08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (2519)

211. mál, vegáætlun 1964

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki endurtaka neitt af því, sem ég sagði almennt um vegamálin við fyrri umr. málsins, en ég vil taka undir það með hv. þm. Vesturl., Halldóri E. Sigurðssyni, að þessari vegáætlun er ábótavant í þeim atriðum, sem hann greindi. Bæði er það, að ekki eru taldir upp allir þjóðvegir í henni, eins og á að vera, en vonandi stendur það til bóta, og svo hitt, sem er þó enn þá stórfelldara atriði, að inn í hana vantar fyrirhugaðar lántökur ríkisins til vegagerða tekjumegin og aftur gjaldamegin þær fjárveitingar til vega, sem eiga að vera af lánsfé. En ég hef skilið það svo, að það sé að verða ríkjandi skilningur á því, að þannig eigi þetta að verða framvegis, þó að það sé ekki svo núna. Ég mun því ekki beita mér fyrir því að flytja brtt. um Þetta efni nú, enda skortir mig í raun réttri nokkuð skilyrði til þess að geta beitt mér fyrir því , að slíkar brtt. komi fram, miðað við hve tíminn er stuttur til undirbúnings. Ég vil vona, að úr þessum atriðum verði bætt, þegar eiginleg vegáætlun kemur fram fyrir 4 ár næsta haust.

En ég kvaddi mér hljóðs til að benda á, að hlutur Austurlands er ekki góður í þessari nýju vegáætlun og ekki eins góður og við höfðum gert okkur vonir um. Ég vil í þessu sambandi benda á, að okkur reiknast þannig til, þm. að austan, að Austurlandskjördæmi hafi haft um 18.5% af því fé, sem veitt hefur verið til nýlagningar þjóðvega. En nú reiknast okkur svo til, að þrátt fyrir þá leiðréttingu, sem hv. fjvn. gerir á málinu, muni Austurlandskjördæmi ekki fá í sinn hlut nema sem allra næst 17.6% af því fé, sem ætlað er til nýrra þjóðvega utan kaupstaða og kauptúna. Þetta finnst okkur þunnur þrettándi, að eiga að færast þannig aftur á bak varðandi þann hlut, sem við eigum að fá til þessa landshluta af nýlagningarfé þjóðvega.

En við höfum talað okkur saman um, að það muni ekki hafa þýðingu að gera útrás í þessu efni nú við þessa umr, eða flytja brtt. út af þessu, og munum því ekki gera það í þetta sinn. En við viljum mega vonast eftir því, að þetta verði ekki látið standa svona nema í þetta eina skipti og að þegar vegáætlun fyrir næstu 4 ár verði lögð fram, þá verði tekið tillit til sérástæðna Austurlands, sem ég skal nú greina frá í örfáum setningum. Þannig er ástatt hjá okkur, að ef teknar eru þjóðbrautir, eins og vegamálastjórnin ætlar þær orðnar nú, þá eru ruddar þjóðbrautir 611 km að lengd, en af þessum 611 km, sem eru ruddir af þjóðbrautunum, þ.e.a.s. ólagðar vegaslóðir, eru hvorki meira né minna en 286 km í Austurlandskjördæmi einu. Á þessu geta menn svona hér um bil séð, hvort það muni vera eðlilegt að haga vegafjárskiptingu á þá lund, sem hér er ráðgert. Enn fremur vil ég benda á, að af landsbrautum eru 559 km taldir ólagðir, óbílfærir með öllu, og af þessari vegalengd er 141 km í Austurlandskjördæmi einu. En ruddar landsbrautir, þ.e.a.s. slarkfærir ruðningar, eru taldar vera samtals 1860 km, en af þessari vegalengd eru hvorki meira né minna en 529 km í Austurlandskjördæmi einu eða milli þriðjungs og fjórðungs af þessari vegalengd, en nálega helmingur af öllum ruddum þjóðbrautum. Á þessu sjá menn vegaþörfina í þessum landshluta, og hér má þess vegna ekki ganga aftur á bak, heldur verður að fá meira fjármagn á næstunni í vegina.

Sú er ein ástæðan fyrir því, hvernig ástatt er, að því var ætíð haldið fram, að við yrðum að sætta okkur við, að hinum fjölfarnari leiðum, t.d. á aðalleiðinni umhverfis landið, yrði sinnt fyrst, t.d. þjóðleiðinni til Akureyrar yrði sinnt fyrst, við yrðum að sætta okkur við þetta og beygja okkur fyrir þeim rökum, sem fyrir því voru lögð fram. Þá var alltaf sagt: Síðan kemur röðin að ykkur í vaxandi mæli. Það verður haldið áfram að leggja volduga þjóðbraut umhverfis allt landið, og þá kemur röðin að ykkur, þegar búið er að ganga vel frá eða sæmilega að sunnan norður á Akureyri. Þá kemur röðin að ykkur, og þá verður ekkert stigið smærra en áður. — En þetta hefur ekki reynzt þannig. Við höfum ekki fengið því ráðið, að stigið yrði jafnrösklega áfram, eftir að búið var að leggja veg til Akureyrar, og nú er heildarniðurstaðan þessi, sem ég var að lýsa. En gegnum okkar landshluta liggur auðvitað aðalleiðin umhverfis landið. Nú er hún að vísu tekin út úr og sett undir þjóðbraut, en samt sem áður er ekki lengra gengið með fjárveitingar en ég var að greina frá.

Séu svo brúamálin athuguð, þá er ástandið þannig, að það er eftir að byggja 70 brýr á þjóðvegum yfir 10 metra, og af þessum 70 brúm eru 29 brýr í þessu eina kjördæmi, Austurlandskjördæmi, — 29 brýr af 70. Þetta kemur af því, hvernig landslagið er á þessum slóðum, og okkur hefur aldrei auðnazt að fá nema sem svarar einni brú á sýslu á ári um langa hríð. Aðrir hafa líka fengið oftast eina brú á ári á sýslu, þó að þeir ættu eftir að brúa miklu færri vatnsföll en Austfirðingar. Niðurstaðan er svo þessi, að þarna eru 29 óbrúuð vatnsföll á þjóðvegunum, þegar miðað er við 10 metra brýr og lengri. En sé miðað við smábrýr, sem kallaðar eru, þ.e. 4–10 metra, þá eru þær alls óbyggðar 187, og af þeim eru 62 í þessu eina kjördæmi, þ.e.a.s. þriðjungur af þeim óbyggðu í þessu eina kjördæmi.

Nú er að vísu heldur skárra hlutfall, sem við fáum af brúafjárveitingum en öðrum, enda væri það skárra, ef svo væri ekki, eins og ástatt er, en samt alls ekki fullnægjandi miðað við kringumstæðurnar.

En við höfum sem sagt ákveðið að flytja ekki brtt. núna og setjum allt okkar traust á sanngirni þeirra, sem undirbúa þessi mál fyrir aðaláætlunina, vegáætlunina til 4 ára, sem lögð verður fram í haust, og svo til hv. þm., sem um hana fjalla þá og væntanlega verða þeir sömu, sem nú hlýða á þessi orð.

Ég skal svo að lokum minnast á enn einn þátt þessara mála, og það eru vegagerðir af lánsfé. Nú hefur verið ákveðið að leggja Reykjanesbraut, þ.e.a.s. Keflavíkurveginn, fyrir lánsfé. Það kostar um 240 millj. kr., og ég ætla ekki að telja það eftir og hef aldrei gert, þó að ég hafi fundið að því, að heimildar Alþ. væri ekki leitað, því að það voru býsn, að það skyldi ekki vera gert. Ég tel, að það sé lífsnauðsyn að byggja upp þennan veg. Enn fremur hefur verið ákveðið að leggja fyrir lánsfé veg um Ólafsvíkurenni, sem er afar merkileg framkvæmd, ein allra merkilegasta framkvæmd á landinu, því að það sameinar Ólafsvík og Rif í eitt byggðarlag, og þarna verður auðvitað borg, sem styðst við skilyrðin í Rifi. Þetta er ákaflega merkilegt, og það er gert fyrir lánsfé. Enn fremur á að grafa í gegnum Stráka fyrir lánsfé, og það er prýðilegt og aðkallandi. En enn sem komið er hefur ekki verið ákveðið að taka nein lán til vegagerðar á Austurlandi eða Vesturlandi.

Ég nefni þetta, sem mér kemur í hug. Þetta eru vitanlega rangindi og nær ekki nokkurri átt. Það verður að taka ákvörðun um það á þessu ári að taka vegalán og verja til einhverra myndarlegra framkvæmda í þessum byggðarlögum til jafns við þær framkvæmdir, sem verið er að vinna annars staðar og sómi er að. Það er ekki hægt að skiljast við þessi mál svona, og það verður að greiða úr þessu fljótt og vel á næsta hausti.

Ég skal svo ekki eyða meiri tíma til að gera grein fyrir þessu, þó að það væri í raun og veru þess vert að gera miklu ýtarlegri grein fyrir ástandi vegamála á Austurlandi en ég hef gert með þessum örfáu orðum. En ég vil ekki þreyta þm., því að ég veit, að þeir eru allir það vanir að fást við málefni af þessu tagi, að málalengingar eru óþarfar, en meira um vert, að þeim sé bent á aðalatriðin.