13.11.1963
Sameinað þing: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (2438)

59. mál, varnir gegn tjóni af völdum Kötluhlaups

Fram. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Á þskj. 59 flytja þeir Ragnar Jónsson, hv. 1. varaþm. Sunnl., og Sigurður 6. Ólafsson, hv. 5. þm. Sunnl., svo hljóðandi till. til þál., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að láta undirbúa og hefja þegar á næsta ári nauðsynlegar aðgerðir til varnar mannvirkjum og gróðurlöndum í Álftaveri og Vík í Mýrdal með tilliti til hugsanlegs Kötluhlaups, á grundvelli þeirra athugana, sem þegar hafa verið framkvæmdar og fyrir liggja.“

Till. var á sinum tíma vísað til fjvn., og hefur n. haft hana til athugunar, sent hana til umsagnar ýmissa aðila og borizt frá þeim svör. Þeir aðilar, sem till. var send til umsagnar til, voru vegamálastjóri, Slysavarnafélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands, og eru allir þessir aðilar því fylgjandi, að till. verði samþykkt.

Eins og flm. þessarar till. réttilega benda á í grg., sem henni fylgir, hafa Kötluhlaup oft og tíðum á undanförnum öldum valdið miklu tjóni í sveitum Vestur-Skaftafellssýslu austan Víkur í Mýrdal, og hefur tjónið aðallega orðið af völdum jökulhlaupa. Ef Kötlugos brýzt út, er að sjálfsögðu ekki hægt að segja um það fyrir fram, hvar vatnsflóðið eða jökulhlaupið muni ryðjast fram. En reynsla sú, sem fengizt hefur í undanförnum Kötlugosum, gefur þó nokkra bendingu um, hvar hættan sé mest, og hafa flm. till. í huga varnir ákveðinna byggða og ákveðinna mannvirkja, þ.e. byggðanna í Álftaveri og Vík í Mýrdal og flugvallarins í Álftaveri. Eins og fram kemur í sjálfri till. og einnig í grg. hennar, hafa þegar farið fram nokkrar athuganir á því, hvernig vörnum verður helzt við komið, sem flm. till. hafa í huga. Um þetta segir vegamálastjóri í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Á s.l. vori var að beiðni samgmrh. gerð lausleg athugun á því, hvaða aðgerðir væri tiltækar til varnar mannvirkjum og gróðurlöndum í Álftaveri og Vík í Mýrdal með tilliti til hugsanlegs Kötluhlaups. Athuganir þessar gerði Helgi Hallgrímsson verkfræðingur, og voru niðurstöður hans sendar samgmrn. með bréfi, dags. 9. maí s.l.“ (Þ.e. 1963).

Niðurstöður umrædds verkfræðings vegamálastjóra varðandi hugsanlegar varnir við Vík í Mýrdal eru svo hljóðandi:

„Hlaup þau, sem jafnan hafa fylgt Kötlugosum, hafa stundum farið vestur með Höfðabrekkuhálsi og Víkurhömrum og allt til Víkur, og er meginhluti þorpsins í hættu, ef slíkt skeði nú. Í gosi 1918 komst gosið ekki þessa leið, og olli því allhár bakki, sem er vestan við farveg Múlakvíslar á þessum kafla. Mun þó litlu hafa munað þar sem ísjakar lágu uppi á bakkanum eftir hlaupið.

Að sögn kunnugra manna hefur farvegur Múlakvíslar nokkuð hækkað síðan fyrir hlaupið 1918 og áður nefndur bakki því ekki eins mikil vörn og þá var. Til að hindra hlaupið í því að fara vestur kemur einkum til greina að gera varnargarð við svonefndan Höfðabrekkujökul, sem er skammt vestan Múlakvíslar. Í þessu sambandi má geta þess, að raddir hafa verið uppi um það í Vík að gera varnargarð við Víkurklett, sem er um 4 km vestan við Höfðabrekkujökul. Garður þarna kæmi að sömu notum fyrir þorpið og yrði nokkru ódýrari en garðurinn við Höfðabrekkujökul. Hins vegar eru verðmæti milli Víkurkletts og Höfðabrekkujökuls, sem fara mundu forgörðum í jökulhlaupi, og má þar nefna flugvöll, 95 m langa brú, 4 km af vegi, fjárhús, tún o.fl. Ber því tvímælalaust fremur að gera garð við Höfðabrekkujökul. Garður þar yrði 320 m langur og 6 m hár og kostar lauslega áætlað um 850 þús. kr. Þrátt fyrir þennan garð er hins vegar nokkur hætta á, að hlaup færi í ósa Kerlingardalsár sunnan við Höfðabrekkujökul og stíflaði þá. Mundi áin þá tóna vestur með Víkurhömrum, og til að hindra það vatn í að komast til Víkur þyrfti að gera garð rétt austan við þorpið. Mundi hann kosta um 50 þús. kr. Þessir garðar ættu að hafa verulega möguleika til að hindra hlaup af svipaðri stærð og 1918 og þar með bjarga þeim verðmætum, sem hér eru í húfi, ef gos brytist út.“

Þetta er umsögn verkfræðings vegamálastióra, Helga Hallgrímssonar, varðandi varnir Víkurkauptúns. Um varnir í Álftaveri segir sami aðili orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

,.Landslagi er svo háttað í Álftaveri, að byggðin hefur verið umflotin í Kötluhlaupum og ógerlegt að hindra, að svo verði einnig framvegis, þar sem mikið af landi í Álftaveri er mjög láet. Er heldur ekki mögulegt að verja það í heild. Með tilliti til reynslunnar frá 1918 má þó eftir lauslega athugun á staðháttum benda á eftirfarandi atriði sem verða mættu Álftveringum til hjálpar í Kötluhlaupi. Svo sem raun hefur á orðið við fyrri Kötlugos, mun Álftaver væntanlega einangrast um lengri tíma eftir gos, þar sem brýr yrðu þá af öllum ám og Mýrdalssandur ófær. Til að bæta úr þessu hefur verið gerður flugvöllur, sem þá yrði eina samgönguleið Álftveringa, og veltur mikið á, að hann sé eins öruggur fyrir hlaupi og unnt er, svo og samband hans við byggðina. Í því skyni þarf að gera varnargarða á tveimur stöðum, annan við vesturenda flugvallarins og hinn norðaustan hans. Á síðastnefnda staðnum kom mikið vatn fram 1918, og flæddi það yfir mikið land jarðanna Hóls og Herjólfsstaða. En með garðinum yrði komið í veg fyrir það. Farvegur Skálmar undan Skálmarbæ mun hafa hækkað allmikið síðan 1918 og Skálmarbæ því hættara en þá. Þar sem gera þarf varnargarð við Skálm norðan við bæinn vegna ágangs árinnar, ætti að gera þann garð öflugan með tilliti til þess, að hann veitti bænum nokkurt skjól í Kötluhlauni. Lauslega áætlað kosta garðarnir við flugvöllinn um 50 þús. kr. og garður við Skálmarbæ um 125 þús. kr.“

Þetta var umsögn verkfræðings vegamálastjóra og lausleg kostnaðaráætlun um varnir þær, sem gera þarf vegna hugsanlegs Kötluhlaups, sem till. þessi hljóðar um.

Eins og áður er sagt, er að sjálfsögðu aldrei hægt að segja til um með neinni vissu, hvenær Kötluhlaup kann að bera að höndum. Hitt er nokkurn veginn víst, að ef slíkt skeður, mun fylgja gosinu jökulhlaup, sem ryðjast mun fram Mýrdalssand og allt til sjávar. Slíkt mun ávallt hafa skeð við hvert gos, sem upp hefur komið, og hafa þessi hlaup án undantekningar valdið meira eða minna tjóni og oft og tíðum mjög miklu tjóni. Það verða því að teljast skynsamleg viðbrögð, sem flm. þessarar till. leggja til, að nú þegar verði hafizt handa um nauðsynlegar aðgerðir til varnar íbúum og mannvirkjum í þeim sveitum Vestur-Skaftafellssýslu, sem nokkurn veginn er fyrir fram vitað að fyrir mestum ágangi verða, ef Kötlugos verður.

Kostnaður við varnir í Álftaveri hefur af verkfræðingi vegamálaskrifstofunnar verið áætlaður lauslega 175 þús. kr., og hefur sú fjárhæð verið tekin inn á fjárlög yfirstandandi árs. Kostnaður við varnir Víkurkauptúns er af sama aðila lauslega áætlaður 900 þús. kr., og verður ekki með nokkrum rökum sagt, að hér sé um óviðráðanlegan kostnað að ræða, allra sízt ef tekið er tillit til allra þeirra verðmæta, sem í húfi eru, ef ekkert er að gert. Enn fremur ber að lita á, að flugvöllurinn í Álftaveri mun sennilega verða eina samgönguleið þeirra, sem þar búa, og einnig nærliggjandi byggðar um lengri eða skemmri tíma, ef Kötlugos brýzt út.

Fjvn. fellst í öllu á rök flm. í grg. till., sem í grundvallaratriðum eru staðfest í umsögn vegamálastjóra og þeirra annarra, sem till. fengu til umsagnar, og leggur n. einróma til, að till. verði samþykkt óbreytt. Einn nm., Geir Gunnarsson, hefur þó áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., er fram kynnu að koma.