20.03.1963
Sameinað þing: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í D-deild Alþingistíðinda. (3373)

195. mál, hafnargerðir við Dyrhólaey og í Þykkvabæ

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki vera margorður við þá hv. þm., sem hér hafa talað.

Ræða hv. síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Sunnl., var tiltölulega mjög laus við raunhyggju, en byggðist sýnilega á óskhyggju. Hann hefur frá blautu barnsbeini lifað í þeirri trú og þeirri von, að það væri hægt að byggja hafnir á þessum stöðum og kannske báðum, og það er enginn, sem það láir honum. Það vildu sjálfsagt allir, að það væri hægt. En að ekki að horfzt í augu við þá erfiðleika, sem eru á hafnargerðinni, kemur betur fram í því, að hann taldi skilyrði við Dyrhólaey ein þau æskilegustu, sem til væru á Íslandi fyrir hafnargerð. Ég vildi segja, að hvergi á Íslandi hvergi nokkurs staðar á Íslandi — væru verri skilyrði til hafnargerðar, og segi ég það af 20 ára reynslu í starfi hafnarmálastjóra. Það fær enginn maður mig til að trúa því, að hv. þm. geti með nokkrum skynsamlegum rökum leitt að því hinar minnstu líkur, að það séu neitt nálægt því að vera beztu skilyrði fyrir hafnargerð við Dyrhólaey, sem finnast í landinu, — eða hvers vegna mundi þá ekki eitthvað hafa verið gert á þessum stað, þar sem menn hafa verið að burðast við það nú síðustu 10–20–30 árin að bæta hafnarskilyrðin á landinu? Nei, sannleikurinn er sá, að hafnarskilyrði þarna frá teknísku sjónarmiði og ég vil líka segja frá hagrænu sjónarmiði eru hin erfiðustu, því að umferðin um þennan stað getur ekki a.m.k. með óbreyttum skilyrðum orðið nema tiltölulega lítil.

Sunnlendingar hafa nú fengið byrjun að höfn í Þorlákahöfn, og ég tel það ákaflega mikils virði fyrir þá, því að Þorlákahöfn er eini staðurinn á Suðurlandi, frá Faxaflóa og austur um Vestmanneyjar til Hornafjarðar, sem nokkur viðhlítandi skilyrði hefur til hafnargerðar á þeim verðlagsgrundvetti, sem viðráðanlegur er okkar íslenzku þjóð. Kostar þó tiltölulega lítil hafnargerð í Þorlákshöfn, sem nú hefur verið farið út í, milli 40 og 50 millj. kr., og er þó sú hafnargerð í vari frá úthafsöldunni og tiltölulega lítill efnisflutningur, sem þar á sér stað, samanborið við það, sem austar er.

Ég skal svo ekki segja frekar við þennan hv. þm. En ég get ekki komizt hjá því að vita, hvernig hv. 6. þm. Sunnl. talaði. Hann sagðist hafa heyrt það, sem ég sagði, en niðurstaðan af mínu tali hefði verið sú, að ekkert hefði verið gert, — ekkert gert. Og ef það mætti treysta því, sem ég hefði sagt um það, hvað ætti að gera, þá væri það kannske eitthvað í áttina, en langt frá því að vera viðhlítandi. Þetta er náttúrlega áróðursmálflutningur og ekkert annað. Það, sem hefur verið gert í þessu máli, er, að það hefur verið mæld upp öll ströndin með hafnargerð fyrir augum, frá því, eins og segir í skýrslu vitamálastjóra, austan við Vík og vestur fyrir Dyrhólaey. Landið í kring hefur verið nákvæmlega mælt og boranir farið fram. Það eina, sem eftir er, til að mynda sér skoðun á málinu, er sandflutningurinn með ströndinni, sem þessi hv. þm. vildi gera lítið úr og taldi, að það þyrfti ekki að gefa því mikinn gaum, sem einn stjörnufræðingur hefði sagt um þá, hluti. Þetta var auðsýnilega sagt í háðslegum tón til þess að gera lítið úr athugunum dr. Trausta Einarssonar. En þessu vil ég mjög mótmæla, því að dr. Traustí Einarsson er einn mesti jarðeðlisfræðingur, sem til er í þessu landi, og hefur líka allra manna bezt vit á þessum málum, sem við eigum kost á. Hitt er svo annað mál, þó að ég treysti honum vel, þá treysti ég enn betur dr. Bruun, sem kominn er hingað til að kanna þetta og bæta við það, sem gert hefur verið.

Ég held þess vegna, að það, sem hv. þm. sagði um, að ekkert hefði verið gert og allt vanrækt, séu ómerk orð og hann kunni ekki skil á því, hversu mikið þurfi að gera, áður en í þessar framkvæmdir verði ráðizt, ef það verður gert. En það þarf að vera vel grundað.

Hann vildi líka í sinni ræðu, hv. 8. þm. Sunnl., víta vitamálastjóra fyrir ummæli hans í svarbréfinu til rn., fyrir það, að hann hefði leyft sér að hafa skoðun á málinu. Ég vil algerlega mótmæla þessu, og ég fullyrði, að það er ekki maklegt að fara þeim orðum um starf vitamálastjóra, að hann hafi ekki gert það, sem honum var falið, og hann hafi haft óleyfilega skoðun um það. Hvorugt þetta hefur að mínu viti verið tilfellið. Þetta mál er náttúrlega, eins og nú horfa sakir, að mestu áróðursmál, því er ekki að leyna, því að bæði hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 4. þm. Sunnl. gera sér fulla grein fyrir því, að hafnargerð við Dyrhólaey og í Þykkvabæ er ekki jafnviðráðanleg og þeir vilja vera láta. Það hljóta fjöldamargir staðir á. þessu landi að koma til greina með framkvæmdir, áður en í þessar verður ráðizt, því að það liggur alveg fyrir, eins og vitamálastjóri segir, að hér er ekki um tugmilljóna verk að ræða, heldur hundruð milljóna, og það þarf að vera einhver fjárhagalegur grundvöllur undir verki, til þess að í það geti orðið ráðizt.