16.12.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

1. mál, fjárlög 1964

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef lagt fram 5 brtt. við frv. til fjárl. fyrir árið 1964. Allar snerta þessar till. Norðurlandskjördæmi vestra, og ég vil leyfa mér að rökstyðja þær eilítið nánar.

Ég vil þá fyrst nefna þrjár till. um hækkun á framlagi til hafnarframkvæmda og lendingarbóta. Það eru breyt. við 13. gr. C, VII. hafnarmannvirki.

Ég hef lagt til, að 41. liður, Siglufjörður, hækki í 2 millj. Þessi till. er fram borin að ósk bæjarstjórnar Siglufjarðar, sem hefur beint þeirri áskorun til þm. kjördæmisins, að þeir beiti sér fyrir því, að fjárframlag ríkisins til hafnarframkvæmda á Siglufirði á fjárl. ársins 1964 verði ekki undir 2 millj. kr. í bréfi þessu eru áréttaðar kröfur bæjarstjórnarinnar, sem áður hafa verið bornar fram fyrir þessari till., og bent á, að áframhaldandi uppbygging hafnarinnar sé mjög mikið nauðsynjamál fyrir kaupstaðinn og mjög mikið velti á, að þessu verði komið í framkvæmd. Ég sé ekki ástæðu til að lesa þetta bréf, en vil vísa til fyrri blaðaskrifa og umr. um þetta mál og hef sem sagt lagt til, að þessi liður verði hækkaður í 2 millj.

Nú er það svo, að í till. meiri hl. fjvn. er ekki gert ráð fyrir, að neinn staður fái meira en 700 þús. Þar sem mjög líklegt má telja, að meiri hl. telji sér ekki fært að veita einum stað svo háa upphæð, hef ég komið með varatill. um, að staðurinn fái eina millj., enda tel ég, að í rauninni sé sjálfsagt, að stærstu staðirnir, þar sem þörfin er brýnust, fái minnst 1 millj., — að upphæð eins og 600–700 þús. sé helzt til lítil, þegar um slíkar stórframkvæmdir er að ræða. Ég vil geta þess, að í till. þeim, sem 10. landsk. þm., Geir Gunnarsson, hefur lagt fram af hálfu 2. minni hl. fjvn., er gert ráð fyrir, að framlög til hafnarframkvæmda og lendingarbóta hækki um 8 millj. kr. Í þessum samanlögðu þrem till., sem ég vík að hér, er hins vegar gert ráð fyrir hækkun, sem nemur 2 millj. 200 þús., og þar af hef ég nefnt þá fyrstu, sem er 1400 þús.

Í öðru lagi legg ég til, að við 23. lið komi nýr liður, er snertir Hofsós, og þar sé gert ráð fyrir 400 þús. kr. framlagi. Það kom mér nokkuð á óvænt að sjá það, að Hofsós er einn af þeim fáu stöðum á landinu, sem ekki er ætlað neitt fé til hafnarframkvæmda eða lendingarbóta. Ég held, að ég megi áreiðanlega fullyrða það, að óvíða á landinu sé meiri þörf fyrir nokkurt framlag, þar sem svo má heita nú, að höfnin í Hofsósi sé nær ónothæf fyrir stærri báta vegna þess, hversu mikill leir hefur safnazt í höfnina. Þarna er sem sagt aðallega um það að ræða, að staðnum verði veitt nokkurt fé til að dýpka höfnina, og í sambandi við þetta mál, sem ég held að sé vissulega stórmál fyrir þetta byggðarlag, enda hefur mikið um það verið ritað í blöðum, — í sambandi við þetta mál sé ég sérstaka ástæðu til þess að lesa bréf, sem þm. kjördæmisins barst á síðasta ári varðandi hafnarframkvæmdir á Hofsósi, en í þessu bréfi leitaði sveitarstjórnin eftir framlagi úr hinu svokallaða enska láni til sömu framkvæmda og ég hef nú nefnt. Ég held, að þetta sé slíkt stórmál, að ég geti leyft mér að eyða dýrmætum tíma þingsins til að lesa kafla úr því og geri það hér með, með leyfi forseta:

„Allt fram á síðustu ár hefur hér eingöngu verið um að ræða útgerð opinna vélbáta, og getur það ekki skapað stöðuga atvinnu meira en 4–5 mánuði á ári. Má þó ekki mikið út af bera um aflabrögð eða tíðarfar á þessum stutta tíma til að stefna afkomu fólks í hrein vandræði. Það er því öllum augljóst, að athafnalíf og afkomumöguleika er ekki hægt að byggja á slíkri útgerð eingöngu. Verður fólk því í stórum stíl að leita sér atvinnu til annarra byggðarlaga. Blasir því við sú þróun, að fólkið flytji burt fyrir fullt og allt. Unga fólkið myndar heimili sín annars staðar og aðrir keppast að því að komast burtu, jafnvel þó að þeir þurfi að fara frá húsum sínum og eignum verðlausum. Hefur þessi hætta reyndar aldrei verið augljósari en einmitt nú. Það fyrsta, sem af opinberri hálfu þarf að gera til að stöðva þessa þróun, er að gera höfnina þannig úr garði, að skilyrði skapist til útgerðar stærri báta, sem hefðu hér öruggt lægi allt árið. Hin síðari ár hefur nokkuð verið reynt hér með útgerð lítilla þilfarsbáta, en aðstaðan er mjög erfið og áhættusöm, eins og dæmin sanna, þó að ekki verði hér nefnt, auk þess sem geyma verður þessa báta í öruggari höfnum hluta úr árinu. Til þess að skapa, útgerðinni þá þróunarmöguleika, sem nauðsynlegir eru, og gera kleift að gera héðan út fiskibáta af þeirri stærð, sem nú er algengust, þarf að gera lokaða bátahöfn með sæmilegu öryggi í öllum áttum. Vil ég í sambandi við þetta benda á 10 ára áætlun hafnarmálastjórnarinnar, sem einmitt gerir ráð fyrir slíkri lokaðri höfn með þeim tveimur framkvæmdum, sem þar eru áætlaðar.“

Ég tel ástæðulaust að lesa meira úr þessu bréfi, sem er alllangt, en vil ítreka það, að ég efast um, að margir staðir á landinu séu jafnilla stæðir hvað þetta snertir eins og þarna kemur fram, því að útgerð stærri báta er nær ómöguleg vegna slæmra hafnarskilyrða og mjög stór hluti af vinnandi mönnum á staðnum verður að leita til annarra byggðarlaga mjög verulegan hluta af árinu til þess að afla sér vinnu, vegna þess að hana er ekki að fá við þau skilyrði, sem nú eru. Ég held sem sagt, að það væri ekki mikil ofrausn af hálfu hv. Alþingis að veita þessu byggðarlagi 400 þús. kr. framlag í stað einskis, eins og meiri hl. fjvn. gerir ráð fyrir, til þess að geta dýpkað höfnina eins og þörf er á.

Þriðji liðurinn, sem ég hef lagt til að hækki að framlögum til hafnarframkvæmda, er á Skagaströnd. Skagstrendingar munu hafa sótt um fjárveitingu eins og Hofsósbúar af hinu enska láni, og þeir eru að því leyti betur stæðir en Hofsósbúar, að þeir hafa fengið ½ millj. og þá fyrst og fremst í því skyni að dýpka höfnina. Helzta verkefni, sem nú er talið liggja fyrir, er að lengja skúffugarð á staðnum um 70 metra, og er höfuðtakmarkið að varna því, að sandur berist inn í höfnina, en ástandið hefur verið þannig að sögn þeirra, sem kunnugir eru, að þessi sandburður inn í höfnina hefur kostað, að þurft hefur að dýpka höfnina þriðja hvert ár. Áætlaður kostnaður við þessa sérframkvæmd er reyndar nokkuð hár, það eru 4–5 millj., en ég held, að enda þótt ekki væri hægt að fá það framlag allt í einu, kannske ekki ástæða til að ætla það, þá væri full ástæða til að hækka þetta framlag um 250 þús., þannig að það yrði 500 þús. kr.

Á undanförnum árum hefur skólanefnd í Blönduósskólahverfi farið fram á að fá fjárveitingu úr ríkissjóði til að stækka barna- og miðskólann á Blönduósi, en þessum till. hefur enn ekki verið sinnt. Skólanefndin á Blönduósi hefur nú enn ítrekað þessar kröfur sínar og bendir á, að það sé mikil þörf á þessu framlagi, og ég hef lagt til, að barna- og miðskólinn á Blönduósi fái 400 þús. kr. hækkun, en í till. meiri hl. fjvn. er reyndar ekki gert ráð fyrir neinu framlagi til þessa verks.

Fimmta till., sem ég flyt við þessa umr., varðar sjúkrahúsið á Sauðárkrók. Eins og mönnum mun í fersku minni, riðu yfir landið miklir jarðskjálftar fyrir tæpu ári, og að vísu ullu þeir ekki miklum skaða, ekki verulegu tjóni. En þó kom í ljós, eftir að þau ósköp höfðu dunið yfir, að sjúkrahúsið á Sauðárkróki hafði orðið fyrir verulegum skemmdum. Stjórn sjúkrahúss Skagfirðinga leitaði til Sigurðar Thoroddsens verkfræðings um að skoða og meta þessar skemmdir, og gerði hann það, og telur hann, að skemmdirnar séu mjög miklar og kosti verulegt fé að bæta skaðann, enda þótt hann nefndi ekki neina fastákveðna tölu í því sambandi.

Jóhann Salberg Guðmundsson sýslumaður á Sauðárkróki, formaður sjúkrahússtjórnar, hefur ritað þm. kjördæmisins bréf og farið þess eindregið á leit við þá, að þeir sjái svo um, að úr ríkissjóði fáist fé til greiðslu á þeim mikla kostnaði, sem hér um ræðir. Ég hef leitað álits Jóhanns Salbergs um það, um hversu mikinn kostnað er þarna að ræða. Hann styður áætlunina upplýsingum, sem hann hefur fengið frá iðnaðarmönnum, sem skoðað hafa skemmdirnar, og telur hann, að áætlaður kostnaður sé ekki undir 100 þús. kr. og sennilega töluvert hærri eða jafnvel 150 þús. kr. Ég hef því að sinni, meðan ekki er enn ljóst, hversu miklar skemmdirnar reynast, lagt það til, að neðri upphæðin verði valin, enda tel ég þá meiri von, að hv. Alþingi sýni örlæti sitt og bæti þetta tjón.

Ég vænti þess að lokum, að hv. Alþingi líti með velvild og skilningi á þessar till.