16.01.1964
Sameinað þing: 34. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

Alþingishús og ráðhús

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega lýsa yfir ánægju minni og samþykki við þá yfirlýsingu hæstv. forsrh., að í þessu máli verði ekkert gert endanlega, fyrr en ríkisstjórn hefur staðfest uppdrætti að miðbænum og ráðhúsmálinu og þinghúsmálinu og öðrum málum, sem snerta byggingu miðbæjarins, sé þar með ráðið til lykta. Og ég vil alveg sérstaklega segja það við hæstv. formann ráðhúsnefndar Reykjavíkur, hæstv. fjmrh., að hvaða ákvörðun sem borgarstjórn Reykjavíkur kann að taka í dag, þá er það ekki endanleg ákvörðun í þessu máli, enda væri ósæmandi fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að ætla sér að reyna að gefa hugmynd um það, að endanleg ákvörðun verði tekin í þessu máli, áður en búið væri að staðsetja og ákveða aðrar stórbyggingar hér í miðbænum. Það er búið að gera nóg af því að staðsetja hér byggingar og það með dýrustu byggingum bæjarins og ríkisins, sem menn tala um í dag að rífa burt, eins og landssímahúsið jafnvel, og við skulum ekki ganga út frá því, að menn geti aldrei lært neitt á þeim flumbruhætti, sem gilt hefur og skipulagsnefnd ríkisins oft hefur gert sig seka um á undanförnum áratugum, því að það er svo enn, að raunverulega meginið af öllum byggingum, sem staðsettar hafa verið hér í Reykjavík, hafa verið staðsettar ólöglega, vegna þess að heildarskipulag hefur ekki verið skapað af Reykjavík, lagt fyrir á þann máta, sem lögin frá 1921 gera ráð fyrir, og síðan byggt samkvæmt því, heldur hefur verið hafður sá háttur á að samþykkja svo að segja hvert götuhorn út af fyrir sig og samt götuhornin þannig, að þau standist ekki á, eins og menn geta bezt séð, ef þeir athuga Smiðjustíginn frá Hverfisgötu upp á Laugaveg, eftir því, hvaða fjárhagshagsmunir á hverjum tíma koma þar inn í og hvað þeir eru frekir, þeir aðilar, eða hve mikla áherzlu þeir leggja á að láta breyta teikningum eftir því, hvaða hagsmuna er þar að gæta.

Hæstv. fjmrh. sagði, að Alþingi og Reykjavíkurborg væru ekki neinir andstæðingar í þessu máli. Ég vil vona, að hann mæli það af fullum heilindum, þannig að borgarstjórn Reykjavíkur sýni, að hún bíði með allar ákvarðanir í þessu máli, þangað til Alþingi er búið að ræða við hana um þessi mál, og þetta eiga aðilar sameiginlega að koma sér niður á, hvað sé fegurst og bezt upp á framtíðina í þessum efnum. Mér finnst satt að segja, að vissir aðilar í borgarstjórn Reykjavíkur hafi stundum viljað haga sér í þessum efnum eins og það væru þeir, sem væru herrann, og eins og það væru þeir, sem hefðu valdið, og jafnvel orðin, sem hæstv. fjmrh. klykkti út með, bentu til þess, að með þeirri ákvörðun, sem ætti að taka í dag, væri búið að taka þá endanlegu ákvörðun og henni yrði ekki raskað, það væri búið að fá skipulagsnefndina inn á þetta áður, og gleymdi þá, að sú ríkisstjórn, sem hann sjálfur á sæti í, er æðsta valdið í þessum efnum. Mér virðist hafa verið talað þannig og meira að segja nú af hæstv. fjmrh. sem formanni ráðhúsnefndar, talað þannig um þetta mál, eins og spursmálið stæði um það, hvað borgarstjórn Reykjavíkur ákveður, hvar hún setur ráðhúsið, og er nú lagzt svo lágt að tala um það í ráðhúsnefndinni, hvar ætti að hola Alþingi niður. Enn sem komið er er það þó svo, að það er Alþingi, sem ákveður þessi mál. Það er Alþingi, sem setur lögin um skipulagsmál ríkisins. Það er Alþingi, sem ákveður, með hvaða hætti skipulag allra bæja og kaupstaða skuli ákveðið. Og hefði Alþingi verið álíka — við skulum segja röggsamt eins og bæjarstjórn Reykjavíkur hefur verið, og ég skal ekki draga af henni hól fyrir hennar röggsemi og kraft, þá mundi Alþingi fyrir löngu vera búið að ákveða að friðhelga allt þetta svæði hér í kringum það, frá Lækjargötu til Tjarnargötu, frá Tjörninni og að Austurstræti, og á þessu svæði yrði ekkert byggt nema með sérstöku leyfi Alþingis. Ef Alþingi hefði fulla meðvitund um sitt vald og um það, hvað til þess friðar heyrir, þá væri Alþingi búið fyrir löngu að ákveða slíkt. Og það hefði betur farið, að slíkt hefði verið gert.

Ég skoðaði það líkan, sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur látið gera af ráðhúsinu, og af því, hvernig hún eða kannske skipulagsnefnd eða ég veit ekki hvaða aðilar hafa hugsað sér byggingarnar þarna í kring. Og það var ekki verið að gera mikið rúm fyrir Alþingi þar. Það var auðsjáanlega gengið út frá því, að alþingishúsið og dómkirkjan ættu að verða eins og hverjir aðrir litlir kofar. Þar var myndin þannig, að hér út frá Oddfellowhúsinu að Kirkjustræti átti að reisa stórar byggingar og síðan alla leið að Tjarnargötu átti að koma einn ferhyrningur, þar sem auðsjáanlega áttu að vera stór verzlunarhús, skrifstofur og annað slíkt, enda vita menn, að mikið af þeim lóðum hefur þegar verið keypt upp af aðilum, sem hafa mikinn áhuga á að byggja þar stórbyggingar, og dálítið svipað var hinum megin með Lækjargötunni. Það var auðséð, að dómkirkjan og alþingishúsið, sem hafa verið eins og eins konar helgur punktur í Reykjavík og Reykvíkingum og meginþorra landsbúa, held ég, þykir vænt um og vilja ekki láta gera að neinum smákofum, það var auðséð, að alþingishúsið og dómkirkjan áttu að verða eins og smákot hjá þeim höllum, sem þar átti að reisa. Það var hugmyndin, sem þetta líkan einkenndist af.

Ég held þess vegna, að bæjarstjórn Reykjavíkur ætti strax að sýna það, að hún vilji hafa einhverja samvinnu við Alþingi í þessum efnum, og byrja á því að bíða með sínar ákvarðanir og ræða þessi mál við þá nefnd, sem á að sjá um þinghúsið, en ekki láta sér detta í hug að ætla að stilla Alþingi upp frammi fyrir gerðum staðreyndum og tala svo um það af mikilli náð, hvar mætti hola Alþingi niður. Það er Alþingi, sem á lóðirnar hérna út að Vonarstrætinu og hérna út að sundinu við Oddfellowhúsið, og það mundi þykja kannske stundum dálítið hart að gera ráðstafanir gagnvart þó ekki smærri stofnun en Alþingi er um það að eyðileggja þær lóðir án þess að tala við það. Mér þótti að vísu vænt um að heyra, að hæstv. fjmrh. var á sömu skoðun og ég, að það væri vitlaust, að Alþingi færi að byggja hér vestur eftir Kirkjustrætinu og kaupa þar upp dýrar lóðir, því að bæði SÍS og aðrir, sem þar eiga lóðir, mundu vafalaust vilja fá sitt fyrir, eins og eðlilegt er, og mér þótti mjög vænt um að heyra, hve mikinn áhuga hæstv. fjmrh. hafði fyrir fjármálum ríkisins í því sambandi að vilja ekki fara að leggja út peninga af hálfu ríkisins í að kaupa upp dýrar lóðir þar, og mér sýndist, að hann ætti þá að hafa við þá forsjálni af hálfu fjmrh. og ríkisins að hugsa um, að ríkið eigi sjálft lóðir, sem hægt sé að byggja á. Hins vegar býst ég við, að þó að það sé nauðsynlegt fyrir hið íslenzka ríki og fyrir Alþingi og fyrir fjmrn. að taka tillit til peninga, þá sé engin nauðsyn á slíku fyrir Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg getur náttúrlega leyft sér að kaupa upp hvaða lóðir sem vera skal, að búa til undirstöður, þar sem engar eru, til þess að byggja á. Fyrir Reykjavíkurborg er náttúrlega ekkert spursmál að henda út nokkur hundruð millj, kr. í slíku sambandi, hún er náttúrlega nógu rík til þess, en Alþingi náttúrlega og ríkið þarf að spara. Ég held þess vegna, að báðir þessir aðilar mættu nú fara að því ráði hæstv. fjmrh. að hugsa ofurlítið um það fyrir fram, hvað hlutirnir kosta. Ég er sammála hæstv, fjmrh. í hans eiginleika sem fjmrh. um þetta, og ég vildi, að hann hugsaði á sama hátt, þegar hann hugsar sem formaður ráðhúsnefndar Reykjavíkurborgar.

Það hefur verið minnzt á það hér, hvað ætti að gera, svo framarlega sem ráðhúsið væri byggt þarna í Tjörninni, og það hefur verið minnzt á að byggja hérna áfram vestur eftir. Ég er sammála þeim, sem um það hafa talað, að ég álít það ekki rétt. Hæstv. forsrh. kom inn á það í því sambandi, að það yrðu strax vandræði í sambandi við landssímahúsið og hvort yrði jafnvel að fara að taka það burt. Og það sýnir bezt, einmitt sú rétta hugmynd, sem þar kemur upp, hvað við verðum að gæta okkar að vera ekki að ákveða þessa hluti, fyrr en við ákveðum þá í heild. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun og hvað eftir annað á síðasta áratug lýst henni hér á Alþingi, að ég álít, að það eigi ekki að byggja á þessum lóðum hér úti á Kirkjustrætinu og það eigi ekki að byggja á lóðunum, sem eru hérna hinum megin við dómkirkjuna. Ég hef orðað það hálfdramatískt stundum, á þann hátt, að það ætti að leggja miðbæinn í eyði hérna í kring, ég mundi vilja fá áframhald af Austurvelli og öðrum slíkum völlum hérna hringinn í kringum dómkirkjuna og alþingishúsið, en ekki neinar stórbyggingar til þess að gera það að smákofum. Þess vegna verð ég að segja það, að mér leizt ekki heldur á þennan ferhyrning, sem þeir, sem bjuggu til líkanið af ráðhúsinu, höfðu hugsað sér hér út frá Oddfellowhúsinu, stórbyggingar hérna alveg við hliðina á okkur, stórbyggingar fram með Kirkjustræti, stórbyggingar fram með Tjarnargötu, og þegar menn geta hugsað svona, þeir sem eru að hugsa um skipulagsmál miðbæjarins, hvar er þá fyrirhyggja hjá þessu fólki? Hvers konar sérþekking er eiginlega þarna að verki, að ætla að hrúga þessu öllu á miðbæinn, sem er yfirfullur nú þegar? Það nær bókstaflega ekki nokkurri átt að láta sér detta það í hug að hrúga öllum þessum byggingum hérna báðum megin við, ekki aðeins vegna þess, að það er í ósamræmi við alla fegurð og í ósamræmi við alla þjóðarerfð, heldur líka vegna þess, að það er óhagkvæmt gagnvart miðbænum að yfirhlaða hann þannig, og það nær ekki nokkurri átt.

Ég held þess vegna, að ef við getum ekki fundið einhverja sæmilega lausn á því, að Alþingi noti sínar eigin lóðir, lendum við í miklum vandræðum með þetta efni. Ég er ekki að segja, að það sé eina lausnin, að við byggjum hús á Góðtemplarahúslóðinni og kannske á næstu öld þar sem listamannaskálinn er. En það vil ég taka fram, að ef inn á þá lausn yrði farið, þá álít ég, að hús, sem yrði byggt t.d. á lóðinni, þar sem Góðtemplarahúsið stendur, ætti ekki að vera hærra en núv. alþingishús er, það ætti að tryggja algert samræmi milli þessara þriggja húsa, sem smám saman ættu að koma upp, og ég hef þá trú á arkítektum, að slíkt eigi að vera hægt, og ég styrktist í þeirri trú, þegar við vorum saman t.d. í Stórþingshúsinu í Osló, þar sem byggð hefur verið við húsið stór nýbygging af mikilli prýði og fellur ágætlega inn í þann stíl, sem fyrir var, þó að það sé hins vegar mjög nýtízkulegt. En mér sýnist, að ef ekki er farið inn á eitthvað í þessa átt, muni það sem sé liggja næst, að farið verði að hrekja Alþingi sem slíkt burt úr þessu alþingishúsi. Og ég heyrði það alveg á hæstv. fjmrh., að það var raunverulega það, sem hann gekk út frá að væri verið að gera með því að slá því föstu, að ráðhúsið skyldi byggt í Tjörninni. Hann var eins og ég á móti því, að það yrði byggt hér í áframhaldi af Kirkjustræti, og fann þá ekki aðra leið en þetta hús yrði t.d. gert að dómhöll eða einhverju öðru slíku. Og ég vil segja, að það er einmitt þetta, sem ég er mest á móti af öllu. Mér var fyllilega ljóst, í hvers konar andlegri kreppu við Íslendingar erum núna, að öll okkar þjóðarerfð er svo að segja að slitna í sundur, öll tengsl við það þúsund ára Ísland, sem verið hefur. Og ef við gerum hverja ráðstöfunina á fætur annarri til þess að slita þessi tengsl, bilar samhengið í okkar sögu. Þetta hús, það er alveg rétt, var hugsað of lágt af þeim, sem byggðu það, og arkitektinn danski, sem teiknaði þetta hús, þegar hann hann sá, hvernig tekin hafði verið neðsta hæðin undan því, var svo reiður, að hann fór burt héðan og var ekki við, þegar það var vígt. Þeir hugsuðu smátt í byggingum, þessir forfeður okkar, en þeir hugsuðu hærra í lóðum, enda voru lóðirnar ódýrari þá en byggingarnar.

Ég held, að við verðum þess vegna að miða við það að reyna fyrst af öllu að hafa Alþingi hér áfram og að byggja án þess að skemma þetta hús og án þess að hafa það í beinum tengslum við það, byggja hér svo nærri, að það geti komið að sama gagni og sama hús væri, og það mundi vera hægt, svo framarlega sem byggt væri á lóð Góðtemplarahússins. Við eigum ekki að flytja Alþingi úr þessu húsi, ekki vegna þess, að húsið sjálft og þessi bygging sé svo ákaflega merkileg, heldur vegna þeirra erfða, sem þegar eru við það tengdar. Það er í þessu húsi, sem ákveðið var og unnið að því að koma á heimastjórn á Íslandi á sínum tíma. Það er hér, sem var undirbúið að koma á fullveldi. Það er hér, sem var undirbúið að koma upp lýðveldi. Það er hér, sem allur síðari hluti okkar sjálfstæðisbaráttu hefur verið háður. Það er hér, sem það Ísland, sem nú er að skapast, hefur verið mótað, og þetta hús, þrátt fyrir alla þá vankanta, sem það hefur, það helgast nú þegar af þeirri baráttu, sem í því hefur verið háð, og við eigum ekki að kasta því burtu, við eigum ekki að kasta því, hvorki í hæstarétt né neinn annan. Og ég veit ekki af einni einustu þjóð í nágrenni við okkur, sem gerir slíkt. Ég veit ekki betur en bæði Danir, Norðmenn og Svíar setji sitt stolt í að varðveita þær gömlu byggingar, sem þeir hafa fyrir sín þinghús, og að tengja við þær byggingar.

Þetta nýjabrum, sem stundum er að eyðileggja fyrir okkur og er búið að fá okkur til þess að eyðileggja hverja gömlu bygginguna á fætur annarri, verður að hætta. Við verðum að sýna einhverja virðingu fyrir þeirri þjóðarerfð, sem hér hefur verið sköpuð. Menn eru til allrar hamingju farnir að deila í dag um þá menn, sem hér voru uppi í byrjun þessarar aldar, og ég býst við, að þegar meira verður um þá deilt, þá fari menn líka að líta það, sem barizt hefur verið um í þessu húsi, öðrum augum. Og ég held, að það sé ekki ofverk, ef ekki íslenzkra arkitekta, þá arkitekta Norðurlanda, að finna ráð til þess að tryggja Alþingi góðar vistarverur í framtíðinni án þess að reka. Alþingi burt úr þessu húsi.

En það sé ég og m.a. af því, sem hæstv. fjmrh. segir, sem er formaður ráðhúsnefndar, að meiningin með því að samþykkja ráðhúsið í Tjörninni er að reka Alþingi burt úr þessu húsi. Þess vegna álít ég, og það vil ég taka undir og vonast til, að hægt verði að gera, ég álít, að í þessum efnum þurfi að taka upp samstarf á milli þessara aðila. Það má álasa okkur, sem á Alþingi sitjum, fyrir það, að við skulum ekki hafa verið athafnasamari í þessum efnum. Ég hef oft kynnt þær skoðanir, sem ég í þessum efnum hef, hér á Alþingi. Ég hef ekki álitið það og ekki kunnað við það að fara að flytja einn till. um þessi efni. Ég hef álitið, að slíkt ætti að koma frá mörgum aðilum og fyrst og fremst forsetum Alþingis. En ég álít, að það sé ákaflega þýðingarmikið, að nú sé ekki rasað um ráð fram í neinu í þessum efnum. Og þess vegna er ég ákaflega ánægður yfir því að mega treysta því, að hæstv. ríkisstj. staðfesti ekkert í þessum efnum og taki enga endanlega ákvörðun, fyrr en Alþingi hefur að sínu leyti sagt sitt orð um þinghús og hvernig þeim málum skuli skipað til frambúðar, og þar með verði þá líka komið á samvinnu við yfirvöld Reykjavíkur í þessum efnum, og ég vildi mega bæta því við, að skipulagsmál ríkisins yrðu þá kannske sett í eitthvað betra horf, Ég verð að segja það, að ég hef raun af því að sjá hér í Reykjavík, hvernig ekki sízt hver hæðin á fætur annarri er að verða ljótari og ljótari. Landakotshæðin var lengi falleg vegna Landakotskirkjunnar, sem gnæfði þar yfir og setti sitt mark á hana. Eftir að þessi spítali er kominn með höggpalli ofan á honum, er eins og þarna séu tveir hanar að rífast, þar sem Landakotskirkjan er annars vegar og spítalinn hins vegar.

Það er eins og þeir arkitektar, sem ákveða, hvernig hlutirnir skuli gerðir, hugsi aldrei um nema eina byggingu í einu, en aldrei um, hvernig heildin kemur til með að lita út. Sama hefur orðið um þann stað, sem sjómannaskólinn var settur á. Sú hæð var ljómandi falleg, meðan sjómannaskólinn var þarna einn og setti svip á þessa hæð. Svo eftir að ein kirkjan er komin þarna rétt við, er stíllinn farinn. Skólavörðuhæðin, sem hefði átt að vera eins konar Akrópólis Reykjavíkur og menn, sem hugsuðu um þessi mál í gamla daga, vildu gera að eins konar háborg íslenzkrar menningar, hún hefur auðsjáanlega verið byggð án þess að skapa nokkurn tíma heildarmynd af húsunum, sem þar er um að ræða. Að mínu áliti hefði á þeim stað, þar sem Hallgrímskirkjan virðist eiga að rísa núna, verið fegursti staðurinn fyrir ráðhús Reykjavíkur, borið hæst, verið fegurst og orðið í eins konar miðdepli. Það er náttúrlega enn þá hægt að rífa þá kirkju, ef menn féllust á, að það væri sá staður, sem ráðhús Reykjavíkur sómdi sér bezt á. En ég vil bara nefna þessa hluti til þess að sýna fram á, hvernig mönnum hefur hætt við að ákveða einn stað í einu, eins og landssímahúsið hérna eða Jóns Þorlákssonar húsið, sem fjallað er, hérna hinum megin. Ég veit, að í framtíðinni verður þessi röð, sem skilur okkur hérna, rifin. Það verða einhvern tíma menn, sem gera það mikið fyrir fegurðina, að þeir vilja láta Austurvöll. halda þar áfram og Landsbankann í sinni núverandi mynd og Alþingi standast á sem byggingar, sem einhver stíll og fegurð er í. En það verður ekki endalaust sá barbarismi, að menn fari að eins og búið er að gera við Útvegsbankann núna og eyðileggi þann litla stíl, sem einu sinni var á Lækjartorgi. En hvað um það, allt, sem gert hefur verið í þessum efnum, ætti a.m.k. að kenna okkur það, að hvað framtíðina snertir og m.a. hvað sjálft skipulag miðbæjarins snertir og þar með hvað ákvörðunina um þinghús og ráðhús Reykjavíkur snertir, þá eigum við ekki að rasa um ráð fram. Og vil ég mega vona, að við megum treysta á, að hæstv. ríkisstj. sjái um, að ekki verði það gert.