15.03.1963
Neðri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 1. þm. Austf. sagði.

Ég vil fyrst þakka honum þann velvilja, sem kom fram í orðum hans í garð þeirra samtaka, sem sjómannafélögin hér í Reykjavík og Hafnarfirði komu upp á sinum tíma og hafa staðið að byggingum þeim, sem nú má sjá á Laugarási hér í Reykjavik. En hann hefur — og það má vera, að fleiri hafi eitthvað misskilið mín orð um þá starfsemi, sem fram undan er hjá þessum samtökum. Það er auðvitað ekki meining þeirra, sem þar fara með stjórn nú, að draga neitt úr því, sem þeir hafa ætlað sér áður fyrr. Hins vegar er, eins og ég þóttist hafa sagt hér áðan, grundvallarnauðsyn að ljúka þeim fyrirhuguðu samhangandi byggingum að Laugarási, einfaldlega til þess að fá þar fram nauðsynlegan heilbrigðan rekstrargrundvöll, sem sérhvert fyrirtæki verður helzt að hafa., og þegar því er lokið, verður haldið áfram við fyrirhugaðar áætlanir í þessum málum, eins og hv. 1. þm. Austf. minntist réttilega á. Og það var einmitt á einum síðasta fundi, sem ég og formaður margumræddrar mþn. áttum í félmrn. um þessi frv., að þá var að till. minni bætt inn í þetta frv. til l. um breyt. á l. um happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna síðustu mgr., sem þar má sjá, sem hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Heimilt skal þó stjórn dvalarheimilis aldraðra sjómanna að veita styrki eða lán til annarra dvalarheimila aldraðs fólks.“

Þessi heimild var ekki fyrir í eldri lögunum, en ef þetta frv. verður samþ., þá verður hún fyrir hendi, þannig að möguleiki verður á að koma í þessu máli til móts við hinar fjölmörgu óskir, sem okkur hafa borizt utan af landi um þetta mál. Hins vegar geri ég mér fulla grein fyrir því, að ef samþ. verður frv. um byggingasjóð aldraðs fólks, um hinar einstöku íbúðir, þá mun það mikið létta á í þessu efni, en þetta auðvitað opnar þann möguleika fyrir hin smærri bæjarfélög að koma sér upp 1, 2, 3 íbúðum innan sinna vébanda, og það er einmitt það, sem þetta miðar að. Það er m.a. eitt stærsta atriðið að slíta ekki gamla fólkið úr því umhverfi, sem það er orðið rótgróið í, heldur gefa því tækifæri til þess að eyða sínum efri dögum í því samfélagi og meðal þeirra, sem það hefur eytt kannske megninu af sinni starfsævi með. Það er einmitt vegna þessa, að ég álít, að það séu fleiri áhugamenn til um þessi mál heldur en sjómannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði, sem gætu komið þarna til móts við þennan sjóð og lagt fram ekki aðeins fé, sem þeir aðilar eiga þegar í sjóði, heldur safnað meira fé til þess að hjálpa til við þetta nauðsynjamál, og það var einmitt þess vegna, sem stjórnendur sjómannasamtakanna hér í Reykjavík fóru út í að marka þá braut á sínum tíma vegna óska frá sjómannafélögum úti um land þessa efnis. Þess vegna koma mér nokkuð spánskt fyrir sjónir orð hv. 4. landsk., forseta A.S.Í. sem eftir hans tali vill helzt sleppa því, að þetta frv. verði samþ., en stofna í stað þess byggingasjóðs fyrir ungt fólk. Ég held einmitt, að sú þróun og þær skoðanir, sem ríkt hafa meðal íslenzku þjóðarinnar, a.m.k. síðustu árin, séu þær, að það sé samfélagið sjálft, sem eigi frekar öllu að hjálpa þeim, sem eru komnir á þann aldur að geta ekki unnið fyrir sér með fullri starfsorku, og þeim, sem hafa orðið af einhverjum öðrum ástæðum undir í lífsbaráttunni, það sé þá frekar að leggja meira að hinum, sem ungir eru og hafa fulla heilsu. A.m.k. held ég, að það hljóti að vera hugsunarháttur flestra í okkar þjóðfélagi í dag. Þar fyrir utan mun þetta frv. og fyrirhugaðar íbúðir auðvitað létta á þeirri ósk að byggja dvalarheimili víða um land.

Þá hefur sú breyting verið gerð ekki alls fyrir löngu hér á hv. Alþingi, að úr erfðafjársjóði má veita fé til styrktar dvalar- og elliheimilum, þannig að þar hefur komið nokkur fjárhæð til eða getur komið nokkur fjárhæð til, sem getur orðið til styrktar slíkum stofnunum. En eins og ég sagði, ei þetta frv. verður að lögum, þá mun það létta á óskinni um byggingu elliheimila, og jafnvel getur það orðið til styrktar þeim, sem þegar eru komnir af stað með slíkar framkvæmdir, því að það er ekkert eðlilegra en þetta sé haft í grennd við elli- og dvalarheimili, til þess að nýta megi sama starfslið og er á elliheimilunum til að aðstoða gamla fólkið, sem þar býr, eins og segir í þriðja frv., sem hér er lagt fram, en það frv. gerir ráð fyrir heimilishjálp til þessa fólks.

Bollaleggingum hv. 4, landsk. um sölu íbúðanna finnst mér ekki vera ástæða til að svara. Hann benti sjálfur á svar við því, sem hann var að spyrja um, sem ég álít vera aðalatriðið, en það er, ef byggt er í sambyggingum, að þessar íbúðir, sem væru þá eingöngu ætlaðar öldruðu fólki, verði einmitt staðsettar þannig í því húsi, að þær gætu orðið til nota fyrir aldrað fólk. Auk þess eru ýmiss konar önnur ráð í sambandi við slíkan útbúnað íbúða til þess að létta undir með öldruðu fólki, sem þar mundi dveljast.