögum, hvernig fénu skyldi ráðstafað, ekki óeðlilegar. Hins vegar taldi hæstv. fjmrh., að því yrði nú ekki við komið, þar sem afgreiða þyrfti þessa lántökuheimild á svo skömmum tíma.

Það er að sjálfsögðu rétt, að það er erfitt að koma því við á vikutíma að setja alveg ákveðnar reglur um það inn í þetta lagafrv., hvernig þessu fé skuli ráðstafað. Hér er um margar framkvæmdir að ræða, og það getur vissulega verið mikið vandamál að meta fjárþörf þeirra hverrar og einnar og ákvarða, hvað eigi að ganga fyrir og hvað eigi að mæta afgangi, auk þess sem það er að sjálfsögðu rétt, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh., að áður en slík skipting er ákveðin, getur verið nauðsynlegt að vita skil á því, hve mikils fjár er hægt að afla í þessu skyni hér innanlands, annaðhvort með lántökum eða öðrum fjárframlögum. Þess vegna má út af fyrir sig á það fallast, að það muni vera erfitt að koma því við að setja ákvæði um skiptingu fjárins inn í þetta frv. Hins vegar tel ég langeðlilegast, að það sé tekið fram í þessu frv., að ákvörðun sé tekin um lánveitingar með einstökum lögum síðar, þegar málið hefur allt verið betur athugað og undirbúið. Gegn þeirri meðferð mæla ekki á neinn hátt þær ástæður, sem hæstv. fjmrh. hreyfði hér gegn því, að slik ákvæði væru tekin upp í þetta frv. Þetta sýnist mér sá sjálfsagði og eðlilegi háttur, að í stað þess, að í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. ákveði skiptingu lánsfjárins, þá verði þessu ákvæði breytt á þá lund, að skipting lánsfjárins verði síðar ákveðin í lögum.

Það er að vísu nefnt þarna í frv., svo sem og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir í sinni ræðu, að fénu skuli einkum varið til að efla útflutningsiðnað og til hafnargerða, raforkuframkvæmda og annarra framkvæmda, er stuðla að aukningu þjóðarframleiðslunnar og gjaldeyrisöflun. En þessi ábending er ákaflega óákveðin og teygjanleg, þannig að hún setur í raun og veru ákaflega litlar eða jafnvei engar skorður við því, hvernig þessu fé skuli ráðstafað. Og ríkisstj. er að öðru leyti ekki í þessu frv. gefin önnur leiðbeining en sú eða ekki gefin önnur fyrirmæli heldur en þau, að það skuli um skiptinguna farið eftir mikilvægi framkvæmdanna og þeim möguleikum öðrum til fjáröflunar, sem fyrir hendi eru. En þessi fyrirmæli eru líka ákaflega óákveðin og teygjanleg, þannig að ég fæ ekki betur séð en hæstv. ríkisstj. mundi hafa það algerlega í sinni hendi eftir þessu frv., hvernig hún skiptir þessu lánsfé og ráðstafar, því. Það verð ég fyrir mitt leyti að telja mjög óeðlilegt.

Það var um skeið talað mikið um framkvæmdaáætlun, sem hæstv. ríkisstj. hygðist beita sér fyrir. Um þessa framkvæmdaáætlun hefur verið tiltölulega hljótt að undanförnu. En ég dreg þar fyrir ekkert í efa, að að henni hafi verið unnið. En ég verð að segja, að það væri eðlilegt, að þessi framkvæmdaáætlun væri einmitt komin fram, áður en Alþingi tæki með lögum ákvörðun um skiptingu þessa fjár.

Ef svo færi mót von minni, að hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar vildu ekki fallast á þá eðlilegu leið, sem hér hefur verið bent á, að það væri ákveðið í þessu frv., að lánsfénu skyldi skipt með lögum, vil ég benda á aðra leið, sem frá mínu sjónarmiði er ólíkt eðlilegri og ólíkt venjulegri, að ég hygg, heldur en sú, sem kveðið er á um í þessu frv. En það er sú leið, að þingkjörin nefnd hefði með höndum skiptingu þessa lánsfjár. Hér er, eins og ég hef áður sagt, um svo stóra upphæð að ræða, að það verður að mínum dómi að teljast alls kostar óeðlilegt að fela ríkisstj. í raun og veru sjálfdæmi um það, hvernig hún skiptir þessu fé á milli framkvæmda, á milli landshluta og á milli framkvæmda ríkisins sjálfs og framkvæmda einstakra fyrirtækja, en öll þessi atriði hefur ríkisstj. eftir frv. algerlega í sinni hendi. Og þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf í sinni framsöguræðu um fyrirhugaðar ráðstafanir á þessu fé, voru einnig svo óákveðnar, að þær gáfu í raun ég veru ekki miklu nákvæmari bendingu um það en frv. sjálft, til hvers þessu lánsfé mundi verða varið, ef ríkisstj. fengi skiptingu þess í sínar hendur.

Eins og ég áðan sagði, get ég skilið það, að það sé vissum vandkvæðum bundið nú að taka um þetta endanlegar ákvarðanir, þar sem svo mjög liggur á að fá lántökuheimildina, og eins vegna hins, að hin fyrirhugaða framkvæmdaáætlun virðist ekki tilbúin. En hitt er vissulega auðvelt fyrir hæstv. ríkisstj., ef hún vill sýna sanngirni og réttsýni í þessu máli, að fallast á, að ráðstöfun lánsfjárins verði skotið á frest og hún síðar ákveðin með lögum, svo sem við teljum að eðlilegt væri í alla staði.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég get aðeins endurtekið það og lagt á það áherzlu, sem ég sagði í upphafi, að við framsóknarmenn erum og höfum verið því fylgjandi, að lánsfjár sé aflað með lántöku erlendis til ýmissa framkvæmda hér á landi, eins og sakir standa nú og allt hefur verið hér í pottinn búið. Ég get líka sagt, að það er í sjálfu sér ánægjulegt, að þess skuli vera kostur að fá lán til svo langs tíma sem hér er gert ráð fyrir. Hins vegar má sjálfsagt segja, að þessir vextir séu nokkuð háir, sem þarna eru ráðgerðir, en um það atriði skal ég ekki ræða hér frekar. Málið verður að sjálfsögðu athugað nánar í nefnd.

Ég vil segja það, að við framsóknarmenn munum vilja vinna að því að greiða götu málsins í gegnum þingið með hæfilegum hraða, þannig að það ætti ekki að þurfa að standa á því, að málið verði afgreitt með þeim hætti, sem hæstv. fjmrh. gat um. En jafnframt verðum við þó að sjálfsögðu að gera þá kröfu, að þeim nefndum, sem fá málið til meðferðar, og þá ekki sízt þeirri nefnd, sem nú fær það fyrst til athugunar, gefist nægilegt ráðrúm til að athuga málið. Og á því sýnast mér engin vandkvæði. Það sýnist mér alveg sérstaklega nauðsynlegt vegna þess, að málið er hér lagt fram nú og útbýtt án þess að þm. almennt hafi átt þess kost áður að kynna sér það, áður en það var tekið hér til umr. En ég vil leyfa mér að vænta þess, að nefnd sú, sem fær málið til meðferðar, taki alveg sérstaklega til athugunar þær ábendingar og þær tillögur, sem ég hef hér hreyft varðandi ráðstöfun og skiptingu á þessu lánsfé. Það hljóta allir að skilja og hver maður hlýtur að gera sér ljóst, að það er ekki eðlilegt, að um ráðstöfun jafnmikils fjár og hér er um að ræða sé ríkisstjórn í sjálfsvald sett.