17.03.1964
Neðri deild: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (1947)

34. mál, áætlunarráð ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. gerði mér þá miklu ánægju að ræða hér alvarlega um þetta mál og kom í því sambandi inn á ýmsar hugleiðingar og fór að vísu líka nokkuð út í sögu síðustu áratuga, sem gefur mér tilefni til að ræða ofur litið við hann um þau mál og um leið að kryfja nokkuð til mergjar eftir þessa ræðu, hver muni vera afstaða Framsfl. til heildaráætlunar í þjóðarbúskapnum.

Það er þá fyrst þar til að taka, að hv. 5. þm. Reykv. taldi, að það mundi vera um þrenns konar aðstöðu að ræða: hjá nágrönnum okkar hér í austri, vestri og suðri svo að segja. Bandaríkin mundu hafa litið með heildaráætlun að gera og það væri mikil ringulreið hjá þeim í þeirra þjóðarbúskap, skandinavísku löndin aðhylltust heildaráætlanabúskap á grundvelli kapitalismans, og svo væru í þriðja lagi sósialistísku löndin, sem grundvölluðu áætlanabúskap sinn á sósialistísku þjóðfélagi.

Hvað snertir þetta frv., sem hér er um að ræða, getur hv. 5. þm. Reykv. verið alveg óhræddur aðfylgja því frá því sjónarmiði, að hér er ekki um það að ræða að koma á sósialísma á Íslandi og skapa hér sósialistískt þjóðfélag, ef hann væri mjög hræddur við það. Hér er um að ræða till. um að koma á heildaráætlanagerð um íslenzkan þjóðarbúskap. Það blandast víst engum okkar hugur um það, að hér á Íslandi er ríkjandi kapitalismi, að vísu með dálitið sérstökum hætti, sérstaklega vegna þess, hve mikill er þáttur ríkisins, hins opinbera og samvinnuhreyfingarinnar, en engu að siður kapitalismi, þannig að það, sem hér er um að ræða, er till. um að framkvæma með sérstöku tilliti til Íslands sams konar fyrirkomulag og ríkir á Norðurlöndum eða eins og t.d. Frakkland að ýmsu leyti hefur tekið upp. Það er vitanlegt, að flest kapitalistísku löndin í Evrópu hafa stuðzt meira eða minna við heildaráætlanir í sínum þjóðarbúskap á undanförnum áratugum. Það var eitt af því, sem styrjöldin m.a. kenndi mönnum og kreppan þar á undan. Hér er þess vegna ekki um neitt annað að ræða en koma slíkri heildaráætlun á, og Framsfl. getur þess vegna óhræddur greitt atkv. með þessu frv. eða gert ýmsar brtt. við það, því að það er ekki eitt einasta atriði þarna, sem ákveður, að sósíalisma skuli komið á, það er ekki eitt einasta atriði, sem ákveður t.d. þjóðnýtingu þarna, hvað þá meira, þannig að það er þá af einhverri sérstakri myrkfælni, ef Framsfl, af misskilningi hefur verið á móti þessu máli s.l. 20 ár og ef það skyldi hafa verið það, sem hefur gert hann svona hræddan við að standa nokkurn tíma við loforð sín um að framkvæma heildaráætlun í íslenzkum þjóðarbúskap. Þess vegna skulum við slá því föstu alveg hreint í eitt skipti fyrir öll, að svo framarlega sem Framsfl. meinar eitthvað með því, að hann sé með því að gera heildaráætlanir um þjóðarbúskap, svipað og t.d. Noregur eða önnur slík lönd hafa gert eða Frakkland hefur gert að vissu leyti og á einn aðalþáttinn í þess mikla efnahagslega uppgangi nú eftir stríðið, á þessum síðustu árum, þá er honum óhætt að vera með þessu.

Svo skulum við athuga ofur lítið þann tíma, sem hann gerði sérstaklega að sínu umtalsefni, vegna þess að það er ákaflega sláandi einmitt um afstöðu Framsfl. og hversu mikið muni mega treysta þeim ákvörðunum, sem hann hefur nú tekið á sínum miðstjórnarfundi um að beita sér fyrir heildaráætlun í íslenzkum þjóðarbúskap. Hv. 5. þm. Reykv. taldi, að það væri aðeins eitt einasta tímabil á Íslandi, sem hægt væri að tala um sem nokkra raunverulega framkvæmd á heildaráætlun í þjóðarbúskap, og það væri, eins og hann orðaði það, hið glæsilega tímabil 1934—58. Það verður nú kannske að fyrirgefa hv. 5. þm. Reykv. margt, vegna þess að hann var mjög ungur maður þá, og ég veit ekki, hvort hann hefur fylgzt svo mikið með, hann hefur kannske bara lesið Tímann, hann mun ekki hafa skrifað hann á þeim árum, heldur kannske aðeins bara lesið hann, og það sem verra er, hann hefur líklega glapizt á að trúa honum, þannig að áður en hann hættir sér út í sagnfræði næst, ætti hann að stúdera ofur litið fleira.

Hv. 5. þm. Reykv. hefur, eftir að hann varð ritstjóri Tímans, oft orðið það á að ræða nokkuð mikið um, hve dásamlegur Alþfl. hafi verið á þeim árum, þegar Héðinn Valdimarsson og Jón Baldvinsson hafi verið þar í broddi fylkingar, það hefði nú verið eitthvað annað en Alþfl. sé núna. Og ég tala nú ekki um, hve ólíkt það hafi verið betra en ótætis Alþb. Nú vill svo til, að Framsfl. fékk einu sinni tækifæri til þess að starfa með Alþfl., þegar Jón Baldvinsson og Héðinn Valdimarsson voru þar í forustu, formaður og varaformaður. Og það liggur þess vegna alveg hreint fyrir, hvernig Framsfl. hagar sér gagnvart flokki eins og þeim, sem Jón Baldvinsson og Héðinn Valdimarsson stýrðu. Og hvernig gekk það nú allt saman þá? Jú, það gekk þannig til, að þessir menn fengu að kenna í allríkum mæli á því ofríki Framsfl., sem hefur einkennt hann, við hvern sem hann hefur haft stjórnarsamvinnu. Vegna þess ofríkis, sem Alþfl. þá var sýnt af hálfu Framsóknar, og vegna þess, hvernig Alþfl. var þá neitað um að framkvæma hugsjónamál sín, gekk Alþfl. erfiðlega í þessu samstarfi. Alþfl, kom út úr því samstarfi, sem hófst árið 1934, mun veikari en hann var, þegar hann fór inn í það. Af hverju var hann veikari? Hann var veikari vegna þess, að hann hafði ekki fengið að framkvæma þá róttæku pólitík, sem hann hafði lagt til grundvallar 1934 í kosningunum, 4 ára áætlunina, ekki fengið að vinna að því að framkvæma þá hluti. Það eina, sem hann fékk að gera, var að láta semja eina mjög góða bók, þ.e. Rauðku, láta starfa í þeirri nefnd, sem þar var, og koma þar fram með ýmsar góðar hugmyndir. Hvað var það, sem hindraði þetta allt saman? Það var afturhaldið í Framsfl. Það var það,. að Framsfl. ýmist skildi ekki eða vildi ekki skilja eða vildi ekki fatlast á neitt af því, sem þarna var um að ræða. Héðinn Valdimarsson hefur sjálfur skrifað bók um alla þessa viðureign, sem heitir „Skuldaskil Jónasar Jónssonar við sósíalismann“. Í þeirri bók á bls. 65 stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Tímabil málefnasamningsins var þá til enda runnið (þ.e.a.s. 1936). Alþfl. hafði staðið við samninginn að sínu leyti, en Framsókn hafði brugðizt um efndir á ýmsum liðum hans, svo sem eftirlit með stórrekstrinum, stofnun verzlunarskrifstofu, og hafði samþykkt lög um þjóðjarðirnar með íhaldinu á móti Alþfl. En þessi svik við hinn opinbera málefnasamning flokkanna áttu rætur sínar að rekja til Jónasar Jónssonar, sem var formaður flokksins“.

Ég hef þetta með, til þess að hv. 5. þm. Reykv. hafi einhvern að skella skuldinni á, þegar hann ætlar að bjarga sér út úr sínum villum í sagnfræði. Það, sem gerðist á þessum tíma, var, að Framsfl. frá upphafi beitti sér á móti þeim málum, sem Alþfl. voru kærust, og Alþfl. fékk ekki tækifæri til þess að framkvæma þau. Hann fékk tækifæri til þess að vinna í nefnd, og ýmsir voru settir þar í nefnd, en ekki til þess að framkvæma neitt af því, sem í n. var ákveðið.

Við skulum nú taka ofur lítið fyrir og athuga, hverjar afleiðingarnar af þessu urðu og hvernig ástandið varð upp úr þessu. Eitt af því, sem var höfuðmálefni Alþfl. og höfuðáhugamál, var að bæta úr atvinnuleysinu, að vinna bug á atvinnuleysinu samkv. heildaráætlun um þjóðarbúskapinn, sem skyldi framkvæma m.a. með því að koma upp miklu af nýjum atvinnutækjum. Hvernig var nú tekið í þetta? Flotinn hélzt nokkurn veginn hinn sami allan þennan tíma og fór þó frekar aftur. 1930 höfðu togararnir verið 42, næstum 14 þús. smál., 1938, eftir allt þetta tímabil, eru þeir komnir niður í 36, 12 400 smál. Þeim hafði fækkað, það bættist enginn nýr togari í hópinn. Sömu sögu er að segja af smálestatölu bátaflotans, bæði gufuskipin og mótorskipin, þar fór fækkandi hvað snerti smálestatöluna og heildartöluna líka. Og Framsfl. var svo harðvítugur á þessum tíma, að þegar það kom fyrir t.d. , að útgerðarmaður flutti inn skip, var hann jafnvel sektaður fyrir, af því að hann hafði ekki fengið leyfi. Þetta var áhuginn fyrir því að auka útveginn á þessum tíma. Kannske kannast hv. þm. líka við það, að það hafi verið meira að segja erfitt að fá að reisa hraðfrystihús á þessum tíma. M.ö.o.: það var þetta ekta afturhald Framsóknar um, að það skyldi þurfa leyfi til allra hluta, og í staðinn fyrir að ýta undir það, að stórir hlutir væru gerðir, var þvert á móti sett bann við því að framkvæma slíkt. Atvinnuleysi í Reykjavík t.d., kjördæmi okkar beggja, hafði verið 1932, svo að við tökum nóvember allan tímann, 732 menn atvinnulausir, 1934 719, 1935 510, 1936 609, 1937 619, 1938 804. Atvinnuleysið í Reykjavík hafði ekki batnað á þessum tíma heldur. Alþfl. stóð þannig að vígi að eiga að heyja hér sína kosningabaráttu t.d. 1937 án þess að hafa getað sýnt þann árangur af sínu samstarfi við Framsókn, að heildaráætlun hans hefði komizt í framkvæmd og atvinnuleysið hefði minnkað og atvinnutækjunum fjölgað. M.ö.o.: Alþfl. var með afturhaldspólitík Framsóknar raunverulega knúinn til að bregðast því, sem var höfuðatriðið, og því, sem hann byggði fyrst og fremst á í allri sinni pólitík, og það var að reyna að stórminnka atvinnuleysið og helzt afnema það einmitt í sambandi við stórhuga fjögurra ára áætlun. Hvað var það, sem olli þessu? Það, sem olli því, var það, að Framsfl. og forusta hans hafði allan þennan tíma ekki annað í huga en að beygja Alþfl. Og það hefur verið einkennandi fyrir Framsókn, þegar hún hefur verið í samvinnu við verkalýðsflokkana, að hún hefur allan þennan tíma fyrst og fremst heimtað það af þessum flokkum, að þeir beygðu sig undir það að þola atvinnuleysi eins og Alþfl. þá, þola kauplækkanir án þess að mögla. Og svo framarlega sem það voru einhverjir til, sem mögluðu, — ef það voru einhverjir, sem risu þarna upp á móti, eru þeir menn að svíkja, svíkja það, sem Framsókn hefur kallað vinstri stefnu. M.ö.o.: það voru menn, sem stóðu með vinstri stefnu, en á móti því, að Framsókn fengi að beita valdi sínu til þess að viðhalda ýmist atvinnuleysinu eða til þess að lækka kaupið.

Þegar svona var nú búið að á höfuðsviðinu, hvað snerti atvinnuframkvæmdirnar, getur maður nærri, hvernig hlaut að fara fyrir Alþfl., þegar hann átti að standa síðan í baráttu í sambandi við kosningar. Ég skal koma að því nánar síðar, en það er rétt, til þess að vera fyllilega sanngjarn í öllum þessum efnum, að leggja áherzlu á það, að á sérstaklega tveimur sviðum tókst Alþfl. þrátt fyrir þetta að vinna gott starf. Annað var á sviði skipulagsnefndar atvinnumála. Þar var formaður fyrst Héðinn Valdimarsson til 1935 og síðan Emil Jónsson, núv. hæstv. félmrh. Þessi skipulagsstjórn atvinnumála gaf út fyrri partinn af sínu áliti, rauðu bókina, sem kölluð hefur verið Rauðka, þ.e. nr. 1. Seinni parturinn fékk aldrei að koma út. í þessari Rauðku er komið með mjög mikið af hugmyndum og mörgum mjög góðum hugmyndum. En það, sem yfirleitt einkennir þær hugmyndir, þegar verið er að reyna að útfæra þær nánar, er, að þær eru máske af verulegum ástæðum hugsaðar of smátt. Það er talað þar um áburðarverksmiðju, sem hafði verið ákaflega mikið umræðuefni kringum 1920, þegar rætt var um virkjun Þjórsár af hálfu Titans, og það var þá talað um áburðarverksmiðju, sem eigi að framleiða 500 tonn af köfnunarefni. Fyrst hv. 5. þm. Reykv. kom sérstaklega inn á áburðarverksmiðju, má ég kannske minna hann á, að þegar Vilhjálmur Þór sem utanrrh. kom með till. um áburðarverksmiðju fyrir þing 1942–43, var hún komin upp í 1200 tonn köfnunarefnis, sem áburðarverksmiðjan átti að framleiða, og þá átti að reisa hana á Akureyri og nota Laxárvirkjunina. Hins vegar, þegar þessi áburðarverksmiðja var tekin til meðferðar, fyrst í nýbyggingarráði og síðar hér á Alþingi 1947, tókst að koma henni upp í það, sem þá var ákveðið, 5-10 þús. tonna köfnunarefnisframleiðslu. Sementsverksmiðjan, sem líka var tekin þar mjög greinilega, birtar góðar teikningar og allt slíkt, í gömlu Rauðku, var þá miðuð við 30 þús. tonn, og var það þó allmiklu meir stórhuga en áburðarverksmiðjan. En sem sé, ég hef oft slegið því föstu áður og vil gera það enn, það var mikill fengur að skipulagsnefnd atvinnumála, Alþfl. hafði þar hreinan meiri hl., fékk að vinna sitt starf, og það er meira en fékkst gert á tímum vinstri stjórnarinnar, þegar það fékkst ekki einu sinni sett slík nefnd til þess að vinna eitthvert samsvarandi starf, þannig að á því sviði hefur Framsfl. farið aftur frá því 1934.

Þá er líka rétt að vekja athygli á því, og það var rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. minntist á, að það var nokkuð gert til þess að efla freðfiskiðnaðinn á þessum tíma. Fiskimálanefnd, sem líka var undir forustu Alþfl. þá, vann gott starf. Og í því sambandi, að hv. 6. þm. Reykv. var að minnast á þetta, vildi hann gera litíð úr því starfi, sem hefði verið unnið eftir stríð, t.d. á nýsköpunartímanum, já skal ég lofa honum að heyra, hvað útflutningur Íslands á freðfiski var á tímum Framsóknar- og Alþfl.-stjórnarinnar og næst þar á eftir, þegar hraðfrystihúsin þá voru byggð, komust í notkun. Útflutningur Íslands á freðfiski 1936 var 1020 tonn. 1937 var hann 1700 tonn, 1938 1600 tonn. 1939 var hann 2200 tonn. 1940 fer hann upp í 6000 tonn. Sem sé, 1—2 þús. tonn er framleiðslan og útflutningurinn af freðfiski á þessum árum, eftir það, sem hv. 5. þm. Reykv. kallaði glæsilegt uppbyggingartímabil, sem skar sig svo úr, miðað við nýsköpunartímabilið eftir stríð. Hvernig var svo freðfiskframleiðslan 1945? Hún var 29 þús. tonn, 1946 23 þús. tonn, 1947 27 þús. tonn, 1948 28 þús. tonn, 1949 29 eða tæp 30 þús. tonn. Hann getur haft þetta til samanburðar, til þess að sjá þarna staðreyndirnar um það, sem hann var að ræða um í ræðu sinni. Engu að síður vann fiskimálanefnd margt gott starf, en ef hann er farinn að sjá þetta svona í hillingum framtíðarinnar, að freðfiskútflutningur, sem þá var 1-2 þús. tonn, er farinn að verða öll ósköp og heil atvinnubylting, en freðfiskútflutningur, sem er 23—30 þús. tonn, aftur á móti raunverulega ekki neitt, þá eru nú Tímagleraugun farin að verka nokkuð illa á menn.

Þá kom hv. 5. þm. Reykv. inn á það, að þetta, hvernig farið hefði með vinstri stjórn Alþfl. og Framsóknar, hefði allt saman verið að kenna klofningsstarfsemi kommúnista. Lifandi skelfing er nú gott að hafa alltaf einhvern til þess að kenna um allt illt. Jú, það hefði verið klofningsstarfsemi kommúnista, sem hefði eyðilagt þá ágætu vinstri stjórn, það hefði svo sem ekki verið innan frá í Framsfl., formaður Framsóknar og valdamenn þar kannske, einhver tengsl á milli SÍS og Kveldúlfs í Landsbankanum og annað slíkt. Nei, nei, nei, það átti ekki að vera neitt af slíku, það var klofningsstarfsemi kommúnista.

Hvernig kom hún nú í ljós? Það voru kosningar 1937. Þegar farið var út í þær kosningar, stóð enn þá stjórn Alþfl. og Framsóknar. Hvernig kom Kommúnistaflokkur Íslands fram í þeim kosningum? Hann skoraði í þeim kosningum á sína kjósendur að kjósa í vissum kjördæmum landsins framsóknarmenn og Alþfl. menn, til þess að hjálpa þeim þannig á móti Sjálfstfl, og Bændaflokknum. Í 8 kjördæmum landsins bauð Kommúnistaflokkurinn ekki fram, en skoraði á fylgjendur sína að kjósa þar Framsfl. í fjórum öðrum kjördæmum landsins bauð flokkurinn ekki heldur fram, en skoraði þar á kjósendur sína að kjósa frambjóðendur Alþfl. Í 12 kjördæmum skoraði hann þannig á menn að kjósa frambjóðendur Framsfl. og Alþfl. Þetta var ekki í neinu samráði við foringja Framsfl. eða Alþfl. Þeir vildu hvorugur neina samvinnu. En þetta var aftur á móti talað út úr hjarta þeirra vinstri manna, sem fylgdu. Framsókn og Alþfl. þá. Hvað gerðist svo eftir þessar kosningar? Jú, það gerðist það eftir þessar kosningar, að vinstri flokkarnir, eins og þá var kallað, voru hér á Alþ. þá með 30 þm., en Sjálfstfl. og Bændaflokkurinn með 19. Hvernig hafði þetta verið fyrir kosningarnar, meðan stjórn Alþfl. og Framsóknar sat að völdum? Þá voru 49 þm. á Alþingi. Af þeim höfðu hlotið í kosningunum 1934 Framsókn 15, Alþfl. 10 og 1 var utan flokka, núv. herra forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, sem raunverulega fyrir kosningarnar 1937, ef ég man rétt, bættist í hópinn með Alþfl. Þeir höfðu 25 eða raunverulega 26 þm. þennan tíma, 1934—1937. Þá hafði Bændaflokkurinn 3 og Sjálfstfl. 20, eða 23 þm. voru í stjórnarandstöðunni. Og sterkari var nú ekki þessi vinstri stjórn þá, Alþfl. og Framsóknar 1934–1937, sem sé 25 eða 26 á móti 23. Hvernig er það þá eftir kosningarnar, þegar klofningsstarfsemi kommúnista var búin að vinna sitt verk? Hvernig var það þá? Hvernig var styrkleikinn þá? Þá var Framsókn með 19 þm. og sumir þeirra áreiðanlega kallaðir þá, ef ég man rétt, af Morgunblaðinu þm. kommúnista. Þá var Framsókn með 19 þm. Hún var sem sé mun sterkari en hún var áður, þannig að hennar mikla hugsjónamál um útrýmingu atvinnuleysis og heildaráætlun í þjóðarbúskapnum og ég veit ekki hvað og hvað, svo að ég tali nú ekki um vinstri stefnu almennt, átti aldeilis að geta komizt til framkvæmda þá. Alþfl. var aftur veikari, hann hafði 8 þm., en í staðinn voru þá kommúnistar komnir hér inn á þing með 3 þm. M.ö.o.: sú gamla stjórnarsamsteypa Framsfl. og Alþfl, hafði 27 þm., og þar að auki voru 3 þm. kommúnista. En stjórnarandstaðan, sem áður hafði 23, hafði 19, hún var 4 þm. veikari fyrir klofningsstarfsemi kommúnista.

Hvað gerðist svo? Framsfl, hafði sem sé alla möguleika til þess að halda virkilega áfram hinni róttæku vinstri pólitík og sýna, hve mikið honum var í mun að vinna að vinstri stefnu. Hvað gerir hann þá? Er hv. 5. þm. Reykv. búinn að gleyma því, hvernig sú ríkisstj. sprakk? Þarf ég að rifja það enn einu sinni upp fyrir honum? Kosningar höfðu farið fram 20. júní 1937. 17. marz hér á Alþingi rak Framsfl. Alþfl. út úr ríkisstj. með því að leggja fram frv. að gerðardómslögum og tilkynna honum, að þetta ætlaði hann að samþykkja, hvað sem Alþfl. segði. Sem sé, það var ekki verið að spyrja um neina samvinnu, það var bara verið að segja, eftir að hafa svikið hann meira eða minna um svo og svo mikið af því, sem hafði átt að gera eftir stjórnarsamningnum: Ætlarðu að beygja þig fyrir þessum gerðardómslögum í garð sjómanna eða ekki? Það er sami Framsfl. sem talar núna mest um, hvað það sé indælt að vinna með mönnum eins og Jóni Baldvinssyni, og tekur hann sem fyrirmyndina. Jón Baldvinsson lá á banasænginni einmitt um þetta leyti, þegar þetta var lagt fram. Og hann dó sömu nóttina sem Alþfl. neyddist fyrir ofríki Framsóknar til þess að taka sinn mann, Harald Guðmundsson, út úr ríkisstj. Þannig fer Framsfl. að, þegar hann er í samvinnu við Alþfl. undir forustu Jóns Baldvinssonar og Héðins Valdimarssonar. M.ö.o.: Framsfl. rekur Alþfl, út úr ríkisstj., ætlar að svínbeygja hann, og þegar hann lætur ekki svínbeygja sig, er stjórnarsamvinnunni slitíð . Sem sé, Framsfl. hefur ekki sízt fyrir tilstilli kommúnista komið sterkari inn á Alþingi 1937 en hann var áður, hann notar sitt aukna vald til þess að ætla að brjóta Alþfl. á bak aftur. (Forsrh.: Var það ekki ráð kommúnista líka?) Nei, við stóðum með Alþfl. alveg hreint þá. Við Haraldur Guðmundsson töluðum hér þá nótt. Það muna kannske fleiri eftir þeirri nótt, hún var nokkuð dramatísk, og ég man enn, þegar sjómennirnir komu hérna upp, — háskólinn var þá hérna niðri, — og höfðu haldið fund hérna úti í Listamannaskálanum og rúðurnar brotnuðu hérna og það var sett upp útvarp hér og útvarpað því, sem þá var talað, fram til kl. 4 um nóttina.

Hver var nú ályktunin, sem forustumenn Alþfl. drógu af þessari framkomu Framsóknar og höfðu raunar dregið áður? Héðinn Valdimarsson og þeir fleiri Alþfl: menn höfðu sagt 1934 í bréfi til Jónasar frá Hriflu, — og Héðinn tekur það upp í bókina, sem ég vitnaði í áðan, „Skuldaskil Jónasar Jónssonar við sósíalismann“ — á bls. 62 segir hann, með leyfi hæstv, forseta, svo hljóðandi:

„Hvorki Framsókn sem heild né Jónasi hafði tekizt að marka sérstaka stefnu þess flokks. Baráttan um embætti og völd hafði verið rauði þráðurinn í baráttu hans og Framsóknar, en stefnuna vantað til þess að neyta valdanna“.

Það var raunverulega alltaf það sama, sem gerðist upp aftur og aftur. Málin, sem talað er um, samþykktirnar, sem gerðar eru, samningarnir, sem undirskrifaðir eru, hugsjónirnar, sem flaggað er með, allt er þetta aukaatriði. En embættin og völdin, hvað svo sem gert er með þeim, það er aðalatriðið. Og ef menn eru ekki hlýðnir við slíka stefnu og þá, sem Framsókn finnst rétt í hvert skipti, á að sparka þeim. Framsfl. hefur á einn máta uppskorið ávextina af þessari pólitík. Alþfl: menn voru að vísu ákaflega lengi hlýðnir honum og í þeirri afstöðu til hans að vilja helzt ekki við hann brjóta, en þó fór það svo fyrir Alþfl. og meira að segja hægri mönnunum, meira að segja þeim, sem eftir voru, eftir að Alþfl. hafði klofnað þrisvar sinnum. En enn hefur Framsfl. ekki lært af því, að svona eigi hann ekki að fara með þá menn, sem eru hans samstarfsmenn eða eru hans bandamenn. Enn hefur hann ekki lært að taka neitt tillit til þeirra og fara að einhverju leyti eftir þeim stefnumálum, sem um hefur verið samið.

Svo kemur hitt. Af hverju rak Framsfl. Alþfl. út úr stjórninni? Haraldur fékk lausnina, ef ég man rétt, 20. marz 1938. Af hverju rak hann hann út úr henni? Af því að Framsfl. ætlaði að mynda stjórn með Sjálfstfl. Hann var ákveðinn í því, og menn vita svo sem ósköp vel, hvaða bönd voru að tengjast þá hérna hinum megin við Austurvöll. Það voru skuldaböndin á milli SÍS og Kveldúlfs í Landsbankanum, og við skulum ekki fara lengra út í það mál, það er alkunnugt. Og síðan, eftir að búið er að reka Alþfl. út úr vinstri stjórninni, myndar Framsfl. þjóðstjórnina með Sjálfstfl. M.ö.o.: það lá greinilega fyrir, hvað það var, sem stefnt hafði verið að með því að koma Alþfl. burt. Ég held þess vegna, að Framsfl. væri réttast að reyna nú, ef hann nokkurn tíma í sinni sögu reynist fær um það að læra ofur lítið , að læra eitthvað pínulítið af sínu framferði. Og framferðið var þetta í það skipti, sem hann hafði möguleika til þess að reka vinstri stjórn með Alþfl. einum, og þeir voru í stærri meiri hl. 1937 á þingi en þeir voru áður, að þá fer hann svona að, talar svo um sjálfan sig sem vinstri flokk og jafnvel eina sanna vinstri flokkinn í landinu.

Svo kom hv. 5. þm. Reykv. með það, að sett hefði verið á laggirnar ein ljómandi nefnd 1942. Já, það er alveg hárrétt hjá honum, og meira að segja samþykktin, sem var gerð um þessa nefnd, var ósköp falleg, og hann las hana upp hér áðan, — ósköp falleg. Hún var næstum því eins falleg og ákvörðunin 1934, enda sniðin eftir henni úr stefnuskrá Alþfl., þessi 1942. Það var ekki neitt frumlegt hjá Framsókn að finna það út þá, og það er ekki heldur í seinasta skipti, sem hún hefur samþykkt slíkt. Hún gerði það aftur 1955, alveg jafnsteindauða nefnd. 1942 var samþykkt svona nefnd, og ef ég man rétt, var Hermann Jónasson formaður hennar, og þá vakti sem sé fyrir Framsókn, segir hv. þm., að gera þessi ósköp. Jæja, trúi því hver sem vill, að það hafi vakað fyrir henni, en í öllu falli var orðanna hljóðan alveg ljómandi falleg. Og þessi nefnd gerði nákvæmlega ekki neitt. Hún var jafndauð, þegar henni var vikið frá 1944, eins og áður, kom saman á nokkra fundi, skrafaði um nokkrar till. og svoleiðis nokkuð, en gerði aldrei neitt.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að þetta dásemdarverk hefði verið eyðilagt 1944, þessi n. hefði bara verið eyðilögð. Ætli það væri ekki rétt af honum að fara að aðgæta n., sem var sett á stofn 1955 hérna á Alþ. með Hermann Jónasson sem formann, sem lét Vilhjálm Þór taka við formennskunni 1956, þegar vinstri stjórnin var mynduð, og sjá, hvað henni liður. Ég er í henni. Ætli hún hafi ekki unnið eitthvað álikt? Ég þekki það. Nei, ég veit ósköp vel, hvernig þessar nefndir eru, sem Framsfl. beitir sér fyrir að setja og stjórnar, og er þar ólíku saman að jafna eða með þá skipulagsnefnd atvinnumála, sem skipuð var 1934.

Ég get nokkurn veginn sagt, hvað vakti fyrir Framsókn 1942. Framsókn er satt að segja alltaf til í að skipa nefndir, og hún hefur lagt það til hérna á þinginu núna. Hún er til í að vera með í nefndum, og hún er líka til í að semja mjög fagrar ályktanir, hún hefur jafnvel gert það núna nýlega á miðstjórnarfundi. En framkvæmdir, það eru drottinssvik við vinstri stefnu Framsóknar, ef á að knýja fram framkvæmdir þessum efnum. Það reyndi á Framsfl. þá, hvort hann væri til í að framkvæma eitthvað af þessu, það var 1944. Þá lá það fyrir, að fjórir flokkar settust hér saman að samningsborði um það að mynda ríkisstj. um að koma á eins konar heildaráætlun um þjóðarbúskapinn á Íslandi og hagnýta þær inneignir, sem Ísland átti, til þess að byggja upp atvinnulifið. Þá var virkilega verið að tala um að framkvæma stórkostlega áætlun. Þessi 12 manna nefnd byrjaði að starfa um miðjan september 1944, ef ég man rétt, kannske í byrjun september. Hver var afstaða Framsóknar í þessari nefnd, og hvernig lauk störfum Framsóknar í þessari nefnd? Störfum Framsóknar lauk 3. okt. 1944 með því, að Framsfl. sagði sig úr nefndinni. Og af hverju sagði hann sig úr nefndinni, og hvað gerði hann, um leið og hann sagði sig úr n.? Hann sagði sig úr nefndinni vegna þess, að hann hafði ekki fengið fram kröfu um kauplækkun hjá verkamönnum, sem hann hafði sett fram. Og næsta, sem hann gerði, þegar hann var búinn að segja sig úr þessari nefnd, var, að hann skrifaði Sjálfstfl. bréf, og ef hv. 5. þm. Reykv. vill fletta upp í Tímanum 4. nóv. 1944, getur hann lesið grein Eysteins Jónssonar, hv. 1. þm. Austf., um það tilboð Framsfl. og ég held meira að segja bréfið sjálft líka, og að það kom ekki fyrr, stafar af því, að það var prentaraverkfall, þegar þetta gerðist. M.ö.o.: Framsfl. býður Sjálfstfl. stjórnarsamstarf 3. okt. 1944. Um hvað? Í því bréfi, sem Framsfl. skrifar Sjálfstfl., er ekki minnzt einu orði á heildaráætlun í þjóðarbúskap eða hagnýtingu eignanna, ekki einn orði. Það var enginn áhugi fyrir neinum af þeim málum, og allt, sem Framsfl. var að gera í þessari finu nefnd, sem var sett 1942, falleg hugmynd um, að það ætti að byggja upp eftir stríð, allt saman gleymt og rokið út í veður og vind. Hvert var þá innihaldið í því tilboði, sem Framsfl. gerði Sjálfstfl. 3. okt. 1944? Innihaldið var að knýja fram kauplækkun, knýja fram kauplækkun, ekkert annað. Það var áhugamálið. Og Framsfl. reiknaði með því sem sjálfsögðum hlut, að auðvitað hlyti Sjálfstfl. að vera til í kauplækkun. Það væri nú ljóti flokkurinn, ef hann væri ekki til í kauplækkun með Framsókn.

Honum brást nú þetta, Framsfl., hann reiknaði skakkt, og Sjálfstfl. var ekki til í þessa kauplækkun. Ég skal seinna koma að því. Það er stundum skrýtið með flokka, hvort þeir eru í ríkisstj. eða vonast eftir að komast í ríkisstj. T.d. Framsfl. er mjög góður flokkur, þegar hann er utan ríkisstj., og mikið með kauphækkunum. En hann á það til að heimta að sama skapi kauplækkun, þegar hann er kominn í ríkisstj. eða þegar hann þykist viss um að komast í ríkisstj. Sagan nefnilega endurtekur sig stundum, eins og einn formaður Framsfl. einu sinni komst að orði. M.ö.o.: það, sem Framsfl. ætlaði sér að skapa 1944, var stjórn með Sjálfstfl., á móti Sósfl. og Alþfl. , til þess að knýja fram kauplækkun og án allrar heildaráætlunar. Sem sé, Framsfl. vildi ekki vera með í þessari fjögurra flokka stjórn, sem verið var að hugsa um, af því að hann var á móti áætlunarbúskap og hann var á móti kauphækkunum hjá verkamönnum, vildi fá kauplækkanir.

Þá komum við að því, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði viðvíkjandi nýsköpunarstjórninni og nýbyggingarráði, og þá tók hann nú heldur en ekki á stóra sínum. í fyrsta lagi sagði hann, að það hefði engin áætlun einu sinni verið gerð, það var nú ekki einu sinni svo, að það væru engar framkvæmdir, þá var engin áætlun, ekki einu sinni sett neitt á pappírinn. Jæja, ég verð að byrja á því að leiðrétta sagnaritun Tímans hvað það snertir. Það voru gerðar áætlanir og þær áætlanir beindust fyrst og fremst að því að leggja grundvöllinn að því, sem er og verður enn um langt skeið höfuðatvinnuvegur Íslands, þ.e. sjávarútvegurinn. Það er að vísu atvinnugrein, sem Framsfl. var aldrei um í gamla daga, þó að hann hafi neyðzt smám saman til að opna augun fyrir því, að framtíð Íslands væri fyrst og fremst á sjónum sem stendur. Það var tvennt, sem nýbyggingarráð einbeitti sér að á þessu sviði: annars vegar að útbúa áætlunina um aukningu togaraflotans og aukningu vélbátaflotans og hins vegar um aukningu farskipaflotans. Já, áætlanirnar voru gerðar, og ein af þessum áætlunum er meira að segja birt í þingtíðindunum. Þær voru náttúrlega sendar ríkisstj. og liggja vafalaust í hennar plöggum, en ég tók mig til í sambandi við álit, sem ég samdi sem minni hl. fjhn. 1946 út af fjárhagsráði, og birti sem fskj. álit og alla áætlun nýbyggingarráðs um aukningu togara- og vélbátaflotans, og það eru 50 síður í alþingistíðindabroti í Alþingistíðindunum 1946, A-heftinu. Á bls. 1223 byrjar nál. mitt og er með fskj. upp undir 50 síður. Nýbyggingarráð og nýsköpunarstjórnin höfðu vissulega stuttan tíma til starfa, stóðu ekki nema tvö ár, helmingi skemmri tíma en hin glæsilega vinstri stjórn, sem Framsókn stjórnaði 1934 og þar á eftir. Engu að síður tókst ekki aðeins að ljúka við allmiklar áætlanir, heldur líka við framkvæmdir. Það var líka búin til áætlun um flutningaskipaflotann, og hún var framkvæmd. Hún var framkvæmd 100%„. Það var áætlun um togarana hins vegar ekki, vegna þess að það komu aðrir þar inn í, Framsfl. komst inn í ríkisstj. nokkru seinna. Svo skulum við athuga framkvæmdirnar. Í okt. 1944 tók ríkisstj. við. Um mitt ár 1946 var búið að gera ráðstafanir til þess að framkvæma þorrann af áætlununum þrátt fyrir það, þótt það yrði allan tímann að berjast við landsbankavaldið, sem þá var undir forustu Framsóknar. Það var gerð ráðstöfun þá til þess að kaupa 32 nýja togara til landsins, nýja, stærri og betri togara en höfðu verið hér til áður. Það var gerð ráðstöfun til þess að byggja hér innanlands og koma hér af stað mikilli bátasmíði og kaupa erlendis frá a.m.k. 140 báta. Aukningin í fiskiskipastóli Íslands á þessum tíma, sú, sem var ákveðin og gerð fyrir tilstilli nýbyggingarráðs og nýsköpunarstjórnar, var, að það var bætt við í fiskiskipaflotann 24 þús. smál. Allur flotinn var 1945 24 þús. smál., m.ö.o., hann var tvöfaldaður, fiskiskipaflotinn íslenzki. Togararnir voru t.d. 1945 28 með 9 þús. tonn. Þeir voru 1950, þegar allt var komið, 48 með 27 þús. brúttósmálestir. Og fleiri tölur gæti ég þulið yfir hv. 5. þm. Reykv., ef hann þarf að reka sig rækilegar á staðreyndirnar en hann hefur gert nú þegar.

Með þessari stórkostlegu aukningu flotans var lagður grundvöllur að því að afnema atvinnuleysi á Íslandi og lagður grundvöllur að þeirri breyttu hagsæld Íslands eftir stríð, sem síðan hefur meira eða minna staðið. Flutningaskipaflotinn íslenzki var 1945 6500 tonn. Það voru gerðar ráðstafanir til að kaupa og borga á þessum tímum nýsköpunarinnar 13 ný skip, sem voru 23 þús. tonn. Það var 100% framkvæmdaáætlun nýbyggingarráðs. Það var fimmföldun á flutningaskipastóli Íslands, og um þetta segir hv. 5. þm. Reykv. með sinni Tímasagnfræði: Þetta nýbyggingarráð og nýsköpunarstjórn leystist upp, án þess að nokkur raunveruleg uppbygging hefði átt sér stað. Fyrr má nú vera Framsóknarblindan en sjá ekki neitt af því, sem gerðist á þessum árum. Tímabilið 1934—1938 var glæsilegt tímabil, þá fækkaði fiskiskipunum. Tímabilið 1945-1950 aftur á móti var aldeilis voðalegt tímabil, þá tvöfaldaðist og allt að fimmfaldaðist flotinn eftir því, hvort það voru fiskiskip eða flutningaskip. Ég verð því að segja það, að það er dálítið erfitt að ætla að skrifa sagnfræði fyrir hv. 5. þm. Reykv., ef hann ætlar að byggja það einvörðungu á þeim vitleysum, sem skrifaðar hafa verið í Tímann öll þessi ár. Þegar menn fara að læra sagnfræði, verða menn að reyna að byggja á staðreyndum, og þá verða menn að athuga, hvað gerzt hefur á þessum tíma, en ekki, hvað hefur verið skrifað um það í Tímann. Tíminn og Tíminn, eftir því, hvort það er með litlum eða stórum staf, er ekki nákvæmlega það sama.

Við gætum rakið þetta áfram, ef hv. 5. þm. Reykv. er ekki búinn að fá nóg. Afköst síldarverksmiðjanna á þessum tíma voru aukin úr 44 þús. málum á sólarhring upp í 77 þús. mál, það

var um 100% aukning á fáeinum árum. Það voru gerðar ráðstafanir til þess að setja þá lög um tunnuverksmiðjur og undirbúa byggingu þeirra og koma því í framkvæmd. Það var ráðizt í hraðfrystihús. M.a. byggði ríkið þá fiskiðjuver ríkisins. Og það var haldið áfram með undirbúning að ýmsum góðum málum, sem ýmist höfðu verið samþykkt áður eða hafði verið rætt um áður og var síðan gengið betur frá, en margt það, sem nýbyggingarráð var að vinna, tókst ekki að framkvæma, því miður.

En svo var nú eins og hv. 5. þm. Reykv. áttaði sig allt í einu á því, að það væri nú ekki öruggt, að þetta væri allt saman rétt hjá honum, hvað snerti atvinnumálin. Það væri e.t.v. ekki allt vitni um, að nýsköpunarstjórnin hefði staðið sig mjög illa og gamla vinstri stjórnin 1934-1937 hefði staðið sig mjög vel. Þá rámaði hann allt í einu í húsbyggingarnar. Þar hljóta þeir að hafa farið illa að ráði sínu. Og hann skellir því fram og segir : Það var sáralítið unnið að húsbyggingum. — Líklega hefur það vakað fyrir hv. 5. þm. Reykv., að það voru gerðir góðir hlutir í samstarfi Framsfl. og Alþfl. í sambandi við löggjöf um húsnæðismál. Verkamannabústaðirnir 1929 og fleira slíkt var samþykkt þá. En hvernig var hins vegar ástandið viðvíkjandi húsbyggingum? Við skulum taka okkar eigin kjördæmi, Reykjavík. 1936 eru byggðar 279 íbúðir, 1937 eru byggðar 233 íbúðir, 1938 eru byggðar 218 íbúðir, þetta glæsilega tímabil, þegar svo óskaplega mikið var unnið að húsbyggingum, og ætla ég þó alls ekki að gera litíð úr því, sem þá var gert. 1944 voru það 339 íbúðir, sem voru fullgerðar í Reykjavík, 1945 voru það 541, 1946 voru það 634, og það er eina árið þá á 10—20 ára tímabili, sem nægilegt var byggt í Reykjavík, miðað við það, sem álitíð var, að það þyrfti almennt að byggja um 600 íbúðir á ári. Svo rétt á eftir hins vegar kom Framsókn til skjalanna. Sósfl. fór úr ríkisstj., en Framsókn kom inn og sýndi nú aldeilis, hvernig eigi að fara að því að byggja íbúðir í Reykjavík. 1950 voru það 410, og á því ári kom Framsókn inn. Þá sýndi hún dugnað sinn. 1951 voru það 284 íbúðir, 1952 voru það 329, þá var hrapað niður í það, sem var 15 árum áður. Þá var Framsóknarhöndin komin þarna inn í eða hrammurinn. Er nú ekki nær, jafnvel fyrir hv. 5. þm. Reykv., að reyna að læra ofur lítið af þessum tölum en að endurtaka einu sinni enn þá máske það, sem kann að hafa staðið einhvern tíma í Tímanum?

Dómur hv. 5. þm. Reykv. um þetta tímabil, 1944-1946, var sem sé, að það hefði allt saman leystst upp, að lokum hefði engin raunveruleg uppbygging átt sér stað, eins og hann sagði orðrétt. Það er þessi blindni, sem Framsfl. þarf að læknast af. Áður en Framsfl. ætlar sér að vinna heiðarlega með verkalýðsflokkunum í bæjunum, þarf hann að vera búinn að koma auga á það og læra það, að við byggjum tilveru okkar sem stendur á fiskveiðunum. Og það dugir ekki sá fjandskapur við sjávarútveginn, sem einkenndi Framsókn allan þennan tíma. Tímabilið 1944 og þar á eftir var stórfelldasta uppbyggingartímabil í sögu Íslands, og það er bezt fyrir Framsfl. að reyna að læra af því. Og ég veit, að forustumenn Framsóknar hætta sér ekki út í umr. um þetta tímabil, vegna þess að undir niðri finna þeir til þess, hve þeir fóru asnalega að því að skerast úr leik, þegar þjóðin stóð sameinuð um að framkvæma þá stóru hluti, sem hún var að gera.

Ég veit um hv. 1. þm. Austf., að honum er ekkert vel við það að láta fara að minna á, hvaða orð það voru, sem hann notaði einmitt í ræðu hér á Alþ., þegar búið var að kaupa 32 nýsköpunartogara. Hann kallaði það „þetta gums“, sem ríkisstj. vissi ekkert, hvað hún ætti að gera við. Honum fannst það bara eins og gums, 32 togarar, og hann skildi ekkert, hvað átti að gera við það. Það opnuðust satt að segja ekki augun í honum fyrr en í kosningunum. Þá tók hann allt í einu eftir því, að það gat verið hentugt í kosningum að segja við Austfirðinga: Þið skuluð fá togara, og þetta mundi verða vinsælt. Hann sem sagt áttaði sig aldrei á, að togarar eru til fiskveiða, en til kosningaveiða, til atkvæðaveiða, jú, þá skildi hann það allt í einu. Ef það var hægt að fiska atkvæði á Austfjörðum, sem honum tókst ekki, þá voru togarar góðra gjalda verðir, þá voru þeir ekki lengur gums. En ef þeir áttu bara að vera til fiskveiða fyrir þjóðarbúið almeunt, nei, þá var það gums, sem ríkisstj, vissi ekkert, hvað hún ætti við að gera.

Ég veit ekki, hvort ég á að halda áfram með þetta og rekja alla þessa harmasögu Framsóknar. Að vísu gæti það verið gott fyrir hana, ef hún gæti eitthvað lært af því. Og kannske það sé rétt, að ég rétt minni á það, af því að hv. 5. þm. Reykv. hefur stundum notað tölur, sem eru prentaðar í fskj. með þessu frv. mínu, og Framsókn þykir mjög gott að nota þær tölur nú. 1945 var kaupmáttur tímakaupsins, þ.e. lægsta Dagsbrúnarkaups, 100. Eftir að Framsókn komst í ríkisstj. og fór að stjórna, fór hann 1951, held ég að það hafi verið, þá fór hann 1951 niður í 84,7, þá var Framsókn komin til, 16% kauplækkun, miðað við kaupmátt tímakaupsins. M.ö.o.: kaupmáttur tímakaupsins hefur ekki aftur nema rétt mánaðarbil eða svo komizt upp í eða upp yfir það, sem var 1945, á þessu voðalega tímabili, sem hv. 5. þm. Reykv. var nú að lýsa.

Ætli við látum þetta þá ekki nægja viðvíkjandi þeirri tilraun að fá Framsfl. til þess að átta sig á, af hverju hann missti með sinni blindni 1944 og ef hann gæti eitthvað lært, áður en hann kemst næst í ríkisstj.

Og þá skulum við svo taka næst það, sem hv. 5. þm. Reykv. ræddi mjög verulega um, og það var þetta ótætis klofningsstarf kommúnista, sem gerði Framsókn og Alþfl. sterkari 1937 eftir kosningar en þeir höfðu verið fyrir þær, og það hefði nú komið til í sambandi við vinstri stjórnina. Og hann fór þar inn á ýmis mál. Hver var raunverulega undirrótin að því, að okkar vinstri stjórn mistókst, að hún sprakk að lokum? Ef við ættum að reyna að vera alveg hlutlausir í þeim dómi, held ég, að maður mundi segja, að mistök hennar hafi stafað af því, að hún hafði enga markaða efnahagspólitík. Það er hægt að kenna öllu mögulegu um, og það er enginn flokkanna náttúrlega saklaus af því, en ég held, að það sé kannske hennar „tragedia“, hennar sorgarleikur.

1957 gerðum við tilraun til þess að fá vinstri stjórnina til þess að marka ákveðna efnahagspólitík, tilraun, sem er í samræmi við samsvarandi tilraunir, sem gerðar voru á Norðurlöndum og hv. 5. þm. Reykv. talaði mjög lofsamlega um og sagði nú úr sínu m ræðustól, — það er vonandi, að hann hafi meint það, — að Framsfl. og Alþfl. væru sammála um þess háttar áætlunargerð, sem framkvæmd væri á Norðurlöndum. Ég ætla mér að taka það fyrir, en ég fæ hér tilmæli frá hæstv. forseta um, að samkv. sérstökum tilmælum verði umr. frestað kl. 3. Og af því að ég er rétt að byrja á vinstri stjórninni, er bezt, að maður taki hana heldur sem heild næst, og verð ég þá við þeim tilmælum að gera hlé á ræðu minni.