07.11.1962
Sameinað þing: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2885)

14. mál, raforkumál

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv, ráðh. sagði, að það væri ekki sanngjarnt að halda því fram, að menn á raforkumálaskrifstofunni ynnu ekki eins vel og búast hefði mátt við. Mér dettur ekki í hug að halda því fram. Og ég vænti, að það hafi enginn skilið orð mín svo, að ég vildi halda því fram, að menn þar hefðu ekki unnið vel að sínum verkefnum. Mér hefur aldrei komið í hug að bera fram neinar ásakanir í þá átt á raforkumálastjóra eða starfsmenn raforkumálaskrifstofunnar, enda hef ég ekki gert það. Ég sagði aðeins, að undirbúningsvinna, sem nauðsynlegt var að ljúka til þess að geta gert þessa framhaldsáætlun, hefði verið falin einum starfsmanni þar og hann hefði aðeins haft það sem aukastarf. Og ég vil halda því fram, að það hefði verið auðvelt að haga vinnubrögðum þar þannig, að þessu starfi hefði orðið miklu fyrr lokið en verður, með því annaðhvort að láta þennan eina starfsmann hafa það verkefni eitt eða láta hann hafa aðstoðarmenn, enda þykist ég vita, að hæstv. ráðh. að mér sammála um, að þetta hefði verið hægt að gera.

Hæstv. ráðh. segir, að ekki sé rétt, að raforkuráð hafi unnið að 10 ára áætluninni. En samkv. lögum, sem sett voru og sú áætlun byggðist á, var bæði raforkumálastjóra og raforkuráði falið að gera þessa áætlun. Og vitanlega hefur raforkuráðið verið með í því. Ég tel það alveg sjálfsögð vinnubrögð, eins og ég hef áður sagt, að það verði raforkumálastjóri og raforkuráð sameiginlega, sem geri hina nýju áætlun um samveitur um þau svæði, sem hafa ekki enn fengið rafmagn, og um aðstoð við þau einstöku heimili, sem eru svo afskekkt, að þau komast ekki inn á samveitusvæðið. Þetta tel ég sjálfsögð vinnubrögð.