06.12.1963
Neðri deild: 26. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

95. mál, vegalög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Umr. um þetta mál hafa þegar borizt á þá braut, að stjórn og stjórnarandstaða virðast staðráðin í að ganga að verki með samstarfsvilja og reyna að finna lausn á þeim atriðum í þessu frv., sem helzt kunna að þykja umdeilanleg. Að sjálfsögðu geta þau verið mörg, vegna þess að málið er stórt og umfangsmikið.

Í sambandi við vonir um skjóta afgreiðslu á málinu vil ég aðeins segja, að mér finnst helzti stuðningur með þeirri skoðun, að hægt sé að afgreiða málið á tiltölulega skömmum tíma, vera sá, að alþm. eru svo að segja allir sérfræðingar í þessum málum. Munu vera vandfundnir menn á landinu, sem hafa eytt eins miklum tíma og orku í að kynna sér þau eins og þeir. Af þessum ástæðum mætti gera sér von um, að þeir yrðu tiltölulega fljótir að átta sig á þeim till., sem fram eru settar.

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla nánar um mörg atriði frv. á þessu stigi, enda kann að verða tækifæri til þess við 2. umr. Ég vil þó aðeins nefna örfá atriði.

Vegagerð ríkisins er falið að vera veghaldari fyrir alla þjóðvegi og sýsluvegi í 9. gr. Hugmyndin er að sjálfsögðu sú hjá vegalaganefnd, að í hvert skipti, sem bæjar- eða sveitarfélög sjálf vilja hafa veghaldið, verði þeim leyft það. Á þetta fyrst og fremst við stærri kaupstaðina.

Í sambandi við vegáætlunina vil ég fagna því, að menn hafa tekið undir nauðsyn þess að gera slíka áætlun. Hins vegar er augljóst, að ef áætlun á í raun og veru að vera aðeins til eins árs, þannig að hún væri opnuð með hverjum fjárlögum, þá væri hætta á, að margir af höfuðkostum áætlunargerðar njóti sín ekki sem skyldi. Það er einmitt til að geta undirbúið verk til langs tíma, til þess að menn geti vitað nokkur ár fram á við, hvaða framkvæmda er von, að áætlanir eru yfirleitt til 4, 5 eða 6 ára, og hér hefur verið valið tímabilið 5 ár. Kann að vera, að ræða megi um, hvort þinginu sýnist að hafa einhverja aðra tölu, en ég er hræddur um, að ef endurskoða ætti áætlunina árlega, þá yrði í framkvæmd ekki mikill munur á henni og þeim köflum í fjárlögum, sem um þessi mál fjalla og gilda aðeins til eins árs. Mundu þá glatast margir af höfuðkostum þess að gera slíka áætlun.

Ég vil taka skýrt fram út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, að vegalaganefnd var ljóst vandamálið um fjárveitingavaldið, og hjá n. var ekki minnsti vilji til að flytja það frá Alþingi. Hún hafnaði hugmyndum, sem gengu í þá átt að færa ákvörðunarvald frá Alþingi til ráðh. í þessum efnum. Ég hygg, að hugmynd n. sé sú, að vegagerðin, vegamálastjóri og starfslið hans hljóti að gera fyrstu drög að áætlun, alveg eins og þeir leggja nú fyrstu till. að vegafjárveitingum fyrir fjvn. Síðan fái þingið málið til meðferðar og áætlunin yrði verk þingsins á mjög svipaðan hátt og fjárveitingar hafa verið. Hv. síðasti ræðumaður benti á vandkvæði varðandi framkvæmdina, en í því sambandi má geta þess, að afskipti ríkisstj. og ráðh. af þessum málum hafa undanfarin ár verið ærið mikil, og ég hygg, að ekki sé ástæða til, að þau yrðu á neinn hátt meira á kostnað Alþingis en þau hafa verið. Alveg eins og framkvæmd mála er nú sú, að alþm. hafa víðtæk afskipti bæði af sjálfum fjárveitingunum og af framkvæmd vegamálanna, þá hygg ég, að rétt væri og unnt að framkvæma þessa áætlunarhugmynd í sama anda og ríkt hefur, þannig að afskipti Alþingis og alþm. hvers kjördæmis verði svipuð eða sízt minni en þau hafa verið.

Í sambandi við skiptingu þjóðveganna í hraðbrautir A og B þjóðbraut og landsbraut vil ég benda á eitt atriði, sem ekki hefur komið fram enn þá. Veigamikil ástæða fyrir skiptingu vega í flokka er undirbúningur undir framtíðina. Hraðbrautir A mundu samkv. núverandi ástandi ekki verða nema 15 km, en ef við gerum okkur grein fyrir, hvað þær verði eftir 15–20 ár, getum við ákveðið að halda opnu landi, sérstaklega á mörkum þéttbýlis og sveitar, en til þess eru heimildirnar í þessum lögum. Ef það eitt er gert, þannig að ekki þurfi að kaupa upp eignir í stórum stíl síðar meir fyrir slíka vegi, sparast tugir millj. á hverjum vegarspotta, sem leggja þarf í framtíðinni. Við þekkjum frá öðrum löndum, að það verður að leggja margfalda vegi einmitt um þéttbýli og út úr því til sveitanna, en þetta er einhver dýrasta vegagerð, sem til er. Einmitt kaup lands og eigna hefur reynzt vera hvað dýrasta atriði í slíkri vegagerð.

Það getur komið til álita að sleppa sýsluvegum alveg. En ég vil biðja menn um að íhuga það atriði vandlega, vegna þess að þar er um að ræða mjög stórt skref. Bæði er það, að sýsluvegakerfið veitir héruðunum sjálfum töluvert vald, töluverða aðstöðu. Ég hygg, að eftir skoðunum, sem mjög hefur borið á hér í þingsölunum, muni ýmsir hugsa sig um, áður en þeir flytja öll yfirráð þessara mála til stofnunar, sem hlýtur að hafa aðalstöðvar og yfirstjórn í Reykjavík. Eins eru margar praktískar ástæður, sem valda því, að það er mjög stórt skref, ef gera ætti alla sýsluvegi að þjóðvegum.

Varðandi það, að einhverjir vegir fari úr þjóðvegatölu, tel ég það ekki svo mikið atriði, að það ætti að ráða úrslitum, sérstaklega af því að aðrir vegir koma í staðinn. það má vera, að hugmyndin um landsbraut, eins og hún er á bls. 2 í frv., þyki ekki skýr, en ég vil biðja menn um að velta henni dálítið fyrir sér. Það hefur verið eytt miklum tíma og miklum rannsóknum margra sérfróðra manna til að finna þá reglu, sem þarna er sett. Hefur verið reynd önnur regla, raunar margar aðrar, t. d. með 3 býli og 2 km, en reyndist koma mjög svipað út. Þar að auki mundi Alþingi sjálft fá tækifæri til þess að túlka þetta atriði, þegar það gengur frá áætlun, og getur það þá sett vegi, ef einhver vafi er á, inn á áætlun og þar með tryggt, að þeir komist í þjóðvegatölu.

Ég skal svo ekki fara út í fleiri atriði, enda hefur ekki verið um þau rætt sérstaklega á þessu stigi málsins, en geyma það til síðari tíma, en læt í ljós ánægju mína yfir því, hvaða undirtektir þetta frv. hefur fengið. Ég vil vonast til, að það verði mögulegt að afgreiða málið fyrir jól, vegna þess að það mun ráða úrslitum um nokkra tugi milljóna til vegagerða á næsta vori, hvort málið verður afgreitt fyrir jól eða ekki fyrr en í marz, apríl eða maí.