13.04.1964
Neðri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í C-deild Alþingistíðinda. (1924)

23. mál, jafnvægi í byggð landsins

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfáar aths. í sambandi við þau ummæli, sem hafa fallið hér fyrir nokkru, og þær ræður, sem hér hafa verið fluttar.

Það er alveg rétt, sem frsm. meiri hl. n. sagði í upphafi, að það hefur verið mjög margt talað um jafnvægismál og fáum slagorðum verið haldið hærra á lofti, sérstaklega af þeim framsóknarmönnum, heldur en þessu slagorði um jafnvægi í byggð landsins. Gallinn er bara sá, að samfara þessu tali hafa ekki fylgt raunhæfar till. eða gagnlegar til úrbóta á þessu mikla vandamáli á Íslandi. Frsm. n. sagði réttilega, að í umr. um jafnvægismál hafi ekki komið fram fastmótaðar hugmyndir um úrlausnir í vandamálinu um jafnvægi í byggð landsins. Og það er von, að þeir segi, hv. framsóknarmenn, að jafnvel Alþýðublaðið sé farið að skrifa.

Þetta vandamál er ekki íslenzkt. Það hefur verið til umræðu bæði í París og London og víða leyst með ýmsum hætti. Ég ætla aðeins að nefna tvær leiðir, sem hafa verið farnar til þess að leysa þetta vandamál, sérstaklega á Norðurlöndum, sem okkur eru nú skyldust. í fyrsta lagi er það að vinna skipulega að uppbyggingu byggðarinnar í. landinu með heildarskipulagningu, fyrirframgerðri og vísindalegri, sem miðar að því að nýta þær orkulindir, sem eru til ráðstöfunar í hverju byggðarlagi, að efla ákveðna byggðakjarna í landshlutum og stuðla þannig að uppbyggingu landsins með þeim hætti, að kjör fólksins geti orðið ámóta í hverjum landsfjórðungi. Það vill svo til, að fyrir Alþ. liggur einmitt till. um slíkt heildarskipulag. Hún var lögð fram snemma á þessu þingi á þskj. 161 og hefur verið lögð fram áður. Hún gerði ráð fyrir heildarskipulagi Suðurlandsundirlendis, en í grg. var rækilega undirstrikað, að það væri aðeins upphaf að heildarskipulagningu allra héraða um allt land, til þess að fá reynslu við setningu löggjafar um slíka heildarskipulagningu, sem gerð hefur verið í þeim nágrannalöndum, sem mesta rækt hafa sýnt þessu vandamáli, en leysa það með nýtízku hætti, þannig að til árangurs gæti orðið. Norðmenn hafa náð langt á þessu sviði, og í löndum Efnahagsbandalagsins í Evrópu er skipulega unnið að því núna að gera áætlanir um uppbyggingu þeirra landssvæða, sem dregizt hafa aftur úr á sviði efnahagsmála. Á Norður-Ítalíu, þar sem atvinnuleysi var og sárafátækt, sérstaklega í landbúnaðarhéruðunum, þar sem landbúnaðurinn var ófullkominn og rekinn með frumstæðum hætti, hefur átt sér stað stórkostleg framför einmitt með nýtingu þeirra tækja, sem nútíma vísindi og hagstjórn hafa á að skipa. Ég veit ekki til þess, að einn einasti þm. Framsfl. hafi léð þessari till., þessari fyrstu till, á Alþingi íslendinga um raunhæf úrræði í þessu vandamáli, fylgi sitt með orðum hér á þingi.

Önnur leið til þess að leysa þetta vandamál, t.d. á Norðurlöndum, í Noregi, þar sem svipað háttar til og á Íslandi, er sú að gera fólkinu í dreifbýlinu betur fært en áður að mynda samtök um að leysa þetta vandamál heima fyrir. Þetta hefur verið gert í Noregi og í Svíþjóð með því að stækka hreppana, með því að vinna skipulega að stækkun sveitarfélaganna, með miklum árangri, má ég telja, af því að þannig skapast ytri skilyrði til öflugri samtaka til ráðningar starfskrafta en ella hefði getað orðið til þess að leysa þessi vandamál byggðarlaganna.

Ég vildi minna hv. framsóknarmenn, sem hér hafa talað, á þessar tvær till., sem liggja fyrir hv. Alþingi. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi tvö mál, heildarskipulagning með vísindalegum hætti um land allt og stækkun sveitarfélaganna, séu úrræði, sem vissulega muni verða að meira gagni, ef framkvæmd yrðu, en langt mál um jafnvægi í byggð landsins, um jafnvægisleysi í byggð landsins, sem stappar nærri að verða slagorð. En að vísu mundi það missast við það, að þá hefðu menn misst sitt nöldrunarefni, ef skipulega yrði farið að sinna þessu verkefni, eins og vissulega væri þörf á.