06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í D-deild Alþingistíðinda. (3237)

199. mál, vegasamband milli Fljótshverfis og Suðursveitar

Óskar Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki annað en fagnað þeirri þáltill., sem hér hefur verið flutt á þskj. 400 um opnun vegasambands milli Fljótshverfis og Suðursveitar, þannig að vegakerfið myndi órofna hringleið um landið. Það vita flestir Sunnlendingar og engir betur en Skaftfellingar, hvílíkt torleiði það hefur verið og hversu mikið það hefur háð allri framvindu og framþróun byggðanna í Skaftafellssýslum, hin óbrúuðu vötn og eyðisandar, sem þar skilja á milli byggða og sveita. Ef maður lítur dálítið aftur í tímann og minnir á, hvernig byggð var háttað hér, þótt ekki væri lengra farið en um miðja síðustu öld, þá vil ég benda á það, að þá voru búsettir í Vestur-Skaftafellssýslu 2148 manns, og það var vissulega há hlutfallstala af íbúatölu þjóðarinnar á þeim tíma. En núna aftur á móti, á því herrans ári 1983, eru ekki orðnir nema um 1400 manns í þessari sömu sýslu þrátt fyrir fólksfjölgunina og þrátt fyrir alla þá tækni, sem hefur hafið innreið sína hér í okkar þjóðfélag. Þetta sýnir og sannar, að erfiðleikarnir við búsetuna þarna, eins og nú er háttað atvinnuástandi, eru orðnir svo miklir, að fólkið fær tæplega við það unað.

Satt að segja gegnir það hreinustu furðu. hve lengi Öræfingar hafa þraukað í sinni einangruðu sveit. Það gegnir, segi ég, alveg furðu. Og það er í raun og veru þakkarvert, að sú sveit skuli hafa haldizt í byggð fram á okkar dag. Allir vita, hve verzlunaraðstaða þeirra er erfið á allan máta, þar sem þeir hafa haft viðskipti sín við Kaupfélag Skaftfellinga í Vík og hafa þess vegna orðið að flytja allar sínar afurðir að og frá sínu héraði yfir þetta torleiði með ýmsu móti. Vitanlega var leyst úr því á sínum tíma með því að flytja þessar afurðir og vörur að mestu leyti á sjó, og það má segja, að það var þrekvirki hjá Skaftfellingum, þegar þeir 1916 réðust í það að kaupa skip beinlínis til að halda uppi flutningum við hafnlausa ströndina.

Nú á þessum tímum tækni og möguleika og aukins fjármagns og getu þjóðarinnar tel ég það mikið vel, ef alþjóð og Alþingi sameinast nú um það að gera eitt mikið og gott átak um að koma vegasambandi á, svo sem mögulegt er, milli þessara byggða. Það er sannfæring mín, að það mundi verða gífurlega mikil lyftistöng þessum byggðum, sem þarna eru, bæði í Austur-Skaftafellssýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, og ekki einungis það, heldur mundi koma þarna leið, sem mundi opna hundruðum íslendinga og jafnvel útlendinga nýja opna leið til að ferðast um landið og sjá það. Og það er vel þess vert, vegna þess að óhætt er að fullyrða, að einmitt á þessari leið mundu menn finna hið stórbrotnarta, hátignarlegasta og hrikalegasta, sem hægt er að sjá í íslenzkri náttúru.

Ég ætla ekki að fara að halda langa ræðu um þetta, en ég vil aðeins þakka það, að þessi till. hefur verið flutt hér inn á Alþingi, og ég vil mega vænta þess, að Alþingi geri allt, sem það sér sér fært, til þess að koma á móts við fólkið, sem hefur þraukað í strjálbýlinu við erfiðleikana og hamfarir náttúrunnar, koma til móts við það og reyna að stuðla eftir mætti að því, að samgöngur megi koma sem greiðastar til þessara byggða og það sem fyrst, vegna þess að það eru einmitt samgöngurnar, sem eru lífæð þjóðfélagsins og ein aðalundirstaða undir byggðinni í landinu, einnig að jafnvægið í byggðinni í landinu megi haldast og atvinna geti orðið stunduð á þessum svæðum.