14.04.1964
Neðri deild: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í C-deild Alþingistíðinda. (2162)

202. mál, vinnuvernd

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins fá orð. Ég vil vegna þeirra umr., sem hér hafa orðið um vinnulöggjöfina í sambandi við það mál, sem er nú á dagskrá, aðeins segja það, að ég vil mjög vara við því, að menn líti á vinnulöggjöfina sem einhvern hlut, sem sé orðinn alveg örugglega úreltur, vegna þess að hún sé orðin 25 ára gömul, og það sé þess vegna bráðnauðsynlegt að taka hana til endurskoðunar og breyta.

Hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Sunnl., taldi nauðsynlegt að endurskoða nú vinnulöggjöfina og færa hana til samræmis því, sem tíðkaðist á Norðurlöndum og hjá þeim þjóðum, sem væru lengra komnar í þessum efnum en við. Mér er ekki kunnugt um, að okkar vinnulöggjöf sé mjög í ósamræmi við það, sem er á Norðurlöndum. Og

enn fremur vil ég undirstrika, að þegar þessi vinnulöggjöf var samin og sett, var hún miðuð við okkar aðstæður, — og hafa okkar aðstæður breytzt svo mjög á þessum árum, að þörf sé á verulegri endurskoðun á vinnulöggjöfinni þess vegna? Ég held, að svo sé ekki. Hitt er annað mál, að bæði verkalýðssamtökin og einnig samtök atvinnurekenda hefðu áhuga á að breyta ýmsu í núverandi vinnulöggjöf, en slíkur áhugi hefur venjulega farið alveg í gagnstæða átt. Og eins og hér var tekið fram áðan, held ég, að það sé mjög nauðsynlegt, ef og þegar þessi mál verða verulega endurskoðuð, að þá verði það gert sameiginlega af þessum aðilum, sem fyrst og fremst deila á vinnumarkaðinum. Það var hér áðan sagt, að það samkomulag, sem Danir hafa gert sín í milli, dönsku verkalýðssamtökin og samtök atvinnurekenda, og er síðan fyrir aldamót, væri einmitt slíkur samningur, sem samtökin sjálf gera sín í milli, leikreglur, sem farið er eftir, sem einnig þyrfti að vera hjá okkur. Danir hafa iðulega breytt þessu, þó ekki í neinum stórum atriðum. Í öllum höfuðgrundvallaratriðum er september-samkomulagið það sama í dag og það var 1899, þegar það var gert. Hins vegar hafa nú á alveg síðustu árum verið mjög miklar umr. og viðræður á milli aðila um að breyta því. Og nú munu liggja fyrir, jafnvel, er talið, þótt ekki sé opinberlega, aliverulegar breytingar á því samkomulagi. Ég vil vara við því, að bara vegna þess að vinnulöggjöfin sé orðin 24 ára gömul, sé nauðsynlegt að breyta henni núna eða fara að endurskoða hana. Það er út af fyrir sig ekki neinn mælikvarði. Aðalatriðið er það, hvort hún þjónar ekki því, sem henni ber að gera, og ég tel, að svo sé, og undirstrika það, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði áðan, að það hafa skapazt ákveðnar venjur og leikreglur í þeim oft örðugu og bitru átökum, sem átt hafa sér stað, reglur, sem báðir virða, báðir hafa lært mikið, og ég held, að sú reynsla, lærdómur, sem menn fá í þessum efnum, sé það drýgsta til þess að fara eftir.

Ég vil, úr því að ég er kominn hér í stólinn, aðeins vegna þeirra ummæla, sem hv. 8. þm. Reykv. hafði hér um hagræðingarmálin og afstöðu verkalýðssamtakanna jafnvel eða miðstjórnar Alþýðusambandsins til þeirra mála, undirstrika það, sem forseti þeirra samtaka, hv. 5. þm. Vestf., sagði hér áðan, að það hefur ekki staðið á okkar samtökum í þessum efnum. Hitt er áreiðanlega rétt, að áhuginn hjá atvinnurekendunum er ekki sem skyldi fyrir hendi, og ég held, að það sé aðallega eitt, sem veldur því hjá atvinnurekendunum sjálfum, og það er, að þeir hafa haft aðra aðferð til þess að viðhalda gróða sínum á undanförnum árum heldur en þá að hafa sérstaklega hagkvæman rekstur. Það hefur ekki verið neitt höfuðatriði fyrir þá. Þeir hafa haft verðbólgugróðann, þannig að áhuginn fyrir verulega hagkvæmum rekstri hefur ekki verið eins mikill og skyldi.

Og í öðru lagi: Það, sem alveg sérstaklega hefur hindráð það, að sú nefnd, sem báðir aðilar settu í byrjun árs 1963 líklega til þess að reyna að koma á rammasamningi og var skipuð forustumönnum úr báðum samtökum, lyki störfum, er það, að þessir menn hafa bókstaflega ekki haft þann tíma til að starfa sem skyldi. Forustumenn þessara samtaka standa í erfiðum samningum oft á ári. Það hefur ekki gefizt tími á undanförnum a.m.k. 3 árum til að snúa sér að málum, sem virkilega væri vert að leiða meira hugann að heldur en gefizt hefur tími til. Og það er af sömu ástæðum, sem við höfum staðið í samningamálum, einmitt vegna þeirrar óhemjuverðbólgu, sem hér hefur verið.