06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

200. mál, vegalög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, breyt. á vegal., sem samþ. voru í desember í vetur, er einungis um það að kveða skýrt á um, hvenær þungaskattur af bifreiðum falli í gjalddaga. Ég gat þess við 3. umr. vegalaga hér í vetur, að sú nefnd, sem undirbjó vegamálin eða vegal., hefði í öllum útreikningum sínum miðað við það, að þungaskattur sá, sem þar var ákveðinn af bifreiðum, yrði greiddur frá 1. jan. þetta ár. En áður hafði það verið í gildi að greiða skatta af bifreiðum og þar á meðal þungaskatt eftir á. Frá þessu atriði í vegal. er talið, að ekki hafi verið gengið nógu vel, og til þess að taka af allan vafa um það, að þungaskatturinn árið 1964 komi til skila inn á þann reikning, sem kostar vegagerð í landinu nú, var talið nauðsynlegt að flytja brtt. við vegal. Að vísu má geta þess, að lögfræðinga greindi nokkuð á um það, hvort þess væri þörf, en það er vissara það sem vissara er, og er nauðsynlegt, að það sé ekki hægt um það að deila.

Um þetta frv, varð samkomulag í samgmn., og skrifuðu allir viðstaddir nm. undir nái., en einn var fjarverandi, þegar það var afgreitt úr nefnd.

Þá er þess enn fremur að geta, að tveir nm. hafa flutt frekari brtt. við vegal., um það, hvernig skuli hagað þeirri endurgreiðslu eða þeim ívilnunum, sem landbúnaðarjeppar hafa notið hingað til. Um þetta atriði var allmikið rætt, bæði í þeirri nefnd, sem undirbjó vegal., og einnig á sameiginlegum fundum samgmn:, sem fjölluðu um vegal. í vetur, og það komu fram margar bendingar um það, að ákvæði um niðurgreiðslur eða eftirgjöf á þessum skatti af jeppabifreiðum væri ákaflega erfitt að framkvæma, svo að öllu réttlæti væri fullnægt. Ég skal játa það, sem flm. þessarar brtt. segja, að þarna virðist ætlað að koma fram samræmi í framkvæmd, sem ég held þó að ekki sé hægt að leysa með þeirri till., sem hér liggur fyrir. En það varð samkomulag um það, áður en vegal. voru afgreidd, að öll vafaatriði í sambandi við eftirgjöf á skatti af jeppabifreiðum til landbúnaðarnota yrðu tekin fyrir sérstaklega og samin um reglugerð, hvernig þeim yrði beitt. Þess vegna álít ég, að til þess að fá samræmd ákvæði um þungaskatt af jeppabifreiðum, sem brenna benzíni og hráolíu, eigi að bíða eftir þeirri reglugerð, sem nú er í undirbúningi og kemur vafalaust á þessu ári, þó að sennilega verði ekki hægt að fara eftir henni við greiðslu eða uppgjör á bifreiðasköttum nú. En hér er um svo mikla efnisbreytingu að ræða við frv., einmitt um þetta umdeilda atriði í vegal., að ég treysti mér ekki til að mæla með till. af þeim ástæðum.