09.03.1964
Neðri deild: 67. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

88. mál, eyðing refa og minka

Matthías Ingibergsson:

Herra forseti. Ég kem í ræðustólinn aðeins til þess að gera grein fyrir fylgi mínu við þá till., sem hér hefur verið lögð fram af meiri hl. landbn. og gerð hefur verið grein fyrir hér. Í sambandi við orð hv. frsm. n. þarf ég líka að segja fáein orð.

Það mál, sem hér liggur fyrir, er tvíþætt.

Annars vegar er um tilraun að ræða, og ég vil leggja áherzlu á það, að hér er um tilraun að ræða. Það er ekki alls kostar rétt, sem frsm. n. hélt fram, að hér væri um ráðstafanir að ræða til þess að fyrirbyggja eyðingu arnarins. Hér er um tilraun að ræða til þess að reyna að fá úr því skorið, hvort eitrun fyrir ref og mink er völd að því að útrýma erninum og hvort stöðvun hennar eða bann á eitrun mundi verða til þess að fyrirbyggja frekari eyðingu hans. Á þetta vil ég leggja áherzlu, að þetta er tilraun. Það er tilraun, sem menn vilja gera til þess að vernda íslenzka örninn enn frekar en nú er gert, en svo sem alkunna er, þá er hann alfriðaður og hefur verið það lengi. Og þessi tilraun er í því fólgin að banna um tiltekinn tíma alla eitrun fyrir ref og mink, sem er nú lögskipuð. Og það hafa verið mörg rök færð að því, að örninn hafi drepizt af eitruðum hræjum.

Ég get fallizt á, að það væri áfall fyrir náttúrulíf landsins, ef örninn hyrfi með öllu. Hins vegar hafa engin haldbær rök verið færð fram fyrir því, að það sé á valdi okkar að stöðva þá þróun, sem birtist í fækkun íslenzku arnanna, og því síður að snúa þeirri þróun við. Ég hef heldur enga trú á því, að slíkt mætti takast, nema tækist að hemja fuglinn í einhvers konar dýragarði eða fuglagarði, en það mun sennilega vera ógerningur. En ég get tekið undir það, að það væri leitt og jafnvel hneisa fyrir þjóðina að reyna ekki að gera eitthvað frekar en nú hefur verið gert til þess að vernda örninn, t.d. með þeirri tilraun, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., og fá með því úr því skorið, hvort eitrunarbann getur eitthvað hjálpað í þessu efni. En þá ber hins að gæta, að refurinn, sem eitrunarskyldunni er beint gegn fyrst og fremst, er mikill vágestur í sauðfé bænda og veldur árlega stórtjóni. í sumum héruðum telja bændur eitrun óhjákvæmilega sem vörn gegn þessum vágesti, í öðrum héruðum telja bændur ekki svo vera, og kann að fara hér eitthvað eftir staðháttum og háttalagi dýrsins. Þetta er staðreynd, sem við verðum að hafa í huga, ekki síður en staðreyndina um fækkun arnarins.

Umsögn um frv. hefur m.a. borizt frá veiðistjóra, eins og hér hefur verið getið. Ábendingar hans hafa verið teknar til greina í Ed. að mestu leyti. Eina till. hans, sem ég tel ekki veigaminni en aðrar, hefur landbn. Ed. ekki tekið til greina, en það er till. hans um, að eitrunarfrestun verði ekki höfð lengri en 3 ár. Í umsögn veiðistjóra kemur fram, að 3 ára eitrunarhlé eigi ekki að koma að sök við eyðingu refsins, slíkt hlé gæti jafnvel orðið til hóta, því að refurinn mundi verða auðveldari bráð eitrunar eftir slíkt hlé. Þrjú ár ættu einnig að nægja til að gefa vísbendingu um áhrif eitrunarbannsins á viðgang arnarins. Þar sem hér er um tímabundna tilraun að ræða, en ekki endanlega tilhögun, er eðlilegt, að hún sé höfð það löng, að hún nægi til að gefa þá niðurstöðu, sem er verið að leita að, en hins vegar ekki lengri. Er því í alla staði eðlilegt að fara að till. veiðistjóra, og í þeirri von, að deildin geti fallizt á þessa málamiðlun, er ég meðflm. þessarar till.