17.04.1964
Neðri deild: 80. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í C-deild Alþingistíðinda. (2034)

102. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að svara þegar í stað þeirri fsp., sem hv. síðasti ræðumaður beindi til mín um það, hvort til stæði að hækka þá lágmarkseinkunn, sem krafizt er til inngöngu í menntaskóla. Ég tel rétt, að menn séu ekki í neinum vafa um það, hvað fyrir dyrum standi í þessu efni, ef eitthvað væri. En þar er skemmst af að segja, að mér hefur engin till. borizt um það að hækka þá lágmarkseinkunn, sem nú og um langt skeið undanfarið hefur verið krafizt til inngöngu í menntaskóla. Ég get bætt því við, að meðan ég hef með þessi mál að gera, mun ég ekki breyta þeirri einkunn, sem krafizt hefur verið og er krafizt nú. Ég tel raunar, að sú lágmarkseinkunn, sem krafizt er til inngöngu í menntaskóla, megi undir engum kringumstæðum vera háð því skólarými, því húsnæði, sem til ráðstöfunar er fyrir menntaskólastigið. Ég tel það vera tvímælalausa skyldu ríkisvaldsins að sjá öllum þeim nemendum, sem standast tilskilin próf og með prófum sínum öðlast réttindi til inngöngu í menntaskólana, fyrir skilyrðum til að stunda menntaskólanámið framvegis eins og hingað til, og við það mun verða miðað.