11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (2358)

45. mál, geðveikralög

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um till. til þál. um undirbúning geðveikralaga á þskj. 46. N. hefur fengið umsögn um till. frá landlækni og Geðlæknafélagi Íslands, og eru þær báðar mjög jákvæðar.

Eins og fram kemur í grg. fyrir till., kom það þegar fram á Alþingi fyrir 30 árum við afnám laga um geðveikrahæli, að slík lagasetning um geðveikramál væri nauðsynleg. Í ýmsum lögum eru einstök ákvæði um þessi efni, en ekki eru til nein heildarlög, eins og víðast erlendis.

Till. sú til þál., sem hér um ræðir, hefur tvívegis áður verið flutt, en ekki náð fram að ganga. Allshn. er sammála um nauðsyn þess, að till. fái jákvæða afgreiðslu, en hefur gert á henni lítils háttar breytingu. Í till. segir:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa nefnd til þess að undirbúa frv. til geðveikralaga og láta leggja slíkt frv. fyrir næsta þing.“

Allshn. leggur til, að orðin „að skipa nefnd“ falli burt, þar sem eðlilegast sé, að ríkisstj. hafi það í hendi sér, á hvern hátt frv. verði undirbúið, hvort einum manni eða tveimur verði falið verkið eða valin til þess nefnd. Með þessari breytingu leggur n. til, að till. verði samþykkt.