27.04.1964
Neðri deild: 84. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég ætla mér nú ekki að lengja þessar umræður að neinu ráði og skal ekki fara að endurtaka það, sem ég hef sagt við fyrri umr. þess hér á hv. Alþ. En ég neita því þó ekki, að mér finnst enn talsvert skorta á, að þær upplýsingar um ýmis atriði frv. hafi komið fram, sem þurft hefðu að koma fram, og það um sum atriði a.m.k., sem skipta meginmáli. um það, hvaða afleiðingar frv. hefur, ef það verður að l., fyrir banka- og peningamálin í landinu í heild, eins og t.d. þau atriði, hvernig bindiskyldunni verður hagað, hversu fljótt hámarki frv. eigi að ná, hvaða kjör verði á bréfum þeim, sem Seðlabankanum skal einum allra heimilt að gefa út með gengistryggingu, og raunar sitthvað fleira, sem ég mun ekki endurtaka. En í sambandi við svarið við einni af þeim fsp., sem ég leyfði mér að bera fram til hæstv. ríkisstj., þ.e. spurningunni um það, hvað afurðalánin mundu hækka mikið samkv. hinni ráðgerðu breytingu, var þekking mín á bankamálum talsvert dregin í efa. Ég skal ekki hefja deilur á hv. Alþ. um svo fánýtt atriði, sérstaklega ekki í sambandi við það stóra mál, sem hér er til umr., og ég skal fúslega viðurkenna, að þessi þekking mín má ekki minni vera, en þó verð ég að halda því fram, að umrætt atriði beri ekki vott um vanþekkingu í þessu efni.

Hér var sagt, að vitanlega væri ekki hægt að segja neitt um það fyrir fram, hversu mikil hækkun mundi fást á afurðalánum með þessu móti, vegna þess að hér væri um að ræða hagstjórnartæki, til margra hluta nauðsynlegt hagstjórnartæki, m.a. og ekki sízt til að halda verðbólgunni í skefjum, og að það sýndi yfirburði hv. Sjálfstfl. umfram núverandi stjórnarandstöðu, að 1957, þegar bindingarákvæðin voru fyrst lögleidd, hafi stjórnarandstaðan alls ekki spurt um .þetta. Hún hafi sýnt svo mikinn þroska, að henni hafi ekki dottið í hug að bera fram spurningu um þetta atriði. En ég vil halda því fram, að hér gegni allt öðru máli en var 1957. Nú er það nefnilega sagt berum orðum í frv. og athugasemdunum, að megintilgangur innstæðubindingarinnar skuli vera að afla fjár frá bankakerfinu í heild til að standa undir lánveitingum Seðlabankans innanlands, þ. á m. endurkaupum afurðavíxla. Athugasemdirnar leggja ríka áherzlu á þetta, og ræður hæstv. viðskmrh. hafa mjög snúizt um útlistun á því, hversu nauðsynlegt væri að afla aukins fjármagns í þessu skyni. Engu slíku var til að dreifa 1957, engin ákvæði eru um það í þeim l., hvað ráðgert hafi verið að gera við þá peninga, sem inn í Seðlabankann kæmu samkv. þessum ákvæðum, enda var heimildin aldrei notuð í stjórnartíð þeirra, sem þau l. settu.

Þegar nú aftur á móti er svona ákveðið tekið til orða um það, að fjármagnið skuli nota í þessu ákveðna skyni, og nauðsyn aukinna afurðalána er rækilega undirstrikuð og dylst raunar engum, þá hlýtur það að eiga fullan rétt á sér við afgreiðslu málsins hér að fara fram á vitneskju um það, hvað mikið á að auka umrædda aðstoð til atvinnuveganna, og meðan upplýsingar um þetta liggja ekki fyrir, vita hv. alþm, ekki, hvaða breytingar muni leiða af lagasetningunni, og vantar þar með traustar forsendur fyrir því að samþykkja frv. Það, sem við vitum, er það, að viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir verða minna megnugir að greiða fyrir atvinnuvegunum en þeir eru þó í dag. Það, sem við vitum ekki, er það, hvað mikla aðstoð atvinnuvegirnir megi treysta á í gegnum þessi ákvæði. Þess vegna liggur þetta ekki nægilega ljóst fyrir. Þetta vildi ég segja í tilefni af því, sem fram hefur komið hér við umræðurnar, en ég mun ekki að öðru leyti lengja málflutning minn frekar en orðið er.

Það, sem gerði, að ég bað hér um orðið, var það, að mig langaði til að fylgja úr hlaði með örfáum orðum brtt., sem ég hef leyft mér að bera fram nú við 3. umr. málsins ásamt samnefndarmanni mínum í hv. fjhn., hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúla Guðmundssyni. Till. er við 1. gr. frv. og er um það, að við 2. efnismálsgr. bætist eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við útreikninga á þeim upphæðum, sem skylt er að afhenda Seðlabankanum inn á bundinn reikning, skal þó aðeins reikna hundraðshluta af þeim innstæðum, sem eru umfram 15 millj. kr. hjá hverri innlánsstofnun.“

Þessi viðauki skýrir sig raunar sjálfur, og ég skal ekki hafa langa framsögu um hann, þess gerist ekki þörf. Efni till. er, eins og fram kom, að draga 15 millj. kr. frá þeim höfuðstól, sem lagður er til grundvallar við útreikning bindiskyldunnar, og till. er flutt í þeim tilgangi að draga örlítið úr þeim kvöðum, sem lagðar eru á bankana og aðrar innlánsstofnanir í landinu, í því skyni að auðvelda þeim, þótt í litlu sé, að rækja það hlutverk, sem þeim er ætlað samkv. l. og eðli málsins.

Ég hef áður bent á það hér við umræðurnar, að allir viðskiptabankarnir hafa sitt ákveðna verksvið. Það hlutverk, sem þeim hefur samkv. ákvörðun Alþ. verið falið, ber þeim að rækja. Landsbankinn, Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn eru höfuðbankar þjóðarinnar, þeirra aðalhlutverk er að standa undir lánveitingu til sjávarútvegs og landbúnaðar. Iðnaðarbankinn var stofnaður 1951 til þess að styðja verksmiðjuiðnað og handiðnað í landinu. Verzlunarbankinn var stofnaður fyrir nærri 4 árum, 1960, Samvinnubankinn fyrir aðeins 2 árum. Um þá báða gilda sérstök lög, þar sem verksvið þeirra er ákvarðað. Verkefni sparisjóðanna hefur ekki beinlínis verið ákveðið með l., en allir vita þó, að sparisjóðirnir hafa víðs vegar um landið verið gífurleg lyftistöng fyrir byggðarlögin og viðast hvar þeir einu aðilar, sem fólk víðs vegar um landið hefur getað leitað til um aðstoð við framkvæmdir sínar. Innlánsdeildir samvinnufélaganna eru, eins og ég hef áður leyft mér að benda á, ekki venjulegar lánastofnanir, þær stunda ekki útlánastarfsemi, heldur eru settar á stofn samkv. þeim tilgangi löggjafans að gefa samvinnumönnum kost á því að fá félagi sínu sparifé sitt sem rekstrarfé.

Þannig hafa allar þær stofnanir, sem bindiskyldan nær til, sitt ákveðna verksvið, og þjóðfélagið á mikið undir því, hvernig þeim tekst að rækja skyldur sínar. Þessi till. er örlítið spor í þá átt að auðvelda þeim baráttuna, en hún er þó fyrst og fremst kannske flutt í öðrum tilgangi. Hún er fyrst og fremst flutt til þess að draga úr og helzt að hætta þeim eltingarleik, sem nú á sér stað við örsmáar upphæðir á hverjum vogi og hverri vík í landinu. Þessi sparðatíningur skiptir engu máli fyrir fjárhagskerfið eða peningastjórnina í landinu, en hann kemur illa við, það hefur margsýnt sig, hann kemur illa við þær stofnanir, sem hann snertir. Þess vegna ber að dómi okkar flm. að hætta honum.

Þessar litlu peningastofnanir eru flestar úti á landi, og það má kannske með nokkrum rétti segja, að þessi regla, sem hér er ráðgerð, mundi, þótt í litlu sé, vera skerfur til þeirrar baráttu, sem fram undan er, að auka það, sem kallað hefur verið jafnvægi í byggð landsins, en á því viðfangsefni virðist skilningur góðu heilli mjög fara vaxandi hér á hv. Alþingi. Ég sé því fyllstu ástæðu til að vænta þess, að þessi viðaukatill. okkar hv. 1. þm. Norðurl. v. fái góðar undirtektir hér á hv. Alþingi, og þar sem hún er svo auðskilin og einföld, eins og ég hef áður gert grein fyrir, mun ég ekki hafa þessa framsögu lengri.