02.04.1963
Efri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

212. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að ég er samþykkur þessu frv., en eitt langar mig til að vita í sambandi við þetta mál. Það er, hvort umsækjendur um eftirgjöf á skatti vegna þessara bifreiða eru ekki mun fleiri en sú tala bifreiða, sem frv, gerir ráð fyrir að verði heimilt að slá aðflutningsgjöldum af, hvort hugsanlegt sé um flesta þá, sem sækja um afslátt á þessum bifreiðum, að það sé hægt að veita þeim úrlausn, eða hvort þeir séu allmiklu fleiri.

Ég held, að það hafi verið í hittiðfyrra, árið 1961, sem 250 aðilum var veitt undanþága frá lögum í þessum efnum, en árið sem leið munu það hafa verið 150, og svo mun vera ráð fyrir gert enn þá. En hverjar upplýsingar hefur n. fengið um það, hve margir umsækjendur eru nú, og eru líkur til, að hægt sé að fullnægja þeim með þeirri bifreiðatölu, sem frv. gerir ráð fyrir?