08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (2535)

211. mál, vegáætlun 1964

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt, að það spinnist talsverðar umr. um það mál, sem hér er fjallað um, vegamálin. Það eru mál, sem snerta alla landsmenn mjög. Það er nú að þessu sinni farið inn á nýjar brautir í þessu efni, þar sem tekinn er upp sá háttur að setja vegáætlun, og þetta er fyrsta vegáætlunin, sem fjallað erum. Ég held, að þar sé að ýmsu leyti farið inn á nýjar og heppilegar brautir. Hitt er eðlilegt, að í fyrsta skipti, sem þessi vegáætlun er sett, megi sitt hvað þar að finna og það megi sjá ýmsa agnúa á þeirri frumsmíð, sem hún er. Ég held, að það geti staðið til bóta, og ég býst við því, og við flestir vonum það, að með þessum hætti, sem nú er upp tekinn, verði stefnt í rétta átt og náð betri árangri í þessum málum en áður hefur verið.

Ég ætla annars ekki, eins og tíma er nú hér varið, að fara að ræða almennt um þessi mál. En ég ætla aðeins að víkja með örfáum orðum að máli varðandi mitt kjördæmi, sem nokkuð hefur borið á góma í þessum umr., þ.e.a.s. hinum svokallaða Strákavegi. En það hefur, þótt undarlegt megi heita, verið dálítið deilt um það, hvaða fyrirheit hafi verið gefin í sambandi við framkvæmdir í Strákavegi. Þar hafa menn ekki verið á einu máli, og menn hafa vitnað í kosningafundi og kosningaloforð og blaðaskrif. En það er nú eins og gengur, að þegar á að fara að segja frá kosningafundum, ber þeim, sem þá hafa sótt, ekki alltaf saman um, hvað þar hafi gerzt.

Það vill þess vegna afskaplega vel til hér, að það eru fyrir hendi órækari gögn um það, hvaða fyrirheit voru gefin um framkvæmdir í Strákavegi, heldur en það, sem sagt var á kosningafundum, og jafnvel enn traustari gögn en stjórnmálablöðin. Það vill nefnilega þannig til, að þetta mál, framkvæmdir í Strákavegi, bar á góma hér á hv. Alþingi 19. apríl 1963. Þá var hér til umr. fsp. frá þáv. þm. Gunnari Jóhannssyni, þar sem hann spurðist fyrir um, hvers mætti vænta um framkvæmdir í Strákavegi á því ári, sem þá var að liða, og á næstu árum. Og þessari fsp. svaraði hæstv. samgmrh., Ingólfur Jónsson. Og ég ætla aðeins að leyfa mér að vitna ofur litið í það, sem hann sagði þá, til þess að það fari ekkert á milli mála, hvaða fyrirheit voru gefin í sambandi við Strákaveg. Með leyfi hæstv. forseta, sagði hæstv. landbrh. eða samgmrh. þá svo m.a.:

Hv. fyrirspyrjandi hefur fengið svar, a.m.k. að nokkru leyti, við þessari fsp. með því að lesa á bls. 45 í þjóðhagsáætlun, þar sem ráðgert er að gera Strákaveg. En til þess að gera svarið fyllra þykir rétt að lesa hér upp bréf frá vegamálastjóra máli þessu viðvíkjandi.

Í samræmi við það, sem sagt er í þjóðhagsáætluninni, er gert ráð fyrir, að verkið verði unnið á 3 árum og því lokið haustið 1965. Fjárþörfin verður þá hvert ár þannig, að 4 millj. þarf á yfirstandandi ári, 10.5 millj. 1964 og 6.5 millj. 1965. Þetta eru 20 millj., sem vegamálastjóri reiknar með. Hins vegar er gert ráð fyrir 21 millj. í þjóðhagsáætluninni. En á svona miklu verki getur náttúrlega alltaf skeikað um 1 millj. kr. eða 5%. Þótti eðlilegra að áætla upphæðina heldur riflegri heldur en minni.

Vegamálastjóri segir enn fremur, að ráðgert sé að fella niður vinnu við jarðgöngin á tímabilinu desember—febrúar 1964—1965, þar sem nokkur hætta er á því, að snjóar og byljir geti torveldað hagkvæma nýtingu efnis þess, sem úr göngunum kemur, til vegfyllingar á veginum frá göngunum til Siglufjarðar. "

Þetta voru orð hæstv. landbrh. þá. Hv. fyrirspyrjandi gerði nokkrar aths. við þetta. En ég ætla aðeins að lesa ofur lítið meira í þessari ræðu hæstv. ráðh., lokaorðin þar. Þar segir hæstv. ráðh., með leyfi forseta:

„Ég ætla, að hv. 11. landsk., fyrirspyrjandi, hafi fengið nægileg og skýr svör við fsp. Ég tel ekki óeðlilegt, að Siglfirðingar og aðrir séu orðnir óþolinmóðir að bíða eftir því, að þessi vegur komi. Ég held, að Það séu 15—16 ár síðan þáv. þm. Siglf. var með till. um að gera Strákaveg, þannig að þetta mál hefur verið nokkuð lengi á leiðinni, og ég vil samfagna Siglfirðingum og öðrum, sem eiga að njóta þessa vegar, að sjá loksins fyrir endann á þessu máli, þar sem það hefur verið tekið upp í þjóðhagsáætlunina, eins og raun ber vitni.“

11. landsk. þm. gerði svo, eins og ég áðan sagði, nokkrar aths. við þetta, tæpti m.a. á því, að svo gæti verið, að tæknilegur undirbúningur yrði ekki unninn á svo skömmum tíma sem gert var þarna ráð fyrir. En hæstv. samgmrh. taldi það alveg óþarft hjá þeim þm. að vera með nokkurn efa í þessum efnum. Og hann sagði, hæstv. ráðh., síðar í ræðu um þetta mál, með leyfi forseta:

„Og þess vegna er eðlilegt, að hann eigi erfitt með að átta sig á því, að þetta mikla hagsmunamál Siglfirðinga er nú að verða að veruleika, að draumurinn er að rætast. Þetta finnst mér allt saman skiljanlegt.

Það er mesti misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda, að hér sé um kosningaloforð að ræða. Þetta er ekkert kosningaloforð. Þetta mál er tekið upp í framkvæmdaáætlunina, og þetta á að framkvæma. En hitt er svo annað mál með tæknilegan undirbúning. Mér virtist hv. þm. jafnvel efa, að það væri hægt að ljúka tæknilegum undirbúningi á þeim tíma, sem gert er ráð fyrir í bréfi vegamálastjóra. Ég held nú, að hv. fyrirspyrjandi sé ekki fær um að dæma um það, eigi yfirleitt að láta vegamálastjóra um það, á hve löngum tíma hann treystir sér til þess að ljúka hinum tæknilega undirbúningi. Ég held, að það fari bezt á því, og ég treysti því, að vegamálastjóri fari þar með rétt mál, og eins að vegamálastjóri og verkfræðingar hans hafi nægilega verkþekkingu til að gera sér grein fyrir því, hversu langan tíma þarf til þess að sprengja göngin.“

Og að lokum sagði svo hæstv. ráðh. nokkur falleg og vel valin orð um hv. 4. þm. Norðurl. v. og hrósaði honum fyrir áhuga hans á þessu máli og dugnað við að vinna að því. Og þá sagði hæstv. ráðh., og það skal vera mín síðasta tilvitnun:

„Og það er með þessum hætti, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur viljað vinna að málinu, og það er ánægjulegt, að með þeim vinnubrögðum hefur hann komið málinu í höfn.“

Það er því ekkert um að villast, hvaða fyrirheit voru gefin í sambandi við þetta mál. Þar verður ekki aftur snúið frá þeim ummælum, sem um það voru höfð á þingi. Það þarf því ekkert að deila um staðreyndir þessa máls, og það þarf ekkert að vera að deila um það, hvaða loforð hafa verið gefin í sambandi við Strákaveg. Það liggur allt hér fyrir. En það er eðlilegt, þegar Siglfirðingum og Skagfirðingum verður hugsað til þeirra fyrirheita, sem gefin voru í sambandi við þetta mál, að það séu þeim mikil vonbrigði, að það hefur nú komið á daginn, að það hefur ekki farið fram fullnægjandi rannsókn á jarðvegi í Strákum, þar sem jarðgöngin eiga að liggja, og tæknilegur undirbúningur virðist því miður ekki hafa verið fullnægjandi. Honum er því miður ekki lokið enn, og af þessum sökum er fyrirsjáanlegt, að framkvæmdir í þessu mikla nauðsynjamáli þessara héraða, sem þarna erum að tefla, hljóta að dragast nokkuð. Það dettur vitaskuld engum manni í hug að saka hæstv. ríkisstj. eða telja hæstv. ríkisstj. bera ábyrgð á því, að jarðlögin þarna reynast nú öðruvísi en menn gerðu sér í hugarlund. En það, sem má með réttu saka hæstv. samgmrh. um og fleiri reyndar, er að hafa sagt of mikið um þetta mál á sínum tíma, að hafa lofað allt of miklu. Og reyndar er það ekki svo, að það komi öllum á óvart, því að ég tók til máls í þessum umr., og ég fagnaði að vísu þessari yfirlýsingu, sem hæstv. ráðh. gaf þá, en lét jafnframt í ljós, að ég teldi fullsnemmt að samfagna Siglfirðingum með það, að málið væri þá þegar komið í höfn. Og reyndin hefur nú orðið sú, að það var fullsnemmt.

Þetta vildi ég aðeins rifja upp, til þess að það þyrfti ekki að vera svo mjög um þetta að deila, og frá þessu verður ekki snúið. Þó að hæstv. ráðh. komi hér á eftir og haldi um þetta langa ræðu og af mikilli mælsku, kemst hann ekki frá þessum ummælum sínum, sem hann hafði þá á þingi um þetta mál. Úr því sem komið er, þýðir náttúrlega ekki annað en beygja sig fyrir því, að það verður að láta fara fram fullnægjandi rannsókn á þessum stað. Það dettur vitaskuld engum í hug, að það væri til bóta að fara að flana að framkvæmdum þarna í algerri óvissu um það, hvernig þarna háttar til. Það verður þess vegna að sjálfsögðu að láta fara fram nauðsynlegar rannsóknir, og það þýðir ekki annað, úr því sem komið er, heldur en sætta sig við það, að framkvæmdir við þessi jarðgöng dragist eitthvað. En ég vil bara að lokum — og ætla ekki að tefja þessar umr. meira — segja það, að við þm. Norðurl. v. treystum því áreiðanlega allir, að þessum rannsóknum, sem þarna þarf nauðsynlega að gera, sé hraðað svo sem kostur er, og jafnframt treystum við því eða treysti ég því a.m.k., að það verði á þessu ári lokið við veginn um Fljótin og veginn Fljótamegin út að Strákum. Það er að vísu á þessari vegáætlun ekki gert ráð fyrir nema 1500 þús. kr. í Siglufjarðarveg, En hann nær nú samkv. þessari vegáætlun alla leið frá Sauðárkróki til Siglufjarðar, og af þessum 1500 þús. kr. er talsverð skuld, svo að það er vitaskuld auðséð, að þær hrökkva skammt einar sér til þeirra framkvæmda, sem þarna þarf að gera, ef veginum á að verða lokið út að Strákum. En þá ber þess að minnast, að það er til heimild til lántöku allt að 6 millj. kr. Og ég vil að lokum segja það, að við treystum því, að þessi lánsheimild, sem þarna er fyrir hendi varðandi þennan veg, verði að fullu notuð eða eftir því sem þarf til þess að koma þessum framkvæmdum, veginum um Fljótin og veginum Fljótamegin út að Strákum, í höfn á þessu ári.