08.05.1964
Efri deild: 85. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til athugunar, en eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur n. ekki náð samstöðu um málið, þannig að við þrír, sem stöndum að nál. á þskj. 577, leggjum til, að það verði samþ. óbreytt, en tveir hv. nm., þeir 1. þm. Norðurl. e. og 6. þm. Sunnl., leggja í sérstöku nál. til, að frv. verði fellt.

Það eru tvær meginefnisbreytingar á núgildandi l. um Seðlabanka Íslands, sem þetta frv. felur í sér. Í fyrsta lagi sú, að heimild Seðlabankans til innstæðubindingar frá lánastofnunum er rýmkuð frá því, sem nú er, en tilgangur innlánabindingarinnar er, eins og segir í frv., að afls fjár frá bankakerfinu í heild til að standa undir lánveitingum Seðlabankans innanlands, þ. á m. endurkaupum afurðavíxla. önnur meginbreytingin, sem í frv, felst, er sú að heimila Seðlabankanum að gefa út gengistryggð verðbréf.

Að mínu áliti hlýtur afstaða manna til þessa frv. að vera háð því, hvaða stefnu menn telja að beri að fylgja í verðlags- og peningamálum almennt. En þó að í þeim efnum sé auðvitað ágreiningur, virðast þó allir sammála um það, að verðbólguna beri að stöðva. Að svo illa hefur samt tekizt til um stöðvun verðbólgunnar sem raun er á undanfarinn aldarfjórðung hér á landi, er ekki vegna skoðanamunar um það, að þessi þróun verðlagsmála sé óæskileg, heldur veldur þar um hitt, að ýmsir aðilar, sem áhrifaaðstöðu hafa í þessum efnum, og þá fyrst og fremst hagsmunasamtökin í þjóðfélaginu, hafa ekki viljað fórna stundarhagsmunum sínum í nægilegum mæli, til þess að ná mætti því markmiði í þessum efnum, sem allir eru í orði kveðnu sammáls um, en sú saga skal þó ekki ýtarlegar rakin hér.

Ríkisstj. og Alþingi hafa að mínu áliti yfir að ráða þrenns konar tækjum, sem beita má í því efni að stöðva verðbólguna: í fyrsta lagi stjórn peningamálanna, í öðru lagi afgreiðslu fjárl., og í þriðja lagi getur verið um að ræða beina íhlutun um verðlag og kaupgjald.

Svo að ég víki með örfáum orðum að því síðasta, þá hefur verðlagseftirliti raunar verið beitt hér á landi um alllangt skeið, eða allt frá því skömmu áður en seinni heimsstyrjöldin hófst. En hvaða skoðanir sem menn annars hafa á gagnsemi verðlagseftirlits, þá verða því alltaf takmörk sett, hve miklum árangri er hægt að ná með því, meðan kaupgjaldið, langþýðingarmesti liður framleiðslukostnaðar, er óháð beinni íhlutun ríkisvaldsins, en eins og kunnugt er, hefur tilraunum í þá átt verið stórilla tekið af viðkomandi hagsmunasamtökum, þegar um slíka íhlutun hefur verið að ræða, og sé ég ekki ástæðu til að orðlengja meira um það.

Hvað snertir annað atriðið, sem ég nefndi, afgreiðslu fjárl., þá hafa þau á þann hátt áhrif á verðlagið, að ef það opinbera dregur inn meiri peninga með sköttum heldur en settir eru í umferð með útgjöldum hins opinbera, hefur það áhrif til lækkunar á verðlagi, en öfugt, ef um tekjuhalla á fjárl. er að ræða, þannig að ríkið setji meiri peninga í umferð með útgjöldum sínum en það dregur inn með sköttum. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða verulega um þennan þátt verðlagsmálanna, enda býst ég við, að hv. stjórnarandstæðingar, sem andvígir eru þessu frv., muni sízt gagnrýna það, þó að ekki sé gengið lengra en raun er á í því efni að beita fjárl. til þess að koma á meira jafnvægi í verðlagsmálum, því að þær till., sem þeir yfirleitt hafa gert í því sambandi, hafa fyrst og fremst verið fólgnar í lækkun skatta og aukningu ríkisútgjalda. En ekki er vafi á því, að ef litið er á fjárlagaafgreiðsluna, eins og hún hefur verið, þá hefur hún frekar þensluáhrif heldur en hið gagnstæða, því að þótt fjárlög hafi á undanförnum þingum í meginatriðum verið afgreidd með tilliti til þess, að tekjur og gjöld stæðust nokkurn veginn á, eru tekjutilfærslur orðnar svo stór liður í fjárl., að gera má ráð fyrir því, að þeir, sem tekjurnar eru færðar til með almannatryggingum og öðru slíku, hafi svo miklu meiri neyzluhneigð en þeir, sem skattarnir eru lagðir á, að það verði til þess að auka eftirspurn eftir vöru og þjónustu. Annað mál er það, að þó að fjárlagaafgreiðslan, ef litið er á hana eina, hafi þannig frekar haft þensluáhrif, þá hefur það síðustu árin ekki verið hvað snertir afkomu ríkisbúskaparins í heild, en það er m.a. vegna þess góðæris, sem verið hefur, að verið hefur meiri tekjuafgangur í ríkisbúskapnum en fjárlög hafa gert ráð fyrir. En þar sem ríkið ræður ekki þróun kaupgjaldsmálanna og þar af leiðandi verðlagsmálanna nema að nokkru leyti og afgreiðslu fjárl. verður ekki af ástæðum, sem ég þegar hef greint, notuð sem tæki í þessu efni, þá verður þeim mun meiri nauðsyn þess, að stefnunni í peningamálum sé hagað með það fyrir augum að hamla gegn verðbólguþróun. Af því leiðir, að ef sleppt er að taka tillit til erlendra lána, þá mega bankarnir ekki lána meira út en nemur sparifjármyndun innan bankakerfisins. Enda hlýtur það að vera svo, að verðbólgumyndandi útlán bankanna mundu aldrei leysa neinn vanda, því að aldrei er hægt að festa meira fé en sparnaðinum í þjóðfélaginu nemur, hvort sem hann er frjáls eða þvingaður fram með skattaálögum. Hin sjálfvirku afurðalán bankanna skapa auðvitað hættu í þessum efnum, og má einmitt í því efni vísa til tilvitnana hv. minni hl. í grg. fyrir efnahagsmálalöggjöfinni 1960. En þó að þetta ætti út af fyrir sig að vera ljóst, hefur þörf atvinnuveganna fyrir slík lán hins vegar verið talin svo mikil, að þessu útiánakerfi hefur verið haldið uppi þrátt fyrir þá augljósu hættu í verðlagsmálum, sem af því stafar. Ef Seðlabankinn því á að standa undir auknum lánveitingum í þessu skyni, verður það fjármagn að koma einhvers staðar frá. Um það ætti ekki að vera ágreiningur, hvað sem öðru liður. Og það er einmitt með tilliti til þessa, sem heimild Seðlabankans til innstæðubindingar er rýmkuð, að því er frv. gerir ráð fyrir.

Ég við annars segja það, að mér finnst sú afstaða hv. stjórnarandstæðinga í þessu efni, sem m.a. kemur fram í nál. hv. minni hl., að ýmsu leyti vera sjálfri sér ósamkvæm. Þeir viðurkenna eins og aðrir nauðsyn þess að stöðva verðbólguna. Þeir viðurkenna einnig, að afla þurfi fjár til kaupa á afurðavíxlum, eins og öðrum lánveitingum af hálfu Seðlabankans. En ef hafna á þeirri leið, sem lagt er til í frv. að farin sé, þá þarf að afla fjármagnsins með einhverju öðru móti. Það væri vissulega hægt, eins og vikið er að í nál. hv. minni hl., að leysa þennan vanda í bili með því að ganga á gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans. En í fyrsta lagi finnst mér liggja í augum uppi, að ef fara ætti þá leið, væri fólgin í því mikil skammsýni og það væri of dýru verði keypt, ekki sízt frá hagsmunasjónarmiði atvinnuveganna, ef þá leið ætti að fara. Allir, sem við atvinnurekstur hafa fengizt, munu þess minnugir, hve margvíslegu óhagræði það olli atvinnuvegunum, þegar haftakerfið var í algleymingi, áður en efnahagsráðstafanirnar voru gerðar 1960. En annars sé ég ekki ástæðu til í þessu sambandi að fjölyrða um þetta atriði, því að hv. minni hl. kemst raunar að þeirri niðurstöðu í nál. sínu, að gjaldeyrisvarasjóðurinn megi ekki vera minni en hann er. Mér virðist því, að þá ályktun beri helzt að draga af bollaleggingum hv. minni hl. um þetta efni, að þeir telji, að þennan vanda eigi að leysa með því að auka sparifjármyndunina eða traust manna á gjaldmiðlinum. Lengra ná þeirra till. í rauninni ekki en að bera fram almenna ábendingu um þetta.

En þá kemur aftur spurningin, hvaða leiðir eigi að fara til þess að auka sparifjármyndun í landinu. Eftir því sem ég kemst næst, mun svar þeirra í þeim efnum vera það að vísa til þáltill., sem nokkrir hv. þm. Framsfl. hafa borið fram seint á þessu þingi, þess efnis, að athugun verði framkvæmd á því, hvort tiltækt sé að taka upp almenna verðtryggingu sparifjár. En um þá hlið málsins tel ég einmitt eðlilegt að ræða í sambandi við hitt meginatriði frv., sem er heimild til handa Seðlabankanum til útgáfu gengistryggðra verðbréfa, og kem ég þá næst að því.

Nú er það vissulega að mínu áliti alveg rétt í nál. hv. minni hl., að gengistrygging er annað en verðtrygging. En eftir sem áður er það sama hugmyndin, sem liggur þessu tvennu að baki, eins og hv. minni hl. virðist einnig vera ljóst, en hún er sú að örva sparifjármyndunina og vekja traust manna á gildi peninganna, og því tel ég einmitt ekki óeðlilegt, að rætt sé jafnhliða um þessa till. um gengistryggingu, sem í frv. felst, og verðtryggingartillöguna.

Nú er mér engin launung á þeirri skoðun minni, að ég tel áðurnefnda till. hv. framsóknarmanna um almenna verðtryggingu sparifjár mjög athyglisverða. Mín afstaða til þeirrar till, er jákvæð, og ég tel ástæðu til að harma það, að hún skuli vera svo seint fram komin, að því miður eru litlar líkur á því, að hv. Alþingi gefist tímt til þess að ræða hana og afgreiða. Að mínu áliti er hægt að leysa verðbólguvandamálið með því að taka upp í einni eða annarri mynd umreikning skulda og peningakrafna. Með því móti má eftir krókaleið ná sama árangri og auðveldast væri auðvitað að ná, ef kostur væri á samkomulagi við hagsmunasamtökin um stöðvun verðbólgunnar. En þótt ég telji þannig umrædda till. allrar viðurkenningar verða, ber þess að gæta, að hér er aðeins um að ræða till. um það, að athugun fari fram á hugsanlegri leið í þessum efnum. Sú athugun hlýtur alltaf að taka talsverðan tíma, m.a. með tilliti til mikilla framkvæmdaörðugleika á slíkri verðtryggingu sparifjár, þó að ég sé raunar þeirrar skoðunar, að þessir framkvæmdaörðugleikar séu ekki óyfirstíganlegir.

Nú er það svo, eins og kunnugt er, að undanfarna daga hafa farið fram viðræður milli hæstv. ríkisstj. og fulltrúa frá Alþýðusambandinu um hugsanlegan möguleika á því, að samvinna megi takast milli þessara aðila um stöðvun verðbólgunnar. Það er rétt að vona það bezta í þeim efnum, en á hinn bóginn gefur þróun málanna að undanförnu þó ekki tilefni til svo mikillar bjartsýni, að ekki verði að vera við því búinn, að jafnvel á næstu vikum geti þróun efnahagsmálanna orðið slík, að þörf verði skjótra aðgerða, ekki sízt í peningamálunum. Og gagnstætt verðtryggingartill., svo góðra gjalda verð sem hún er út af fyrir sig, felur þetta frv: í sér beinar heimildir til ákveðinna aðgerða, ef nauðsyn ber til. Með tilliti til þessa getur till. hv. framsóknarmanna um verðtryggingu ekki komið í stað þess frv., sem hér liggur fyrir, hvað sem því líður, hvort skynsamleg framkvæmd almennrar verðtryggingar sparifjár gæti síðar komið á slíku jafnvægi á lánamarkaðinum, að slíkt mundi gera óþarfar þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, en það tel ég engan veginn óhugsandi.

Um gengistryggingarákvæðið vil ég að öðru leyti bæta því við, að ég tei það að vísu allsendis ófullnægjagin lausn á verðtryggingarhugmyndinni, og ég get bætt því við, að ég tel eðlilegra, að verðtrygging sparifjár sé miðuð við einhvers konar verðlagsvísitölu fremur en gengisskráningu, m. a. vegna þess að slíkt mundi hafa miklu meira öryggi í för með sér fyrir sparifjáreigendurna heldur en gengistryggingin, sem oft getur verið lítils virði, eins og hv. minni hl. raunar að mínu áliti tekur réttilega fram í sínu nál. En á hinn bóginn tel ég þó, að ekki beri að bregða fæti fyrir það, þegar Seðlabankinn æskir slíkrar heimildar, og mér finnst, að það ætti að verða verðtryggingarhugmyndinni frekar til framdráttar heldur en hitt, þó að ég telji allar líkur á því, að þau mál verði í náinni framtíð að taka öðrum og fastari tökum en gert er með því að samþykkja þessa heimild Seðlabankanum til handa.