19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (2775)

137. mál, ráðstafanir til verndar íslenska erninum

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Nefndin ræddi þessa till. og fékk um hana umsagnir frá Fuglaverndarfélaginu og forstöðumanni Náttúrugripasafnsins. í þessum umsögnum kemur fram, að talin er hætta á því, að allar tilraunir til verndar erninum muni reynast árangurslausar, nema hætt sé þeim eitrunum, sem nú viðgangast fyrir veiðibjöllu og refi.

Ég get getið þess aðeins, að það eiga fleiri þjóðir við svipað vandamál að etja og við. Mér er kunnugt um það, að þetta hefur verið á dagskrá í Bretlandi nýlega, þar sem þeir eiga við það vandamál að etja, að þeir eru að reyna að vernda fálka, sem er að verða útdauður hjá þeim, og þar hefur svipað orðið upp á teningnum eins og hér, að verndunin reynist gagnslítil vegna eitrana sem framkvæmdar hafa verið þar.

Það er álit þeirra, sem sent hafa okkur þessar umsagnir, og fjvn., að nauðsynlegt sé, að fyrir næsta þing verði undirbúin breyting á löggjöf þeirri, sem fyrirskipar eitranir, ef nauðsynlegt sé, eins og allir eða flestir eru sjálfsagt sammáta um, að gera frekari ráðstafanir en til þessa hafa verið gerðar, til þess að íslenzki örninn verði ekki útdauður. En n. leggur sem sagt til, eins og ég sagði áðan, að þessi till. verði samþykkt.