26.11.1962
Neðri deild: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Eysteinn Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð. — Það er fyrst að leiðrétta, því að mér varð mismæli áðan. Það er ekki heildarkostnaðurinn við frv., sem er 650 þús., heldur það, sem gert er ráð fyrir að aukið framlag til íbúðarhúsa kosti. En heildarframlagið er áætlað, eins og ráðh. benti á, rúmar 2 millj. kr. En við sjáum það einnig á þessari fjárhæð, rúmlega 2 millj. kr., að þó að hér sé stigið lítið spor í rétta átt, þá hrekkur það skammt til að bæta úr þeim vanda, sem orðinn er, eins og reyndar kom líka fram hjá hæstv. ráðh.

Ég skal ekki fara út í við þetta tækifæri að kappræða fram og aftur um landbúnaðinn og stjórnarstefnuna, en aðeins segja, að þó að byggingarstyrkur sé dálitið hækkaður og lánshæðin hækkuð, þá hrökkva þessar hækkanir ekki einu sinni til að mæta þeim hækkunum á byggingarkostnaði, sem orðið hafa sem kunnugt er.

En það er nú alvarlegast í þessu, ef litið er á framkvæmdirnar í heild og kostnaðinn, eins og hann er orðinn, annars vegar og svo stuðninginn hins vegar, einkum við útíhúsabyggingar, að þá er jarðræktarframlagið nánast orðið að engu. Og einmitt vegna þess, að eftír því sem dregst lengur að leiðrétta þetta, eftir því er meiri hætta á því, að menn gefist bókstaflega upp vegna þess, hversu dökkt er í álinn að þessu leyti til, þá vildi ég mjög fara fram á það við hæstv. ráðh., að hann drífi hið nýja jarðræktarlagafrv. fram í þingið, þannig að það gæti orðið að 1. í vetur.