24.10.1963
Neðri deild: 5. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

Olíugeymar í Hvalfirði

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það þýðir harla lítið fyrir hv. 3. þm. Reykv. að vera að vitna í ummæli í Þjóðviljanum máli sínu til stuðnings, ef hann ætlar sér að sannfæra hv. 5. landsk. þm., Ragnar Arnalds, því að það kom greinilega fram í ræðu hv. 5. landsk. þm., að hann trúir yfirleitt ekki því, sem í Þjóðviljanum stendur, og ekki einu sinni þó að á Alþingi sé staðfest, að rétt sé alveg hverfandi lítið brot af því, sem þar hefur verið sagt. Hv. 5. landsk. þm. trúir Þjóðviljanum ekki samt, og slík er vantrú hans á sitt eigið blað, að hann talar um, að hér þurfi að kjósa sérstaka þingnefnd eftir heimild í stjórnarskránni til þess að athuga, hvort það, sem ég hafi um þetta sagt, sé virkilega satt eða ekki. Hv. 3. þm. Reykv. ætti því alveg að spara sér að vitna í Þjóðviljann, ef hann ætlar að sannfæra sína eigin flokksmenn, það þýðir ekki neitt.

Hv. fyrirspyrjandi vildi halda því fram, að ég hafi í rauninni ekki svarað spurningunni, sem fyrir mig var lögð, og ég hafi skorazt undan því að skýra frá því, hvort ég hafi við höndina gögn, sem sönnuðu, að það, sem ég sagði á fundi í Sþ. fyrir nokkrum dögum, væri rétt eða ekki. Þessa útkomu fær hann með því að gera mér upp orð, sem ég viðhafði ekki. Ég skýrði frá örfáum staðreyndum, sem allar eru sannaðar og yfirleitt flestar löngu vitaðar. Ég skýrði frá því, að margumrædd tilmæli hafi borizt hingað 1955. Það er opinbert leyndarmál. Ég skýrði frá því, að um þessi tilmæli hafi farið fram margra mánaða viðræður. Það er líka staðreynd, og hefur hvorugt verið vefengt. Ég skýrði frá því, að viðræðunum hafi lokið með því, að áætlanir, byggðar á fyrrgreindum tilmælum, hafi verið teknar í fjárhagsáætlun NATO. Þetta er staðreynd, sem ekki verður dregin í efa, enda liggur hún fyrir í skjölunum. Ég sagði einnig, að það væri ófrávíkjanleg regla að taka ekki slíkar fjárveitingar upp, nema viðkomandi land vildi þola þær framkvæmdir, sem um væri að ræða. Þetta er staðreynd og hefur ekki verið vefengd. Til viðbótar hefur svo komið sú upplýsing, að bent hefur verið á, að í opinberu dagblaði var skýrt frá því haustið 1955, þegar umr. um Hvalfjarðarframkvæmdir höfðu staðið yfir í marga mánuði, að sá aðili, sem hafði með þetta mál að gera af hálfu NATO, vonaðist til, að málið næði fram að ganga. Þetta eru allt staðreyndirnar í málinu. Frá þeim skýrði ég. Þær eru upplýstar, viðurkenndar, sannaðar og sannanlegar. Hitt er annað mál, að hver og einn getur dregið sínar ályktanir af þessum staðreyndum, og það hef ég fyrir mitt leyti gert.

Hv. 3. þm. Reykv. spurðist fyrir um það, hvort hægt væri að leggja skjöl og skilríki varðandi þessi viðskipti við Atlantshafsbandalagið fyrir utanrmn. Á þessu stigi vil ég aðeins upplýsa það, að til að sanna öll þau ummæli, sem ég hef viðhaft um staðreyndirnar í málinu, þarf ekki á neinni frekari skjalaframlagningu að halda. Þær eru þegar allar ýmist sannaðar, viðurkenndar eða ómótmæltar. Staðreyndunum verður ekki haggað. Ályktanirnar getur síðan þessi hv. þm. eins og hver annar dregið fyrir sig, en ég sé ekki neina ástæðu, enda mjög torvelt í framkvæmd að ætla sér að fara að láta skjöl og gögn utanrrn. varðandi NATO í hönd aðila, sem samkv. reglum bandalagsins eiga ekki um þau að fjalla, auk þess sem slíkt er, eins og ég sagði áðan, algerlega óþarft, vegna þess að allar þær staðreyndir, sem ég hef skýrt frá í málinu, eru gersamlega óhaggaðar og óhagganlegar.