21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í C-deild Alþingistíðinda. (2261)

142. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það er greinilegt, að það eru mjög andstæðar skoðanir manna á dragnótaveiðum. Og ég held það fari ekki hjá því, að þeir, sem vilja styðja þetta frv., geti varla talið fiskifræðingana hafa rétt fyrir sér, eða ég get ekki skilið það öðruvísi þrátt fyrir ummæli hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG). Hann telur, að það felist ekkert vantraust á fiskifræðinga okkar í því að fylgja þessu frv., heldur sé um varúð að ræða, sem menn vilji sýna, og ekkert annað. Eftir því að dæma ættu fiskifræðingarnir að hafa alveg rétt fyrir sér í því, sem þeir segja, en samt ætti að banna dragnótina af varúð, eða ég skil þessi ummæli þannig. En þá vil ég spyrja þennan hv. þm.: Þarf þá ekki að fara að banna netaveiðina af varúð og banna hringnótina af varúð, því að það eru óneitanlega grunsemdir um það, að þessi veiðarfæri kunni að gera tjón? Það er enginn leikur að láta varúðina ganga svo langt að fara að banna svo þýðingarmikla atvinnuvegi sem þennan. Ég held það væri hyggilegra að fela sérfræðingum okkar að ranasaka sem allra rækilegast fyrst, hvort um tjón er að ræða af ákveðnum veiðarfærum eða ekki, áður en menn fara að banna viss veiðarfæri af eintómri varúð.

Það fer ekki fram hjá mönnum, að frv. gefur tilefni til þess að telja flm. þess þeirrar skoðunar, að fiskifræðingarnir hafi ekki rétt fyrir sér, og flm. meira að segja segja þetta nokkurn veginn berum orðum í grg. frv. Hér stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta, í grg. frv.: „Það tók skamman tíma, eftir að dragnótaveiðarnar hófust, að þær gengju af öllum handfæra- og línuveiðum smærri bátanna nærri dauðum.“ Það munar ekkert um það. Það er ekkert smáræðistjón, sem dragnótin hefur gert að dómi flm. En fiskifræðingurinn, sem leitað var til, segir aftur á móti í grein í Ægi, eins og hér hefur áður verið bent á, með leyfi hæstv. forseta: „Í stuttu máli má því segja, að hingað til hafi ekkert það komið fram í viðbrögðum þorsk- og ýsustofnanna gagnvart dragnótaveiðinni, er bendi til þess, að þeim sé meiri hætta búin af þessari veiðiaðferð en öðrum veiðum“ Gagnstæðari skoðanir en þetta held ég að sé varla hægt að finna í einu máli. Það er því engum blöðum um það að fletta, eftir grg. að dæma, að flm. frv. telja fiskifræðinginn hafa rangt fyrir sér, því að ef þeir teldu það ekki, þá mundu þeir aldrei hafa sett þetta í grg. Menn geta svo velt því fyrir sér, hvort það er vantraust eða ekki vantraust á hann eða þá fiskifræðingana að hafa látið álit sitt í ljós á þennan hátt, eins og ég hef hér nefnt, með því að hafa lýst skaðsemi dragnótarinnar eins og grg. ber með sér. Og ég lít á þessa hlið málsins allalvarlegum augum, einmitt þessa hlið, að alþm. telja sérfræðinga í þessum efnum hafa rangt fyrir sér, sérfræðinga, sem hafa verið falin mjög ábyrgðarmikil störf í þágu þessa mikilsverða atvinnuvegar, en nú sé bara ekki hægt að treysta þeim lengur.

Undir hitt get ég ekki tekið, að þeir, sem fylgja þessu frv. eða flytja það, séu að gera það af eintómri varúð. Það hefur verið leitað til þessara sérfræðinga um langan tíma og í mikilsverðum málum, eins og öllum er ljóst, svo að það er ekkert hégómamál, hvort við virðum umsagnir þeirra eða virðum þær ekki. Og ef við förum að sniðganga svo rækilega álitsgerðir slíkra manna eins og hér er gert með þessu frv., fer að vakna sú spurning, hvort ekki megi þá rengja einhverja fleiri vísindamenn, sem þjóðfélagið hefur í þjónustu sinni. Ég get því ómögulega tekið undir það álit, sem kemur fram í grg. þessa frv. í garð þessara fiskifræðinga, meðan ég veit ekki betur en ég veit enn. Ef það væri svo, að það væri ekki hægt að byggja á niðurstöðum þeirra, verður að gera ráðstafanir til þess að fá þær betri annars staðar eða skapa þessum sérfræðingum þá aðstöðu, að þeir geti enn betur framkvæmt rannsóknir sínar. Meðan það liggur ekki fyrir, vil ég ekki taka það á mig að fara að rengja umsagnir þeirra. En það er tvímælalaust gert með þessu frv.

Hér er lagt til að banna dragnótaveiðar í Faxaflóa. Það mætti segja, að mér kæmi það litið við, ef ég ætlaði aðeins að hugsa um Vestfirði. En þetta held ég komi öllum við, þótt ekki sé rætt nema um Faxaflóa, því að ef á að banna dragnótaveiðar þar, eru svipuð rök fyrir því að banna þær alls staðar. Og auðvitað kemur röðin að öðrum veiðisvæðum á eftir, ef nú er samþykkt þetta frv. um bann í Faxaflóa. En ég vil benda hv. þm. á, að það er hægt að friða Faxaflóa gegn dragnótaveiði án þess að breyta einum einasta staf í þessum lögum, og það vænti ég að hv. þm. hafi gert sér ljóst nú þegar. Þetta bar mjög á góma í hv. Ed. í fyrra, þegar þetta mál var þá á ferðinni, og það er þess vert að benda á það enn. Hæstv. ríkisstj. eða hæstv. ráðh., sem um þessi mál fjallar, hefur ekkert vald í þessum efnum, nema til komi leyfi ákveðinna aðila, sem fram er tekið í lögunum. Það má í fyrsta lagi ekki opna nokkurt svæði, nema fyrir liggi álit sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæði. Þetta er fyrsta atriðið. Annað er það, að leyfið gildir ekki nema til eins árs, og það þarf því að endurtaka árlega að fá álitsgerðir frá þessum aðilum. Ef þessir aðilar, eins og segir í 1. gr., sveitarstjórnir, samtök útvegsmanna, sjómanna eða verkamanna leiða rök að því, að hagkvæmara sé að stunda aðrar veiðar en dragnótaveiðar á tilteknum hlutum veiðisvæðis, og bera fram óskir um, að þeir hlutar svæðanna verði friðaðir sérstaklega fyrir dragnótaveiði, skal ráðherra í samráði við Fiskifélag Íslands verða við þeirri ósk. Ef þessir aðilar við Faxaflóa hafa svo óskaplega mikið tjón af dragnótinni eins og segir í grg. þessa frv., svo að lagður verði í auðn smábátaútvegur vegna hennar, af hverju hafa þá ekki þessir aðilar tekið höndum saman og heimtað af ráðherra að loka Flóanum? Þetta gátu þeir gert, ef þeir vildu. Mér sýnist vera ákaflega mikil mótsögn í því, sem stendur í grg. frv. annars vegar, og þessu valdi, sem þessir aðilar hafa hins vegar til að friða flóann, að þeir skuli ekki hafa gert það.

Ég hef heyrt því hreyft utan þings, að ekki sé það nein vísindaleg ráðstöfun að láta útgerðarmenn, verkamenn eða sveitarstjórnir segja fyrir um það, hvort á að veiða fisk þarna eða ekki. En þess er að gæta, að þarna er um þá aðila að ræða, sem hagsmuna hafa að gæta, og ef þeir telja sig enga sérstaka hagsmuni hafa af því að stunda dragnótaveiði umfram aðrar veiðar, fallast þeir auðvitað á að friða flóann. Og engan skaðar það að friða Faxaflóa, ef þessir aðilar telja sér hag í því, og þess vegna er það eðlilegt, að þeir láti sínar skoðanir í ljós. En ég held, að ástæðan til þess, að þeir hafa ekki viljað banna dragnótina, sé sú, að þessir aðilar séu alls ekki á því, að dragnótin valdi því tjóni, sem sagt er í þessu frv., og af því hafi þeir aldrei komið þessari ósk á framfæri, að banna dragnótaveiðar hér.

Þar sem hv. síðasti ræðumaður á nú sæti í sjútvn., sem væntanlega fær þetta frv. til athugunar, vil ég benda honum alveg sérstaklega á að koma því á framfæri við meðnm: sina, að það þurfi ekki að samþ. frv., það sé ekkert annað en að framfylgja ákveðum 1. gr. 1., þá geti þeir friðað Faxaflóa.