08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2199 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

Íslenskt sjónvarp

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hinn 22. nóv. s.l. fól menntmrn, útvarpsráði og útvarpsstjóra að gera till. um, með hverjum hætti verði sem fyrst efnt til íslenzks sjónvarps á vegum ríkisútvarpsins. Óskaði rn. eftir nákvæmum áætlunum um stofnkostnað sjónvarpsstöðva og kostnað hvers áfanga í dreifikerfi. Enn fremur óskaði rn. tillagna um starfrækslu slíkrar sjónvarpsstöðvar, daglegan senditíma fyrstu starfsárin og skipulag dagskrárstjórnar. Var þess sérstaklega óskað, að athuguð yrðu skilyrði til hagnýtingar sjónvarps í þágu skóla. Jafnframt var þess beiðzt, að gerð yrði áætlun um árlegan rekstrarkostnað sjónvarpsins. Og að síðustu var óskað till. um fjáröflun til greiðslu stofnkostnaðar og árlegs rekstrarkostnaðar.

Í útvarpsráði áttu þá sæti þessir menn: Benedikt Gröndal, Sigurður Bjarnason, Þorvaldur G. Kristjánsson, Þórarinn Þórarinsson og Björn Th: Björnsson. Þegar nýtt útvarpsráð var kosið á þessu þingi, voru allir þessir menn endurkjörnir nema Björn Th. Björnsson, en í stað hans kom Þorsteinn Hannesson. Óskaði rn. þess þá, að Björn Th. Björnsson héldi áfram aðild sinni að athugun á málinu, jafnframt því sem Þorsteinn Hannesson bættist í hópinn. Þessir menn ásamt Vilhjálmi Þ. Gíslasyni útvarpsstjóra unnu síðan áfram að málinu og skiluðu rn. ýtarlegri skýrslu hinn 25. marz s.l. Varðandi tæknileg atriði veitti Landssími Íslands mikilvæga aðstoð, sérstaklega Gunnlaugur Briem póst- og símamálastjóri, Sigurður Þorkelsson forstjóri og Sæmundur óskarsson deildarverkfræðingur. Athuguð var og skýrsla um sjónvarp á Íslandi, sem Stefán Bjarnason verkfræðingur hafði gert vorið 1963, og ræddi n. við hann. Þá athugaði n. gaumgæfilega ýmsar upplýsingar, sem ríkisútvarpið hefur aflað undanfarin ár, fyrst og fremst skýrslu frá Georg Hansen yfirverkfræðingi. Nýrra upplýsinga aflaði n. frá fjölmörgum aðilum erlendis, sérstaklega útvarpsstjórum Norðurlanda og fyrirtækjum í Bretlandi, Bandaríkjunum og fleiri löndum.

Þessi skýrsla hefur undanfarnar vikur verið til athugunar í ríkisstj. Efni hennar hefur ekki verið gert opinbert fram að þessu, enda hefur ríkisstj. ekki tekið fullnaðarákvarðanir í málinu, svo sem ekki hefur verið við að búast með hliðsjón af því, hve stuttur tími er liðinn, síðan ríkisstj. fékk í hendur niðurstöður þeirra ýtarlegu athugana og víðtæku rannsókna, sem sjónvarpsnefndin annaðist. Þar eð liðið er nærri þinglokum, þykir mér þó rétt að skýra hinu háa Alþingi frá meginniðurstöðum og till. sjónvarpsnefndarinnar, en hún var á einu máli um niðurstöður sínar og till.

Nauðsynleg fjárfesting vegna stofnunar íslenzks sjónvarps er þrenns konar: Í fyrsta lagi húsbyggingar, í öðru lagi tæki til að afla sjónvarpsefnis, undirbúa það og flytja og í þriðja lagi sendistöðvar til að sjónvarpa um landið. Talið er, að byggja þurfi sérstakt 4000 rúmmetra hús fyrir sjónvarpsstarfsemina. Er það talið mundu kosta um 10 millj. kr. Nauðsynleg dagskrártæki, sem kaupa yrði þegar í upphafi, mundu kosta aðrar 10 millj, kr. Er þó talið rétt að byrja með aðeins einum sjónvarpssal af lítilli gerð ásamt þularstofu, um 200 fermetrum. Eitt mikilsverðasta atriðið í dagskrárundirbúningi íslenzks sjónvarps yrði að gera texta við erlendar fréttamyndir, fræðslumyndir og annað kvikmyndaefni, svo og að setja texta við íslenzkar kvikmyndir. Er gert ráð fyrir góðum útbúnaði til þeirra verka. Gert er og ráð fyrir, að íslenzkt sjónvarp ráði þegar einn kvikmyndatökumann til að taka fréttamyndir innanlands og hafa samband við aðra kvikmyndatökumenn. Gert er ráð fyrir því, að sjónvarpið fái aðstöðu til fullkominnar kvikmyndagerðar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir kaupum þegar í upphafi á myndsegulbandi, enda er þar um mjög dýr tæki að ræða. Ekki er heldur gert ráð fyrir því að kaupa þegar í upphafi tæki til að sjónvarpa viðburðum utan sjónvarpshúss. Á þriðja starfsári sjónvarpsins er þó gert ráð fyrir kaupum á slíkum tækjum.

Sjónvarpsbylgjur eru að því leyti eins og ljósbylgjur, að þær stefna beint og þurfa að hafa tálmunarlitla loftlínu frá sendi- til móttökutækis. Af þessum sökum er sjónvarp um fjallaland erfitt. Til þess að koma myndinni áleiðis, verður því að nota endurvarpsstöðvar. Sjónvarpið hefur marga sömu eiginleika og þráðlaust símasamband. Hefur því verið talið sjálfsagt að hagnýta þá reynslu, sem Landssími Íslands hefur öðlazt á undanförnum árum, og hafa áætlanir um dreifingu sjónvarps um landið þess vegna verið gerðar af verkfræðingum landssímans. Í þessum áætlunum er gert ráð fyrir því, að dagskrá sjónvarpsins verði flutt í Reykjavík eða næsta nágrenni, en aðalsendistöð reist á Skálafelli, þar sem þegar er miðstöð þráðlausa símakerfisins. Er þar gert ráð fyrir 5000 watta sendistöð, en hún mundi ná um Suðurnes, mestallt Suðurlandsundirlendi, Borgarfjörð og sunnanvert Snæfellsnes og jafnframt til endurvarpsstöðva í Stykkishólmi, Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði. Þessi eina stöð á Skálafelli mundi væntanlega ná til meira en 60%, þjóðarinnar. Þá er gert ráð fyrir lítilli móttökustöð að Björgum í Hörgárdal og mundi hún endurvarpa yfir Eyjafjörð upp á Vaðlaheiði, þar sem reisa þyrfti 5000 watta stöð. Hún mundi ná yfir alla byggð Eyjafjarðar, til Siglufjarðar, þar sem reisa yrði litla endurvarpsstöð, 100 wött, til Narfastaðafells í Suður-Þingeyjarsýslu og til Fjarðarheiðar, þar sem reisa yrði aðalstöð fyrir norðanvert Austurland, 5000 wött. Frá stöðinni á Fjarðarheiði yrði síðan ýmist endurvarps- eða sjónvarpslína til byggða á Austfjörðum, en endurvarpsstöðvar yrðu á Norðausturlandi. Endurvarpsstöð við Blönduós mundi taka við dagskrá beint frá Skálafelli og endurvarpa til stöðvar á Tunguhálsi í Skagafirði, svo og til Skagastrandar, en þaðan yrði þá endurvarpað til Stranda. 5000 watta stöð í Stykkishólmi mundi ná til alls Breiðafjarðarsvæðisins með endurvarpsstöð á Sandi, en auk þess gæti hún varpað dagskránni áfram til Vestfjarða. Slík stöð mundi ná til stöðva á Patreksfirði, Hrafnseyri fyrir Bíldudal og Þingeyri beint, svo og til endurvarpsstöðvar á Melgraseyri, sem þá mundi varpa til stöðvar á Arnarnesi og gæti sjónvarpið þannig náð til byggða við Djúp, þ. á m. Ísafjarðarkaupstaðar. Streng þyrfti þó að leggja til Flateyrar og Suðureyrar.

Í Vestmannaeyjum yrði að reisa sérstaka endurvarpsstöð, bæði fyrir kaupstaðinn, uppsveitir Árnes- og Rangárvallasýslu og til að ná austur á bóginn. Önnur stöð yrði að vera á Hjörleifshöfða til að koma dagskránni eins og þráðlausa símanum til Hornafjarðar og þaðan um sunnanvert Austurland.

Þetta eru grundvallaratriðin í sjónvarpskerfi, sem tekið gæti til alls landsins. Verkfræðingarnir taka þó skýrt fram, að reynsla af fyrstu stöðvunum gæti haft áhrif á síðari framkvæmdir, enda erfitt að segja fyrir um með fullri vissu, hvernig sjónvarpssendingar takist hér á landi. Höfuðstöðvar kerfisins fimm, sem gert er ráð fyrir að verði á Skálafelli, í Stykkishólmi, á Vaðlaheiði, á Fjarðarheiði og Hjörleifshöfða, verði 5000 wött að styrk, og eru þær taldar kosta 81/2–91/2 millj, kr. hver. Minni stöðvarnar yrðu ýmist 500 wött, og kosta slíkar stöðvar 4-5 millj. kr., 100 wött, en þær kosta 21/2 millj. kr., og örsmáar stöðvar, 1–10 wött, sem kosta allt að 1/2 millj. kr. hver. Til þess að menn geti gert sér grein fyrir styrkleika þessara stöðva, má geta þess, að sjónvarpsstöð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli er 250 wött. Nauðsynlegt er að geta þess, að flestar stöðvarnar eru fyrirhugaðar á stöðum, þar sem landssíminn hefur þegar komið fyrir mannvirkjum vegna þráðlauss síma, og er það raunar gert yfirleitt alls staðar, þar sem því verður við komið. Sparar það að sjálfsögðu mikinn kostnað, þar sem vegir og rafmagn hefur þegar verið leitt til slíkra símstöðva.

Eins og ég gat um áðan, er stofnkostnaður vegna sjónvarpshúss og dagskrártækja talinn um 20 millj. kr., 500 watta sendir í Reykjavík, þ.e. helmingi sterkari sendir en nú er starfræktur í Keflavik, mundi kosta 4 millj. kr. Stofnkostnaður sjónvarps, sem eingöngu tæki til Reykjavíkur og næsta nágrennis, mundi því verða um 24 millj. kr. Bygging aðalsendis á Skálafelli, 5000 watta sendis, mundi hins vegar kosta 9 millj. kr. og mundi því stofnkostnaður íslenzks sjónvarps, sem næði yfir Suðurnes, mestallt Suðurlandsundirlendi, Borgarfjörð og sunnanvert Snæfellsnes, eða u.þ.b. til 60% þjóðarinnar, verða um 33 millj. kr. Síðan færi kostnaðurinn auðvitað vaxandi, eftir því sem sjónvarpinu væri ætlað að ná til stærri landssvæða. Endurvarpsstöðvakerfi, sem taka mundi til Norðurlands, Norðausturlands og Vestmannaeyja, mundi að meðtöldum nauðsynlegum kostnaði við útbreiðslumælingar kosta 39.5 millj. kr. til viðbótar, eða alls 721/2 millj. kr. Nauðsynlegur stofnkostnaður í Reykjavík ásamt stofnkostnaði aðalsendistöðvanna fimm, sem ná mundu í stórum dráttum til alís landsins, mundi að meðtöldum nauðsynlegum kostnaði við útbreiðslumælingar verða 711/2 millj. kr. Bygging minni endurvarpsstöðva og lagning strengs til þess að tryggja öllum landsmönnum afnot af sjónvarpi mundi kosta 991/2 millj. kr. til viðbótar, þannig að heildarstofnkostnaður íslenzks sjónvarps, sem næði til allra landsmanna, mundi verða 171 millj. kr. Þótt ekki sé gert ráð fyrir því, að íslenzkt sjónvarp þyrfti að eignast tæki til þess að kvikmynda sjónvarpsdagskrá utanhúss né myndsegulband þegar í upphafi, mundi það þurfa að verða mjög fljótlega, en slík tæki eru talin kosta um 9 millj. kr. Hefur því heildarstofnkostnaður íslenzks sjónvarps, sem tæki til landsins alls, verið áætlaður 180 millj. kr.

Nú má að sjálfsögðu hugsa sér röð framkvæmda við byggingu endurvarpskerfisins með ýmsum hætti. Í skýrslu sjónvarpsnefndarinnar eru gerðar tvær framkvæmdaáætlanir. Báðar eru við það miðaðar, að öllum undirbúningi verði lokið 1966 og geti framkvæmdir hafizt það ár. Fyrri áætlunin er miðuð við að ljúka byggingu sjónvarpskerfis fyrir allt landið á 5 árum eða árunum 1966–1970. Síðari áætlunin er við það miðuð að ljúka framkvæmdunum á 7 árum eða árunum 1966–1972. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þessar framkvæmdaáætlanir í einstökum atriðum. Þó má geta þess, að í 5 ára áætluninni er gert ráð fyrir því að koma upp á árunum 1966–1968 nauðsynlegri aðstöðu í Reykjavík, byggja aðalsendistöðvar á Skálafelli, Vaðlaheiði, Stykkishólmi og Fjarðarheiði og endurvarpsstöðvar á Blönduósi, Vestmannaeyjum og Patreksfirði, framkvæma nauðsynlegar útbreiðslumælingar og kaupa myndsegulband. Mundi kostnaður við þennan fyrsta áfanga verða 741/2 millj. kr. Kostnaður á árinu 1969 er í þessari áætlun áætlaður 531/2 millj. kr. og er þá gert ráð fyrir því að byggja fimmta aðalsendinn á Hjörleifshöfða, en auk þess endurvarpsstöðvar á Narfastaðafelli, Melgraseyri, Arnarnesi, Tunguhálsi, Siglufirði, Þórshöfn, Eskifirði og Þingeyri, auk nokkurra smástöðva og strengjalagningar. Á árinu 1970 er gert ráð fyrir stöðvarbyggingum á Hornafirði, Hrafnseyri, Skagaströnd, Kelduhverfi, Raufarhöfn, Vopnafirði, Arnarstapa, Sandi, Austurhorni og Papey, auk margra smástöðva og strengjalagningar, og er þetta áætlað að kosta 52 millj. kr.

Í 7 ára áætluninni er gert ráð fyrir sömu röð á framkvæmdum, en þeim dreift á tveimur árum lengri tíma.

Varðandi rekstrarkostnað íslenzks sjónvarps er það að segja, að hann skiptist í þrjá liði: Byrjunarkostnað, fastakostnað og dagskrárkostnað. Í skýrslu sjónvarpsnefndarinnar er gert ráð fyrir því, að samið verði við erlenda aðila um margvíslega tækniaðstoð í sambandi við undirbúning íslenzks sjónvarps. Ef endanleg ákvörðun verður tekin nú á næstunni um að koma á fót íslenzku sjónvarpi, mundi verða hægt að hefja íslenzkar sjónvarpssendingar 1966. Telur n. slíkan byrjunarkostnað munu verða 1/2 millj. kr. nú á þessu ári, 21/2 millj. á næsta ári, 1 millj. 1966 og síðan 1/2 millj. árlega. Þegar sjónvarpssendingar hefjast, er talið, að þörf sé á 30 föstum starfsmönnum. Laun þeirra ásamt rekstri endurvarpsstöðva, viðhaldi véla og öðrum rekstrarkostnaði eru talin munu verða 9 millj, kr. á fyrsta starfsári sjónvarpsins eða 1966, og gerir n. síðan ráð fyrir 11/2 millj. kr. aukningu kostnaðar á ári. Talið er, að meira en helmingur fastakostnaðarins stafi beinlínis af undirbúningi dagskrár, sem krefjist mun meiri þátttöku fastra starfsmanna í sjónvarpi en hljóðvarpi. Við þennan fastakostnað mun síðan bætast annar nauðsynlegur kostnaður við öflun og flutning dagskrárefnis. Gert er ráð fyrir því að verja 10 millj. kr. fyrsta starfsárið til öflunar á sjónvarpsefni og fari sá kostnaður vaxandi um 2 millj. á ári á næstu árum. Gert er ráð fyrir því að leigja erlent sjónvarpsefni á kvikmyndum og kaupa fréttamyndir erlendis frá. Jafnframt er nauðsynlegt að verja verulegu fé til þess að gera og kaupa íslenzkar kvikmyndir. Sjónvarpsnefndin hefur gert sýnishorn af 4 vikna sjónvarpsdagskrá, þar sem gert er ráð fyrir 2 stunda daglegri dagskrá auk síðdegissendinga á laugardögum og sunnudögum. Er áætlun um 10 millj. kr. dagskrárkostnað fyrsta árið miðuð við þessar dagskráráætlanir. Áætlanir um rekstrarkostnað eru þannig, að í undirbúningskostnaði er nauðsynlegt að verja 131/2 millj. kr. í ár og næsta ár, síðan er heildarrekstrarkostnaðurinn talinn munu vera 20 millj. kr. fyrsta starfsárið, en um það bil tvöfaldast á fyrstu 7 árunum.

Till. sjónvarpsn. um tekjuöflun til að standa straum af greiðslu stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar íslenzks sjónvarps eru í stuttu máli þessar:

Nú munu vera um 2500 sjónvarpstæki í eigu Íslendinga. N. gerir ráð fyrir því, að kaup sjónvarpstækja muni vaxa mjög ört á næstu árum og muni tala þeirra 1972 vera komin upp í 27 þús. N. gerir ráð fyrir því, að vegna hins mikla stofnkostnaðar við dreifingarkerfi sjónvarps á Íslandi sé eðlilegt að leggja sérstakt stofngjald á sjónvarpsnotendur, yrði það 1000 kr. á hvert viðtæki og innheimt einu sinni með fyrsta afnotagjaldi. Á 7 ára tímabilinu 1966 –1972 gerir n. ráð fyrir því, að 27 millj. kr. fáist með þessum hætti. Þá gerir n. ráð fyrir a.m.k. 1500 kr. árlegu afnotagjaldi, yrðu tekjur af því fyrsta starfsárið, árið 1966, 12 millj. kr., en yrðu orðnar 40.5 millj. kr. á árinu 1972. Þá gerir n. ráð fyrir tekjum af auglýsingum, 41/2 millj. kr. fyrsta árið, eða 1966, en 131/2 millj. kr. árið 1972. Þá leggur n. til, að a.m.k. fyrsta áratuginn séu íslenzku sjónvarpi fengnar tekjur af innflutningi sjónvarpstækja eða framleiðslu þeirra í landinu, enda hafi ríkisútvarpið á sínum tíma verið byggt upp m, a. með þeim hætti. Gerir n. ráð fyrir því, að sjónvarpið fái á einn eða annan hátt sem svarar 80% aðflutningsgjalda af sjónvarpstækjum eða um 4400 kr. á tæki. Gerir hún ráð fyrir 8.817.6 millj. kr. árlegum tekjum af þessu, eða samtals 116.6 millj. kr. tekjum handa sjónvarpinu á árunum 1964–1972 af innflutningi sjónvarpstækja.

Miðað við þessa tekjuöflun væri hægt að greiða þann árlega rekstrarkostnað, sem ég gat um áðan, fyrstu 7 starfsárin og allan stofnkostnaðinn samkvæmt 7 ára framkvæmdaáætluninni án nokkurrar lánsfjáröflunar. Ef framkvæmdirnar yrðu hafðar hraðari og þeim hagað eftir 5 ára framkvæmdaáætluninni, yrði um nokkra lánsfjárþörf að ræða á árunum 1969–1971, mest 28 millj. kr. árið 1970.

Mér þykir rétt að fara nokkrum fleiri orðum um það, sem segir í skýrslunni um hugsanlega dagskrá íslenzks sjónvarps.

Lögð er áherzla á, að nauðsynlegt sé, að dagskrá sé þegar í upphafi nægilega löng og góð til að hvetja almenning til tækjakaupa. Þess vegna er ekki talið hægt að byrja t.d. með 30 mínútna efni á dag og auka það smám saman. Er því gert ráð fyrir því að byrja á 2 klst. daglegri sjónvarpsdagskrá, en gera ekki ráð fyrir stöðugri lengingu, heldur 2–3 stunda sjónvarpi fyrstu 5–10 árin. Að sjálfsögðu yrði ekkert því til fyrirstöðu að sjónvarpa mun lengur einstaka daga, þegar sérstakt tilefni gefst. Er gert ráð fyrir því að byrja dagskrá ávallt kl. 20, en senda endurtekið efni síðdegis á laugardögum og sunnudögum. Gert er ráð fyrir 15 mín, í fréttir og 15 mín. í auglýsingar kl. 20.30–21.00. Í dagskrársýnishornum er frumflutt íslenzkt efni 40–50% af heildartíma dagskrárinnar. Við þetta bætast síðan fréttakvikmyndir og fræðslukvikmyndir, þar sem íslenzkt tal yrði flutt með myndunum, og stærri kvikmyndir, þar sem íslenzkir textar yrðu með. Sem dæmi um sjónvarpsefni má nefna samtals- og spurningaþætti ýmiss konar, barnaþætti, einfalda tónlistarviðburði, einföld leikrit, þar sem ekki er krafizt umfangsmikillar sviðsgerðar, ýmsa atburði, sem gerast á takmörkuðum bletti, erindi, sem skýrð eru með ýmiss konar myndum, og íslenzkar kvikmyndir. Erlent efni yrði fyrst í stað allt á kvikmyndum, en síðar koma eflaust segulbönd til skjalanna. Aflað mundi verða langra kvikmynda, sem upphaflega eru gerðar fyrir kvikmyndahús, og textar verða þá ýmist skriflegir neðanmáls eða þulur læsi öðru hverju efnisskýringar. Í kvikmyndir eða leikrit, sem sérstaklega eru tekin fyrir sjónvarp, en í þessum flokki eru flestir vinsælustu sjónvarpsþættir veraldar, yrði einnig að setja neðanmálstexta, en láta tón frummyndarinnar halda sér. Með erlendum fræðslumyndum yrði ávallt að flytja íslenzkt tal. Eru slíkar myndir oft tengdar stórviðburðum samtíðarinnar og þá gjarnan samfellt yfirlit, sem gert er úr beztu fréttamyndum. Gert er ráð fyrir því að gera fasta samninga við eitt eða fleiri alþjóðleg fyrirtæki um kaup fréttamynda, sem þá mundu berast hingað með svo til hverri flugvél. Við slíkt efni yrði settur íslenzkur texti. Við erlendar tónlistarmyndir er og auðvelt að gera íslenzkt tal. Þá hefur sérstök athugun verið gerð á skilyrðum til þess að taka upp íslenzkt skólasjónvarp, en með því er átt við dagskrá, sem beint er inn í skólana og nemendur tiltekinna bekkja horfa á í kennslustundum í skólunum. Sérstök ástæða er til þess að benda á þýðingu sjónvarpskennslu fyrir dreifbýli, þar sem erfitt er að njóta starfs sérmenntaðra kennara í einstökum greinum og dýr kennslutæki eru ekki til.

Svo sem kunnugt er, eru mismunandi kerfi notuð við sjónvarp, og eru þau auðkennd með línufjölda í mynd hvers og eins. Helztu kerfin eru brezka kerfið, sem hefur 405 línur, ameríska kerfið, sem hefur 525 línur, og evrópska kerfið, sem hefur 625 línur. Allir, sem til hefur verið leitað, eru sammála um, að hér á landi eigi að taka upp Evrópukerfið, 625 línur. Það hentar þeim rafstraumi, sem hér er notaður, og er talið betra en hin kerfin að ýmsu leyti. Sjónvarpsstöð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli notar ameríska kerfið. Af þeim sökum eru öll móttökutæki, sem flutt hafa verið til landsins, ýmist framleidd til að taka á móti sendingu þess kerfis eða þeim hefur verið breytt í það horf. Hins vegar er talið auðvelt að breyta tækjum þannig, að þau geti tekið við sendingum samkvæmt evrópska kerfinu.

Um skipulagsmál íslenzks sjónvarps er það að segja, að sjónvarpsn. telur tvímælalaust hagkvæmt og skynsamlegt, að sjónvarp verði deild í ríkisútvarpinu við hlið hljóðvarps, við það sparist verulegt fé, þar eð ekki þurfi sérstakt skrifstofuhald til að stjórna sjónvarpinu og margvíslegur annar kostnaður geti verið sameiginlegur. Segir í skýrslunni, að í nágrannalöndum, sem fregnir fari af, hafi sjónvarp vaxið upp undir handarjaðri hljóðvarps og eigi þetta jafnt við um ríkisstofnanir í Evrópu sem einkafyrirtæki í Ameríku. Hins vegar telur n. rétt, að þegar 2–3 ára reynsla hafi hlotizt af íslenzku sjónvarpi, þá sé tímabært að taka heildarlöggjöfina um útvarp til endurskoðunar, enda sé hún í meginatriðum orðin 30 ára gömul. Af þessu leiðir, að sérstakrar lagaheimildar frá hinu háa Alþ. er ekki þörf, til þess að hægt sé að hefja starfrækslu íslenzks sjónvarps hér á landi.

Þessi eru þá aðalatriði skýrslu sjónvarpsn., sem starfað hefur undanfarna mánuði og hefur nú nýlokið störfum. Ég tel n. hafa unnið hið ágætasta starf og mjög ánægjulegt, að hún skuli hafa orðið sammála um niðurstöður sínar. Ég tel athuganir n. hafa leitt í ljós, að stofnun íslenzks sjónvarps sé vel framkvæmanleg frá fjárhagslegu sjónarmiði, og tel því engan vafa á, að í slíkt verði ráðizt. Takmarkið hlýtur og að vera það, að allir íslendingar eigi þess kost að njóta sjónvarps, svo mikilvægt menningartæki sem það getur verið. Spurningin er sú, hversu langan tíma eigi að ætla til þess að byggja dreifingarkerfi fyrir landið allt og hvernig afla eigi fjár til framkvæmdanna og til að standa undir rekstrarkostnaði sjónvarpsins. Það mál þarf að sjálfsögðu rækilegrar athugunar. En eins og ég gat um áðan, eru ekki nema nokkrar vikur síðan ríkisstj. fékk hina ýtarlegu skýrslu sjónvarpsn. í hendur. Þessar vikur hafa verið annatími, svo sem hv. þm. er manna bezt kunnugt, og mun því varla nokkur sanngjarn maður ætlast til þess, að ríkisstj. hafi þegar tekið endanlegar ákvarðanir í svo mikilvægu máli. Hins vegar mun ríkisstj. hraða umræðum sínum og athugunum eftir föngum, og er það von mín, að ákvarðanir í þessu mikilvæga máli verði teknar innan mjög skamms tíma.