09.03.1964
Neðri deild: 67. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

88. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. beindi til nefndarinnar fsp. Hann talaði að vísu svo lágt, að ég greindi varla orð hans, en mér skildist, að hann væri að spyrja um hámarksgreiðslur verðlauna, sem eru greidd fyrir unnin grendýr, en það stendur í l. gr. frv., eins og það er komið frá Ed.: „Hámark verðlauna fyrir að vinna grendýr skal vera 350 kr. fyrir fullorðið dýr og 100 kr. fyrir hvern yrðling.“ Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða það, og hef fyrir mér orð veiðistjóra, að yfirleitt mun það vera orðin föst og viðtekin regla, að hámarkið er greitt.

Eins og ég sagði áðan í framsöguræðu minni, er tilgangur þessa frv. fyrst og fremst sá að gera tilraun, — getum við sagt, ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni, þó að það skipti ekki miklu máli, hvort við köllum þetta tilraun eða eitthvað annað, — þá er tilgangur þessa frv. fyrst og fremst sá að reyna að koma í veg fyrir, að íslenzki örninn verði aldauða, en allt útlit er á því, að svo verði, og ég er þeirrar skoðunar eins og ýmsir aðrir, að það sé fyrst og fremst eitrunin, sem á sök á því, að svo er að fara. Þess vegna get ég alls ekki fallizt á þá skoðun hv. 3. þm. Vesturl., að það geti komið til mála að leyfa eitrun á einstökum svæðum, meðan á þessari tilraun stendur, því að þá mundi að mínu viti þetta frv. ekki hafa neinn tilgang. Eitrun hefur verið að vísu bönnuð fyrir refi og minka á Vestfjarðakjálkanum á undanförnum árum með það í huga, ef það gæti að einhverju leyti bjargað erninum, og efalaust hefur það komið að nokkru gagni og þó minna en ella, þegar hefur verið leyft að eitra fyrir svartbak. En ég vil taka það fram, að ég álít, að það eigi að banna svartsbakseitrunina, enda þótt það þurfi ekki að vera neitt ákvæði um það í þessu frv., því að það er hægt að ákveða með reglugerð.

Ég sagði áðan, að ernir hefðu fundizt dauðir af eitri svo til á hverju ári, og meira að segja nú í haust fannst dauður örn af eitri á afréttum Árnesinga, — það var í haust fremur en í fyrra. Þetta sýnir það, sem náttúrlega allir vita, að fuglinn fer yfir, og ef hann finnur eitruð hræ á leiðum sínum, þá verður það útkoman, að hann ferst, og það, sem verst er við þetta, er þó það, að það er einkum ungfuglinn, sem verður fyrir þessu. Það er hann, sem fer í þessi ferðalög, þegar hann er orðinn fleygur á haustin, og flýgur yfir landið, ekki aðeins yfir Vestfjarðakjálkann og næstu sveitir þar í grennd, heldur viða um land.

Mér finnst líka, að það, sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Vesturl., stangist á við álit sýslunefndar Vestur-Húnavatnssýslu, sem ég las hér upp áðan, en þeir leggja til, að eitrun verði bönnuð. Eg veit ekki, hvort þeir eiga afrétt á Arnarvatnsheiði, Vestur-Húnvetningar, en a.m.k. eiga þeir afrétt og heiðarlönd, sem eru viðlend á borð við Arnarvatnsheiði, svo sem Tvídægra, Aðalbólsheiði o.fl. En þeir telja þó, að þeir þurfi ekki á eitruninni að halda til þess að halda refnum nokkurn veginn í skefjum, eða a.m.k. telja, að eitrunin hjálpi sáralítið til, eins og líka glögglega kom fram í þeim tölum, sem ég las upp áðan.

Ég get því ekki fallist á, að það verði leyft að eitra á vissum svæðum, meðan á þessari tilraun stendur. Eitrunina verður gersamlega að banna. Og væntanlega verður, áður en langt liður, fundin einhver skemmtilegri aðferð til þess að útrýma refnum heldur en þessi viðurstyggilega aðferð, sem strykníneitrunin er.