08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (2518)

211. mál, vegáætlun 1964

Við Ísafjarðardjúp er lagning vegarins meðfram sunnanverðu Djúpinu stærsta og mest aðkallandi verkefnið. Með honum mun skapast nýtt og greiðfærara akvegasamband við Ísafjarðarkaupstað og kauptúnin við utanvert Djúpið:

Bolungarvík, Hnífsdal og Súðavík, en í þessum byggðarlögum búa hátt á fimmta þúsund manns, akvegasambandslausir 7—8 mánuði á árinu. Af Djúpveginum er nú um 70 km vegalengd ólögð. Gert er ráð fyrir, að sú vegagerð kosti um eða yfir 40 millj. kr., miðað við núverandi verðlag. Með smáfjárveitingum til þessa vegar á ári hverju mundi lagning hans taka óratíma.

Í Strandasýslu hlýtur að verða lögð megináherzla á að ljúka vegagerð norður í nyrzta hrepp sýslunnar, Arneshrepp, sem nú er akvegasambandslaus. Er þar eftir að leggja um 15–20 km kafla, til þess að akvegasamband skapist norður í Djúpuvík í Reykjarfirði. En vegagerð þangað að norðan úr Ingólfsfirði um Trékyllisvík, kringum Reykjarfjörð er nú að verða lokið. Loks þarf að bæta verulega vegasambandið við kauptúnin við Steingrímsfjörð, Hólmavík og Drangsnes.

Ég hef aðeins leyft mér að nefna hér nokkur stærstu verkefnin í vegamálum Vestfjarða. Ég vænti, að af þeirri upptalningu megi verða ljóst, hversu mikla erfiðleika vegleysið og einangrunin skapa því fólki, sem byggir þennan landshluta. Mér er vel ljóst, að mikil verkefni bíða einnig annars staðar á landinu, en ég held, að enginn sanngjarn maður komist hjá að viðurkenna sérstöðu Vestfirðinga í þessum efnum. Þess vegna hlýtur þing og stjórn að taka í vaxandi mæli tillit til óska Vestfirðinga um ný stórátök í vegamálum.

Við þm. Sjálfstfl. á Vestfjörðum munum með góðri samvinnu við aðra hv. þm. Vestfjarðakjördæmis leggja höfuðáherzlu á það við samningu næstu vegáætlunar, að sérstaða Vestfirðinga í vegamálunum verði greinilegar viðurkennd og að ný og stærri skref verði stigin í þessum málum. Það er ekki aðeins eðlilegt vegna hagsmuna Vestfirðinga, heldur þjóðarinnar í heild, sem þarfnast þess, að aðstaða fólksins og framleiðslunnar sé sem jöfnust í öllum landshlutum.