06.04.1964
Neðri deild: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í C-deild Alþingistíðinda. (2019)

102. mál, menntaskólar

Frsm. minni hl. (Óskar Jónsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. um breyt. á l. um menntaskóla, sem er að finna á þskj. 147 og flutt hefur verið í þessari hv. d. af þeim Einari Ágústssyni, 11. þm. Reykv., og Birni Fr. Björnssyni, 4. þm. Sunnl. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að gerð verði ýtarleg athugun um framtíðarþörf þjóðarinnar fyrir menntaskóla og ekkert verði til sparað að tryggja nægilegan skólakost á því sviði. Hins vegar leggjum við til, sem skipum minni hl. n., að frv. verði samþykkt. Álit okkar reisum við m.a. á því, að fullkomlega sé tímabært og meira en það að ákveða með löggjöf, hvar og hve margir menntaskólar skuli vera í landinu til að fullnægja þeim aukna fjölda, er ætla má að æski þess að geta notíð menntaskólanáms í næstu framtíð og þjóðinni er brýn nauðsyn á að geti átt kost þess að njóta þeirrar menntunar, sem tækni og vísindi nútímans krefjast í hraðvaxandi mæli.

Það viðurkenna allir, að eins og nú er komið öllum þjóðfélagsháttum, verði að stórauka þekkingu, tæknimenntun og vísindi. Atvinnuvegir þjóðarinnar krefjast þess, og öll framtíðaruppbyggingin verður að vera á því reist. Með þessar staðreyndir í huga og einnig það, að löggjöfin um menntaskóla er löngu úrelt, sbr. það, að í gildandi löggjöf eru fyrirmæli um aðeins einn menntaskóla, Menntaskólann í Reykjavík, þó að nú um sinn, meira að segja árum saman, hafi samkv. heimildum í framangreindum lögum verið starfræktir menntaskólarnir á Akureyri og að Laugarvatni, — það má að vísu segja, að þetta skipti ekki meginmáli, en sé nánast formsbreyting, — en þar sem þessir menntaskólar eru þó staðreynd, er ekkert annað eðlilegra en að þeir séu ákveðnir sem slíkir í lögum.

Húsnæðisvandamál Menntaskólans í Reykjavík hafa lengi verið á döfinni og að margra dómi enn ófullnægjandi. Í skólanum eru nú yfir 900 nemendur. Þessi mikli fjöldi er af mörgum skólamönnum talinn allt of mikill í einum skóla og því algerlega rangt að stefna að því, að nemendafjöldi hans aukist úr þessu. Íslenzkir skólamenn munu flestir þeirrar skoðunar, að slíkir skólar eigi ekki að vera fjölmennari en með 500 —600 nemendur. Ýmsir nefna miklu lægri tölu um fjölda nemenda, allt niður í 300—400. Allir eru hins vegar sammála um, að 800—900 nemendur sé allt of hátt, jafnvel þó að aðstæður væru hinar beztu. Ef gengið væri út frá milliveginum hér og miðað við nemendafjöldann 500—600, er augljóst. að tveir menntaskólar gætu verið fullsetnir í Reykjavík innan 1—2 ára. Það má því varla seinna vera, að ákveðið sé, að menntaskólar verði tveir í Reykjavík, og annað ekki forsvaranlegt til að mæta þeim stóraukna nemendafjölda, er hlýtur í hraðvaxandi mæli að sækja um menntaskólanám í hinni ört vaxandi höfuðborg og fjölmennu byggðum í nágrenni hennar. Ég fæ ekki skilið annað en að hv. þm. þessara byggðarlaga séu þessu sammála.

Á undanförnum þingum hafa nokkrum sinnum verið fluttar till. um stofnun menntaskóla á Austurlandi og á Vestfjörðum. Þær till. hafa verið fluttar vegna mikils áhuga í þessum byggðarlögum á því, að aðstaða unglinga til framhaldsnáms verði jöfnuð, svo sem verða mætti. Virðist það sanngirniskrafa, að íbúar Austurlands og Vestfjarða yrðu að þessu leyti settir við sama borð og íbúar á Suður- og Norðurlandi. Lítils háttar vísir hefur verið lagður að menntaskóla á Ísafirði við góða raun.

Að öllu þessu athuguðu fæ ég eigi séð, að frambærilegar ástæður séu fyrir hendi hér á hv. Alþingi að fresta því að lögtaka, að áðurnefndir menntaskólar verði ákveðnir í landi voru, þar sem allir virðast sammála um, að þessi skipan verði upp tekin og hún framkvæmd, eftir því sem efni standa til. Að öllu þessu athuguðu fæ ég ekki betur séð en þessi mál liggi fullkomlega ljós fyrir til nálægrar framtíð ar og gersamlega ástæðulaust að vísa frv. til ríkisstj. Staðreynd er, að Menntaskólinn í Reykjavík verður varla aukinn að nemendafjölda úr þessu að allra dómi. Menntaskólarnir á Akureyri og Laugarvatni eru þegar orðnir veruleiki, og getum við ekki fullkomlega treyst dómgreind allra hv. þm. Austurlands og Vestfjarða um nauðsyn þess, að þar verði stofnsettir menntaskólar, sem þeir hafa fært rök fyrir þing eftir þing? Þá ætla ég, að hv. alþm, þéttbýlisins hér við Faxaflóa þurfi ekki að velta vöngum um nauðsyn þess, að efnt verði til nýs menntaskóla í Reykjavík.

Ég verð að taka svo djúpt í árinni, að ég tel það fyrir neðan virðingu Alþingis að vísa þessu máli frá sér. Ég fæ ekki heldur séð, að ríkisstj. sé neinn greiði gerður með því, að frv. sé vísað til hennar, og vil ég mega vænta þess, að hæstv. menntmrh. — hann er hér sem betur fer — mæli með því, að frv. verði samþykkt. Hitt er svo allt annað mál, hvort ekki ber nauðsyn til að taka til rækilegrar athugunar námsskrá menntaskólanna og gera þar á breytingar, er henti betur þeim viðfangsefnum, sem mæta verður í framtíð inni, með tilliti til þeirrar þróunar, sem verið hefur svo að segja á öllum sviðum þjóðlífsins. En það fær engu breytt um nauðsyn skólanna, heldur þvert á móti knýr enn frekar á, að þeir séu fyrir hendi í ört vaxandi þjóðfélagi og þar staðsettir, er þeir bezt fá þjónað því hlutverki að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og þeim tilgangi þjónar þetta frv. óumdeilanlega, og þess vegna ber að samþykkja það.