30.01.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í D-deild Alþingistíðinda. (3002)

72. mál, bankaútibú á Snæfellsnesi

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil ítreka þakklæti fyrir það, að allir þeir, sem hér hafa staðið upp, hafa tekið undir efni till., og það skiptir mestu máli. Ég vil aðeins skýra hv. síðasta ræðumanni frá því, að þessi mál hafa um árabil verið rædd við stjórnir bankanna. Ef umr. hefðu borið þann árangur, að slíkt útibú væri komið upp, væri að sjálfsögðu ekki tilefni til þess að hreyfa málinu hér. Af því að enginn árangur hefur orðið af þeirri leið og er nú svo komið, að Vesturlandskjördæmi stendur eitt eftir útibúslaust, jafnframt því sem vöxtur er í bankakerfinu öllu, sýnist mér, að tilefnið sé ærið.

Ég vil taka fram, að mér er fullkomlega ljóst, að ríkisstj. ræður ekki útibúunum. Ef við skoðum þær ályktanir, sem Alþingi gerir á hverju ári, hljótum við að sjá, að í þeim felst áskorun. Þýðir það, að málin eru ekki þess eðlis, að Alþingi sjálft geti beinlínis gert hlutina. Ég verð að segja, að ef áskorun Alþingis varðandi störf stofnana, sem eru eign ríkisins, eins og sumir bankarnir, hefur ekkert að segja, þá, er þessi stofnun minna virði en ég hef haldið að hún væri.

Og til hvers er ályktunarformið viðurkennt og notað, ef ekki til þess að beita þeim áhrifum Alþingis, sem standa ekki alltaf í beinu sambandi við lagabókstaf um það, hver á að framkvæma hlutinn?