05.12.1963
Neðri deild: 25. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í C-deild Alþingistíðinda. (1992)

71. mál, bygging leiguhúsnæðis

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. og hv. 5. landsk. þm. að flytja hér frv. á þskj. 78. Samkv. þessu frv. er hæstv. ríkisstj. heimilað að láta byggja á árinu 1964 500 íbúðir til þess að láta leigja út og byggja þær í hinum ýmsu kaupstöðum og kauptúnum þessa lands eftir því, hvað bæjarstjórnir og húsnæðismálastjórn telja mesta þörf þar á.

Það er svo komið hjá okkur nú, að það er orðinn verulegur skortur á íbúðum í allmörgum kaupstöðum landsins og ekki hvað sízt í Reykjavík. Þetta er ekki vegna þess, að Íslendingar vinni ekki mikið við það að reyna að koma upp nýjum íbúðum. Sannleikurinn er, að fólk vinnur baki brotnu að því að reyna að eignast þak yfir höfuðið. Þorri ungra hjóna að heita má vinnur nú bæði utan heimilis til þess að reyna að koma sér upp íbúð og vinnutíminn og erfiðleikarnir við að framkvæma þetta eru orðnir alveg gífurlegir. Aðstoð hins opinbera er líka orðin ákaflega ófullnægjandi í þessu efni. Það má heita t.d. , að þau lán, sem húsnæðismálastjórnin lætur, geri ekki meir en nægja fyrir þeirri hækkun, sem orðið hefur á þessum síðustu árum. Það er þess vegna ljóst, að þrátt fyrir alla þessa miklu vinnu, sem þeir menn leggja á sig, sem eru að reyna að koma sér upp íbúðum, þá er skorturinn tilfinnanlegur. Það sést bezt, ef við athugum, hve mikið hefur verið byggt af íbúðum. Ég tek sérstaklega dæmi hér af Reykjavík, af því að það liggur bezt fyrir í hagskýrslunum, hvernig það er þar, viðvíkjandi þeim bæ einum. Þar er ástandið þannig, að fyrir 17 árum álitu þeir menn, sem voru settir til þess af bæjarstjórn Reykjavíkur að rannsaka, hve mikið þyrfti að byggja, þar komust þeir að þeirri niðurstöðu, að hér í Reykjavík þyrfti að byggja 600 íbúðir á ári. Það var árið 1945 eða 1946, sem sú rannsóknarnefnd bæjarstjórnar Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu. 600 íbúðir þurfti að byggja á ári í Reykjavík til þess að byggja yfir þá, sem væru í heilsuspillandi híbýlum, þá, sem mynduðu ný heimili, og í staðinn fyrir þau hús, sem gengju úr sér.

Það var tekið allmyndarlega á á þeim árum, þá í stríðslokin hér. Enda var þá líka mjög róttæk löggjöf um húsnæðismálin og mikil aðstoð veitt, ekki sízt til þess að bæta úr hvað heilsuspillandi íbúðir snerti. Þó var aðeins eitt árið þá farið fram úr þessu. Það var árið 1946. Þá voru byggðar hér í Reykjavík 634 íbúðir. Ég skal til samanburðar minna á, að á árunum fyrir stríð var þetta yfirleitt niður í milli 200 og 300 íbúðir. Síðan, eftir 1947, fór hraðminnkandi, hvað byggt var af íbúðum. Hér í Reykjavík var það t.d. 1947 468, 1948 var það 491, 1949 566, 1950 410, og þá stórversnaði, þá tók við ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl., helmingaskiptastjórnin svokallaða, og innleiddi þau lög í fyrsta skipti á Íslandi, að það væri bannað að byggja íbúðir nema með sérstöku leyfi sérstakrar nefndar hér í Reykjavík, enda hrundi þá niður íbúðabyggingatalan. Þá fór það í Reykjavík niður í 282 íbúðir, sem byggt var á því herrans ári 1951 og niður í 161 íbúð það, sem byggt var úti á landi. Það hefur aldrei verið verri aðbúnaðurinn að mönnum til þess að geta komið þaki yfir höfuðið heldur en á þessu ári, 1951, og skorti þó ekki vinnuafl þá, því að þá var atvinnuleysi um land allt og í Reykjavík líka. Það var mikil barátta til þess að reyna að knýja fram frelsi í þeim efnum, að menn fengju að byggja, og hún bar nokkurn árangur, byggingar fóru smávaxandi. 1955 var það komið upp í 564 íbúðir hér í Reykjavík.

Það er álit þeirra, sem rannsakað hafa þessi mál, m.a. hér í Reykjavík, að það þyrfti að byggja um 700 íbúðir á ári, frá 1955. Og það var svo, að 1956 voru byggðar 705 íbúðir og 1957 935 íbúðir hér í Reykjavík. Það var á tímum vinstri stjórnarinnar, og það er hæsta talan, sem við höfum komizt upp í. Síðan fór það minnkandi. 1958 voru byggðar 865 íbúðir, 1959 740, 1960 642 og 1961 541. Það fór versnandi með viðreisninni. Ofur lítið skánaði það 1962, þá voru 598 íbúðir, sem voru byggðar á því herrans ári 1962 hér í Reykjavík. Og þegar menn nú bera þetta saman, sjá menn, hvernig stendur á því, að svona er komið. Það þurfti raunverulega að byggja 700 íbúðir á þessum seinasta áratug að meðaltali á ári hér í Reykjavík. Það eru aðeins tvö ár, sem það hefur verið gert eða komizt í að vera hærra. 1961 er ekki byggt meira en 1945, 16 árum áður. M.ö.o.: það hefur verið byggt alveg ófullnægjandi af íbúðum. Nú skal ég að vísu geta þess um leið, að að herbergjafjölda er það mikið, sem hefur verið byggt, og að fermetrafjölda er það líka mikið, sem hefur verið byggt. En það hefur, eins og með svo margt í okkar þjóðfélagi, verið farið of óhóflega að í hlutunum. Við höfum ekki kunnað fótum okkar forráð, Íslendingar, og m.a. hefðu þurft að vera þarna miklu meiri afskipti þess opinbera, ekki aðeins til þess að styðja þá, sem væru að byggja, heldur líka til þess að ráða nokkru um, hvernig byggt væri. Það er vitanlegt, að það hefur verið byggt hlutfallslega allt of mikið af 4, 5, 6 herbergja íbúðum og jafnvel þaðan af stærri, en allt of lítið af 2—3 herbergja íbúðum.

Því er það svo, að nú er mikill skortur eigin íbúða hjá fólki, og þó hafa eigin íbúðir aukizt tiltölulega mjög mikið. Það má heita, að þar hafi orðið alger bylting frá því, sem var fyrir stríð. Þá voru leiguíbúðirnar, t.d. hér í Reykjavík, í miklum meiri hl. Núna er það krafa, t.d. ánægjuleg krafa, sem sérstaklega unga fólkið gerir, að það skuli eiga sína eigin íbúð. En það eru bara ekki allir, sem hafa tök á því, sérstaklega ekki með þeim kjörum, sem nú eru veitt. Þess vegna er það svo, að samhliða því sem um byggingarnar og sérstaklega byggingar eigin íbúða hefur farið svo sem ég hef skýrt frá, hefur skorturinn á leiguíbúðum orðið alveg tilfinnanlegur. Sannleikurinn er, að skorturinn á leiguíbúðum er orðinn alveg óþolandi, þó sérstaklega hér í Reykjavík. Ég vil taka það fram, að hvað snertir landsbyggðina að öðru leyti, þá háttar þarna nokkuð öðruvísi. Það er í þeim efnum eins og svo mörgum öðrum, að þetta er eins og tvö þjóðfélög, þ.e. Reykjavík og nágrenni hennar annars vegar og landið að öðru leyti hins vegar. Hér búum við raunverulega í ekta kapitalistísku þjóðfélagi með öllu þess braski, hér í Reykjavík og nágrenninu. Úti á landi er svo að segja, ef ég mætti kalla það svo, það er eins konar sjálfsbjargarþjóðfélag. Það er þjóðfélag, þar sem fólkið fyrst og fremst er að reyna að bjarga sér sjálft. Og til allrar hamingju er komið svo í mörgum af þeim smábæjum, sem voru ljótir kotbæir, þegar ég var ungur, þar er nú komið svo, að þar eru orðnar mjög myndarlegar eigin íbúðir í steinhúsum, sem menn eiga. Mér dettur í hug t.d. hvernig staður eins og Blönduós hefur alveg umhverfzt til hins betra í þessum efnum. Og yfirleitt er það svo úti á landi, að víðast hvar hefur fólk þar af miklum dugnaði byggt sér sjálft þannig, að leiguíbúðir eru yfirleitt undantekningar. Hér aftur á móti í þessari stórborg, sem Reykjavík er að verða, er skorturinn á leiguíbúðum nú orðinn alvarlegt þjóðfélagsvandamál, sem verður að ráða fram úr eins og hverju öðru þjóðfélagsvandamáll. Hér er það svo, að fjöldi fólks hefur alls ekki efni á því, enda aðstaðan öðruvísi til þess að byggja að öllu leyti og fátækt það mikil hjá mörgum og aðrar aðstæður, að það getur yfirleitt ekki hugsað til þess að eignast íbúðir. Gamalt fólk er hér tiltölulega fleira en víða annars staðar á landinu, og það fólk þarf oft og tíðum alveg sérstaklega á því að halda að geta fengið leigt. Það er að öllu leyti ópraktískt af því að ætla að fara á gamals aldri að reyna að festa kaup á íbúð og eiga kannske ekki neina slíka að, sem gætu hjálpað því til þess.

Ástandið er þess vegna orðið þannig, að það liggur bókstaflega við neyð og er raunverulega neyð á ferðum, bæði hér í Reykjavík og á nokkrum stöðum annars staðar, sem hraðvaxandi eru. Fólk fær bókstaflega ekki inni. Fyrir barnafólk er þetta alveg óþolandi aðstaða, eins og nú er. Fyrir barnafólk er það svo, að ef mörg börn eru í fjölskyldu, 3, 4 og þaðan af fleiri, vilja helzt engir leigja þeim, og þau hjón, sem reyna að koma sínum stóra barnahóp upp, eiga bókstaflega hvergi í neitt hús að venda nema þá til bæjarins, sem reynir einhvers staðar og einhvers staðar, eftir því sem hann getur, og það er oft mjög takmarkað, að hola þeim niður og þá venjulega engan veginn í æskilegum íbúð um. Barnafólk, sem fátækt er, á þess vegna við hreinustu neyð að búa í þessum efnum. Ungt fólk, sem ekki býr svo vel, að foreldrar þess geti kannske boðið því upp á að gefa því í brúðargjöf 4-5 herbergja íbúð með bílinn standandi fyrir utan, eins og vissulega er til hér í Reykjavík, ungt fólk, sem á ekki slíka að, á erfitt með að fá inni. Fjöldinn af ungu fólki, sem nú giftist, verður að vera hjá foreldrum sínu m og oft í mjög takmörkuðu húsnæði, og menn vita, hvað það er óheppilegt, og þó að þetta unga fólk sé ákaflega duglegt og vilji leggja í að reyna að byggja sér, þá vitum við, hvað það þýðir. Það þýðir 3—4, jafnvel upp í 5 ár, sem tekur að koma sér upp íbúðunum, og við vitum, hvernig það er hérna. Það er flutt inn í íbúðirnar löngu áður en þær eru tilbúnar. Það er flutt inn í háhýsin, sem teiknuð eru hér, og barnafjölskyldur búa jafnvel uppi á 10.-11. hæð og verða að ganga þar lyftulaust eitt og tvö ár, þannig að menn geta rétt ímyndað sér, hvers konar aðbúnaður það yfirleitt er í stórborg eins og Reykjavík er að verða að geta ekki, á meðan menn eru a.m.k. að reyna að koma sér upp íbúð, fengið þá leigt 1-2—3 ár í einhverjum sæmilegum húsakynnum. Fyrir gamalt fólk er þetta alveg tilfinnanlegt, eins og ég hef getið um.

Það er þess vegna alveg óhjákvæmilegt, að þarna sé gripið í taumana og komið sé upp leiguíbúðum, bæði hér í Reykjavík og annars staðar. Það er þó nokkuð víða úti á landi, þar sem t.d. mikil útgerð er og að öðru leyti vaxandi bæir, þar hef ég það fyrir satt, að þessir bæir mundu vaxa mun hraðar, svo framarlega sem það væri til húsnæði, sem menn gætu flutt í þar, bæir eins og t.d. Húsavík og ýmsir fleiri. En fólkið þarf að koma að, og það getur ekki fengið neins staðar inni, og þess vegna flyzt það ekki í bæinn. Ef það væri til leiguhúsnæði hins vegar á þessum stöðum, mundi fólk koma strax, og þarna er vinnuaflsskortur allan tímann. Hér í Reykjavík hefur afleiðingin af þessum skorti ekki aðeins orðið sú, að fólk á bágt og býr við neyðarkjör í þessum efnum, heldur er það líka svo, eins og það vill verða í typískum, kapftalistískum þjóðfélögum, þar sem allt er metið til fjár, að svona neyðarástand leiðir af sér okur á húsnæði. Það er nú svo, af því að því miður afnám Alþingi húsaleigulögin á sínum tíma og hleypti af stað öllu því braski í gömlum íbúðum, sem átt hefur sér stað í Reykjavík síðan, sem hvergi hefur tíðkazt annars staðar á Norðurlöndum, að láta húsaleigu vera algerlega eftirlitslausa að heita má, því að þau fyrirmæli, sem til eru í lögum, eru að engu höfð nema af einstaka mönnum, sem eru svo framúrskarandi heiðarlegir, að þeir halda áfram þrátt fyrir allan gróðaþorstann og braskið í kringum þá að leigja enn þá út á verði, sem er kannske ekki nema helmingur eða minna af því, sem hægt er annars að fá fyrir íbúðina. Ég vil taka það fram, að slíkt fólk er til og til allrar hamingju þó nokkuð af því, en það eru þó náttúrlega því miður undantekningar í okkar brasksýrða bæ.

Hér eru þess dæmi nú, að t.d. 2-3 herbergja íbúðir séu leigðar út fyrir 3, 4 upp í 5 þús. kr. á mánuði og jafnvel meira. Og þess eru dæmi, að þegar svona íbúðir eru til sölu, sem lítið er um nú, hafa slíkar íbúðir, sem vitanlega hefur ekki kostað meira að byggja heldur en 300 þús. kr. eða rúmlega það, selzt á allt upp í 475 þús. kr., þannig að það er um hreint okur að ræða, bæði í leigu og sölu á þess háttar íbúðum. Og eftirspurnin eftir slíkum íbúðum, þegar þær eru til leigu eða jafnvel sölu, er slík, að það eru hundruð, sem flykkjast strax að til þess að reyna að komast þar inn. Þegar svona neyðarástand er orðið, er það enginn annar aðili en ríkið, sem getur gripið þarna inn í. Bæirnir gera nokkuð af þessu, eins og vitanlegt er, líka í sambandi við útrýmingu heilsuspillandi híbýla. Reykjavíkurborg hefur líka gert nokkuð á þessu sviði, en samt algerlega ófullnægjandi, þannig að það er alveg greinilegt, að ríkisstj. verður sjálf að grípa þarna inn í. Hins vegar leggjum við flm. þessa frv. ekki til, að það sé gert með föstu skipulagi, heldum leggjum við eingöngu til, að það sé grípið inn í núna af hálfu ríkisins á þessu eða næsta ári með ákveðnar byggingar í Reykjavík og annars staðar, þannig að þetta sé markað eingöngu við þessar 500 íbúðir, sem við tölum um, og þær séu byggðar, síðan verði það að ráðast, hvort ríkið þurfi að grípa inn í svona aftur. Við ætlumst ekki til þess og leggjum það ekki til við hv. þd., að hún fari að ganga inn á að koma upp svo að segja sérstakri stofnun, sem þýðir það, að ríkið fari að taka að sér almennt að byggja leiguíbúðir, heldur aðeins til þess að bæta úr þessu vandræðaástandi, sem núna er.

Við leggjum til í þessu frv., að þetta sé gert með nokkuð sérstökum hætti. í fyrsta lagi, að þetta sé byggt í allstórum stíl, íbúðirnar sjálfar séu miðaðar við það að vera yfirleitt 2-3 herbergja íbúðir. Það er gengið út frá, að þær séu hvað það snertir tvær tegundir, önnur 60—70 fermetra að stærð að innanmáli útveggja og hin 70—80, og það séu aðeins þessar tvær tegundir af íbúðum, sem byggðar séu, allar eins, eftir sömu teikningunni, þ.e.a.s. reynt náttúrlega að vanda sem allra mest til þeirrar teikningar, hafa hana að öllu leyti sem hagkvæmasta og bezta, en þær séu byggðar allar eins. Við vitum ósköp vel, hvernig það er í sambandi við allt, sem fólk er að byggja nú sjálft, þegar menn leggja í það, og það er ekki nema mannlegt og skiljanlegt, þá hugsar hver um sig: Ég er að byggja til frambúðar og ætla að eiga þetta alla mína ævi jafnvel, og þetta verður að vera það stórt, að ég geti líka búið hér, þegar börnin eru orðin mörg, — og svoleiðis nokkuð. Og menn leggja helzt í jafnvel 4-5 herbergja íbúðir undireins, í staðinn fyrir að meðan fjölskyldur eru litlar, er gott fyrir þær að vera í 2—3 herbergja íbúðum og leggja svo til heldur að geta flutt í aðrar stærri, þegar fjölskyldurnar eru orðnar stærri. Við vitum enn fremur, að þegar menn eru að byggja svona sjálfir, ráða sjálfir teikningunni, eru menn að gera ótal breytingar, þannig að þó að það sé byggt jafnvel í stórum blokkum, þá er kannske hver íbúðin með sínu laginu sem gerir það að verkum, að hver íbúð út af fyrir sig verður miklu, miklu dýrari en ella þyrfti að vera. Þar sem þetta er hugsað sem leiguíbúðir og ekki fyrir fram vitað neitt, hverjir eiga í þeim að búa, er þess vegna þarna tækifæri til þess frá upphafi að reyna að gera þessar íbúðir sem allra ódýrastar, en um leið góðar, þannig að teikna þær fyrir fram, og það séu bara tvær tegundir af þeim, og útbúa þær þannig að öllu leyti og byggja þær til fulls. Ég held, að það mætti gera mjög góðar íbúðir með þessu móti, með allri þeirri reynslu og þeirri þekkingu, sem menn eru búnir að fá með þeim ágætu arkitektum, sem við höfum, og með því að gefa þeim tækifæri til þess að spreyta sig á slíku, þá mætti þetta gerast mjög vel.

Í öðru lagi leggjum við til, að þetta sé byggt allt í 3-4 hæða húsum. Það er vitanlegt, að reikningslega séð verða íbúðir í fjögurra hæða húsum ódýrustu íbúðirnar, sem hægt er að byggja, a.m.k. miðað við borg eins og Reykjavík, og þess vegna höfum við lagt til, að það sé miðað við það. Við vitum, að það eru tilhneigingar strax, ef menn eiga að ráða sér sjálfir, við erum allir það miklir sveitamenn, íslendingar, að helzt vildu menn byggja þannig, að menn sæju varla til nágrannans. Menn vilja fá að vera dálítið frjálsir með sig, hafa dálítið í kringum sig, og það hefur sett nokkuð sinn svip á byggingarnar víða hjá okkur. En þegar á að fara að leggja vatns- og skolpræsi og rafmagn og síma og allt annað, sem þarf að leggja, hitaveitu og annað slíkt, þá verður það náttúrlega ákaflega dýrt fyrir bæjarfélagið, þegar þannig er byggt. Við höfum þess vegna gengið út frá því, að þessar byggingar væru fyrst og fremst framkvæmdar þannig, að þeir bæir, sem þetta væri byggt í, létu til ráðstöfunar helzt alveg ákveðnar götur, þar sem þessi hús væru byggð alveg í röð, þannig að þarna væri allt saman til um leið, allar leiðslurnar og allt slíkt, sem gera þyrfti, þannig að það væri um leið með þessum byggingum hægt að gera tilraun um það, hve ódýrt er hægt að byggja góðar og praktískar íbúðir. Og til þess að tryggja þetta í framkvæmdinni leggjum við til að mæla svo fyrir, að þegar um Reykjavík er að ræða og boðið er út, skuli það vera minnst 100 íbúðir í einu, og þegar það séu aðrir bæir, sem þannig er um að ræða, skuli það vera minnst 24 íbúðir í einu, eða byggðar nokkuð stórar 2-3 blokkir.

Ég held, að það væri þjóðfélagslega séð mjög merkilegt fyrir okkur og þarflegt, að við létum gera svona tilraun um byggingar, þannig að við virkilega sæjum, hvort við getum með því að skipuleggja þetta þannig fyrir fram byggt mun ódýrar en við gerum núna. Við vitum, að okkar þjóðfélag liður undir því, hve óskaplega dýrar yfirleitt byggingarnar eru hjá okkur.

Þá leggjum við til, til þess að afla fjár til þessa, að ríkisstj. sé heimilað að taka lán allt að 200 millj. kr. vegna þessara byggingarframkvæmda. Við álitum, að það sé mjög handhægt að fá það lán, það væri hægt að fá það lán hér heima. Við vitum, að okkar bankar og ekki sízt Seðlabankinn, sem ríkisstj. hefur beztan aðgang að, er um þessar mundir ríkari en nokkru sinni fyrr, þannig að við stöndum nú í þeim kringumstæðum á Íslandi, að við höfum nóga peninga. Og það er ekki hægt að koma með neina þá afsökun, sem við stundum höfum heyrt, að okkur vantaði fé. Við liggjum með það. Við geymum það í handraðanum, eins og gert var í gamla daga og þótti þá nirfilsskapur stundum. Við höfum nóga peninga til þess að bæta úr þessari neyð, sem nú er á þessu sviði. Þess vegna leggjum við til eða skjótum við því inn í grg., að ef bankarnir skyldu vera eitthvað tregir um að veita lán til þessa, þá hafi ríkisstj. það í bakhendinni, og viljum votta henni um leið okkar stuðning við það, ef hún þyrfti á því að halda, að skylda bankana, ekki sízt Seðlabankann, til þess að lána í þessu efni. Ég veit, að það er ekki skemmtilegt að grípa

til þess og kostar dálitla mótspyrnu, en það hefur verið gert áður hér á Alþingi, og Sjálfstfl. og Alþfl. hafa tekið þátt í að gera það áður hér á Alþingi, að skylda banka til slíks, þegar þurft hefur með til góðra fyrirtækja. Ég veit það, að þegar bankarnir hafa það í bakhendinni, að ríkisstj. getur beitt slíku, þá láta þeir ekki til þess koma, þá lána þeir og segjast gera það af fúsum vilja og gera það jafnvel af fúsum vilja, þegar búið er að tala vel við þá, þannig að ég efast ekki um, að það sé hægt að fá lán til þessa. En það þarf náttúrlega að tryggja um leið, að þessi lán séu veitt með hóflegum kjörum. Hér forðum, líka þegar Sjálfstfl. og Alþfl. voru með í ríkisstj., var bönkunum gert skylt að lána jafnvel gegn allt niður í 21/2% vöxtum. Það er nú búið að venja menn við svo háa vexti, að maður þorir varla að nefna það núna, þó að það væri það sjálfsagðasta, en með a.m.k. 4-5% er alveg óhætt að láta þá lána út og gera samning við þá um. Og ég man nú meira að segja eftir því, að hæstv. menntmrh. hefur knúið bankana, og það meira að segja án þess, held ég, að hóta þeim neinu illu, til þess að lána í vissa þarfa hluti með mjög lágum vöxtum. Með slíkum hóflegum vöxtum ætti, jafnvel þó að dýrt sé orðið að byggja, ef það er gert praktískt, að mega byggja svona íbúðir þannig, að með því að reikna sér 8%, eins og við leggjum þarna til að gert sé, það sé leigt út fyrir 8% af kostnaðarverði, og þegar vextirnir eru t.d. 5% eða þar í kring, er það vel hægt, þá ætti að vera hægt að láta íbúð, sem væri 2—3 herbergja af þessari stærð, sem við hér tölum um, fyrir 2000—2500 kr. á mánuði, og þó að það sé því miður há leiga og miklu hærri en það, sem gengið er út frá í núv. vísitölu, mundu menn þó vera fegnir því hér í Reykjavík að geta fengið inni í nýjum nýtízkuíbúðum fyrir 2000—2500 kr. á mánuði. Slík bygging íbúða mundi þess vegna bæta ákaflega mikið úr þeirri neyð, sem hér er, og sama er um að ræða úti á landi, þar sem ástandið er eitthvað svipað.

Við leggjum enn fremur til, að einstökum sjóðum, — eigum við þar við ýmsa almenna sjóði, sem til eru í þjóðfélaginu, hvort heldur það væri atvinnuleysistryggingasjóður eða ýmsir sjóðir, góðgerðasjóðir og annað slíkt, — þeim væri gefinn kostur á að lána í svona. Það er vitanlegt, að þessir sjóðir hafa orðið ákaflega illa úti í okkar miklu verðbólguhríð á undanförnum áratugum. Einstaklingarnir hafa reynt að bjarga sér með því að setja sitt fé í íbúðarhús. Sjóðirnir hafa venjulega verið látnir liggja og þeirra fé orðið mjög lítils virði. Sjóðir og sjóðsstjórnir gætu samkv. 6. gr. samið við ríkisstj. um það að lána fé í þetta, og svo fremi sem þessir sjóðir, og margt af þessum sjóðum er þannig, að fé liggur í þeim árum og áratugum saman, svo framarlega sem þeir lána þetta fé til 10 ára, mættu þeir að þeim 10 árum liðnum láta selja þessar íbúðir og fá þá andvirði þeirra eða þess hluta, sem þeir hafa lagt þarna i. Það þýddi, að það yrði eins konar trygging fyrir þessa sjóði, eins konar, hvað eigum við að kalla það, gengis- eða verðfallstrygging fyrir þessa sjóði, þannig að þeir tryggðu sig á sama hátt og einstaklingarnir hafa tryggt sig nú með því að setja sitt fé í íbúðabyggingar. Og ég held, að þetta yrði vinsælt ákvæði. Nú vitum við það, að mjög mikið af því sparifé, sem nú liggur í bönkunum, eru svona sjóðir, þannig að það mundu áreiðanlega margir stjórnendur þeirra vilja nota það á þennan máta. Hins vegar, ef um sjóði er að ræða, sem vildu ekki alveg binda sig til svona langs tíma, en gætu kannske hugsað sér að hafa féð svona lengi, en vildu samt geta fengið það laust, þá gætu þeir samið við ríkið um, að ef þeir vildu fá það laust fyrir þennan tíma, þá fengju þeir það bara sem venjulegt fé, en ef það er búið að vera meira en 10 ár, þá njóta þeir þessara réttinda. Þetta yrði þannig raunverulega betra en jafnvel verðbréf og væri kannske að sumu leyti ekki ólíkt því, sem hæstv. ríkisstj. er að leggja til núna í sambandi víð Seðlabankann með verðbréfin þar. Ég veit að vísu ekkí, hvernig það muni vera hugsað enn þá, til hve langs tíma slík verðbréf eru, en gefið er, að eðlilegt væri og ég býst við vinsælt af þessum sjóðum að gefa þeim tækifæri á þennan máta.

Þá gerum við í þessu frv. ráð fyrir því, að haft sé samstarf við bæjarstjórnirnar um þetta mál allt. Gagnvart hæstv. ríkisstj. leggjum við til, að henni sé heimilað að fela húsnæðismálastjórn framkvæmdir af sinni hálfu og samninga líka við bæjarstjórnir af sinni hálfu í þessum efnum, sem mundi að ýmsu leyti létta á henni, og húsnæðismálastjórn er hvort sem er þessum málun kunnugust og mundi vafalaust vera reiðubúin til þess að bæta því starfi á sig til þess að hjálpa til að leysa úr þeim vandkvæðum, sem hún bezt þekkir, hve mikil eru.

Við viljum vonast til þess, flm., að hv. d. skilji og meti þá miklu nauðsyn, sem er á því að bæta úr í þessum efnum, og við sjáum ekki þrátt fyrir allt, sem nauðsynlegt er að gera á öðrum sviðum, allar þær till., sem bæði við og aðrir munum flytja til varanlegra úrlausna í þessum málum, þá sjáum við ekki annað en það sé alveg óhjákvæmilegt, að ríkisstj. grípi til þess að láta byggja a.m.k. 500 leiguíbúðir hér í Reykjavík og á þeim stöðum úti á landi, þar sem bæjarstjórnir kauptúnanna óska þess, til þess að bæta úr beinni neyð, beinu neyðarástandi, sem nú ríkir. Við viljum þess vegna vona, að þessi hv. d. taki þessu máli vel, og ég vil bera fram þá till., að þessu frv. sé vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.