25.02.1964
Efri deild: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í C-deild Alþingistíðinda. (2271)

159. mál, samvinnubúskapur

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Við þm. Framsfl., sem eigum sæti í þessari hv. d., höfum borið fram frv. um samvinnubúskap, sem er nú hér til 1. umr.

Landbúnaður hefur verið stundaður hér á landi, allt frá því að það byggðist. Það má segja, að höfuðviðfangsefni þeirra, er landbúnað stunda, sé að framleiða fæðu handa þjóðinni. En landbúnaðurinn gegnir jafnframt fleiri hlutverkum í þjóðfélaginu. Hann er sá atvinnuvegur, sem hindur þjóðina við landið umfram aðrar atvinnugreinar. Aðrar atvinnugreinar eru þannig, að þær yfirleitt stefna að því að færa byggðina saman í þéttbýli, en landbúnaðurinn dreifir byggðinni og nytjar gæði landsins hvarvetna. Jafnframt hefur landbúnaðurinn miklu menningarlegu hlutverki að gegna. Það liggur utan við efni þessa frv. að ræða þann þáttinn, en ég vil þó aðeins drepa á eitt atriði. Íslenzk tunga er það, sem gerir þjóðina að sjálfstæðri þjóð umfram allt annað. Ef þjóðin glataði tungu sinni, þá mundi hún glata sjálfri sér innan skamms, en það er ekki smávægilegur orðaforði tungunnar, sem bundinn er við örnefni landsins, — örnefnin, sem lifað hafa allt frá landnámstíð og geymzt mann fram af manni. Nú er það augljóst og hefur enda komið í ljós í sambandi við þá örnefnasöfnun, sem þjóðminjasafnið gengst fyrir, að það er miklu betur séð fyrir þessum þætti, þar sem sama ættin hefur búið á jörðunum langtímum saman, heldur en þar, sem tíð eigendaskipti hafa orðið. Þó að ég víki að þessu, endurtek ég það, að þetta liggur allt utan við efni þessa frv., og ég fer ekki lengra út í þetta.

Fram á þessa öld var landbúnaðurinn aðalatvinnuvegur þjóðarinnar og stundum nær eini atvinnuvegur hennar. En þróunin á þessari öld hefur orðið sú, að fólki, sem stundar landbúnað, hefur stöðugt fækkað í hlutfalli við íbúafjölda í landinu í heild. Þessu veldur, að nýjar atvinnugreinar hafa risið á fót og fjármagnið að ýmsu leyti lagzt meira til beirra atvinnuvega, en mínna til landbúnaðarins. Í grg. er þetta sýnt með tölum, sem fengnar eru hjá hagstofunni, hvernig þróunin hefur verið að þessu leyti, og vísa ég til þess. En fram eftir þessari öld voru sveitaheimilin yfirleitt fjölmenn, þannig að búskapurinn var rekinn með mörgu vinnufólki. Þetta vinnufólk bar oft ekki mjög mikið úr býtum, en það stóð ásamt húsráðendum að búskapnum og naut þeirra gæða, sem hann gaf, þó að þar væru oft ekki mjög mikil verðmæti í aðra hönd. En fækkunin í sveitunum og við landbúnaðarstörfin hefur aðallega orðið með þeim hætti, að fólki hefur fækkað á hverju sveitaheimili, þannig að vinnufólkið, sem áður starfaði á sveitaheimilunum, er horfið þaðan. En þrátt fyrir þetta hefur framleiðsla landbúnaðarins stóraukizt á undanförnum árum, þannig að tölur sýna, að á s.l. 15 árum hefur mjólkurframleiðslan u.þ.b. þrefaldazt og framleiðsla sauðfjárafurða nærri tvöfaldazt. Þetta er út af fyrir sig mjög ánægjuleg þróun Vélvæðingin í landbúnaðinum veldur þessu og eykur þannig afköstin og framleiðslumagnið. En þessi breyting á búskaparháttum hefur það í för með sér, að búin þurfa að stækka til þess að geta staðið straum af þeim kostnaði, sem vélaaflinu fylgir. Vélarnar eru dýrar í innkaupi, og þær þurfa mikið viðhald. Og a.m.k. nú í á síðari árum hefur þróunin verið sú, að það hefur ekki verið eðlilegt hlutfall um verðhækkanir véla annars vegar og hækkun afurðaverðsins hins vegar. Þetta gerir það að verkum, að bóndinn á mjög erfitt með að endurnýja þann vélakost, sem hvert bú þarf á að halda. Vélarnar þurfa og miklar viðgerðir, og þarf til þess nokkra kunnáttu, sem varla er hægt að ætlast til að hver maður, sem við búskap vinnur, hafi fyllilega til að bera. Enn fremur er þess að gæta, að sumir þættir búskaparins eru þannig vaxnir, að ekki er hægt að framkvæma þá með vélum. Aðalafurð sauðfjárbúskaparins er bundin við það, hvernig sauðburðurinn heppnast, en bóndinn getur ekki nema að mjög takmörkuðu leyti sparað sér vinnu með vélaafli til að gæta sauðfjárins um sauðburðinn. Þetta veldur því, að þeir sérstöku þættir í búrekstrinum, sem ekki verða unnir með vélum, nema þá að mjög litlu leyti, þeir hvíla æ þyngra á herðum bóndans, eftir því sem búið stækkar, og verður þetta sérstaklega erfitt og áhrifaríkt, þegar um einyrkjabúskap er að ræða. Nú er stefnt að því m.a. með löggjöf að létta bústörfin og auka öryggi og afkomu búrekstrarins með því að styðja ræktun og umbætur í húsagerð. En það mark, sem hv. Alþ. setur um sérstakan stuðning í ræktunarmátum, er þó enn ekki hærra en miðað við 25 ha. 25 ha. tún getur ekki verið miðað við að framfleyta búi, sem getur staðið straum af kaupgjaldi til handa aðkeyptu vinnuaflí, svo að nokkru ráði sé. 25 ha. túnstærð er fyrst og fremst miðuð við, að einyrki með fremur lítilli aðstoð aðkeyptri geti framfleytt nægilegum bústofni fyrir fjölskyldu sína með aðstoð þeirra véla, sem hann kemst yfir. En reynslan sannar, að einyrkjabúskapur hefur mikla annmarka í för með sér. Þó að hann sé nú mjög algengur og hafi sem betur fer víða nað góðum árangri, þá hefur hann samt sem áður mikla annmarka. Starf einyrkjans er mjög bindandi. Hann þarf einn að leysa af hendi margvísleg verkefni, sem hann er misjafnlega vel fallinn til að vinna. Og ef annað hjónanna á sveitaheimilinu forfallast um skemmri eða lengri tíma, þá getur það valdið miklum örðugleikum, þar sem einyrki á í hlut. Það er því að dómi okkar flm. tímabært að taka það til gaumgæfilegrar athugunar, hvernig sé hægt að leita ráða til þess að skapa sveitabúskapnum sem allra mest öryggi.

Með frv. þessu er stefnt að því að leggja grundvöll að aukinni samvinnu í búskap. Gömul og ný reynsla sannar, að hvar sem erfiðleikum er að mæta, verða þeir bezt leystir með samstarfi nokkurra manna. Þegar steinninn í götunni lokaði leið hins sterka vegfaranda, þá hefðu þrír um þokað. Þetta eru ekki ný sannindi, heldur ævaforn. Meðan vinnufólkið var á sveitaheimilunum fleira eða færra, þá skapaðist nokkurn veginn eðlileg verkaskipting á heimilunum. Og þó að einn maður forfallaðist á slíku heimili um skamman tíma, þá var heimilið ekki í neinni hættu, vegna þess að þá gátu samstarfsmenn hlaupið undir bagga um stundarsakir og tekið að sér þan verk, sem sá hafði með höndum, er forfallaðist.

Það hefur einnig tíðkazt hér á landi, jafnvel öldum saman, að vissir þættir í búskapnum hafa verið þess eðlis, að þá hefur þurft að leysa með samvinnu margra heimila, og það var eins meðan heimilin voru fjölmenn. Nærtækast er í þessu efni að minnast á fjallskilin, þar sem um langan tíma hefur verið staðið þannig að þeim þætti búskaparins í sveitarfélögunum hér á landi, að þar hefur verið um samvinnu margra heimila að ræða. Og fjallskilareglugerðin er sá samningur, sem geymir þau fyrirmæli, sem unnið er eftir að þessu verki. Þetta tíðkaðist enn fremur allviða á jörðum, sem lágu við sjávarsíðuna, meðan útræði var stundað á opnum bátum, að þá krafði nauðsyn, að nokkur heimili ynnu saman til þess að notfæra sér þessi sjávargæði. Svipað átti sér stað og á sér stað enn sums staðar þar, sem nytja þarf veiði, veiðiföng og önnur hlunnindi, sem einn maður getur ekki nytjað, að þá mynda menn samtök, samvinnu, oftast nær yfirleitt óformlega, en þetta er eins konar hefðbundin starfsemi í ýmsum byggðarlögum, að menn mynda samvinnu til þess að nytja þessi gæði. Á fleiri sviðum gætir mjög samvinnu meðal bænda og sveitafólks. Í sumum byggðarlögum í sveitum er því þannig háttað, að ef einn bóndinn þarf að ráðast í framkvæmd eins og húsbyggingu, þá koma nágrannar og sveitungar og hjálpa til við verkið. Búnaðarfélagið á oft einhver tæki, svo sem hrærivélar o.fl., sem létta störfin, og þannig er létt undir fæti með einyrkjanum að búa í haginn fyrir sjálfan sig á sinni jörð. Og í sumum sveitum er þetta svo þýðingarmikill þáttur, að það er eiginlega erfitt að sjá, hvernig framkvæmdir hefðu getað orðið þar, miðað við þann kostnað, sem þær hafa nú í för með sér, ef þessari reglu væri ekki fylgt. Það eru einnig til sveitir hér á landi, þar sem það er algengt, að skyldfólk starfi saman við búskap og þannig eigi sér stað óformlegur samvinnubúskapur. Þar sem þetta tíðkast, hefur það víða gefið mjög góða raun. En áhrifaríkust og markvísust verður þó samvinna, ef hún er grundvölluð í löggjöf. Það eru mörg dæmi, sem nefna má og sýna þetta. Íslendingar hafa á undanförnum áratugum lyft grettistökum á sviði viðskipta með samvinnu. Hið sama er að segja um afurðasölu bændanna, sem vítanlega er einn þáttur viðskiptalífs þeirra. Vinnsla afurðanna og skipulag vöruflutninga í heilum byggðarlögum, t.d. mjólkurflutningar, þetta er allt byggt á samvinnu í heilum héruðum. Hreppabúnaðarfélögin hafa verið styrk stoð við margar framkvæmdir bænda í sveitunum, keypt ýmiss konar tæki, sem einstaklingarnir hafa síðan getað notað sér til hagræðis. Og þegar hinar stórvirku ræktunarvélar fóru að ryðja sér til rúms eftír stríðið, þá voru þær yfirleitt svo kostnaðarsamar og dýrar í rekstri, að það var flestum einstaklingum í bændastétt ofviða sökum kostnaðar að kaupa þær og reka. Hins vegar eru slíkar vélar og viðeigandi tæki nauðsynleg til framkvæmda í sveitum. Þennan vanda hefur bændastéttin leyst mjög greiðlega og ágreiningslítið á grundvelli löggjafar með stofnun ræktunarfélaga og samvinnu um kaup vélanna og rekstur þeirra.

Öll þessi dæmi eða allir þessir þættir, sem ég hef nú nefnt, eru grundvallaðir á löggjöf, en til hefur komið framtak einstaklinganna og félagsstarfsemi heima í hverju héraði til þess að framkvæma þau ákvæði, sem löggjöfin hefur lagt grundvöll að. Flm. þessa frv. telja tímabært, að með löggjöf verði nú lagður grundvöllur að stofnun samvinnubúa í sveitum, svo að þeir, er áhuga hafa á að stofna til búrekstrar í því formi og telja sér það henta, geti stuðzt við löggjöf. Flm. er það ríkt í huga, að samvinnan er gædd þeim áhrifum að geta sameinað það tvennt, að þroska einstaklingsgildið og efla atvinnulíf og framkvæmdir með mætti samtakanna, að félagsbandið, sem sannur samvinnumaður leggur á sig af fúsum og frjálsum vilja, skerpir að jafnaði vitund hans um ábyrgðina gagnvart félögum hans og eigin skuldbindingum og að vissan um það, að hagsældin, sem vinnst með félagsstarfi, er sprottin af verkum og áhuga samstarfsmanna á að skapa gagnkvæma tiltrú milli þeirra.

Eins og ég hef tekið fram, er stefnt að því með þessu frv. að fá lagalegan grundvöll til þess að stofna samvinnubú í sveitum, svo að þeir, er áhuga hafa á slíku, geti stuðzt við löggjöf. Og í því sambandi er miðað við í þessu frv., að eðlileg fjárhagsaðstoð sé veitt til þess að koma samvinnubúi upp, þar sem áhugi er á slíku og eftir aðstoð yrði leitað af hálfu einstaklinga í sveitum. Hér er ekki stefnt að því að knýja einstaklinga til samvinnubúskapar með valdboði eða þvingun, og hér er ekki stefnt að því að hnekkja einstaklingsbúskap, því að vitanlega á hann og mun þróast samhliða samvinnubúum, þó að þau risu af grunni hér og hvar. Áhugi, framtak og félagshyggja einstaklinganna ræður úrslitum um það, hvort samvinnubúskapur nær útbreiðslu og blómgast. Reynslan ein fær úr því skorið, hver þróunin verður að þessu leyti, en það er augljóst, að samvinnubúskapur hefur ýmsa kosti og mun gera sveitafólkinu kleift að losna við þá annmarka, sem einyrkjabúskap fylgja. Þar sem tveir bændur eða fleiri standa saman að búrekstri, getur komizt á hagkvæm verkaskipting, framkvæmdir orðið hlutfallslega meiri en hjá einyrkjum, vélaaflið notazt betur og búin orðið hlutfallslega stærri. Það má þó telja enn mikilvægara, að með samstarfi í búskap skapast öryggi, þannig að búið verði ekki í bráðri hættu, þótt einn maður forfallist, þar sem samstarfsmenn hlaupa þá undir bagga, og með samvinnubúskap mun gefast kostur á meira frjálsræði til að taka þátt í nútímaþjóðlífi en einyrkjabúskapur leyfir. Það er álit okkar, sem stöndum að þessu frv., að það muni enn sem fyrr reynast sannmæli, það, sem norðlenzki bóndinn

kvað á sínum tíma, „að miklu fá orkað í mannvina höndum samlynd tryggðatök“.

Í I. kafla þessa frv. er það skilgreint, hvað teljist samvinnubúskapur samkv. lögum þessum. En það er, ef tveir bændur eða fleiri saman reka í félagi samkv. samningi eitt bú, þar sem aðilar vinna saman við búið, vélar og tæki vegna búrekstrarins eru sameign og jörð og útihús eru til sameiginlegra afnota vegna búskaparins. Ég vil vekja eftirtekt á því; að hér er ekki miðað við, að það þurfi að breyta um eignarrétt á jörðum, þó að búskapur yrði í samvinnuformi. Þess eru dæmi, að þannig er ástatt í sumum sveitum, að t.d. öldruð hjón eiga allgott jarðnæði og vilja gjarnan búa áfram, en þau vantar vinnuafl til þess að geta haldið búrekstrinum í sæmilegu horfi. Í grennd við þau eru svo ung hjón, sem vilja hefja búskap, en vantar jarðnæði. Hér gæti farið svo, að það hentaði báðum að stofna til samvinnubúskapar, þar sem eldri maðurinn legði fram eignina til afnota, en yngri maðurinn meira af starfsorku til búrekstrarins. Við gerum ráð fyrir í frv., að ef stofnað yrði til samvinnubúskapar samkv. lögum þessum, sé gerður um það stofnsamningur milli aðila og þeim samningi sé þinglýst.

II. kafli frv. er um samvinnubúskap á einstökum jörðum. Þar er svo fyrir mælt, að bændum, sem stofna samvinnubú, sé heimilt að sameina jarðir til að reka á þeim samvinnubúskap,

en þó ekki fleiri jarðir en stofnendur samvinnubúsins eru samkv. stofnsamningi, nema nýbýlastjórn og hlutaðeigandi sveitarstjórn samþykki. Þetta ákvæði á að koma í veg fyrir það, að þetta verði misnotað, þannig að einstakir menn fari að leggja undir sig jarðir til að stofna þar samvinnubúskap, nema álit og samþykki nýbýlastjórnar og hlutaðeigandi sveitarstjórnar komi til. Og þá verður það metið af þessum aðilum í hverju einstöku falli, hvort og að hve miklu leyti sé eðlilegt að sameina jarðir til þess að reka á þeim samvinnubúskap.

III. kafli frv. er um samvinnubúskap í byggðahverfum. Nú er samkv. lögum um landnám, ræktun og byggingar í sveitum lagt á vald nýbýlastjórnar að stofna nýbýli, annaðhvort einstök býli eða í byggðahverfum. Þegar undirbúin er á vegum nýbýlastjórnar stofnun byggðahverfis samkv. landnámslögunum, virðist það liggja beint við, að stefnt sé að því að koma þar á samvinnubúskap, og er þá eðlilegt, að það sé athugað fyrir fram og mannvirki öll í byggðahverfinu miðuð við það búskaparform, en ekki einstaklingsbúskap, eins og algengast hefur verið.

IV. kafli frv. er um samvinnubúskap til að koma í veg fyrir eyðingu sveitarfélags. Þar segir, að ef yfirvofandi hætta er á, að byggð eyðist í sveitarfélagi, getur Landnám ríkisins stofnað þar til samvinnubúskapar, ef talið er, að með því verði komið í veg fyrir eyðingu byggðarinnar. Landnám ríkisins á þá að afla sér nægilegs lands að dómi nýbýlastjórnar til ræktunar og beitar og rækta að fullu land, sem svarar til allt að 25 ha. fyrir hvert heimili, reisir íbúðir og nauðsynleg útihús fyrir samvinnubúið, en til að standa straum af þessum kostnaði skal ríkissjóður samkv. frv. greiða Landnámi ríkisins 10 millj. kr. árlega næstu 10 ár. Slík býlí, sem þannig yrðu reist, yrðu síðan leigð með hliðstæðum kjörum og nú er ákveðið um nýbýli í byggðahverfum, sem Landnám ríkisins reisir samkvæmt landnámslögunum.

V. kafli frv. hefur að geyma almenn ákvæði. Þar er tekið fram, að nýbýlastjórn skuli hafa á hendi leiðbeiningar og veita aðstoð þeim, sem koma vilja á samvinnubúskap, og að hún eigi að meta skilyrði til búrekstrar á þeim stöðum, þar sem samvinnubú verður stofnað, og skulu þau skilyrði eigi vera lakari en svo, að hluti hverrar fjölskyldu, er gerist aðili að samvinnubúi, geti a.m.k. samsvarað meðalbústærð, þ.e. vísitölubúi. Enn fremur er í 11, gr. frv. ákvæði um það, hvað skuli taka fram í stofnsamningi, sem gerður er, þegar samvinnubú er reist, hverjir séu stofnendur samvinnubúsins, með hvaða hætti menn geti orðið aðilar að því, að samvinnubændur skuli allir hafa heimili á staðnum og vinna að samvinnubúinu, hver sé eignarhlutur hvers stofnanda í jörð, húsum og öðrum mannvirkjum, búvélum og bústofni og bújörð, fóðurgeymslur, peningshús, jarðræktar- og heyvinnuvélar skuli vera til sameiginlegra afnota á samvinnubúinu, hvernig skuli fara um stjórn búsins og hvernig það verði skuldbundið og aðrar félagslegar ákvarðanir teknar, hvernig fara skuli með reikningshald, arðskiptingu og áhættu, hvaða reglum skuli fylgt, ef aðili að samvinnubúi fellur frá, flyzt burt eða selur eignarhluta sinn, og loks, hvaða reglur skuli gilda um ábyrgð aðila og um félagsslit, ef til kemur.

Við leggjum til samkv. 13. gr. frv., að samvinnubú hafi sama rétt til lántöku í stofnlánadeild landbúnaðarins og til framlaga samkv. jarðræktarlögum og l. um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, eins og aðilar að búinu hefðu haft, ef þeir hefðu búið út af fyrir sig á sérstakri bújörð. En auk þess skal nýbýlastjórn heimilt, ef stofnun samvinnubús hefur í för með sér sérstakan kostnað á byrjunarstigi umfram venjulegan einkahússtofnkostnað, að veita stofnendum óafturkræft framlag, eftir því sem fé verður til þess veitt á fjárlögum. Enn fremur skal þá stofnlánadeild landbúnaðarins heimilt að veita samvinnubúi stofnlán til þess að standa straum af slíkum kostnaði, ef nýbýlastjórn mælir með því. Um þetta skulu sett nánari ákvæði í reglugerð, bæði um framlag og lán.

Ég hef þá drepið á aðalatriðin í frv. og farið um málið nokkrum almennum orðum. Ég sé ekki ástæðu til að skýra það með lengra máli, en legg til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. landbn.