11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2397)

94. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Á fyrsta þinginu, sem ég sat hér, flutti ég ásamt einum af þeim hv. þm., sem eru flm. að þessari till., Benedikt Gröndal, till. til þál., sem var hliðstæð þessari að efni. Enda þótt mér sé ljóst, að sú till. gerði ekki neina stóra hluti, vakti hún þó athygli á því, að hér er nauðsynjamál á ferðinni og Íslendingar eiga að gefa meiri gaum að iðnaði en þeir hafa áður gert. Ég er sannfærður um það, að sú till. átti þá nokkurn þátt í því, að ný iðnfyrirtæki risu upp úti um byggðir landsins, og við eigum að halda áfram á þeirri braut.

Það hefur verið nokkuð ríkjandi skoðun í þessu landi, að þéttbýli gæti ekki orðið til nema í kringum sjávarútveg. Á síðari árum hefur það hins vegar sýnt sig, að þess í skoðun hefur ekki við rök að styðjast og hafa orðið til þéttbýlissvæði, þar sem afkoma manna hefur ekkert verið síður góð, þótt þau hafi ekki stuðzt við sjávarútveg, og í framtíðinni eigum við jöfnum höndum að byggja okkar þéttbýli upp í sambandi við sjávarútveginn, iðnaðinn og landbúnaðinn. Þó að slíku máli hafi verið hreyft hér fyrir nokkrum árum, er það jafnnauðsynlegt nú. Þess vegna var það, að við fulltrúar Framsfl. í fjvn. vorum á einu máli um stuðning við þessa tillögu.

Sú breyting, sem þar var gerð um það, að hæstv. ríkisstj. skipaði alla nm., um hana vil ég segja það, að eins og við tókum fram í fjvn., höfðum við framsóknarmenn ekki ástæðu til að sýna hæstv. ríkisstj. traust, sem fólgið væri í því, að hún skipaði alla mennina. Að vísu var í raun og veru ekki nema eitt sæti í n., sem um var að ræða, sem ríkisstj. hefði ekki ráðið eftir till., eins og hún var upphaflega orðuð. Hins vegar skal það sagt með glöðu geði, að samstarf við meiri hl. fjvn. á þessu þingi hefur verið með ágætum um afgreiðslu mála. Þar hefur ekki orðið ágreiningur nema um höfuðmálefni, eins og ég gerði grein fyrir við fjárlagaumræður í vetur. Þess vegna vildum við framsóknarmenn ekki, að þetta mál yrði til þess að rjúfa þá samstöðu, ekki sízt þar sem meiri hl. tók fram, að að því yrði vikið í framsögu, að því væri treyst, að hæstv. ríkisstj. mundi reyna að hafa þessa n. það víðtæka, að hún næði til sem flestra, svo að árangurinn yrði sem beztur, eins og hv. frsm. n. vék að hér í framsöguræðu sinni og uppfyllti þar með það fyrirheit, sem hann gaf okkur í sambandi við afgreiðslu málsins. Þess vegna varð samstaða um það, til þess að nauðsyn málsins væri undirstrikuð og samstaða fjvn. um málaafgreiðslu einnig.

Mér er það fullkomlega ljóst, að hraða verður athugun á þessu máli, eins og fram hefur komið hér í þessum umr., og því verður treyst, að þeir menn, sem um framkvæmdina sjá, vinni að því, ekki sízt þar sem það er undirstrikað svo greinilega sem gert hefur verið í þessum umr. og ég vil einnig taka undir. En það skulum við gera okkur ljóst, að til þess að verulegur árangur verði af störfum n., verður að rýmka um í sambandi við lánsútveganir fyrir iðnaðinn í landinu. Það er lítt mögulegt að koma á nýjum iðnaði, nema breytt verði aðstöðu hans til lánsmöguleika. Þar verður að rýmka verulega frá því, sem nú er. Og einn þáttur í störfum n. verður að vera fólginn í því að vinna að því.

Út af því , sem fram hefur komið hér um það, að þessi till. hefði átt að takmarkast aðeins við Norðurlandskjördæmi vestra, vil ég segja það, að mér finnst það með öllu fráleitt. Enda þótt nú séu þar meiri erfiðleikar en annars staðar, þó undantekin þorpin eða kauptúnin að vestanverðum Húnaflóa, þá varðar það erfiðleikana, sem við er að fást í dag. En þetta er ekki mál, sem aðeins er hugsað út frá deginum í dag, heldur á að vinna að því að skipuleggja uppbyggingu iðnaðarins víðs vegar úti um landið, og þannig treystum við betur en áður hefur verið atvinnugrundvöllinn og komum í veg fyrir, að slíkt ástand skapist, eins og nú á sér stað í kauptúnum og kaupstöðum í Norðurlandskjördæmi vestra, eftir því sem hér hefur verið lýst. Og það er það, sem á að vera höfuðmarkmið okkar, og þess vegna eigum við að fylgja þessari till. fullkomlega eftir við afgreiðslu hér nú og þó fyrst og fremst í framkvæmdinni.