08.04.1963
Efri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

54. mál, lyfsölulög

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv. er samið af nefnd, sem skipuð var 2. nóv. 1959 af þáv. heilbrmrh. N. hefur stuðzt við nýlega löggjöf Dana um sama efni og hafði til hliðsjónar umsagnir stjórnar félaga lækna og lyfsala og nokkurra annarra aðila, eins og nánar er greint frá i aths. við frv.

Heilbr.- og félmn. ræddi frv., en varð eigi á eitt sátt um afgreiðslu. Meiri hl. leggur til, að það yrði samþ. óbreytt, en hv. 9. þm. Reykv. og 1. þm. Norðurl. e. flytja við það nokkrar brtt.

Ein ástæðan til þess, að ég vil ekki gera veigamiklar breyt. á frv., er sú, að full eining virðist vera um frv., eins og það er nú, milli þeirra aðila, sem við það eiga að búa. En tilraunir til að setja lyfsölulög hafa allar strandað á óeiningu milli þessara aðila um þau frv., sem ætlunin hefur verið að bera fram um þetta efni.

Ég hef rætt við tvo þeirra nm., sem sömdu frv., þ.e. landlækni og prófessorinn í lyfjafræði við Háskóla Íslands, og töldu þeir æskilegt, að frv. yrði samþ. án verulegra breytinga. Við 1. umr. taldi hv. 9. þm. Reykv., að fyrrv. landlæknir hefði haft sérstakan áhuga á, að lyfjabúðir yrðu félagsreknar. Ég held, að það sé misskilningur. Það mun hafa verið þáv. forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, sem var áhugamaður um það og fékk þau ákvæði, sem nú gilda um það, lögfest. Áhugi hefur þó reynzt minni á því að stofnsetja slíkar lyfjabúðir en við var búizt, og hafa jafnvel sumir aðilar, er fengu leyfi, ekki notað það. Vegna hagsmuna almennings virðist ekki ástæða til að hafa þessa heimild rýmri en er í frv. Það er alveg nýtt, ef það er til bóta að fjölga milliliðum, og a.m.k. er ekki líklegt, að aukamilliliður geri vöruna ódýrari, enda er ekki um að ræða annað verð á lyfjum en það opinbera, lögskipaða verð. Lyf eru nú þegar seld föstu verði samkv. gjaldskrá, sem sett er af heilbrigðisstjórninni.

Um brtt. hv. 1. þm. Norðurl. e. get ég verið fáorður, Ég tel þær óþarfar og ekki til bóta. Aðalkostur frv. er einmitt að gera eftirlít með gerð og sölu lyfja sem einfaldast og öruggast, en það er mjög mikilsvert til þess að bægja frá hættu á misnotkun og ofnotkun. Frá því sjónarmiði er verra að dreifa ábyrgð á fleiri aðila, hvort sem aukaaðili er samvinnufélag, sveitarfélag eða sjúkrasamlag.

Till. hv. 9. þm. Reykv. eru svipaðar að efni, en auk þess aðrar till., þar sem hann vill breyta aðferðinni við veitingu lyfsöluleyfis, og eru till. hans allt aðrar en þær, sem samkomulag er um milli þeirra aðila, sem það varðar mest, félög lyfsala og lyfjafræðinga. Akvæði frv. eru sniðin eftir dönsku lögunum, sem eru búin að vera í gildi í nokkur ár og þykja hafa gefizt vel þar. Þá vill hv. þm. fella niður kaflann um vinnudeilur og kjarasamninga, en ég tel hann einmitt alveg nauðsynlegan og til fyrirmyndar af aðilum að koma sér saman um slíka till. Þessi ákvæði eru líka sniðin eftir dönsku l. og þykja hafa gefizt þar mjög vel. Þá leggur hv. þm. til að skilja Lyfjaverzlun ríkisins frá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins og veita henni einkaleyfi á innflutningi og sölu lyfja í heildsölu. Mér virðist þessi breyt. óþörf og ástæðulaus. Það er vafalaust, að breytingin yrði til þess að auka kostnað af Lyfjaverzlun ríkisins, en hagræði vandséð. Lyfjaverzlun hefur heimild til innflutnings, og ég veit ekki til, að nein ósk hafa komið frá forstöðumanni hennar um, að einokunaraðstaða yrði lögleidd eða breyt. í þá átt, sem hv. 9. þm. Reykv. leggur til. Eins og ég sagði áðan, leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.