01.04.1964
Sameinað þing: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (2701)

144. mál, tekjustofn handa þjóðkirkju Íslands

Halldór Kristjánsson:

Herra forseti. Mér hafa þótt þessar umr. töluvert fróðlegar, en nokkuð undarlegar þó, og er það þó einkum það, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur lagt hér til mála. Ekki vegna þess, að það sé neitt nýstárlegt við það, að úrtölumenn hafi þær mótbárur á takteinum, að segja, að það sé eitthvað annað, sem eigi að ganga fyrir, allt annað, sem eigi að gera. En mér þykir dálítið einkennilegt, þegar verið er að tala um afstöðu til kirkju, íslenzkrar þjóðkirkju og kirkjubygginga í dag, þá skuli vera farið aftur í fornöldina, og mér finnst, að ýmislegt, sem hafi verið sagt um kirkju á liðnum öldum, sé mjög vafasamt. Auðvitað er hægt að finna ýmislegt neikvætt. En ég vil aðeins minna hv. 3. þm. Reykv. á það, að ef eins væri tekið úr sögu þeirrar gömlu, virðulegu stofnunar, sem hann nefndi, Alþingis; þá hygg ég þó, að hann mundi ekki mótmæla því, að þar væru ýmsir skuggalegir hlutir, bæði fyrr og síðar.

Þegar talað erum kaþólsku kirkjuna og hennar eignir og fortíð hér á landi, finnst mér, að við megum vel hafa það í huga, að við síðaskiptin varð ekki meiri bylting en það í kirkjumálunum, að ég veit ekki betur en allur þorri hinna starfandi presta á landinu hafi haldið áfram í þjónustu hinnar evangelísku lútersku kirkju, eins og það var orðað eftir síðaskiptin. Það var ekki verið að skipta um kirkju í landinu, heldur gerðist hér svipuð þróun og í nágrannalöndunum, að þjóðin hvarf frá páfadómi. Vitanlega hafði konungsvaldið þarna sitt að segja, og ég hygg, að það sé nú frekar hin pólitíska hlið á sögu Jóns Arasonar heldur en kirkjulega, sem gerir hann að þjóðhetju, þó að hann væri vitanlega merkur maður á sviði trúmála og kirkjumála líka. En undarlegt þykir mér það, að ýmsir þeir, sem telja Jón Arason mikla þjóðhetju á Íslandi vegna afstöðu hans til framandi ríkisvalds, hafa verið tregir til þess að leggja liðsyrði eða aðdáunarorð rómversk-kaþólskum kirkjuhöfðingja, sem á síðari árum eða um okkar daga hefur átt í harðri andstöðu við framandi ríkisvald. Ég veit, að hv. 3. þm. Reykv. kannast við kardínála nokkurn suður í Ungverjalandi, sem mér finnst að mörgu leyti hafa komizt í svipaða aðstöðu og Jón biskup Arason á sinni tíð.

Mér skilst, að þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, sé ekki ákaflega róttæk. Mér skilst nánast, að hún sé um endurskoðun á gildandi lögum og reglum, því að ríkissjóður hefur lagt fram fé til kirkjubyggingasjóðs á undanförnum árum. Sú löggjöf er orðin að vissu leyti úrelt, miðað við það, sem hún var, þegar hún var sett, og því er ekki nema eðlilegt, að hún sé tekin til endurskoðunar, og það er það, sem mér skilst, að þessi till. raunverulega feli í sér. Og þegar við tökum afstöðu til hennar, er það vitanlega ekki út frá því, hvort okkur finnst, að eitthvað væri gagnlegra og ætti að ganga fyrir kirkjubyggingum almennt. Það er ekki afstaða okkar fyrst og fremst til barnaheimila, barnaskóla og þess háttar. Eða vildi t.d. hv. 3. þm. Reykv. segja: Við skulum fella niður framlög til lista, vegna þess að það er nauðsynlegra að byggja barnaheimili, við skulum láta listamennina bíða, þangað til barnaheimili eru komin? Og þannig má telja upp. Það er úrtölubragurinn, sem á þessu er.

Um barnaskírn ætla ég ekki að tala hér. Ég veit það, að t.d. Hvítasunnumenn eru mjög á móti barnaskírn, og því bregður mér ekkert við, þó að ég heyri prédikað á móti henni. En hitt mun nú frekar heyra til undantekninga, þegar menn telja sig svo bundna af barnaskírninni þrátt fyrir breyttar trúarskoðanir, að þeir telja, að þeir þurfi að fá að gera einhverjar löglegar ráðstafanir til þess að losa sig undan þeim sáttmála eða skuldbindingum, sem þeim hafa verið bundnar þar. Og ég hélt, að við værum yfirleitt þeirrar skoðunar, að samvizkufrelsið og samvizka mannsins væri ofar öllum trúarjátningum og trúarsáttmálum. En einmitt vegna þess að ég er sammála hv. 3. þm. Reykv. um það, að spilling og peningagirnd sé að grafa allt of mikið um sig í þessu þjóðfélagi, þá er það mín skoðun, að það sé hagkvæmt, að þjóðfélagið veiti kirkjunni stuðning, vegna þess að þrátt fyrir allt hefur mér skilizt, að boðskapur, prédikun og starfsemi kirkjunnar væri andstætt þeirri spillingu og þeirri peningagirnd og því ofstæki og þeim áróðri, sem okkur er hættulegast nú á tímum.